Símaskráin og Narkissos

Nú berast af því fregnir að útgefendur símaskrárinnar hafi prentað límmiða, og bjóði hann hverjum sem er, til að hylja forsíðu nýjustu útgáfu þessa vinsælasta alþýðurits í sögu þjóðarinnar. Ég veit varla hvað mér á að finnast um þetta tiltæki – enda veit ég ekki hvaða mynd er á límmiðanum. Af fyrri reynslu af smekkleysi útgefandans ætla ég þó að leyfa mér að hafa allan varann á.

Ekki svo að skilja að þessi límmiði muni, eða gæti með nokkru móti prýtt forsíðu símaskrárinnar á mínu heimili. Því símaskráin okkar er forsíðulaus með öllu.

Þannig er nefnilega mál með vexti að þegar ég fór út á pósthús að sækja eitt eintak af þessu látlausa en nauðsynlega riti, eins og árvisst er að ég geri þegar sá tími rennur upp, blöskraði mér svo fullkomlega að um leið og ég kom inn úr dyrunum með óskapnaðinn reif ég forsíðuna af í einu handtaki og henti henni í ruslið – vel að merkja, í ruslið, ekki endurvinnslutunnuna.

Þegar sýndarmennskan og narcissisminn í þjóðfélaginu er kominn á það stig að símaskráin – segi og skrifa: SÍMASKRÁIN – er orðin vettvangur til að klæmast með sjálfsdýrkunarófögnuðinn og gerviútlitsdýrkunina sem öllu öðru tröllríður, þá er væntanlega síðasta vígið fallið.

Þegar ég sagði vinnufélögunum frá þessu voru þeir að vísu fljótir að finna skýringuna á þessu athæfi mínu: Ég þyldi bara ekki samkeppnina við forsíðumyndina um athygli eiginkonunnar. Og þegar ég hugsaði um það rifjaðist það upp fyrir mér að hún fyrtist nokkuð við þar sem hún horfði á mig tæta í spað glænýja símaskrá! En það var ekki nema örskotsstund sem tírði á glósum vinnufélaganna í huga mér, því mér er það löngu ljóst að hún er ekki, og hefur aldrei verið, ginnkeypt fyrir fábjánahætti af neinu tagi, síst af öllu þeim sem forsíða símaskrárinnar ber með sér.

Það er rétt að taka það fram að þessi gjörningur átti sér stað löngu fyrir tíma nauðganaákæra – og ekki var mér þá heldur kunnugt um hinn göfuga siðaboðskap fyrirmyndarinnar, sem nú hefur verið rifjaður upp ítrekað, um það hvernig eigi helst að koma fram við konur og kenna þeim að haga sér.

En ég bendi sem sagt fólki á það að símaskráin kemur að fullum notum án forsíðu og engin rök eru fyrir þvílíkum aukakostnaði og umhverfisspjöllum eins og prentun og dreifingu þessara límmiða – til að hylja skömmina sem útgefandinn óneitanlega situr uppi með.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *