Alþingistíðindi

Sigmundur Ernir var í útlöndum og varamaðurinn mættur um langan veg til að leysa hann af á meðan, í atkvæðagreiðslu um frávísunartillögu á afturköllunartillögu Bjarna V. Benediktssonar:

Sætt er heimsins ljúfa líf
og lag að Ernir þetta kanni
á meðan Ásta stendur stíf
og stuggar burtu varamanni.

Fleiri voru í útlöndum. Össur flýtti sér heim til að greiða atkvæði, einhverjir (illar tungur?) segja að það hafi ekki eingöngu verið til að gæta Geirs, bróður síns:

Út í heimi styttir starf
því stefnu vill hann eyða.
Yfir gamlan, Össur þarf,
eigin skít að breiða.

Uppnám í grasrót VG vegna umpólunar Ögmundar, manns réttlætisins. Því er haldið fram að hann vilji íhaldið, já raunar allt, frekar en Steingrím:

Hí á Steingrím! Hefnt sín gat,
hugann litar sorti.
Orku fyrir endurmat
Ögmund hvergi skorti.

Mjög er innra eðlið hreint:
Yndið himnafeðra
ekki lengur getur greint
Grím frá þeim í neðra.

Einhverjir voru handvissir um að ákæra Geir Haarde á sínum tíma, en virðist nú hafa snúist hugur, m.a. sumir þeirra sem sátu í Atlanefndinni og lögðu ákæruna sjálfir til að lokinni ítarlegri skoðun málsins:

Áður höfðu ákært Geir
-einhver von á þingi-.
Núna settu niður þeir
Nonni, lambið, Ingi.

Nefndarformaðurinn sjálfur, fyrrum meintur „pólitískur galdrabrennuforingi“ er einn þeirra sem snúist hefur á sveif með fyrrum óvinum sínum og óvægnum gagnrýnendum á Morgunblaðinu og víðar:

Villiköttur vill í hark,
vissu fyrri selur.
Um það höfum órækt mark:
Atli þrisvar gelur.

Nú er svo komið að kjósendum er ómögulegt að átta sig á því hver er hvað á Alþingi og fyrir hvað þingmenn standa, ef þeir standa þá fyrir nokkuð?

Þingmenn frábær fyrirmynd,
fræg er þeirra kynngi!
Um sali, eins og sóttarkind,
snúast þeir í hringi.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *