„Þetta eru gömul vísindi“, eða: „Þetta eru nú einhver ný vísindi“, segja menn við réttu tækifærin, gjarnan þegar þeim blöskra einhverjar fullyrðingar samborgara sinna, sem þeir eru ósammála. Og öll vitum við að „vísindin efla alla dáð“, eða er það ekki, annars?
Lengi hefur tíðkast að nota „blessuð vísindin“ sér í hag í rökræðum eða í auglýsingaskyni. Frasinn „vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að…“ er alþekktur. Því miður er það undir hælinn lagt hvort að baki slíkum fullyrðingum eru nokkur vísindi yfirleitt – en tilgangurinn er að varan, eða rökin, fái á sig gæðastimpil. Og óþarflega oft virðist tilgangurinn helga meðalið.
Í þjóðmálaumræðunni, ekki síst stórpólitískum dægurmálaþrætum, er vísindunum slegið milli póla eins og borðtenniskúlu. Annað hvort eru „engar eða ónógar vísindarannsóknir að baki“ eða þær eru dregnar stórlega í efa, séu þær til staðar, og vísindamennirnir sakaðir um að vera málaliðar (og þar með engir vísindamenn) í pólitískum hráskinnsleik.
Þetta kannast allir við í umræðunni um náttúrvernd og virkjanir. Sú undarlega lenska hefur t.d. verið viðhöfð hér á landi að láta framkvæmdaaðilana sjálfa sjá um umhverfismat, eins fjarstæðukennt og það nú er, þegar málið er hugsað. Megin stefin í þessari umræðu undanfarna áratugi hafa verið þau að náttúrverndarsinnar hafa kvartað yfir skorti á vísindum að baki ákvörðunum en virkjana- og stóriðjusinnar hafa heldur amast við vísindum, talið þau óþarfa vesen sem tefji bara framgang „nauðsynlegra framfara“.
Gott ef Samtök atvinnulífsins hafa ekki verið á þeirri skoðun að Umhverfisráðuneytið sé óþarft með öllu, m.a. af þessum sökum. Það gæti nefnilega farið fram á að lagst yrði í dýrar og tafsamar rannsóknir, sem skipta ekki máli þegar upp er staðið, því það átti nefnilega að virkja hvort sem er.
Ásmundur Einar Daðason hefur nú um stundir mestar áhyggjur af því hvort friðun fuglategunda hér við land tengist umsókn um inngöngu í Evrópusambandið, en hefur litlar áhyggjur af því hvort viðkomandi tegundir eru raunverulega í hættu, með eða án ESB-tilskipunar, á meðan umhverfisráðherra segir að „mælingar sýni að fækkað hafi í stofnunum“ (væntanlega vísindalegar mælingar?). Ásmundur Einar hefur nefnilega þá lífssýn að fuglategundir eigi að deyja út samkvæmt alíslenskri reglugerð, fyrr en að þær bjargist fyrir tilstilli reglugerða frá ESB.
Og náttúruverndarmenn eiga það líka á hættu að taka „vísindin“ í sína þjónustu, án þess að séð verði að óyggjandi rannsóknir liggi þar að baki. Þannig telur t.d. Orri Vigfússon að 80-90% villta laxagöngustofnsins í Þjórsá gæti verið í hættu ef áin yrði virkjuð hér niðri í byggð. Hvaðan fær hann þær tölur?
Fiskifræðingar halda því fram, með ágætum rökum að því er séð verður með leikmannsaugum, að virkjun í Ölfusá við Selfoss muni valda umtalsverðu tjóni á laxastofni Ölfusár-Hvítár ef mótvægisaðgerðir virka ekki eins og til er ætlast. Virkjunarsinnum er hinsvegar hætt við því að miða málflutning sinn við það að mótvægisaðgerðir virki 100%, og vitna svo í verkfræðileg vísindi því til staðfestingar.
Í sjávarútveginum er stöðugt deilt um vísindin. Hafrannsóknarstofnun leggur fram tillögur um veiðiheimildir, byggðar á vísindarannsóknum sínum á stofnstærðum. Í hvert sinn má ganga að því vísu að útgerðarmenn, skipstjórar eða trillukarlar rífi í sundur á sér andlitið, inni í stofum landsmanna, í heilagri vandlætingu yfir „þessum fávitum með prófgráðurnar“ sem ekkert viti í sinn haus, það sé allur sjór morandi í fiski, það sjái allir vitibornir menn með barnaskólapróf!
Náttúran og vísindin hafa lengst af mátt sín lítils fyrir sérhagsmunum. LÍÚ hefur að mestu ráðið því sem það hefur viljað ráða í sjávarútvegsráðuneytinu, og því er von að sambandinu finnist slitið úr sér hjartað þegar minnst er á að færa auðlindanýtinguna yfir í umhverfisráðuneytið – ráðuneyti sem því finnst helst að leggja ætti af, enda samgöngur víst ekki jafn greiðar þangað inn. Það sama gildir um Samtök iðnaðarins og Bændasamtökin varðandi þeirra málaflokka. Á tímum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins (sem sagt nánast allan lýðveldistímann) voru svo ljómandi greiðar leiðir fyrir þessi hagsmunasamtök inn í „sín ráðuneyti“.
Með nýjum stjórnvöldum fer þetta þó vonandi að breytast.
Því er þó ekki alveg að treysta, eins og Pawel Bartoszek bendir á í frábærri grein í Fréttablaðinu í dag, um afleitan ráðherraferil Jóns Bjarnasonar.