Kleppur-Sogn

Landspítalanum er gert að spara ríflega 600 milljónir á næsta ári skv. fjárlagafrumvarpi því sem nú hefur verið lagt fram. Það er svipuð upphæð og spítalinn þurfti að skera niður á þessu ári. Bjössi Zoëga sagði um niðurskurðinn sem hann var krafinn um fyrir ári síðan að lengra yrði ekki komist – ekki án þess að skera niður þjónustuna, loka deildum og hætta hreinlega að veita suma þjónustu. Segja þarf upp 85-90 starfsmönnum hvort ár.

Afleiðingar 600 milljóna niðurskurðarkröfu annað árið í röð eru nú að koma í ljós smám saman. Sérhæfðri öldrunarlíknardeild á Landakoti verður lokað. St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verður lokað. Réttargeðdeildinni á Sogni verður lokað og þjónustan flutt að Kleppi. Sparnaðurinn við þessar tvær síðasttöldu aðgerðir eru að sögn um 230 milljónir króna á ári. Það munar svo sem um minna í harðæri, ef út í það er farið.

Samkvæmt yfirlækni á öldrunardeild er lokun líknardeildarinnar á Landakoti mikil fagleg afturför: „Það er eins og það sé verið að fara 10-15 ár aftur í tímann“, segir hann í Fréttablaðinu í dag. Hér er því um að ræða hreina sparnaðaraðgerð.

Sveitarstjórnarmenn í Hafnarfirði og á Suðurlandi, ásamt þingmönnum Suðurkjördæmis, bregðast ókvæða við lokunum stofnana í sínum heimabyggðum undir gunnfána byggðastefnu og atvinnuöryggis kjósenda sinna. Þeir beita í málflutningi sínum engum faglegum rökum um gæði þjónustunnar eða hagsmuni sjúklinganna. Og til hvers ættu þeir að gera það? Er ekki þjónusta við sjúklinga á Sogni og St. Jósefsspítala eins og best verður á kosið?

Forstöðumaður á geðsviði Landspítalans heldur því fram að rökin fyrir flutningi þjónustunnar sem fram til þessa hefur verið veitt á Sogni séu ekki síður fagleg en fjárhagsleg. Nefnt hefur verið að á Kleppi sé pláss fyrir fleiri sjúklinga og aðstæður betri en í „gömlu barnaheimili“ fyrir austan Fjall. Einnig að nálægð við sérfræðinga og hjúkrunarlið á Kleppi skapi öryggi. Þá sé styttra og fljótlegra að kalla á liðsauka ef eitthvað kemur upp á, og síðast en ekki síst sé það sjúklingum í hag að á Kleppi séu meiri og betri tækifæri fyrir þá til að hafa samskipti við sína nánustu.

Allt er þetta gott og blessað. En á móti má spyrja hvort og þá hve oft komið hafi upp vandræði vegna plássleysis á Sogni? Hefur geðsjúkum afbrotamönnum fjölgað svo að Sogn rúmar ekki lengur alla sem þar þyrftu að dvelja? Eða hefur Sogn verið notaður til að leysa í neyð ófremdarástand í fangelsismálum, t.d. yfirfullt fangelsið á Litlahrauni? Hve oft hefur þurft að kalla til liðsauka vegna „uppákoma“ á Sogni? Og hefur það skapað vandræði að liðsaukinn er ekki í næsta húsi?

Þessum spurningum þarf að svara opinberlega. Ef svörin eru öll neikvæð gagnvart áframhaldandi rekstri Sogns, ja, þá er sjáfsagt ekkert við því að segja. Aðeins lífsviðurværi um 35 Sunnlendinga tapast. Væntanlega er það ásættanlegur fórnarkostnaður fyrir hagsmuni sjúklinganna.

Bent hefur verið á að starfsmönnum á Sogni verði boðin áframhaldandi störf við deildina á Kleppi. Er þá nokkur skaði skeður? Geðlæknar og sérfræðingar koma eins og kunnugt er akandi frá Reykjavík austur á Sogn í vinnuna. Geta þá ekki sunnlenskir starfsmenn réttargeðdeildarinnar eins keyrt til Reykjavíkur? Er ekki jafn langt frá Reykjavík á Sogn eins og frá Sogni til Reykjavíkur?

Allir átta sig auðvitað á því að svo er ekki. Það verður mun lengra að aka frá Sogni til Reykjavíkur. Þeir sem þurfa að renna austur á Sogn í vinnunni fá bæði tímann og aksturskostnaðinn greiddan upp í topp, eins og eðlilegt er. Þeir Sunnlendingar sem taka tilboði um vinnu á Kleppi munu þurfa að aka í eigin frítíma og á eigin kostnað til að koma sér í vinnuna.

Í því felst mikill sparnaður fyrir Landspítalann.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *