Jólakveðja 2024

Blasa við hörmungar heiminum í.

Hvenær gefum við illskunni frí?

Hvað er fallegra’ en friður á jörð?

Hví forðast mannkynið sáttagjörð?

Þurfum við þrautum að valda?

 

Um kúgun og ójöfnuð vitum við vel,

um vonleysi, fátæktar lokuðu skel.

Þó þrotlaust um ævi sé stritað við starf,

stöðugt allsnöktum keisurum þarf

blóðug gjöldin að gjalda.

 

„Meðaltalskaupmáttur mikill“, er sagt,

og í moðsuðu’ um jöfnuð útaf því lagt

en lítið það dugar um mánaðamót

ef matbjörg er þrotin, engin sést bót,

og herðir að krumlan hin kalda.

 

Sá aðeins telst maður sem ætíð er hress

á yfirsnúningi, dæmdur til þess

að fljóta viljalaus meginstraumi’ með,

á móti að róa er ekki vel séð,

í móinn ei vinsælt að malda.

 

Að berjast í nauðum við heiminn er hart,

því hamingju kjósum, að útlit sé bjart.

Á mennina kökunni misjafnt er skipt

og mörg einnig sneiðin með rjóma er typpt,

en enginn þarf á því að halda!

 

Þó „allt sé í heiminum hverfult“ og valt

við hér saman dveljum, þrátt fyrir allt,

svo kynþátta milli byggjum nú brú

og biðjum að kærleikur, von og trú

lifi um aldir alda.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *