Hér er vitnað í bók Þorvaldar Logasonar: Eimreiðarelítan – Spillingarsaga (Steinason ehf. Reykjavík, 2023, bls. 111-116).
Hinn víðfemi forarpyttur Kolkrabbans sem hefur seitlað úr um allt þjóðfélagið, a.m.k. allan lýðveldistímann fram á okkar daga, er illþefjandi. Eimreiðarelítan komst til valda í borginni, og Sjálfstæðisflokknum með kjöri Davíðs Oddssonar upp úr 1980, og hóf þegar gegndarlausa valdasókn á öllum sviðum samfélagsins. En löngu fyrr var hafið „menningarstríð“, með stofnun Almenna bókafélagsins 1955.
Tveimur áratugum síðar, 1974, skrifar Hrafn Gunnlaugsson Matta J, ritstjóra Morgunblaðsins, bréf þar sem hann skorar á MJ að hjálpa sér við að yfirtaka RÚV og fleiri menningarstofnanir, t.d. Þjóðleikhúsið, fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Nefnir hann nokkra heppilega menn í þessa hernaðaráætlun, m.a. Davíð Oddson auðvitað, Baldur Hermannsson og Rúnar Gunnarsson.
Í framhaldinu, 1979, gaf Kjartan Gunnarsson út ritið „Uppreisn frjálshyggjunnar“ þar sem Eimreiðarelítan lýsti „nauðsyn þess að sækja fram til hugmyndafræðilegra valda á öllum sviðum“ (bls. 112) í fjölmiðlum, útgáfu, meningu og skólakerfinu. Þáttur í því voru mccarthyísk skrif Hannesar Hólmsteins um háskólakennara, m.a. Pál Skúlasom heitinn, í tilraun til að bola þeim burt með níðskrifum.
Síðar, „fyrir tilviljun“, var Hrafn Gunnlaugsson kominn í öll sæti, hringinn í kringum borðið. Hann þáði háa styrki úr Kvikmyndasjóði og var á sama tíma í stjórn sjóðsins, naut fordæmalausrar fyrirgreiðslu innan RÚV á meðan hann var þar dagskrárstjóri og framkvæmdastjóri. Hann var framkvæmdastjóri Listahátíðar, stjórnarformaður Kvikmyndasjóðs, Menningarsjóðs útvarpsstöðva, kvikmyndaframleiðenda, framleiddi fjöldann allan af sjónvarpsmyndum og -þáttum fyrir RÚV eftir eigin handriti, seldi stofnuninni sýningarrétti á eigin kvikmyndum í fyrir fram sölu. Hann var skipaður í nefnd til að endurskoða lög um kvikmyndasjóð og settist í stjórn sjóðsins eftir lagabreytingarnar, sótti um styrki og fékk auðvitað úthlutað hærri styrkjum úr sjóðnum en allir aðrir. Hann var í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva, á sama tíma og hann var dagskrárstjóri RÚV, og afgreiddi þar eigin umsóknir fyrir verkefni sín og elítunnar.
Hrafn lét RÚV að auki kosta eigin myndir eftir smásögum Davíðs: Mynd Hrafns Gunnlaugssonar, kvikmyndagerðarmanns, Opinberun Hannesar, eftir smásögu Davíðs Oddssonar, Glæpur skekur húsnæðisstofnun, lét Hrafn Gunnlaugsson dagskrárstjóri RÚV Ríkisútvarpið kaupa óséða, veitti framleiðslustyrk og frumsýndi á nýársdag 2004.
Sannkallaður snillingur. Svo heldur fólk að nokkrir útrásarvíkingar síðustu árin fyrir Hrun hafi verið einu „djöfulsins snillingarnir“ hér á landi.
Innan við 20 árum eftir bréf Hrafns til Matthíasar var Eimreiðarklíkan komin með öll völd yfir Ríkisútvarpinu. Markús Örn var tvívegis gerður að útvarpsstjóra, og borgarstjóra í millitíðinni. Hrafn sjálfur dagskrár- og framkvæmdastjóri og Baldur Hermannsson dagskrárstjóri í afleysingum fyrir Hrafn, Rúnar Gunnarsson aðstoðarframkvæmdastjóri og síðar framkvæmdastjóri, Hannes Hólmsteinn og Baldur fengu kostun á þætti fyrir pólitíska endurritun sögunnar, Ingvi Hrafn Jónsson var gerður að fréttastjóra, Elín Hrist, góðvinkona Kjartans og þá gift kosningastjóra Davíðs, orðin fréttamaður og síðar fréttastjóri.
Eins og þetta sé ekki nóg, þá var Gísli Marteinn, úr ungliðahreyfingu flokksins og „Hannesaræskunni“, látinn stjórna Kastljósi, eina pólitíska umræðuþættinum í „sjónvarpi allra landsmanna“, og tók m.a. fræg drottningarviðtöl við leiðtogann mikla, Davíð Oddsson.
Og ekki er allt upp talið. Á þessum tíma voru Kjartan Gunnarsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson formenn útvarpsráðs hvert á fætur öðru, eins konar Lykla-Pétrar að yfirtökunni.
Svo tala íhaldsmenn samtímans um „vinstri slagsíðu“ á fréttastofu RÚV.
Það sem að ofan er rakið er aðeins eitt dæmi af fjölmörgum um hið „maðkaða mjöl“ sem þjóðinni hefur verið boðið til áts síðustu 40-50 árin, á valdaskeiði Davíðs Oddssonar og Eimreiðarelítunnar.
Fleiri dæmi verða rakin hér, svona smám saman.