Er Reykjavík verst rekna sveitarfélagið?

Mikið hefur verið rætt og ritað um slaka fjárhagsstöðu sveitarfélaganna undanfarið – og sú umræða hefur svo sem verið viðvarandi í áratugi, a.m.k. allar götur sína ég hóf þátttöku í sveitarstjórnarmálum fyrir kosningarnar 2002. Nýlega var t.d. staða Árborgar í fréttum, og í kjölfarið uppsagnir hátt í 60 manns, auðvitað mest láglaunafólks sem síður má við skakkaföllum skv. yfirlýsingum stéttarfélaga á svæðinu.
 
 
En hvað mest áberandi hefur verið stöðugur „fréttaflutningur“ (set þetta orð innan gæsalappa, því „söguburður“ væri meira viðeigandi í ljósi þess sem síðar kemur fram) af stöðu Reykjavíkurborgar, sem skv. „bestu og traustustu miðlum“ (set þetta innan gæsalappa því vísað er í Morgunblaðið og miðla þess) er að þrotum komin og að því er virðist af sögunum eina sveitarfélagið sem á í vanda.
Því var það upplýsandi að lesa samantekt í Heimild dagsins um stöðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur skýrt fram að Reykjavíkurborg stendur fjárhagslega hvað best allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og MUN BETUR en flest nágrannasveitarfélögin sem samt verja hlutfallslega MUN MINNA fé af skatttekjum til félagslegra úrræða. Þetta hafði Þorvarður Hjaltason líka bent á fyrir ekki löngu síðan í ágætri úttekt á Facebook, með því að rýna í tölur í Árbók sveitarfélaganna, ef ég man rétt.
 
Skuldahlutfall A-hluta reksturs Reykjavíkur, þess hluta sem fjármagnaður er með skatttekjum, var 112% um síðustu áramót, sem vissulega er neikvæð staða, skuldir eru meiri en tekjur. Kópavogsbær er á pari við Rvk. með 111% en Hafnarfjörður 136%, Mosfellsbær 133% og einka- og erfðasvæði Sjálfstæðisflokksins, Garðabær (125%) og Seltjarnarnes (130%) skulda bæði mun meira umfram tekjur en Reykjavík, þrátt fyrir að nota miklu minna af skatttekjum til félagslegra úrræða. Hvers lags fjármálaóreiða og óstjórn er þar á ferðinni?
 
Ef litið er til skulda á hvern íbúa þá er staða Reykvíkinga líka mun betri en annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Hver Reykvíkingur þyrfti að reiða fram kr. 1.247.000,- ef gera ætti upp skuldirnar, Hafnfirðingurinn 1.695.000, Mosfellingurinn 1.502.000, Garðbæingurinn 1.530.000 og Seltirningurinn 1.455.000. Aðeins Kópavogsbúinn slyppi með lægri greiðslu en Reykvíkingurinn, eða 1.209.000.
 
Þriðja atriðið er sk. veltufjárhlutfall, sem segir til um peningalega stöðu um áramót, lausafjárstöðu sveitarsjóðs, og hvort sveitarfélagið eigi fyrir launagreiðslum, afborgunum og öðrum útgjöldum á komandin ári. Ef veltufjárhlutfallið er 1,0 eða hærra sleppur það til en ef það er undir 1,0 þarf að taka lán fyrir nauðsynlegum útgjöldum, spara með því t.d. að segja upp fólki, selja eignir eða grípa til viðlíka aðgerða.
 
Þó undarlegt megi virðast miðað við Moggann, þá er veltufjárhlutfall Reykjavíkur betra en allra nágrannasveitarfélaganna, eða 1,1. Hafnfirðingar áttu líka lausafé fyrir útgjöldum með hlutfallið 1,0 en öll hin voru í mínus: Kópavogur 0,4, Garðabær 0,6, Mosfellsbær 0,6 og Seltjarnarnes 0,4.
Ofan á þetta bætist að rekstur Reykjavíkur er þyngri en allra hinna sveitarfélaganna vegna yfirburða höfuðborgarinnar þegar kemur að félagslegri þjónustu við íbúana, skv. tölum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir árið 2021.
 
-74% allra félagslegra íbúða á þessu svæði eru í Reykjavík.
-Hver íbúi í Rvk. greiddi 269.877 kr vegna veittrar félagsþjónustu, hver Kópavogsbúi 142.701, hver Garðbæingur 145.349, hver Seltirningur 155.326.
-30% af skatttekjum Reykvíkinga fóru í félagsþjónustu en 16% í Garðabæ og 18% á Seltjarnarnesi.
-Reykvíkingar greiða líka mest allra per íbúa í fjárhagsaðstoð og þjónustu við aldraða.
 
Í B-hluta rekstrar sveitarfélaga eru fyrirtæki í fullri eða hlutaeigu þeirra, t.d. Orkuveitan og Félagsbústaðir í Rvk. en einnig fyrirtæki sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga og reka sameiginlega. Þessi fyrirtæki geta skuldað háar upphæðir og því er freistnivandi að bæta þeim skuldum inn í heildarskuldastöðuna til að dæmið líti verr út, jafnvel þó fyrirtækin skili miklum arði og séu fullfær um að borga skuldir sínar án þess þurfi að nota beinar skatttekjur til þess.
 
Af þessu má ráða að umræðan um skuldavanda og óstjórn við rekstur Reykjavíkurborgar er ekki aðeins byggð á sandi, heldur er um beinar blekkingar að ræða og pólitískan áróður, því það er náttúrulega óþolandi að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni ekki borginni, og mun vænlegra að koma henni í flokk með þeim nágrannasveitarfélögunum sem Flokkurinn stjórnar, sveitarfélögum sem skulda meira per íbúa og hafa bæði verra skuldahlutfall og veltufjárhlutfall en höfuðborgin, undir stjórn hins voðalega Dags B. Eggertssonar og félaga hans.
 
Þegar allt kemur til alls eru sveitarfélögin í rekstrarvanda. Ríkisvaldið hefur velt yfir á þau hverju vanfjármagnaða verkefninu af öðru undanfarna áratugi, grunnskólunum, öldrunarþjónustu, málefnum fatlaðra o.s.frv.
 
Upphrópanir íhaldsins í Reykjavík og áróðurssnepils þess og auðstéttarinnar í landinu um óstjórn Reykjavíkurborgar, en æpandi þögn um VERRI STÖÐU nágrannasveitarfélaganna sem Sjálfstæðisflokkurinn stjórnar og hefur gert lengur en elstu menn muna, standast enga skoðun.
Það ættu þeir sem bergmála áróðurinn að hafa í huga.
 
Gæti verið mynd af texti
 

 

 

,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *