Angólasnúningurinn

Í nóvember 2013 flugu „hákarlarnir“ þrír til Íslands, í boði Samherja, þeir Shacky Shangala, formaður lagaendurskoðunarnefndar Namibíu og síðar dómsmálaráðherra, Tamson Hatuikulipi (Fitty), tengdasonur sjávarútvegsráðherrans Esau, og James Hatuikulipi, frændi hans. Vert er að geta þess að Tamson hafði aldrei komið nálægt hvorki útgerð eða sjávarútvegi né alþjóðaviðskiptum og frændinn ekki nálægt útgerð, þó hann væri reyndur í viðskiptum. Af þessum sökum er vel skiljanlegt að Samherja hafi þótt skynsamlegt að borga þeim gríðarlegar upphæðir fyrir „ráðgjöf“. Eða ekki.

En nú voru þeir sem sagt komnir til Íslands. Ekkert var til sparað í kostnaði og risnu vegna ferðarinnar og gert víðreist með þá félaga að skoða athafnasvæði Samherja hér á landi, m.a. Síldarvinnsluna í Neskaupstað, sem skv. Samherja, með samþykki Fiskistofu, er alls ótengdur aðili hér innanlands þó hún sé kynnt sem „uppsjávardeild Samherja í Neskaupstað“ erlendis.

Með hákörlunum í för voru tveir menn, annars vegar sonur sjávarútvegsráðherra Angóla og hins vegar aðalráðgjafi sama ráðherra. Ekki var þetta samt nein „opinber heimsókn“. En hvern þremilinn voru þessir Angólamenn að þvælast til Íslands í lúxusferð í boði Samherja?

Milli Namibíu og Angóla var í gildi tvíhliða samningur um nýtingu fiskveiðiauðlinda hvors annars. Þetta vissi Shacky Shangala mæta vel. Hrossamakrílveiðar eru hins vegar mun torsóttari og dýrari fyrir ströndum Angóla, og aflinn minni en í Namibíu og því felst hagnaðarvonin í því að fyrirtæki skráð í Angóla nýti sér tvíhliða samkomulagið til að veiða í landhelgi Namibíu. Kvótinn sem byggir á þessu samkomulagi ríkjanna er mun stabílli og til lengri tíma en annar kvóti, enda grundvallaður á milliríkjasamningum, sem ekki er slitið sisvona.

Og þarna er komið verðugt verkefni fyrir stöndugt fyrirtæki og lausnamiðað, eins og Samherja. Fimmmenningunum var flogið í höfuðstöðvar Samherja á Akureyri til að „setja upp leikplanið“, sem fólst í því að nálgast kvóta í Namibíu þótt enginn kvóti væri á lausu. Fléttan fólst í því að stofna sérstakt fyrirtæki í Angóla, Namgomar, sem svo fengi úthlutað milliríkjakvótanum í Namibíu. „Það fyrirtæki myndi síðan gera samning við Samherja um að nýta kvótann. Allt að tíu þúsund tonn fengjust með þessum hætti til langs tíma“ (Ekkert að fela, bls. 219).

Stjórnarformaður lagaendurskoðunarnefndar Namibíu og forstöðumaður þróunarsjóðs sjávarútvegsins í Angóla, nýkomnir frá Íslandi, skrifuðu síðan sjávarútvegsráðherrum beggja landa samhljóða bréf þar sem mælt var sterklega með því að semja við hið virta og öfluga alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtæki Samherja um nýtingu kvótans.

Til að tryggja samstarfið fóru Samherjamenn ásamt hákörlunum þremur til Angóla og hittu þar ráðamenn. Allur kostnaður og lúxus greiddur af Samherja. Til að gera langa sögu stutta gekk þetta í gegn. „Gentlemen, We are in Business.“ skrifar Shacky Shangala hróðugur í tölvupósti. Hinum megin varar Aðalsteinn Helgason undirmenn sína hjá Samherja sterklega við því að gera nokkuð varðandi Angóla-kvótann nema með samþykki „kallsins“. Hver ætli nú „kallinn“ sé?

Nú var Samherji sem sagt kominn með 10.000 tonna viðbótarkvóta í hrossamakríl við Namibíustrendur, með dyggri aðstoð náinna samstarfsmanna og fjölskyldumeðlima ráðherra í ríkisstjórnum ríkjanna tveggja, Namibíu og Angóla. (Því má skjóta hér inn að allur kvóti sem Samherji komst yfir í Namibíu var jafnhliða tekinn af öðrum kvótahöfum, aðilum sem a.m.k. einhverjir borgðu skatt í Namibíu og sköpuðu atvinnu í landinu. Nokkuð sem Samherji notaði í auglýsingaskyni til að sannfæra heimamenn um að þeir væru verðugir kvótans, allt að 1000 störf og verksmiðjur í landi- allt svikið). Það má líklegt teljast að öll þessi fyrirhöfn, að ráðskast með milliríkjasamninga í fjarlægum löndum í gegnum nákomna aðila ráðamanna sé verð samfélagsverðlauna, riddarakrossa, fyrir óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf í þágu alþýðunnar. Eða ekki.

Hinir greiðviknu samstarfsmenn fengu sannarlega sinn skerf, stóran hluta af kvótaleigunni.

Gengið var endanlega frá samningum milli Samherja og „milliliðanna“ um skiptingu hagnaðar af „Angóla snúningnum“ á fundi í höfuðstöðvum Samherja á Höfðatorgi 20. ágúst 2014. Í fundarhléi á þeim fundi skrapp Þorsteinn Már fram og kom til baka með gest, sem stoppaði stutt við, en Þorsteinn kynnti sem „ráðherrann minn“.

Til að koma greiðslum rétta leið dugðu ekki lengur frystigeymslur sem voru ekki til, skúffufyrirtæki í Namibíu eða íþróttatöskur undir þá peninga sem skipta þurftu um hendur. Skúffufélag Samherja á Kýpur, Esja Seafood, skrifaði því undir samninginn við skúffufélagið Namgomar um leigu á Angólakvótanum. Og greiðslur til hinna viljugu samstarfsmanna fóru til skúffufélags þeirra í Dúbaí. Fyrsta greiðslan frá Samherja á Kýpur mun hafa farið til Dúbaí 4 dögum eftir Höfðatorgsfundinn.

Í heildina nema þessar greiðslur Samherja til Dúbaí næstum hálfum milljarði íslenskra króna og til viðbótar eru greiðslur frá öðru skúffufélagi Samherja á Kýpur til annars skúffufélags í Dúbaí upp á ríflega hálfa milljón bandaríkjadollara, þar til í janúar 2019. Þetta snýst ekki um smáauratalningar.

Ekki þarf að taka það fram að hagnaðurinn af þessum veiðum var hvorki skattlagður í Namibíu né Angóla. Til voru vel kunnar „snyrtilegar leiðir til að komast hjá skattgreiðslum“.

Svona gerast kaupin á eyrinni. En Gvendur gamli skútukall er með öllu utanveltu í þeim kaupum.

Skrifað 9.08.21

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *