Ekkert að fela. Á slóð Samherja í Afríku eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán Drengsson er fróðlegt rit í meira lagi. Þar er flett ofan af slíku skítabixi að lygilegra er en hver lygasaga. Um þetta hefur verið fjallað í Kveik, Stundinni og víðar, en stefnir í að þessi mál verði þögguð núna í aðdraganda kosninga.
Að minnsta kosti er merkilegt að hinir hugumstóru réttlætisriddarar í Vg og óþreytandi baráttufólk gegn kúgun og spillingu, skuli ekki hafa þetta mál efst á sínum umræðulista síðasta mánuðinn fyrir kosningar. En nei, þar ríkir grafarþögn. Aðrir verða því að halda þessum málum á lofti.
Til að réttlæta kvótaúthlutun í hrossamakríl til Samherja, sem hafði ekki kvótaleyfi, þurfti að breyta lögum í Namibíu. Til þess mútaði Samherji sínum mönnum, sk. „hákörlum“ nátengdum sjávarútvegsráðherra Nabimíu, sem meðal annars voru formaður lagaendurskoðunarnefndar landsins og tengdasonur ráðherrans. Tilvonandi lagabreytingar voru unnar í nánu samstarfi við Samherja, og að undirlagi fyrirtækisins auðvitað, því þeirra hagsmunir voru undir. Til að ná hrossamakrílkvóta af öðrum útvegsfyrirtækjum benti Samherji sínum mönnum þar syðra m.a. á íslensk lög um hámarkskvóta „tengdra aðila“, sem hér á landi er 12% af heildarkvóta í landhelginni.
Þetta gekk eftir og með þessum, og ýmsum fleiri „snúningum“, komst Samherji yfir umtalsverðan kvóta í þessari verðmætu tegund. Samherji fékk auk þess kvótann á miklu lægra verði en aðrir, enda vel tengdur inn í æðsta stjórnkerfi Namibíu. Það er svo athyglisvert að Samherji borgaði mun hærra verð í mútur til að komast yfir kvótann heldur en fyrir kvótann sjálfan, og sveik öll loforð um atvinnuuppbyggingu í Namibíu, byggingu verksmiðja í anda þeirra sem rekin voru á Dalvík og hjá uppsjávardeildinni í Neskaupstað, 500 störf í fiskvinnslu ef hann fengi, ef hann bara fengi … kvóta.
Á sama tíma og Samherji borgaði réttum aðilum fyrir að koma hámarkskvóta inn í namibísk lög, svo ráðherrann gæti réttlætt kvótaúthlutun til velgjörðamanna sinna á Akureyri, var 12% markið hér heima þýðingarlítið í augum eigenda fyrirtækisins, en Samherji og Síldarvinnslan í Neskaupstað voru jafnan í 2. og 3. sæti á „kvótalistanum“ á eftir Brimi hf. og samanlagt vel yfir markinu.
Árið 2013 keypti Síldarvinnslan Berg-Hugin í Vestmannaeyjum og kvótann með. Bæjaryfirvöld gerðu athugasemdir því með þessu færu Samherji/Síldarvinnslan vel yfir 12% markið og kaupin því ólögleg. Samherji svaraði fyrir sig og talaði um villandi fullyrðingar og vísvitandi tilraunir til að gera málið tortryggilegt, fyrirtækin væru alls ekki tengd. Engu skipti þótt Þorsteinn Már væri stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og Samherji ætti 45% í Síldarvinnslunni. Né að Samherji kynnti víða erlendis að fyrirtækið væri það stærsta á Íslandi, það ræki botnfiskvinnslu á Dalvík en „uppsjávardeild í Neskaupstað“. „Alls ekki tengdir aðilar“, eins og öllum er væntanlega ljóst …
… líka eftirlitsaðilanum með lögunum, Fiskistofu, sem taldi Samherja og Síldarvinnsluna ekki tengda aðila. Samkeppniseftirlitið var á öðru máli og taldi ástæðu til að rannsaka málið. Hvað varð um þá rannsókn? Henni var hætt vegna fjárskorts og seinagangs hjá Samkeppniseftirlitinu, málið dagaði uppi vegna annarra verkefna og skorts á mannafla til að sinna öllum verkefnum (Ekkert að fela, bls. 174-181).
Þannig hlær Samherji með öllum kjaftinum að íslensku eftirlitskerfi, íslenskum almenningi, sem sagður er eiga fiskveiðiauðlindina, og ekki síst ríkisstjórninni og stjórnmálamönnum, sem ýmist vilja ekki eða þora ekki að taka á spillingunni. Enda kynnti Þorsteinn Már, eins og frægt hefur orðið, sjávarútvegsráðherrann sem „sinn mann í ríkisstjórninni“ á klíkufundi með Namibíumönnunum á skrifstofum Samherja í einni boðsferðinni hingað til lands.
Fleira athyglisvert af umfjöllunarefni Ekkert að fela gæti ratað hér á síðuna, t.d. hinn eitraði „Angólasnúningur“.
Skrifað 28.09.21