Það er ekki sjálfgefið nútildags að okkur hestamönnum séu greiðar leiðir um landið. Þegar ég var barn og unglingur man ég ekki annað en að á ferðalögum væri riðið nokkurn veginn þar sem hentast þótti, án athugasemda landeigenda eða leiðinda. Það þótti bara sjálfsagt að hrossarekstrar kæmust sína leið. Auðvitað voru þá eingöngu malarvegir um sveitir landsins og þeir stundum notaðir, umferðin margfalt minni og hægari og tillitssemi meiri hjá ökumönnum ef skaraðist.
Nú eru ökumenn á hraðskreiðari bílum og vegir með bundnu slitlagi. Bíla- og hestaumferð er löngu hætt að eiga minnstu samleið. Reiðvegir eru allt of margir meðfram blússandi þjóðvegum og fyrir vikið er slysahætta mikil og vaxandi. Það er nefnilega ekki bara slysahætta vegna gangandi, hlaupandi, hjólandi og mótorhjólandi á reiðvegum í kringum þéttbýlisstaði eins og fréttnæmt hefur, sem betur fer, þótt nýverið.
Við sem finnum helst lífsfyllingu á hestbaki uppi á öræfum þurfum að komast þangað. Þá er oftast eina leiðin að ríða úr byggð meðfram háhraða umferðaræðum, þar sem brunar bíll við bíl kílómetrum saman án þess að slá hið minnsta af.
Það er löngu séð að einskis árangurs er að vænta af því að biðla til ökumanna að sýna tillitssemi, hægja á sér, og jafnvel stoppa ef svo ber undir. Of fáir bregðast hið minnsta við því.
Eina leiðin er að leggja ásættanlega reiðvegi fjarri bílaumferð. Það hefur verið gert með sóma t.d. í Ölvesinu og hér í Flóanum þokast í rétta átt, smám saman. Þessi þróun er að öllu leyti undir landeigendum komin, þeirra vilja til að opna lendur sínar og haga og gefa eftir rönd á skurðbakka fyrir vegstæði. Það hafa Ölvesingar og Flóabændur gert innan sveitar, og vafalaust á þetta við víðar um landið, þó mér sé það ekki gjörkunnugt.
En til að komast milli héraða þarf að gera betur. Við Lágsveitamenn þurfum að komast upp að hálendisbrún án þess að ríða tímum og dögum saman meðfram þjóðvegi 1 eða öðrum meginumferðaræðum.
Besta leiðin til úrbóta er að Vegagerðin áætli jafnframt vegabótum og nýframkvæmdum lagningu ásættanlegra reiðvega fjarri bílaumferð. Bændur og heimamenn sjá um sitt innan sveitar, en „héraðsvegi“ að hálendisbrún ætti Vegagerð ríkisins að sjá um, hönnun fjármögnun og framkvæmd. Það er of dýrt og óhagkvæmt að gera þetta eftirá, grafa undirgöng og bjóða upp á skítareddingar í stað góðra lausna sem gátu legið fyrir ef hugsað hefði verið fyrir þeim frá upphafi.
Af því vek ég máls á þessu að ég hefi nú búið hér í Flóanum í þrjá áratugi næstum, og oft þurft að ferðast með líf mitt og hrossa minna í lúkunum héðan og upp á Kjöl, Fjallabak eða vestrí Borgarfjörð. Og af því í dag reið ég upp með Ölfusá að Stóra-Ármóti, dásamlega leið gegnum Laugardælur, en bændur þar hafa tryggt gott aðgengi hestamanna að þessari fallegu leið.
Til að komast þetta þarf þó að ríða tvær hættulegar umferðaræðar, fyrst Bæjarhreppsveg og síðan Hringveginn sjálfan, hættulegri en allar straumhörðustu jökulár landsins.
Skrifað 8.08.21