Við árslok 2020

Rennur frá oss enn eitt ár

út á tímans hafið.

Eins og himins tregatár

týnist skýjum vafið.

 

Allir horfi inn á við,

ögri sálartetri,

tæti vanans trúarmið

til að verða betri.

 

Við áramótin minnumst við

margs er þarf að bæta;

að hvítþvotturinn komst á svið,

hverju má það sæta?

 

Hvert eitt okkar unnið verk

ævisögu ritar

og hún reynist ýmist merk

eða púkann fitar.

 

Augnablikin ofursmá

öllu valda hinu

og stjórna hvernig stendur á

í stóra samhenginu.

 

Stýrum skútu framhjá flúð,

forðumst græðgishildi,

og sameinuð, í siðum prúð,

hin sönnu mótum gildi.

 

Að lífi fögru leggjum grunn,

lýðs er akkur mesti

spillingar að byrgja brunn

og bera hreint í gesti.

 

Skulum nú, hið næsta ár,

ný á miðin róa

svo gömul þjóðarsálarsár

saman megi gróa.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *