Úr dagbókinni 2016

Úr dagbókinni 2016. Safnið telur 273 vísur

01.01.16

Tek út fyrir tímaskort,
tættur dreg nú ýsur,
svo ég hefi ekki ort
áramótavísur.

Árið byrjar býsna vel,
bar víst lítt á sprengjuskaða,
og fréttist næst að fínna mél
flytja megi til Bessastaða.

10.01.16

Bjart er yfir byggðum hér,
blikar vetrarsunna.
Miðjusveigður orðinn er,
eins og síldartunna.

Skín við sólu skammdegis-
skýjaslæðuvafur.
Fyrir því mun framvegis
finnast hjartastafur.

31.01.15

Finna má af fegurð nóg
er frost í kinnar bítur.
Úti á skafli siglir sjó
svartur hundaskítur.

03.02.16

Snjóar lárétt. Austan átt.
Ansi harður bylur.
Spörva náfrétt. Gaman grátt
gróður jarðar hylur.

03.02.16

Umf. Njáli vikið úr HSK“ máti lesa á sunnlenska.is. Betur hefði farið á „Skarphéðinn vísaði Njáli á dyr“, það sem raunverulega gerðst í brennunni: Vísaði Njáli á dyr og lét hann ekki brenna:

Atburðarásin mér áður fyr
fannst alltaf í sögunni skrýtin.
Skarphéðinn neyddi Njál á dyr,
næg voru til þess vítin.

06.02.16

Að loknum æfingadegi Karlakórs Hreppamanna á Eyrarbakka í dag var í boði humarsúpa á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Þar var mikið sungið:

Svona góður karlakór
kyrjar ekki víða.
En orðspor hans til fjandans fór,
flestir dottnir íða.

08.02.16

Sólin gyllir efstu egg
á alheimsmorgunsvifi,
gleður þannig snót og segg…
Ekki meir á ykkur legg
af öðr‘eins niðurrifi.

10.02.16

Útsölulíkur á laugardag,
langar margt að kaupa.
Útsölu lýkur á laugardag,
langar strax að hlaupa.

13.02.16

Þegar sólin skærast skín
og skellir kossi á glugga
að skúra gólf er skemmtun mín
og skolvatn meira grugga.

14.02.16

Með stunum ég í stólinn sest,
stefnir í framtakskrísu.
Held að sé til heilla best
að hræra í eina vísu.

Að lifa, það er mikið mál,
mína aðferð þó fann:
Lagði í það líf og sál
að leggjast upp í sófann.

Tært og fagurt útsýnið,
eykur mjöllin vægið.
Geislar landið gæla við,
Gylfi tekur lagið.

Eða kannski…

Tært og fagurt útsýnið
eykur mjöllin vægið.
Mætti gjarnan gera við
götótt ósonlagið.

Tók mynd á hestbaki í fallegu veðri, og þó Hekla blasti við, alsnjóug í sólskininu, heillaði annað meria:

Gefst ég upp, loksins, á leti
leiðist í blíðunni hér inni.
Sjálfsagt að sólskinið meti
en sjáið þið eyrun á merinni!

16.02.16

Ýmsir á Boðnarmiði gerðu athugasemdir við það að greinir gæti staðið undir rími og ljóðstaf:

Stuðlar ekki, stutt og lin,
stendur tæp í rími.
Veslings greinisendingin,
einelt hér með flími.

21.02.16

Konudagsvísa. Reyndar eru allir dagar konudagar.

Augun stjörnuhiminn hár,
hjartað brunnur vona.
Þú ert, gegnum öll mín ár,
alltaf dagsins kona.

24.02.16

Mikill snjór fellur af þakinu, lokar fyrir „óæðri“ útgönguna úr bílskúrnum og fyllir „grillskotið“:

Mokað hef nú skarð í skafl,
í skoti get því tsjillað.
Við þorra sjálfan þreytti afl.
Það var alveg grillað.

25.02.16

Biskupstunga…

Biskup einni talar tungu,
telst hún klofin þó
eftir Fjölnis orðastungu.
Er þá komið nóg?

29.02.16

Eftirtekjan ansi rýr,
eykur lítið haginn
þó ég sé í góðum gír
að grilla allan daginn.

07.03.16

Mjólkurbú eitt heitir „Kú“:

Ef við beygjum kýr um kú,
sem kann að virðast snúið,
verður strax að nefna nú
að nýju, mjólkurbúið.

08.03.16

Þegar beygði kú um kýr,
(sem kýr á ísnum hála)
framandi þá fram kom dýr.
Fyrir því má skála!

16.03.16

„Krónan er gjaldmiðill góður“
gjammar Sigmundur móður.
Auð sinn þó felur
sá óprúttni melur,
á Tortólu svimandi sjóður!

Fjárhagstengsla birtir blað,
þeim besta aldrei skeikar,
en töl’vert ennþá tefja það
tækniörðugleikar.

Svo núna í fréttirnar fari,
fljótur, mér liggur á svari!
Úr klóm þarf að smjúga
svo hverju má ljúga?
Jóhannes útskýrari?

23.03.16

Er klósettin verða kynlaus,
og klefarnir líka,
tylla sér saman á trúnó
typpi og píka.

25.03.16

Sóley litla stækkar og stækkar:

Heldur betur hefur tognað
úr henni Sóleyju.
Afi hefur bara bognað,
blár af ólseigju.

Bar ekki siðferðileg skylda til að segja frá“ Wintirs-hneysunni var haft eftir SDG í fjölmiðlum:

Sjái valdsmenn að sér“.
Svo orðum Hallgrímur fer
um siðferði þitt,
þvælt og marglitt.
Keisarinn kviknakinn er.

27.03.16

Reynið nú að finna frið,
forðist allan háska.
Sálarpúkum gefið grið.
Gleðilega páska.

Frelsi að hafa val“, segja stelpurnar berar að ofan í Laugardalslaug. „Free the nipple“!

Óneitanlega finnst þeim fylgja
frelsi að hafa val
svo yfir þá flæðir brjóstabylgja
sem baða í Laugardal.
Þær brjóta nú geirvörtuhelsið harða,
heimta úr klóm sinn gral,
bælingu aldanna jákvæðar jarða
því jöfnuður ríkja skal.

28.03.16

Halda lóur heim um veg,
hroll að brjósti setur.
Kælan úti kvíðvænleg,
kominn frostavetur?

30.03.16

Hvort að við skattaskjól
skildingar eigi sér ból
ekki það man.
Of eða van?
Nei! sjáiði, brýst nú fram sól!

Af stalli drullufúll nú fellur
fettur, grýttur hrotti.
Ósnjalli bullugúllinn gellur
grettur, hnýttur plotti.

31.03.16

Á Hóli í bólið fer sjóli í sól,
hann Snjólfur, og ólar þar Fjólu.
Þá hjólar Óli með skjólu í skjól
við skólann og dólar í rólu.

Óður er róðurinn, góða með glóð
gróðinn, og fóður í sjóðum.
Hljóður með skjóðuna, bjóðandi blóð
bróður, en slóðin með þjóðum.

06.04.16

Gunnar Smári Egilsson fjallaði um spillingu á Íslandi:

Í mæðu dagsins megum ekki gleyma
að milljónerar feiskja burðarraft
er auð sinn fjarri Garðarshólma geyma,
-en gera eins og fyrir þeim var haft.

07.04.16

Vigdís Hauksdóttir með enn eina snilldina í fjölmiðlum:

Gengisfellir sjálfa sig.
Nú særir framaþráin.
Við veruleikann lent á svig.
„Ljúf er stjörnuspáin“.

09.04.16

Núna, þegar vaknar vor,
er varla mikil fórn
þó við ekki spörum spor
gegn spilltri ríkisstjórn.

11.04.16

Fyrst klæðalaus nú er keisarans slekt,
þá kemur sér hún viti
að veðrið er alveg voðalegt,
værðarsól og hiti.

12.04.16

Loðna hönd í lúffu sé
laumast út með glundrið.
Skammtar síðan skúffufé,
Skagafjarðarundrið.

13.04.16

Íhald sýnir magnað move,
málið reyrt í hafti
og skoðanafrelsi skert á RÚV,
skal þar halda kjafti.

15.04.16

Fróðleg lesning atarna … Ljóta ormagryfjan, þetta auðræðiskerfi sem valdaflokkarnir hafa skapað hér á landi. „Þetta er ógeðslegt samfélag“, sagði einhver. Og þessu geta spilltir stjórnmálamenn viðhaldið í skjóli og umboði kjósenda sinna. Svei því.

Fyrir skattaskjólum svag
og skófla undan þjóðarhag
allt frá stríðsgróðaflaum
að stórveisluglaum.
Hver bað um svona samfélag?

17.04.16

Sitt kvæðasafn Kári nú þylur,
og kaldhæðni sína ei dylur,
sem er helvíti svalt,
enda hljómar það allt
eins og blindöskuþreifandi bylur!

18.04.16

Ólafur Ragnar sækist eftir endurkjöri!!!

Mörlandinn í miklum vanda,
moldríkir taka hér öll völd.
Vinur fólksins vill því standa
vaktina fram á næstu öld.

20.04.16

Til greiðslu nú* 14.990, kr.
* Tímabil til greiðslu er líðandi mánuður og út næsta mánuð. Sé um áskriftarbreytingu að ræða, höfum við tekið tillit til inneignar sé hún fyrir hendi.“Þetta er afritað af áskriftartilboði fyrirtækis sem mun heita 365 miðlar. En hvað gerist? Jú auðvitað er lokað fyrir allt draslið þann 18. apríl og á svokölluðu þjónustuborði fékk ég þau svör að þessi klausa gildi ekki af því keyptur hafi verið ‘stakur mánuður’. Hvergi kemur fram á samþykktu tilboði að klausan ‘stakur mánuður’ ógildi það sem kallað er ‘tímabil greiðslu’, þ.e. ‘líðandi mánuður og út næsta mánuð’:

Tölvert um tilboð sem freista,
tillitslaus ásókn og gimm,
en það má ei þýinu treysta
í 365.

21.04.16

Kjaradeilur eru daglegt brauð og heilu stéttirnar samningslausar mánuðum saman:

BHM súran með svip
þó sannlega bjóðist uppgrip
(en vissir vankantar):
Háseta vantar
á kvalaskoðunarskip.

Að veðri:

Virðist ég trúlega voða svag
en veit ei hvort nú mætti biðja
um gleðilegt sumar, og góðan dag,
áður gengur yfir næsta hryðja?

Félagsbú Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks“ var titill greinar í Stundinni og kom m.a. fram að „Finnur og áðurnefndir félagar hans, þeir Sæmundur Runólfsson, Kristján Skarphéðinsson, Ólafur Andrésson, Hrólfur Ölvisson og Rafn Guðmundsson, eiga saman 80% í hlutafélaginu Innri-Kóngsbakka hf. Til fróðleiks má geta þess að Tryggvi Pálsson, bankastjóri Íslandsbanka, af grónum íhaldsættum, á 20% af Innri-Kóngsbakka og er þar í nokkurskonar félagsbúi með Framsókn.“

Auðhylma heitir undra kýr
Innri-Kóngs á bakka.
Þar má finna fleiri dýr,
falska héra og rakka.
Flokkar reka þar félagsbú,
fjár-hirðar saman makka
alveg þangað til þrýtur trú
og þjóðin lætur þá flakka.

23.04.16

Fugls að messa í moll og dúr
er mikilsverður rétturinn.
Gaf í morgun gróðrarskúr
svo grænkar óðum bletturinn.

Balletverk af bestu gerð
mér býður listahaukur.
Úti á bletti, einn á ferð,
iðjar hrossagaukur.

24.04.16

Reisi andlegt ríki mitt
á reið í kvöldblíðunni.
Er fákur skynjar frelsi sitt
fæðist staka á munni.

29.04.16

Hótel Húnavellir auglýsa „gjöf á gjafabréfum …“

Húnavatnssýslan heillar,
hótelin þar ég vel.
Það álit annars ég kaupi
ekki dýrar en sel.

Ótrúlega fagurt sólsetrið hér heima þetta kvöldið:

Veröld fögur vekur móð
og víkkar huga minn.
Vel nú logar vorsins glóð
um vesturhimininn.

04.05.16

Er fasteignin haldin galla?“ spyr lögmannsstofa ein í auglýsingu:

Á lögmenn er klárt að kalla,
á kúnnana mun ei halla,
ef u.þ.b. fer að falla
fasteignin haldin galla.

07.05.16

Umfjöllun í sjónvarpi um söngvakeppnina Eurovision:

Felix reynir fleirum með
að finna lagið rétta.
Lokaúrslit sýnast séð:
Svíþjóð vinnur þetta.

08.05.16

Einhverjir hafa kannski haldið að lokauppgjörið færi fram handan Gjallarbrúar.

Síst var gamla glíman unnin,
grær seint skítleg und.
Upp er hér í heimi runnin
hefndarinnar stund.

Hefur Nýja-Ísland nokkurn dreymt?
Sjáið nýjasta verkið á fjölunum!
Þar íslenska þjóðin getur gleymt
og gulnað með Panamaskjölunum.

09.05.16

Helstu sótraftar voru ýmist dregnir á flot eða siglt í naust fyrir komandi forsetakosningar:

Davíð sem álfur út úr hól,
allar hans vonir farnar.
Ólafur flýr í öruggt skjól
með eftiráskýringarnar.

Fékk ég nóg af fréttaverði
finnst ég þurfi að æl’ ‘onum.
Ekki núna Guðna gerði
greiða meððí að hæl“onum.

Endalaust í Andra Snæ
eru margir að gogga
en finna hugljúfan helgiblæ
á höfundarverki í Mogga.

Ef reiknum allt með öllu
eru útlínur nokkuð skýrar:
Mikið hallar á Höllu
og heimtur Ástþórs rýrar.

Örfáum kannski að endingu nær
atkvæðum saman að nurla.
Betur ‘ann hefði bakkað í gær
blessaður kallinn hann Sturla.

10.05.16

Þessari snilld úr Lífs-stílskálfi DV má til með að ræna og deila: „Vandaðar líkkistur á hagstæðu verði“:

Spennan vex, ég fiðring finn
fara’ um allan kroppinn,
lágstemmdan því lífsstílinn
löngum set á toppinn.

15.05.16

Fallega afastelpan Margrét Stefánsdóttir fermdist í dag:

Gæfan sína götu fer
gleði fram að draga
og hún vakir yfir þér
alla þína daga.

25.05.16

Daginn eftir afmæli á Fjasbók:

Næstum kjaftstopp orðinn er,
öllum kveðjum fagnað.
Þakkir sendi. Þykir mér
þetta alveg magnað.

30.05.16

Viðbrögð við skrifum „smjörklípumeistarans“:

Heimskur maður horfir á
hina gegnum rörið
og ef telur þurfa, þá
þránað klípur smjörið.

08.06.16

Forsetakosningar nálgast:

Eitthvert þeirra ef ég fæ
ekki breytir öllu:
Guðna téhá, Andra Snæ
eða bara Höllu.

09.06.16

Í morgun fæddist Bryndísi og Ragnari fyrsta barnið, dásamleg dóttir:

Fagra líf! Nú víst ég veit,
vel að okkur sóttir.
Árla morguns ljósið leit
lítil Ragnarsdóttir.

Kári Stefánsson skrifaði magnaða grein í blöðin um einn forsetafrmabjóðandann, og er hér umorðuð:

Frá rumi, mjúkum rómi,
rennur lygamiga
vel í sjónvarpsvélar
en veltir fláðum gelti.
Orðlaus aflandsmörður
ólmur flýr af hólmi.
Skelmir úti að skíta.
Skeit í brækur feitum.

Liðið skammarskeiðið,
skríður út úr hýði
og óðar ræðst á aðra.
Ekki þjóð samt blekkir,
aðeins sóttarsauði
er sveima hringinn kringum
og marka skálkaskjólið,
skjaldborg klíku valda.

12.06.16

Gælir við mann gjólan
í geisla sólar veislu.
Brattur slæ ég blettinn
með bros á vör og losa
rekju plast í poka.
Við páfann tefli. Efli
andans vængja vind, og
virkja. Dróttkvætt yrki.

15.06.16

Christiano Ronaldo var beygður í viðtölum eftir jafntefli gegn Íslendingum í fyrsta leik á EM og fékk það óþvegið frá heimspressunni í kjölfarið:

Vill hann mjög greiðsluna vanda.
Fyrir virkni til fóta og handa
fyrstur oft valinn.
Um veröld nú talinn
lítilla sæva og sanda.

Bragarbót. Eða tilbrigði við stef.

Er sperrtur við sparkið að vanda.
Við spegilinn helst vill þó standa.
Bestur var valinn.
Nú bara er talinn
lítilla sæva og sanda.

16.06.16

Einhver verður að taka upp hanskann fyrir vesalings drenginn frá Madeira sem á ekki sjö dagana sæla:

Mikill var framherjans feillinn
er fráhverfur laumaðist veill inn
með orðhengilshátt.
En þetta gaman er grátt.
Einelti heitir það, heillin!

21.06.16

Á leið ríðandi norður Kjöl, enn einn ganginn!

Heita laugin þarfaþing
þvældum hestaköllum.
Svo gyllir sólin sjónarhring
er sest á Hveravöllum.

22.06.16

Næturstaður Ströngukvíslarskáli:

Öræfin kenndir ljúfar fram laða,
lengi að þeirra áhrifum bý.
Um lágnættið hrossin í ljósi sig baða,
leysist upp jökullinn himininn í.

25.06.16

Horft út um dyr fjárhúshlöðunnar í Lauftúni, Skagafirði:

Sólarbirtan síast inn
og sumargróðursþefurinn.
Kynnast dyrakarmurinn
og köngulóarvefurinn.

29.06.16

Í Árbúðum á suðurleið braust regnboginn fram í dökku skýjatrafi:

Mætti Bifröst brúka ég,
bara rétt í skyndi,
holóttan þá himnaveg
hinum megin fyndi.

02.07.16

Hera frá Þóroddsstöðum setti heimsmet í 250 m. skeiði á Landsmóti hestamanna að Hólum í Hjaltadal:

Heimsmetið fallið á Hólum!
Hera nú bjargaði jólum
hjá Vekurðar-Bjarna.
Vittu atarna!!
Snjallastur byggðum á bólum!!

02.07.16

Lagður af stað í hringferð um landið með ástralska skólakrakka og nokkra kennara þeirra. Fyrsti áningarstaður Hvammstangi:

Eftir mæðu og mimru
og margþvælda orðhengilsimru
á Hvammstangabraut
heilann ég braut
niður í lélega limru.

03.07.16

Næst var áð á Akureyri og þannig um að litast:

Götur auðar, það get ég svarið,
er gæddi mér á steik.
Heyrði að margir hafi farið
að horfa á einhvern leik?

Frakkarnir voru „ekki menn við að eiga“:

Stendur yfir leikur á Stade de France
og stöðuna þarf upp á nýtt að vega.
Sigraður virðist þessi víkingafans,
en við hverju bjuggust menn eiginlega?

Lúta þurftum lágt í gras
og lokuð virtust nú öll sund.
Við þekkjum best vort þjóðarfas:
„Þrautgóðir á raunastund“.

Núna er það opinbert
að aftur hetjur snúa
en það má teljast þakkarvert
að þjóðin fékk að trúa.

Svona var í gistiheimilinu:

Í gólfborðum öllum gnestur hér
auk gufuþunnra veggja
svo að þörfin engin er
eyra við þá leggja.

04.07.16

Ekið í spreng austur á Djúpavog. Gist í Berunesi:

Dauður sjór við Djúpavog.
Sem dýran kveðskap lesi
af handriti að handan. Og
horft frá Berunesi.

Þegar löng er önn við rútuakstur
alltaf bensínfæti dvínar máttur.
Þá er víst, er útaf ertu lagstur,
að þín bíður góður sinadráttur.

05.07.16

Morgunsólin skein skært í Berunesi og skuggar langir:

Fyrir víst, að vesalingi mínum,
veit að þessi skuggi fylgir stíft
sem geltin tík með bóndagarmi sínum
er gamanvísur mínar hafa ýft.

06.07.16

Heimkominn úr hringferðinni baðaði rósin öllum öngum úti í garði, breiddi úr blöðum og baðaði hvít blómin í sólinni:

Undir timbur- brúnu -belti
blómstrar fögur þyrnirós.
Hvað hún þarf, ég vöngum velti:
vætu, skjól og sólarljós?

Ég þekki aðra ekki síður
yndisfríða blómarós
sem, hvað sem öllu öðru líður,
þarf ást og bros og lágstemmt hrós.

08.07.16

Búinn að skila af mér farþegunum á Keflavíkurflugvelli:

Að ferðalokum finn ég til
í fótum stirðum tveim.
Eymslin þó ég eftir skil;
eg er kominn heim.

Kasti ræður nú kylfa,
kominn tími á Gylfa,
ástralskan kominn með hreim
en er nú kominn heim.

12.07.16

Bryndís birti á Fjasbók mynd af Vigdísi sinni mánaðargamalli:

Heimi glaðbeitt horfir mót
hugrökk myndarkona.
Líkist afa smáfríð snót
(segi bara svona!).

Jasmín kom í heimsókn til afa og ömmu, akandi með vinkonum sínum austur um sveitir!!!

Sautján. Bílpróf taka: Tékk.
Svo: Tæta út til sveita.
Jasmín: Frökk og fremst á bekk.
Fyrirmynd má heita.

Áfram vill brjálæðið virkja og virkja:

Sem eldur í sinu æðið fer,
því aldrei virðist ljúka.
Næst skal tvenna nýja hér
nýta Kárahnjúka.

13.07.16

Það er gömul og gild verslunarhagfræði að ekkert þýði að vera með ákv. vöru í hillunum af því hún klárast alltaf strax! Sama lögmál er haft í heiðri um almenningssalerni hjá Akureyrarbæ, ef marka má frásagnir fjölmiðla:

Vill túrismans berja í brest,
á betri veg þoka:
Myndist salernisbiðröð er best
bara að loka.

Þetta bitnar á Akureyrarkirkju, sem er vinsæll ferðamannastaður. Þar er salernum lokað vegna ágangs:

Hópinn kveisa heltók, bráð.
Hafði áð fús.
Guðshús opið, altæk náð,
samt ekki náðhús.

14.07.16

Forstjóri Útlendingastofnunar sendi Kjararáði beiðni um launahækkun vegna álags:

Halló, kæra kjararáð,
krakkarnir eru að stríða mér 🙁
Álag mikið, alltaf þjáð
og útlendi lýðurinn fjölgar sér,
tekur yfir land og láð
svo logandi ótti í hjartað sker.
Með vísun til þjánar og þjóðarhags
þarf ég kauphækkun. Strax!

Kominn er úrskurður kjararáðs,
kynntur þar góður siður:
Snarhækka launin, lýðnum til háðs,
ef leggja á starfið niður.

Annað og óskylt efni:

Fátt er svo með öllu illt
að ekki boði gott.
Hefur drenginn margan mýlt
að fá mjúkan kattarþvott.

16.07.16

Músarrindlar gerðu sig heimakomna fyrir utan stofugluggann hjá mér og spígsporuðu undir garðhúsgögnunum:

Bæla sig undir borði
býsna lítil, kvik yndi.
Vængirnir þeim frá forði
fúlu kattar svik lyndi.

17.06.16

Það ætti ekki að vera mikil kúnst að taka viðtöl í útvarpi: segja sem minnst sjálfur en láta viðmælandann njóta sín. Ekki er þessi list öllum gefin:

Nú talar Hallgrímur Thorsteinsson.
Það mætti tífalda útvarpsgjaldið
ef gæfist einhver glætuvon
að gæti hann kjafti haldið.

23.07.16

Lagður upp í enn eina rútuferðina:

Áði hjá Urriðafossi
(ekki þó ferðast á hrossi).
Þá spurn nú fram ber
sem brennur á mér:
Líður að kveðjukossi?

Fögnuð mikinn finn hjá mér
er ferðast um landið víða
því ég fæ, sem þakka ber,
að þamba kaffi og bíða.

Fagurt er í Drangshlíðardal, handan Skógaár.

Fjölgun ör telst ei fögur hlið
á ferðamannasenu
en kraðakið ekkert kemur við
kýrnar hennar Lenu.

Það er gaman, þannig séð,
að þreyja, draga ýsur,
raunir laga, róa geð
og reka saman vísur.

Við Skógafoss:

Hraðar tifa taktinn skal,
sinn tíma lifa í önnum,
og fossinn klifar fánýtt hjal
ferða- yfir -mönnum.

Næsti viðkomustaður:

Vel haldinn, úr hungri ei dey
og á Hótel Dyrhólaey
engu ég kvíði
þó kvöldverðar bíði
því allt er í harðindum hey.

Eftir kvöldverðinn sem beðið var eftir:

Útlendar stúlkur á þvílíku þambi
að þjóna, sem tekst að mestu leyti,
og allir japla á ofsteiktu lambi
einsog í skólamötuneyti.

Ferskur vakna fyrir sex,
fagna morguns gælu.
Allt mitt næmi vel þá vex,
veitir aukna sælu.

24.07.16

Útsýn frá Dyrhólaey:

Um er að litast, ládauður sjór,
lyfta sér drangar úr hafi.
Himinninn falinn, fuglinn er rór,
fjaran skreytt öldunnar trafi.

Biðin getur tekið tíma:
Töfrastundin!
Prúður, fyrir pílagríma,
pósar lundinn.

Við Jökulsárlón:

Stórir jakar strandaðir,
strauminn við þeir díla.
Eins og birnir bandaðir,
búin hinsta hvíla.

Ef rútu græna rekist á
(rétt að mynd fyrst „lækið“)
skal höfund vísu heilsa’ uppá,
hans er þetta ækið.

Íslenska ungmennalandsliðið tapaði fyrir Svartfellingum í úrslitaleik Evrópumótsins eftir framlengdan leik:

Hingað til aðeins þeir óviskudjörfu
sér ætluðu’ að hoppa’ upp á mána
en ungmennalandslið Íslands í körfu
nú allaleið hækkaði rána!

Þá að pólitíkinni:

Þökk sé ævinlega elítunni
að hún bara fjári góð er í
að flytja digran sjóð úr samneyslunni
því sumir gætu bjargráð lært af því.

25.07.16

Við Freysnes má láta sér líða vel,
logn og 14 gráðu hiti
klukkan 9 að morgni, og trúgjarn ég tel
að talsvert meira gott á viti.

Íhaldið ætlar að einkavæða allan fjandann og leyfa byggingu risasjúkrahús fyrir ofurríka í Mosfellsbæ:

Svo illa lerkuðum leið mér ei fyr,
á Lansann þrekaður samt ég næ.
Þar er lúinn miði við lokaðar dyr:
„Læknirinn skrapp upp í Mosfellsbæ“.

Siðblindur Davíð skrifaði flokksfélögum bréf úr útlegðinni þar sem hann útlistaði sekt allra annarra en sjálfs sín:

Í vor lagði yfir vondan þef
og vitað hvaðan blés áttin.
Núna var ritað reffilegt bréf
í raun-veruleikaþáttinn.

26.07.16

Enn á ferðinni, nú til fjalla, akandi:

Heiðríkt! Nú út sér úr augum!
Og enginn er farinn á taugum!
Fjallabaksleið
furðu er greið
og fagurt í Landmannalaugum.

Á visir.is var þess getið í fyrirsögn að sjö rússneskum sundmönnum væri meinuð þátttaka í Ólympíuleikunum, og að það væru „Góðar fréttir fyrir Hrafnhildi“:

Ólympíugullið hefur safngildi
og gott er það að hreppa.
Góðar fréttir fyrir Hrafnhildi
ef fáir mega keppa.

Á sama stað mátti lesa þessa fyrirsögn: Bæjarstjóri Ölfuss: „Kjaftshögg fyrir byggðirnar“:

Staðan virðist alltaf erfið,
engar halda tryggðirnar
og sífellt reynist kvótakerfið
kjaftshögg fyrir byggðirnar.

27.07.16

Frekari skýringar óþarfar:

Hérna eirum vér oss,
engan berum vér kross
nema túrhestanauð.
Mér sárabót bauð
sólin við Seljalandsfoss.

Sumt er heilagt innra með oss
sem til einkamála höfum talið,
en Gljúfrabúi, gamli foss,
getur ekkert lengur falið.

Við Gígjökul, þar sem skriðjökullinn er alveg að hverfa, og lónið löngu horfið með öllu:

Fyr fáum árum undir lá
ógnarþykku jökulmeni.
Eftir nú, sem enn má sjá,
aðeins þessi litli speni.

Vegurinn inn í Þórsmörk er nú býsna góður …

Náttúruundur eigum vér
óumdeilanlega
en mikilvægast orðspor er
okkar góðu vega.

Aftur í Þórsmörk, í Básum:

Enn skal mér þann óleik gera
sem allan skrokkinn kvaldi
að láta mig í losti vera
liggjandi í tjaldi.

28.07.16

Á ferðamannasalerni var búið að hengja upp mynd sem sýndi að sitja ætti á klósettinu en ekki standa á brúninni boginn í hnjánum við losun haughúss:

Á salerni’ að ná er sæla
en ef síður vilt ata hæla
þegar að þjáir skita
þetta er gott að vita.

Meira úr Þórsmörk:

Einhvern tímann ungur las
það ætti að vera gaman
en tjöld og bíll og tjald og gas
trauðla fara saman.

Eftir rás um úfin fjöll,
oní Bása vegur.
Taðið krásir, tjaldið höll,
túrinn dásamlegur.

Eftir vílin og vomin
vindgang og kviðverki. Sko minn!
Fékk sér af mat
og vaskaði fat.
Nú er dagur að kveldi kominn.

29.07.16

Oftlega hefur aflabrestur
orsakað veiðibann.
Sannleikurinn er sagna bestur
ef Sigmundur veiðir hann.

Kvöldsólin er oft dásamlega falleg:

Dálitla, gula duggan
damlar á leið í skuggann.
Sólgullið fley
siglir í þey.
Útsýn um eldhúsgluggann.

03.08.16

Enn á ferðinni. Öræfajökull og Hvannadalshnjúkur blasa við á björtum degi:

Í sálinni mjög verð ég mjúkur
og máttlaus nánast minn búkur.
Deyfðin útskýrð
með náttúrudýrð
sem framleiðir Hvannadalshnjúkur.

04.0816

Bjartur hásumardagur og dýrðina held ég noti,
damla með hnakk minn og beisli að Vælugerðiskoti.
Hrossin full af kæti, eins og kálfar oft að vori,
kerrt um hnakka, viljug og silkimjúk í spori.
Er reiðtúrum var að ljúka bar heldur vel í veiði,
vekurð næg sem gladdi; öll þrjú á flugaskeiði!
Nú Traustamótið nálgast og nauðsyn svör að fá:
Veit nokkur hvar og hvenær á að skrá?

06.08.16

Gist og etinn kvöldskattur á Hótel Önnu, Moldnúpi:

Ilmur nær áhugann kveikja
svo út um er farinn að sleikja.
Hótelið: Anna,
etin hin sanna
fyrirtaks Fagradalsbleikja.

Frá sama stað, út um herbergisgluggann:

Byrjað enn bílstjórarandið
og býsnagott er á mér standið.
Ég lít út um gluggann,
sé ljósið og skuggann
leika og glettast við landið.

07.08.16

Limruæfingar:

Mér svellþykkir sendir að gjöf ull-
arsokkar. Þeir reyndust ei gjöfull
vermir. Því míg
í skóna. Ei lýg.
Helvítis, andskotans djöfull.

Það ætlar að lát’ undan löngunum,
liggur hvers annars í föngunum,
læðist svo kímið
í lokaða rýmið
en graðhestamúsik á göngunum.

Slopp með hnöppum ei hneppi,
hnappaklappinu sleppi.
Slappur í tröppum.
Sveppir á löppum.
Úr leppum. Happið þá hreppi.

08.08.16

Horft upp í Öræfajökul neðan af Ingólfshöfða-söndum:

Á háborði hátíðardúkur
alhvítur úr fjarlægð, og mjúkur.
Fullhuginn skýri
við Fagurhólsmýri,
er reistur Rótarfellshnjúkur.

Og áfram er ekið til vesturs, heim á leið:

Nú er ég kominn að Klaustri,
keyrði þangað úr austri.
Setið í vaffi
Systra- í – kaffi
áfram svo farið í flaustri.

Varúð á vegunum mjóum
því vaggandi kerruna drógum.
Pínd áfram tík,
pissað í Vík
og anað svo áfram að Skógum.

Brunað frá Skógum í skyndi
(skæð Eyjafjöllin í vindi)
um Hvolsvöll og Hellu
á heimleið til kellu,
við Bitru allt leikur í lyndi.

14.08.16

Afmælisdagur frúarinnar:

Það er rigningartíð og rökkrið sækir á,
rósin úti ber nú dimman farða.
Í morgun augu leit – og loga sá
ljósin sem að götu mína varða.

Bauð henni út að borða í tilefni dgsins:

Hvar býðst þér hin besta sæla
ef við bragðlauka viltu gæla?
Það fer ekki milli mála;
Matur í Tryggvaskála.

15.08.16

Yfir sjónvarpinu. Undanrásir hundraðmetrahlaups karla á Ólympíuleikum:

Það er eins og þúsund volt
þenji afl í sinum
þegar ætíð Úsein Bolt
æðir fram úr hinum.

Og meira þaðan:

Sýndu margir brosið breiða,
brást þeim ekki miðakaupið
er van Niekerk sáu fljótast skeiða
fjögurhundruðmetrahlaupið.

Vænti þess að margur meti
metnað hans og stolt
en hvað ætli núna Gatlin geti
gegn honum Júsein Bolt?

Eftir úrslitahlaupið:

Fráni örninn ekki sestur
á sinn hvíldarstað.
Í hundrað metrum hver er bestur?
Held nú vitum það.

16.08.16

Yfir kvöldmatnum ei kvartaði,
konan fær bestu dóma,
ei skar við nögl er skammtaði:
Skyr og ber með rjóma.

Heimspekilegar vangaveltur uppi í sófa:

Það er gott að þvælast um.
Það er gott að hvílast.
Gott er afl í geðsmunum,
gott er ei að mýlast.

27.08.16

Vorum í nafngjafarveislu áðan hjá Bryndísi og Ragnari og ég skildi eftir á servíettu handa sonardóttur minni:

Þú komst í heiminn kraftaverk,
kynngimögnuð þóttir.
Vönduð smíð og viljasterk,
Vigdís Ragnarsdóttir.

Meiri heimspekilegar vangaveltur uppi í sófa:

Ágústkvöld, og dálítið að dimma,
dýpstu rök nú leita hugann á.
Getur orðið býsna römm sú rimma
er reyni botn í sjálfan mig að fá.

Held sé best að halla sér
þó hugur reiki víða.
„Enter“ – síðan ætla mér
undir sæng að skríða.

03.09.16

Eru ađ baki björt og hlý,
blíðu sumarkvöldin.
Haustið teiknar tildrög ný,
tekur gríma völdin.

05.09.16

Norðurljósin voru óvenjufjörug:

Mikiđ fyrir glaum og glans,
galskapurinn ræður,
tröllin stíga trylltan dans
međ tækifærisslæður.

Mannlýsingar:

Vammið við er spyrtur,
veruleikafirrtur,
í beinum eitur,
undirleitur,
til fárra fiska virtur.

Um háriđ vel er hirtur,
hálstau, sléttar skyrtur,
hjartaheitur,
í huga teitur,
vel af öllum virtur.

Blótandi og byrstur,
í brennivínið þyrstur,
einskis nýtur
augum gýtur,
flýr af hólmi fyrstur.

07.09.16

Veðurlýsing:

Alkunn haustsins aftankyrrð
er í líki skötu.
Gustug mjög, í geði stirð,
gusar nú úr fötu.

Og …

Konan veðri birginn bauð,
ber í fötu ultu.
Komin heim þau kát hún sauð
í krækiberjasultu.

Frelsast hver mín fínust taug
ef fengi andlega sorgun.
Enn ein vikan frá mér flaug,
fimmtudagur á morgun.

Sjónvarpsdagskráin, maður lifandi …

Alltaf skal mitt útsvar greiða
yfirmátaglaður
en Útsvar veldur ógnar leiða,
það ekki lifir maður!

Orkustreymi orðið tregt,
í anda þykknar húmið.
Á skjánum ekkert skemmtilegt,
skreiðist því í rúmið.

09.09.16

Fjasbók spyr í ritvinnsluglugga: „Hverju ertu að velta fyrir þér?“ Og af því tilefni varð þetta til:

Hvað er það sem hvílir þér á hjarta?
Hverju ertu að velta fyrir þér?
Sækir þú í sumarljósið bjarta
sem að fyrir löngu horfið er?

Það er gott að finna fagrar myndir,
fram þær draga hugarskotum úr
þegar á þig sækja gamlar syndir
sem að reyndust illa kleifur múr.

10.09.16

Stefnir í formannskosningu í Framsóknarflokknum og margir segja ekki annað en að þeir styðji þann sem kosinn er:

Í formannskjöri gefum engin grið
en gröfum axir, hundi fögnum vér,
og það góða prinsipp stoltir stöndum við
að styðja alltaf það sem kosið er.

11.09.16

Konur biðu afhroð víða í prófkjörum hjá íhaldinu, m.a. ráðherra ferðamála og formaður allsherjarnefndar:

Kjósendurnir konum hafna,
hvernig má það vera?
Ranka Elín ætti að dafna,
ekkert búin að gera
(afcr).

Unni heldur betur brá
er birtist niðurstaðan.
Að henni er eftirsjá,
þó Ási „bæti“ skaðann.

Fleri konur sátu í súpunni eftir prófkjör:

Kosningu ekki Kjerúlf fær,
en á kreppu setur fingur:
Á Alþingi, hið næsta, nær
ei nokkur Vestfirðingur!

Afgamlir karlar halda sínu:

Össur sætið að vana ver,
vaki margra spurninga.
Hve marga ennþá eigum vér
ævagamla smurninga?

Árni Páll sagðist eftir sigur í prófkjöri stefna að fylgisaukningu og þriðja þingmanninum í SV-kjördæmi:

Vegsemdar er vegur háll,
hver vargur þarf sitt æti.
Fylgið yki Árni Páll
ef hann bara gæti.

12.09.16

Formaður Framsóknarflokksins kvað einingu ríkja innan flokksins. Þá bárust Sigurði Inga áskoranir úr hverju landshorni að bjóða sig fram í formannskosningu:

Óumdeildur, æðsti guð
Íslands, leiddi flokkinn.
Er nú komið eitthvert suð,
annað hljóð í strokkinn?

Einhver hluti framsóknarmanna er vaknaður eða að vakna úr álögum. Margir eru þó enn ósjálfbjarga í huliðshjúp. Og mér fannst illa gert af fráfarandi umhverfisráðherra að spyrða saman í eitt formann sinn og varaformann. Þar er himinn og haf á milli:

Panama-dýrlingur veraldlegs vanda,
víst ertu dáður enn.
Manngildi fórnað þeim Herra til handa,
himneskur verður senn.
Krossfestur, eltur til annarra landa,
eins og Jesús ‘i den’.
Uppúr flokksins stórmenni standa,
„stórkostlegir menn“.

17.09.16

Stinga má höfði í stein,
stilla þar fókus og brain.
Sjá laftunguhunda
lúpast að Munda
og bítast um Panamabein.

18.09.16

Sigm. Davíð fékk yfirburðakosningu í 1. sæti framboðslista Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi á kjördæmisþingi sem haldið var í Mývatnssveit:

Bjuggu þar fyrrum fyrirmyndir
sem fórnuðu öllu gegn stíflum.
Ráða þeim sveitum nú siðferðisblindir?
Safn af taglhnýttum fíflum?

Tilefnið er prófkjör undanfarið og formannsdraumar:

Til eru fræ sem fengu þennan dóm
að falla í kjöri’ og verða’ ei þingmannsblóm.
Eins eru þeir sem þreyta formannsslag
án þess að hafa í það rödd og lag.

21.09.16

Veðurlýsingar:

Ekki má við öllu sjá,
er í dái sólin?
Svæla grá nú sækir á,
sælu- þrái skjólin.

Veðrin finn um vanga minn,
votan stinningskalda.
Ef fljótt ei linnir ætla inn,
eg vil sinni halda.

22.09.16

Ástandslýsing:

Ansi brátt mér aftur fer,
við elli sáttur glími.
Klukkan átta, komið er
kvöld og háttatími.

Fæ mér kríu, floppa mat,
flæðir hlýja um kroppinn.
Klukkan níu á koppnum sat,
klukkan tíu sloppinn.

Nú er ég léttur í lund
á leiðinni suður, á Grund.
Með mér það ber,
að mín núna er
ævi á elleftu stund.

23.09.16

Rigningartíð:

Lætur eftir um það bil
yfirfulla svelgina.
Á að lygna og létta til,
líklegast um helgina.

24.09.16

Pólitíkin er með miklum ódæmum:

Bráðum fellur flatt á svell,
flónskubrelluklíka.
Lygavella skýrir skell,
skæð er dellan líka.

25.09.16

Formaður Sjálfstæðisflokksins er kominn í drengjakórinn, enda stutt í kosningar:

Heyrðum barbabrellu
Bjarna hjá í fréttum,
dæmalausa dellu,
dyn sem jarm í réttum.

27.09.16

Sami maður tjáir sig í sjónvarpi:

Ælan kemur upp í háls
ef á þarf Bjarna hlýða.
Hann með klofna tungu táls,
talar fagurt víða.

Það er fallegt veðrið í dag:

Fáum sól- og heiðríkt haust,
heima skjól á pöllum.
Hauður kól, með hása raust
og hvítan kjól á fjöllum.

Strýkur gjóla hönd um hól,
hæg í skjóli liggur.
Þar í bóli, klædd úr kjól,
kossa sólar þiggur.

02.10.16

Framsóknarflokkurinn kallaði til þings til að kjósa nýja forystu:

Það er ekki þrautalaust
þing að halda flokka.
Svikabrigsl og tapað traust
tæpast fylgið lokka.

05.10.16

Staddur í Finnlandi á fangelsismenntunarráðstefnu:

Fyrir dregin tímans tjöld,
tími sig að bæla.
Nú er semsagt niðdimmt kvöld,
nætur bíður sæla.

Finnska haustið kælir kinn
er kvölda og dimma tekur.
Kátur sofna, því máttinn minn
morgunsólin vekur.

Sigmundur Davíð fullyrðir að flokksþing Framsóknar hafi fyllst af framandi Framsóknarmönnum, sem hafi reynst vera kínverskir ferðamenn.

Kínverjum margt um kennum við enn,
svosem kolefnismengandi hulu.
En er’ ekki framandi framsóknarmenn
bara fjöður af hænunni gulu?

07.10.16

Iðulega ærir mig
andans kraft að virkja
en inn á milli sjálfar sig
svona vísur yrkja.

Skylt er að ferðast og skoða heiminn,
skemmtilegt þykir mér flest.
Auðnist mér komast allan um geiminn
alltaf þó heima er best.

11.10.16

Mína heimabagga bind,
belti svörtu meður.
Þegar mér í verkin vind
er víst að eitthvað skeður!

Allt í skyndi eignast vil,
af önuglyndi státa.
Ef með fyndi öðrum til,
ætli myndi gráta?

Alltaf gefa öðrum vil,
anda hef því státinn,
svo, án efa, brúa bil
og bitran sefa grátinn.

Minningar frá Róm, fyrir þremur árum, birtust á Fjasbók í formi myndar af undirrituðum:

Skoða mátti margt í Róm,
menning draup af stráum
sem hrærði þennan hrekkjalóm,
hárum sviptan gráum.

12.10.16

Um þá væsir utangarðs,
ákaft blæs á glugga.
Við svíun dæsi sófabarðs,
sig er næs að hugga.

16.10.16

Helgarferð til höfuðborgar Katalóníu, dagur 4. Útsýnið í dag:

Yfir lækinn leitar þrátt,
lítt’ þér, maður, nær!
Sérstaklega ef þú átt
íðilfagrar tær.

Miður hress að morgni dags,
um miðjan daginn lúinn.
Um kaffileytið kvarta strax,
um kvöldmat alveg búinn.

18.10.16

Lesist lárétt og lóðrétt í bragliðum:

Morgungleðin gefur sælu,
gleðin veitir sálarfriðinn,
gefur sálarsómann þráða,
sælufriðinn þráða, löngum.

Formaður Sjálfstæðisflokksins setur upp fermingarsvipinn í fjölmiðlum er hann kemur úr skúmaskotum:

Kann að stunda ljótan leik,
loforð hundafóður,
svo á fundum, í svörtum reyk,
segist undurgóður.

Borgun styrkti Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflpkkinn um 250.000, enda fengu Engeyingar að kaupa fyrirtækið af ríkinu á gjafaprís:

Gott ef vini áttu að,
í öldum dagsins ströngum,
sem passa’ að lítið úr lófa blað
lendi ei hjá röngum.

19.10.16

Magnús Halldórsson sagði að Davíð Oddsson hefði verið eins til augnanna og hundur nýkominn af sjálfdauðu hræi, á myndum sem birtar voru af honum í sjónvarpi frá aðdraganda hrunsins:

Fláræðið er fengilegt,
flökta sjónir víða.
Davíð lýgur, það er þekkt,
en það má ekki líða.

26.10.16

Í augnablik nú upp er stytt,
einnig hægur vindur,
fer ég því í fletið mitt,
fúll og önuglyndur.

Kári sparar kúlurnar
og kaldan byssustinginn
svo ég blæs út blöðrurnar
og brosi allan hringinn.

Karlakvöld Karlakórs Hreppamanna er framundan:

Eru af borði borin köld
blessuð lömbin?
Mætum þá á karlakvöld,
kýld er vömbin.

Er heima liðin ölsins öld,
ekkert gaman?
Mætum þá á karlakvöld,
kneifum saman.

Í hring um gleðihrókafjöld
hrossaketið.
Skemmtun góð er karlakvöld:
kyrjað, etið.

Hófleg þarf að greiða gjöld,
gamla leppa,
föstudags á karlakvöld
kórsins Hreppa.

27.10.16

Kosningabaráttan einkenndist mest af auglýsingum í fjölmiðlum, og níði á samfélagsmiðlum:

Endalaust er auglýsingaflóð,
innihaldið bara skammlíf froða.
Óskaplega bágt á þessi þjóð
að þurfa’ að hlusta’ á svona lygahroða.

29.10.16

Kosningadagur í dag:

Öðruvísi mér áður brá.
Nú ekki reyndist valið létt.
En alltaf stóla á það má
að ég hafi kosið rétt.

Og þegar tölur fóru að birtast í kosningasjónvarpinu:

Erum bæði, við konan, hvekkt,
svo kvöldið verður langt,
því mjög finnst okkur merkilegt
hve margir kjósa rangt!

Það er aumt ef verður á Íslandi kyrr
þessi óstjórn. Helsta var fréttin
að færri núna en nokkurt sinn fyrr
nýta kosningaréttinn!

En þá að veðrinu:

Vetur líður, vitum að
vorið kemur aftur.
Vosbúð, myrkur – velur það
varla nokkur kjaftur.

09.11.16

Kosið er víða um heim, m.a. til Alþingis á Íslandi og í forsetastól Bandaríkjanna:

Nýja tíma viljum vér,
veröld betri skapa.
Víða um heiminn virðist mér
vonin núna hrapa.

Trump var kosinn með minnihluta atkvæða:

Til að vinna sigur sætan,
og sýna örbirgð platfræða,
hljóta verður, mjög svo mætan,
minnihluta atkvæða.

11.11.16

Með haustlægðir sogast að sunnan um heim,
þú svartvængjuð geðvonskubryðja,
í rembingi, öskrandi öllum að þeim
sem Ísland nú byggja, og niðja.
Síausandi hlandi, svo lággeng og leim
að lengi mun hörmuð sú iðja.
Sko, lúskrastu burtu, já, langt út í geim
og láttu mig oftar ei biðja.

12.11.16

Vetur kemur ekki enn,
á mér lemur regnið.
Betur hemur sál sig senn,
sólar nemur megnið.

13.11.16

Það er margt sem þokan veit,
þröngt og svart er gilið.
Innra skart og unaðsreit
annar vart fær skilið.

Gegn heimsósóma herör sker,
hér svo tímann vel nýti
fyrst vill kanna hvort ei er
kristilegt í helvíti.

14.11.16

Af stjórnarmyndunarviðræðum:

Von er nú til viðreisnar
voru spillta landi.
Hin bjarta framtíð bíður þar
í bláu handabandi.

Er Bensi vel úr garði gerður?
gott er ei um slíkt að spá
en eitt er klárt – að alltaf verður
ákaflega, höndin, blá.

15.11.16

Loks sást snjór, eftir langvarandi rigningartíð, og stórhríð norður í landi:

Stöðugt regn ei líkar lýð,
en loks er kominn vetur.
Myrkur bakki og manndrápshríð
mörgum geðjast betur.

Bjarni Ben. kvartar yfir því að aðrir séu ósveigjanlegir í stjórnarmyndunarviðræðum:

Bjarni vill ei biskupsfórn,
né beygja krókinn,
svo að náist starfhæf stjórn.
Staðan flókin.

17.11.16

Dagur íslenskrar tungu var í gær, og kórinn söng suður í Hafnarfirði með Kvennakór Hafnarfjarðar:

Hátíð, glaumur og gaman!
Gladdist hópurinn saman!
Allir þar sungu
á íslenskri tungu
og enginn var fúll í framan!

18.11.16

Bjarni Ben. gafst upp og Katrín fékk umboðið:

Gerði Bjarni’ upp á bak
eftir bölvað vandræða skak
en hvað með Katrínu Jak.
á hverjum hefur ‘ún tak?

21.11.16

Með hálsbólgu og höfuðverk,
horstraumsflóð úr nefi,
sýklaskít í kinn og kverk,
kjaftfullur af slefi.

Sonnetta:

Þú Vetur ríkir, eftir vota tíð,
á vanga blíður hér á Suðurlandi,
bjartur, stilltur, allt í góðu standi
en stríður norðanlands, með kóf og hríð.

Samgöngur með flugi fara’ í steik,
fyrir vestan margir hanga tepptir.
Þó rjúpnaskyttu úr freðnum faðmi slepptir
ei farsælt er að bjóða þér í leik

því útlitsfagrar leikjaþrautir þínar,
þekkja margir vel á eigin skinni;
þeim öllum stjórnar kuldalegur kraftur

með kolamyrkar, opnar skemmur sínar
og gott er því að geyma sér í minni
að sú gula rís, og vorið kemur aftur.

En snúum okkur að -flensunni:

Að liggja sjúkur ekki virðist verra
þó von um góða heilsu sé að þverra.
Mjög nú þarf ég magavöðva sperra
því mikið svakalega verð að hnerra.

-veðrinu:

Vetrarmjallar mikla höll
meður hjalla fríða,
bratta stalla, undrin öll
Ingólfsfjallið prýða.

-konunni:

Allar sorgir alheims ber,
óráðs borga slaginn,
ef á torgum, einn með þér,
fæ allan morgundaginn.

-og fréttunum. Rjúpnaskyttu var leitað í tvo sólarhringa á Fljótsdalshéraði, og hún fannst heil á húfi:

Ennþá margir fara’ á fjöll,
fullhugar, með hlátrasköll,
gana út um víðan völl,
þau viskutröll,
vanbúin, í veður öll.

25.11.16

Ekki gat Katrín myndað stjórn frekar en Bjarni Ben.

Nú á taugum næstum fer
nýkjörin þingmannasveit
því að niður njörvuð er
nánast á byrjunarreit.

Enginn friður var í fjölmiðlum vegna einhvers sem kallað var „black friday“:

Föstudagur til fjár
fannst mér hljóma mun skár.
Vor ævitíð liðin
með íslenska kliðinn.
Dagurinn svartur – og sár.

27.11.16

Eftir hlýja aftanskúr
enn á ný má bóka
að sólarglýja greiðir úr
gullnum skýjaflóka.

Núna heiður himinn er,
hár og breiður, meðan
allar leiðir opnar mér
og andann seiðir héðan.

Sólin vekur sinnismátt,
síðu þekur tjöldin.
Að því rekur reyndar brátt
að rökkrið tekur völdin.

Lesandi hafði á orði við ofangreinda vísu að „dýrt væri ort“.

Dæmalaust nú dýrt er ort,
dillar raust af gorti.
Get, í flaustri, skýrt hér skort
ef skellur hlaust af sporti.

28.11.16

Maður kvartar ekki oft,
augun skarta bliki.
Glaður svarta lífsins loft
lít, og bjartur þyki.

29.11.16

Eigandi Brúneggja var óforskammaður í sjónvarpsviðtali:

Bóndans réttu ráðin við
rekstri snúnum:
Skallagríms að skondnum sið,
skí/ýtur brúnum.

30.11.16

Í kjölfar „Brúneggjamálsins“ beindist gagnrýni að Matvælastofnun fyrir slælegt eftirlit. Halldór teiknaði í Fréttablaðið um eftirlitsiðnaðinn, sem íhaldið vill skera burt. Gildir þá einu hvort er matvælaframleiðsla, fjármálakerfi, ferðamannaiðnaður, velferð eða vinnumarkaður:

Í sólþurrki jörð getur sviðnað
og sérpökkuð frostvara þiðnað.
Lofa skal frelsið,
losum því helsið
og skerum burt eftirlitsiðnað.

Framsóknarskötuhjúin gera það ekki endasleppt í fjölmiðlum:

Marga gerir Gunnar bragi
úr gljúpum, pólitískum leir
og engin von sér Vigdís hagi,
varla nokkur þolir meir.

1.12.16

Nokkrir glotta núna við,
net í plottin riðið.
Væri gott að gera’ að sið
að gæðavotta liðið?

3.12.16

Þó lækki enn á lofti sól,
þá lengjast búrvökurnar.
Daga og nætur mig reka á ról
rúsínukökurnar.

5.12.16

Hæstaréttardómari varð uppvís að því að vera stórtækur á hlutabréfamarkaði með arf sem honum tæmdist.

Til andskotans á einu bretti
æða jörð og sól.
Höfum því í Hæstarétti
hlutabréfaskjól.

7.12.16

Mér í æðum ólgar blóð,
andans glæðir bríma.
Vísa, kvæði, limra, ljóð,
líka fæðist ríma.

Ef í sinni sitru finn
sem að rynni héðan,
anda brynni, óðinn spinn,
iða’ í skinni’ á meðan.

Ansi fátt er ósjálfrátt,
engan mátt nú styggja.
Skal og nátta eftir átt,
utan gátta liggja.

Smákökubaksturinn kominn á fullt á heimilinu:

Augun glaðar úrvalstinnur,
æsist vökuglampinn.
Bragð er að þá „barnið“ finnur
í búri kökustampinn.

8.12.16

Um hvað gæti verið þessi vísa?
Vandi er um slíkt að spá.
Mjög er vinsælt veðrinu að lýsa
og vita hvernig stjórna á.

9.12.16

Núna tækni nýti mér.
Núna þankann telgi.
Nú út vísur nokkrar sker.
Nú er að koma helgi.

Degi hallar, desember,
dimmur vetrarprósinn.
Konan brosir, hvít hjá mér
kveikir sálarljósin.

Á Netinu birtist texti úr samræmdu prófi frá Námsmatsstofnun. Ekki var það björguleg þýðing:

Ennþá frá tíma til tíma,
tíminn áfram silast
og hellir sér yfir lág svæði hugans.
Ég bilast.

12.12.16

Furðu milt og frostlaus jörð,
í felum kápan hvíta.
Grænar flatir, flókabörð,
friðsælt um að líta.

Um veruleikann veit ei gerla,
hvort vetrar blómstrar rósin?
Eða sjást í myrkri merla
marglit jólaljósin?

20.12.16

Hvíldarlaust heldur UNICEF áfram, daginn út og inn alla daga, að nauðga íslenskri tungu. Í fullkomnu ósamræmi við tilefnið. Hvers vegna þarf að auglýsa svo göfugan málstað með jafn ömurlegum leirburði? Því það er borðleggjandi að bestu skáld og hagyrðingar landsins myndu með glöðu geði semja eitthvað sómasamlegt – og gefa vinnu sína.

Íslenskt mál í heiðri hef,
hugann gullkorn auðga,
en jólavísur UNICEF
jafnan tungu nauðga.

21.12.16

Sólhvörf bæta sálarhag,
síga brúnir vart,
alveg bit hvað er í dag
ógeðslega bjart!

24.12.16

Jólakveðja 2016 – dróttkveðin:

Stríðs í heimi hrjáðum,

hungursneyðar, leiðum,

er fjöldi enn, sem um aldir,

óttasleginn á flótta.

Eins og Jósef Jesúm

úr jötu tók, um götur

hrakinn, úr landi sem hundur,

svo hlífa mætti lífi.

 

Þennan mæta manninn

myrtu valdsmenn kaldir

sem þelið ekki þoldu

þýða, og hylli lýðsins.

Nú á tímum „nýjum“

neglum á krossa, steglum,

þá sem valdi velgja

vel undir uggum, við stugga.

Augum lítum ætíð

 

Assange þannig og Manning.

Af lífi, og sögulegu,

lærum, vinir kærir.

Aðeins andófslundin

oki lyftir. Tyftir

illan bifur. Hjá öllum

til árs og friðar miði.

 

Hérna blessuð börnin

brosa sem sól um jólin.

Annars staðar þau stuðar

stríð með sprengjuhríðum.

Selja vesturveldi

vopnin. Huga opnum!

Innum oss að þessu:

Eru þau mannverur?

 

31.12.16

Við áramót 2016-2017

Nú árið er liðið í aldanna skaut“

og aldrei það komi til baka

með Icehot, sem Borgun til skyldmenna skaut,

í skjólin þeir auðmagni raka,

og forsætisráðherrann flagsækið naut,

fnæsandi, siðspillt og gaga,

vort Alþingi, hæstvirt, er lægst núna laut,

samt ljóst að af miklu’ er að taka,

því lífeyrisfrumvarp á launþegum braut

sem lítt höfðu unnið til saka.

 

Nýtt ár er í vændum, og útlitið svart,

því afturhaldsstjórn er í pípum

sem gefa mun almenningseigurnar skart

til útvaldra’, í passlegum klípum,

og auðmönnum hleypa á fljúgandi fart,

þessum forhertu, siðlausu týpum,

en sjúklingur! fljóta til feigðar þú þarft

í fenjum með botnlausum dýpum.

Ég játa, mér finnst þetta helvíti hart.

Til heilbrigðra meðala grípum!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *