Ég var að kíkja í nýgerðan kjarasamning FF og FS við Ríkið. Ekki er þar, fremur en vant er, að sjá kennimörk tiltölulega nýs menntamálaráðherra sem lýst hafði yfir bráðri nauðsyn þess að stórbæta kjör kennara. Bjóst svo sem varla neinn við því að nokkur innistæða væri fyrir þeim orðum. En staðfestist svart á hvítu í þessari samningsnefnu.
Það sem mér finnst einna athyglis- og ámælisverðast í þessum samningi eru friðþægingarslumparnir. Sjálfsagt eru þeir áratugagamalt bragð til að koma í veg fyrir sanngjarnar launataxtahækkanir, og sjálfsagt tíðkast þeir í öllum kjarasamningum meira og minna. En það er lýsandi dæmi um langvarandi vesaldóm verkalýðshreyfingarinnar að láta vinnuveitendur komast upp með þetta.
Í 2. og 3. gr. FF/FS samningsins, sem gildir frá 1.11.2017 til 31.03.2019, eða í 17 mánuði, er getið um 4,21% hækkun á launataxta í tveimur skrefum, hvorki meira né minna! Þar eru svo tilteknir sérstakir „slumpar“; tvær „eingreiðslur“ og þrisvar sinnum er borguð uppbót; 2X „persónuuppbót“ og 1X „orlofsuppbót“.
Allir vita hvað felst í orðinu „uppbót“; að bæta upp það sem ekki er ásættanlegt.
Hugarfarið að baki þessu er að allir geri sér ljósa grein fyrir því, líka samninganefnd kennara, að kennarar eigi að vera launalegur undirmálslýður, og það skuli viðurkennt og staðfest með því að slumpa í þá „uppbót“ hér og „uppbót“ þar. Þeir skuli sætta sig við óásættanlega launataxta með því að tína upp í sig þessa brauðmola.
En þetta eiga kennarar auðvitað ekki að láta yfir sig ganga, fremur en annað launafólk. Það á að hafna þeirri niðurlægingu sem felst í „uppbótum“, þurrka þær út úr öllum kjarasamningum en heimta þess í stað hækkun á launatöxtum.
Annað sem er að frétta af kjarasamningi þessum eru margar blaðsíður af sk. „bókunum“. Allir vita af langri reynslu að bókanir með kjarasamningum hafa sjaldnast nokkurt gildi. Nema hugsanlega skemmtigildi, eins og meðfylgjandi tilvitnun í „Bókun 1“ sýnir og sannar:
„Samningsaðilar eru sammála um að leita eftir samstarfi við þá aðila sem undirrituðu þann 24. október 2000, samkomulag um tiltekin réttindi starfsmanna, þar á meðal vegna veikinda og slysa. Náist samkomulag um slíkt samstarf skal komið á fót nefnd sem falið verður að endurskoða í heild kafla 12 í kjarasamningum aðila …“ (Leturbreyting mín)
Þennan samning kolfellum við auðvitað.