Ættfræði: Um Jóelsætt, 1. þáttur

Það sem einna skemmtilegast er að ræða við elskulega móður mína, þessi síðustu misserin, er ættfræði – og „gamlir tímar“. Þar er hún enn oftast á heimavelli, þó einstaka leikur fari fram á útivelli. Ég dró því fram 1. bindi Jóelsættar, gruflaði nokkuð í því og tók síðan bókina með mér í heimsókn fyrr í dag. Við mæðginin sátum svo drjúga stund, meðan regnið buldi á glerinu, og reyndum að glöggva okkur á fólki – okkar fólki.

Jóelsætt er rakin frá Jóel Bergþórssyni og Sigríði Guðmundsdóttur. Jóel var fæddur 1759 í Hrísakoti í Þverárhreppi, Vestur-Húnavatnssýslu en lést 1829 í Efri-Lækjardal sömu sýslu „af aldurdóms veikleika 70 ára“. Sigríður var fædd 1772 en ættuð úr Skagafirði, frá Saurbæ í Kolbeinsdal. Hún lést 1866, þá búsett hjá dóttur sinn á Illugastöðum á Vatnsnesi. Jóel og Sigríður giftu sig 1796 og voru lengst af bændur í Efri-Lækjardal, eða frá 1799. Þar fæddist þeim fjórða barnið árið 1780 en þrjú þau fyrstu á Höskuldsstöðum, Þverá og í Skrapatungu. Fjögur börn á fimm árum, takk fyrir.

Þau hjón eignuðust 13 börn, á árunum 1795 til 1817. Guðmundur var elstur en dó í svefni á 27. aldursári 1822. Jón fæddist 1797 en var fóstraður á Höskuldsstöðum, þar sem Guðmundur bróðir hans fæddist. Hann var vinnumaður á Breiðavaði í Engihlíðarhreppi 1816 en drukknaði í Blöndu ásamt vinnukonunni Kristínu Guðmundsdóttur frá Enni. Elstu bræðurnir tveir voru báðir barnlausir.

Sá þriðji í röðinn var Jóel, fæddur 1799 í Skrapatungu í Laxárdal en dó 1863 „úr taksótt og brjóstveiki.“ Næstur kom Bergþór, fæddur 1800 í Efri Lækjardal, dáinn 1888, þá Auðbjörg fædd 1801, Benedikt 1805, Sigurlaug 1807, Guðmundur 1808, Guðlaugur 1809, Rósa 1813, Sölvi 1814, Guðrún 1816 og Hólmfríður var yngst, fædd 1817.

Ég er sem sagt kominn af Bergþóri Jóelssyni, en hann er langa-, langa-, langaafi minn, fæddur aldamótaárið 1800 eins og getið var.

En áður en ég sný mér að þeim legg ættarinnar má geta þess að frændfólk mitt og afkomendur Skrapatungu-Jóels, þess er dó úr „taksótt og brjóstveiki“ 64 ára gamall, eru systkinin Finnur Torfi, Snjólaug Guðrún, Gunnlaugur Stefán, Guðmundur Árni og Ásgeir Gunnar. Þau eru börn Stefáns Sigurðar, bæjarstjóra og alþingismanns í Hafnarfirði, sonar Gunnlaugs Stefáns Stefánssonar bakara og kaupmanns í Hafnarfirði, sonar Stefáns Sigurðssonar trésmíðameistara í Hafnarfirði, sonar Þorbjargar Jóelsdóttur.

Svo: Jóel Bergþórsson og Sigríður Guðmundsdóttir – Jóel – Þorbjörg – Stefán – Gunnlaugur Stefán – Stefán Sigurður – Guðmundur Árni og systkini.

Í næsta pistli skoða ég ættlegg Bergþórs Jóelssonar, langa-, langa-, langafa míns.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *