Þjóðarmeinin

ÉG HJÓ eftir því í útvarpsfréttunum í gær að haft var eftir Bandaríkjaforseta að Panamaskjölin hefðu flett ofan af miklu þjóðarmeini þar í landi. Hvorki skammaðist ég mín fyrir Bandaríkjaforseta að taka svo til orða, varð orðlaus né datt mér í hug að tala alvarleika málsins niður við eldhúsborðið mitt með því að fleiri ættu nú sitthvað á samviskunni en þeir sem nú eru í sviðsljósinu vegna skúffufélaga í skattaskjólum.

Í Stundinni birtist leiðari þar sem dregið var saman í hnotskurn hvers vegna rétt er að tala um þjóðarmein í þessu samhengi á Íslandi, rétt eins og í Bandaríkjunum og öðrum ríkjum veraldar. Ritstjórinn benti á…

…að „moldríkur minnihluti nýtti sér aðstöðumun sinn til að fá skuldbindingalaus lán, kaupa upp landið, auðlindirnar og fyrirtækin, taka yfir fjölmiðlana og umræðuna, lækka skattgreiðslur, fela slóðina og þegar allt um þraut fá lán sín afskrifuð“…

…að þessi sami minnihlutahópur er áhrifamikill í stjórnmálum, viðskiptum og fjölmiðlum hér á landi…

…að „Panama-skjölin leiddu í ljós að stór hluti efsta lags samfélagsins sótti í að losna við að borga skatta á Íslandi og ná fram leynd um viðskipti sín með því að stofna skúffufélög í frumskógarlöndum“ og hefur því sameiginlega hagsmuni með fyrrnefndum minnihlutahópi…

…að þjóðmálaumræðan á næstu mánuðum muni snúast um að vara við breytingum og að fullvissa íslenskan almenning um að honum stafi ógn af því að einhverjir aðrir en þeir sem stjórna núna taki ákvarðanir um hagsmuni hans…

…að þegar ríkjandi valdhafar hafi verið þátttakendur í því sem fór afvega muni þeir berjast við að réttlæta hið skaðlega…

…að formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna og fjölskyldur þeirra, og eiginkona forsetans, hafi stundað skattaskjólsviðskipti á laun…

…að sitjandi forsætisráðherra hafi réttlætt það að stjórnmálamenn feldu leynilega hagsmuni sína í skattaskjólum, og með því tekið þátt í að grafa undan almennu siðferði…

…að birting lofgreinar um mikilfengleika fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og seðlabankastjóra, í blaðinu sem hann sjálfur ritstýrir, sé birtingarmynd þeirrar foringjadýrkunar sem alið er á til að réttlæta ríkjandi valdhafa….

Ljóst er að sumum finnst allt þetta sem ritstjóri Stundarinnar tínir til (og ég leyfi mér, líkt og Bandaríkjaforseti, að kalla samandregin í hnotskurn ‘helstu mein samfélagsins’) eðlilegt og sjálfsagt í lýðræðissamfélagi og fyrtast jafnvel við gagnrýninni; afneita ættingjum sínum af skömm, verða orðlausir eða normalisera ástandið með því að fullyrða að aðrir séu engu betri en þeir sem opinberaðir hafa verið – sem er vel að merkja algengasta varnarviðbragðið á samfélagsmiðlum.

Ég leyfi mér þó að fullyrða að slík viðbrögð við eðlilegri gagnrýni eru fyrst og fremst „birtingarmynd þeirrar foringjadýrkunar sem alið er á til að réttlæta ríkjandi valdhafa“. Of margt fólk hefur bundið trúss sitt með óleysanlegum rembihnútum á klakk stjórnmálaflokka og -foringja.

Slíkir attaníossar eru að mínu viti á meðal alvarlegustu meinsemda hvers samfélags – og lýðræðisins.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *