Fréttablaðið fjallaði um Landspítalann í hásæti forsíðu sinnar fimmtudaginn 20. nóvember sl. Í fréttinni segir frá því að fækka þyrfti um allt að 100 manns á spítalanum vegna 1,5 milljarðs niðurskurðar á framlögum til hans í fjárlögum.
Þetta er vægast sagt undarleg frétt. Allir ættu að gera sér grein fyrir því nú að fjármagn til Landspítalans er ekki hægt að skera meira niður. Ofan í langvarandi niðurskurð á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst velferðarsviði, kom efnahagshrun með „tæknilegu gjaldþroti“ ríkissjóðs og algeru auraleysi. Heilbrigðisstarfsfólk, allur almenningur, þáverandi ríkisstjórn og stjórnarandstaða sáu að fjársveltið var ekki bara búið að „naga alla fitu og hold af beinum“ heilbrigðiskerfisins heldur farið að skaða það svo alvarlega að raunveruleg hætta steðjar að heilsuvernd þjóðarinnar til langframa.
Ríkisstjórnin sem tók við þrotabúi ríkissjóðs vorið 2009 átti ekki margra kosta völ við útdeilingu fjár til almannaþjónustu, með sannkallaðar drápsklyfjar, 230 milljarða skuldabagga, á bakinu. Hún kepptist við, hvort sem henni líkaði betur eða verr, að greiða niður skuldir skv. áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og náði að létta baggann um 200 milljarða. Í botnfrosnu hagkerfi var það töluvert afrek. En fyrir vikið sat velferðarkerfið á hakanum, svalt eiginlega til óbóta á meðan.
Stjórnarandstaðan, ekki síst Framsóknarflokkurinn, gagnrýndi þessar áherslur í ríkisfjármálum harðlega og sagðist framar öllu öðru vilja standa vörð um heilbrigðiskerfið og grunnþjónustuna.
Nú er Framsóknarflokkurinn kominn í ríkisstjórn. Og formaður fjárlaganefndar, sem áður talaði af mikilli sannfæringu um eflingu heilbrigðiskerfisins og grunnþjónustunnar, opnar nú ekki munninn nema til þess að sannfæra fólk um mikilvægi hallalausra fjárlaga. Annað skipti ekki máli og lítur því á samfélagið eins og einn allsherjar blóðvöll.
Hvað hefur þá breyst? Það er góð spurning. Í svari við henni kæmi m.a. fram að staða ríkissjóðs hefur snarbatnað frá 2009, frost er að þiðna úr jörðu, framkvæmdir fara vaxandi og tekjur aukast. Væri ekki ráð, og í samræmi við fyrri yfirlýsingar núverandi stjórnarflokka, að nýta hluta þeirra aukatekna til að efla skóla og heilsugæslustofnanir? Hefur formaður fjárlaganefndar öllu gleymt?
Margir gætu séð fyrir sér þá „sviðsmynd“ að efnahagsbatinn væri að stórum hluta nýttur til að greiða niður erlendar skuldir, og lækka um leið grátlegan vaxtakostnað, en framlög til heilbrigðis- og menntamála yrðu jafnframt aukin þannig að skömm væri allavega ekki að. Enginn biður víst um sóma þessi misserin.
Á meðan landið rís jafnt og þétt, og Framsóknarflokkurinn er upptekinn við að deila út sprungnum blöðrum úr kosningabaráttunni, leikur Sjálfstæðisflokkurinn lausum hala í heilbrigðis- og skólakerfinu.
Nýjustu fréttir, ofan í læknaverkföll og landflótta heilbrigðisstétta, að segja þurfi upp hundrað manns til viðbótar á Landspítalanum miðað við fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp, er ekki hægt að túlka nema á einn hátt: Flokkurinn ætlar grímulaust að ganga milli bols og höfuðs á hinu opinbera velferðarkerfi til þess að færa svo þjónustuna upp í hendurnar á einkaframtakinu, með tilheyrandi gróðabralli, kostnaði fyrir almenning, bruðli og ringulreið.
Miðað við fjárlög yfirstandandi árs, þar sem ódýrasta heilbrigðisþjónustan var þurrkuð út á bak við tjöldin meðan heilbrigðisráðherra kyrjaði opinberlega sönginn um „að forgangsraða fjármunum til Landspítalans“, og miðað við fyrirliggjandi frumvarp ársins 2015, blasir við alger skortur á heilbrigðri skynsemi í heilbrigðismálum þjóðarinnar.
Vill fólk þetta?