Mér þótti athygli vert að skoski sjálfstæðissinnaformaðurinn sagði í viðtalinu við Boga í sjónvarpinu í fyrradag að mikilvægra fyrirmynda að uppbyggingu nýs og betra skosks samfélags væri að leita til norrænu ríkjanna, m.a. aðferðar Íslands við að setja sér nýja stjórnarskrá. Og þá átti hann ekki við starf núverandi SigurðarLíndalsnefndar.
Það virðist hins vegar hafa farið framhjá honum, á einhvern óskiljanlegan hátt, að komin er aftur til valda á Íslandi ríkisstjórn sem ætlar að forsmá vilja 2/3 hluta kjósenda um nýja stjórnarskrá á grunni þeirrar vinnu og aðferðafræði sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ýtti úr vör: alvöru lýðræði með þjóðfundi, kosningu stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður þess.
Í margháttuðum ólánleika þeirrar ríkisstjórnar, klaufaskapar og vandræðagangs, glóði stjórnarskrármálið skært, eins og gull af eiri. Að þáverandi stjórnarandstöðu skyldi takast að kæfa það með málþófi er bæði til ævarandi skammar fyrir hana og eilífur vitnisburður um lánleysi „vinstristjórnarinnar“, þrátt fyrir fagran ásetning í málinu.
En kannski ætti að upplýsa Skotann um að Íslendingar hafi enn ekki sett sér þá stjórnarskrá sem lagt var upp með að semja fljótlega eftir lýðveldisstofnun 1944, eða í 70 ár.
Skotar gætu þá haft fordæmi Íslendinga í stjórnarskrármálum bæði til varnaðar og fyrirmyndar í senn, þ.e.a.s. kjósi þeir á morgun að stofna sjálfstætt ríki.