Ferðast um landið – í huganum

Í sumar hef ég óvenjulítið ferðast um landið, í hefðbundnum skilningi, hvort sem er vanabundnar ferðir um óbyggðir og öræfi á hestum eða á bíl milli landshluta eftir hinu nútildags kunnugra vegakerfi. Þó átti ég þess kost að ríða með syni mínum og frændfólki um nálægar slóðir hér sunnanlands: frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi, um Laugarvatn, Laugarvatnsvelli, Kringlumýri, Gjábakka, Skógarkots- og Hrauntúnsstíga í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Svartagil, Mosfellsheiði, Jórukleif, Grafning, Kaldárhöfða, Búrfellsdal, Klausturhóla, Björk – og aftur heim að Þóroddsstöðum. Óvíða gefast jafn góðar reiðgötur í jafn fögru umhverfi – og í afburðafélagsskap tekur fátt slíku ferðalagi fram.

En því minna sem orðið hefur úr ferðalögum í almennum skilningi þess orðs, því meira hef ég ferðast landshorna á milli heima í stofu, uppi í rúmi – eða jafnvel í sólbaði suður í Miðjarðarhafi.

Þetta hefur mér auðnast fyrir tilstilli Árbóka Ferðafélags Íslands, sem flestir munu víst nýta sem uppflettirit, en ekki mögnuð fræðirit, spennandi og gefandi bókmenntaverk, allt í senn. En þannig les ég Árbækurnar. Drekk þær í mig eins og flest fólk kriminala og afþreyingarbækur af ýmsu tagi.

Ég byrjaði þegar árbókin 2014 kom inn um lúguna: Skagafjörður austan Vatna, fyrra bindi, frá jökli að Furðuströndum, eftir Pál Sigurðsson. Þetta var tímabær framhaldslestur, því um Skagafjörð vestan Vatna fjallaði bókin 2012. Seinna bindis Austanvatnabókarinnar bíð ég nú þegar með óþreyju. Þessar tvær lesnu Skagafjarðarbækur fjalla um svæði sem ég er allkunnugur af fjölmörgum hestaferðum um Kjöl og niður í Skagafjörð – fjöll, vötn, klungur og dali sem ég hef margoft haft fyrir augunum í allskyns veðri. Því er auðvelt að ferðast um þetta land ljóslifandi í huganum við lesturinn – og veitir mikla fullnægju.

Þegar Skagafjörður var afgreiddur í bili fór ég upp í hillu og sótti Norðausturland Hjörleifs Guttormssonar frá fyrra sumri, sem mér hafði þá ekki gefist kostur að ljúka við vegna anna í hinum áþreifanlegri ferðalögum. Umfjöllunarefni bókarinnar er land sem mér er ókunnugt að mestu leyti, nema í gegn um bílrúðu, og rís skiljanlega ekki jafn lifandi upp af blaðsíðunum. Fjölmargar myndir og kort bæta þó miklu við textann, sem er með hóflegum og fræðilegum blæ höfundarins. 

Nú varð ekki hjá því komist að skella sér í bók Árna Björnssonar frá 2011, Í Dali vestur, sem ég hafði aðeins byrjað að glugga í útgáfuárið, en ekki haft tíma til að sökkva mér í. Það gildir um Dalina eins og Norðausturland að þar um hef ég aldrei riðið og á raunar enn eftir að aka um stóran hluta svæðisins, Fellsströnd og Saurbæinn, aðeins brunað í gegn eftir þjóðveginum, gegnum Búðardal og vestur á Firði. Árni skrifar skemmtilegan stíl og eftir lesturinn hlakka ég til að ráða bót á þessu sem fyrst. 

Húnaþing eystra, frá jöklum til ystu stranda hafði ég alltaf geymt mér, vildi alls ekki hlaupa í þessa bók á hundavaði. Tvær meginástæður eru fyrir því. Annars vegar hef ég riðið þarna um margoft, um Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðar, Blöndudal og Vatnsdal. Hins vegar er móðir mín alin upp í sýslunni, á Þröm í Blöndudal og í Litladal í Sléttárdal. Og nú fór að verða gaman. Bæði var að um hluta landsins hef ég „þvingað slyngan hófahund“ og myndirnar hrönnuðust sjálfkrafa upp við lesturinn og að Jón Torfason, fyrrum kennari minn í Árnagarði, lýsir heimasveitum sínum með persónulegum hætti og af tilfinningu og hikar ekki við að stíga fram og lýsa skoðunum sínum á ýmsu er varðar mannleg inngrip í náttúruna, t.d. af vali vegarstæða, svo eitthvað sé nefnt. Ómögulegt er annað en að hrífast með – sjálfsagt ekki síst af því að ég er innilega sammála skoðunum Jóns í þessu efni.

Nú voru hátt í 1000 blaðsíður af landslags-, landshátta-, menningar-, byggðaþróunar- og búskaparháttalýsingum komnar í hinn andlega sarp – og þykir sjálfsagt flestum nóg um. Handan við hornið var ferðalag suður til Krítar. Kona mín var alltaf að spyrja mig hvaða bók ég ætlaði að taka með til að lesa undir sólhlífinni, og þegar engin svör bárust, hvort ég ætlaði EKKI AÐ TAKA NEINA BÓK með?

Á endanum, daginn fyrir brottför sótti ég Fjallajarðir og Framafrétt Biskupstungna eftir Gísla Sigurðsson frá Úthlíð, og stakk henni niður í tösku. Það reyndist mikið happ, því bókin er gull. Jón Torfason er persónulegur en Gísli tekur honum fram hvað það varðar. Hann er svo nákunnugur öllu svæðinu sem um er fjallað að hann þekkir hverja hundaþúfu, hefur troðið það fótum frá barnæsku, ýmist fótgangandi eða á hesti, í smalamennskum og öðrum bústörfum eða í skemmti- og náttúruupplifunarferðum – auk þess að hafa málað fjölmargar myndir af náttúruperlum svæðisins. Náttúra, menning og saga heimahaganna eru höfundinum svo hjartfólgin að kærleikurinn beinlínis vermir upp bókstafina – og hjarta lesandans. Hann setur hófsamlega ofaní við menn, t.d  fyrir að planta öspum eða sígrænum trjám í náttúrulegt birkikjarrið, rækta skóg í reglustrikureitum og hafa ekki rænu á að varðveita konungsveginn sem bæri. Og svo lofsamar hann af innileik það sem vel hefur verið gert, t.d. við uppgræðslu á þessu viðkvæma svæði. Þó ég hafi farið um mestallt þetta svæði oft og mörgum sinnum eru þar líka staðir mér ó- eða lítt kunnir, t.d. í kringum Hagavatn og hluti Haukadalsheiðar, Fljótsbotnar og stærsti hluti Úthlíðarhrauns, sem gaman var að kynnst svo rækilega í gegnum frásögn Gísla heitins.

Í hitamollunni á Krít, þar sem mistrið byrgði oft verulega sýn til fjalla, fann maður foksandinn úr lýsingum Gísla milli tannanna.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *