Þorkelsvöllur

Í gær, 31.07.14, var formlega vígður nýr keppnisvöllur Hestamannafélagsins Trausta við Stóragil í landi Laugarvatns. Jafnframt var haldin gæðingakeppni félagsins og sérstakt „vígslumót“ í tölti og 100 metra skeiði. Formaður Trausta, Guðmundur Birkir Þorkelsson, lýsti byggingu mannvirkisins og þakkaði þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu félagið dyggilega.

Bjarni bróðir hans fékk það hlutverk að afhjúpa skilti með nafni vallarins, sem stjórn

Skiltið afhjúpað

Skiltið afhjúpað

félagsins hafði samþykkt einróma á fundi skömmu áður. Svo skemmtilega „vildi til“ að vallarvígsluna bar upp á sextugsafmælisdag Bjarna á Þóroddsstöðum. Vígslubiskupinn í Skálholti blessaði síðan völlinn og bað almættið um velfarnað til handa notendum, mönnum og hestum, í leik og keppni. 

Völlur þessi heitir Þorkelsvöllur, til heiðurs minningu Þorkels Bjarnasonar fv. hrossaræktarráðunautar á Laugarvatni, hestamanns og eins aðalhvatamanns að stofnun félagsins – og fyrsta formanns þess.

Hönnuðurinn var mættur

Hönnuðurinn var mættur

Völlinn hannaði Oddur Hermannsson, arkitekt á Selfossi, inn í ólýsanlega náttúrufegurð. 

Hann stendur í birkirjóðri, Laugarvatns- og Snorrastaðafjall gnæfa yfir með sínar kjarri vöxnu hlíðar og hrikalegt Stóragilið sem sker fjöll þessi sundur og greinir að lönd Laugarvatns og Snorrastaða. Margir nemendur á Laugarvatni að fornu og nýju minnast gönguferða upp í Stóragil, ýmist að Trúlofunarhríslu þar sem ástfangin pör skáru upphafsstafi sína í börkinn, eða áhættusams klifurs í hellinn í gilinu, þar sem ýmsir hafa lent í erfiðleikum, jafnvel þurft að þola kalda og langa bið eftir björgun, sumir lemstur.

„Í þeim fagra fjallasal...“

„Í þeim fagra fjallasal…

Undir fjallahlíðunum hálfhring í kring, þar sem Gullkistu ber hæst, blasa við blómleg býli Laugardalsins og gegnt þeim speglar þorpið sig í sjálfu vatninu.

Gullkista gnæfir yfir

Gullkista gnæfir yfir.

 Þó miklu hafi verið áorkað er enn starf óunnið við lokafrágang nánasta umhverfis, s.s. aðstöðu fyrir keppnishross og fólk með fyrirferðarmikla bíla og aftanívagna. Einnig þarf að huga að frágangi slitlags á vellinum, sem á vígslumótinu reyndist of laust í sér og litla spyrnu að hafa til afkasta á gangi fyrir þá afburðagæðinga sem glöddu augu áhorfenda.

Innan félags var keppt í hefðbundnum greinum gæðingakeppni fullorðinna, þ.e. A- og B-flokki gæðinga. Ekki var fjöldi þátttakenda til að draga mótið um of á langinn og til að stytta áhorendum enn frekar biðina var riðið eitt úrslitaprógramm með öllum þátttakendum inni á í einu.  

Keppendur í B-flokki

Keppendur í B-flokki

Í B-flokkinn voru fjórir skráðir til leiks en þrír mættu. Sigurvegari varð Ópera frá Hurðarbaki, eigandi og knapi Halldór Þorbjörnsson í Miðengi en ræktandi Reynir Þór Jónsson. Ópera er dóttir Kráks frá Blesastöðum 1A og Ólínu frá Hábæ.

Í A-flokk gæðinga mættu allir skráðir, fjórir keppendur, og stóð efst Tinna frá Þóroddsstöðum, dóttir Glampa frá

A-flokkur gæðinga

A-flokkur gæðinga. Bjarni næst, þá Sólon Morthens, Halldór Þorbjörnsson og loks Arnór Snæbjörnsson frá Austurey.

Vatnsleysu og Klukku frá Þóroddsstöðum. Ræktandi Tinnu og eigandi er Bjarni Þorkelsson en knapinn Bjarni Bjarnason.

Í opið töltmót bárust fleiri skráningar og keppt í tveimur fjögurra keppenda riðlum, skv. hefðbundnu úrslitaprógrammi, og 5 efstu að lokinni þeirri forkeppni kepptu svo til úrslita. Hér voru mættar, auk heimamanna, stórkanónur hesta og knapa á landsvísu.  

Sigurbjörn og Jarl í flottum takti og jafnvægi

Sigurbjörn og Jarl í flottum takti og jafnvægi

Öruggir sigurvegarar í töltkeppninni urðu Sigurbjörn Bárðarson og Jarl frá Mið-Fossum, margreynt og glæsilegt keppnispar, með fáséna einkunn upp á 9,0. Er ekki ofsögum sagt að Diddi og Jarl hafi hrifið mótsgesti -klárinn með frábæru jafnvægi og takti í öllum hlutum keppninnar og knapinn með faglegri fyrirmyndarreiðmennsku.

Aðrir landsfrægir kappar, Sólon Morthens og Frægur frá Flekkudal, lentu í öðru sæti og Bjarni Bjarnason á hinum efnilega gæðingi móður sinnar, Hnokka frá Þóroddsstöðum, vann sig upp í þriðja sætið í úrslitunum á kostnað fyrrnefndra Halldórs og Óperu. Camilla Petra Sigurðardóttir varð svo fimmta á hryssu úr eigin ræktun.

Fimm efstu í tölti

Fimm efstu í tölti, sigurvegarinn lengst til hægri.

Þá var bara skeiðið eftir. Átta knapar mættu til leiks með 9 hross. Jói Vald. og Jónína Kristins. komu ekki aðeins með tímatökubúnaðinn, heldur einnig fulla kerru af vekringum sem dætur þeirra sáu að mestu um að taka til kostanna.

Sigurvegarar í skeiði. Hera hneigir sig fyrir áhorfendum

Sigurvegarar í skeiði. Hera hneigir sig fyrir áhorfendum.

Stelpurnar leyfðu þó pabba sínum náðarsamlegast að renna einum hesti. Þóroddsstaðabændur létu tækifærið heldur ekki sér úr greipum ganga og mættu með þrjár alræmdar skeiðmerar, þær Blikku, Dís og drottninguna sjálfa, Heru frá Þóroddsstöðum.  

Það kom fáum á óvart að Hera vann þetta örugglega við lipurt taumhald knapa síns, Bjarna Bjarnasonar, á hreint lygilega góðum tíma á lausum velli, sem fyrr var lýst, 7,87 sekúndum. Hera hefur, eins og áhugamönnum er kunnugt, átt frábært keppnistímabil í sumar, setti Íslands- og heimsmet í 250 metra skeiði á Landsmóti hestamanna fyrr í sumar og bætti svo Íslandsmetið enn frekar í sömu grein á nýliðnu Íslandsmóti í hestaíþróttum, auk þess að verja Íslandsmeistaratitil sinn í 100 m. skeiði.

Skeiðdrottningin Hera frá Þóroddsstöðum og skeiðkóngurinn Bjarni Bjarnason

Skeiðdrottningin Hera frá Þóroddsstöðum og skeiðkóngurinn Bjarni Bjarnason.

Það má til sanns vegar færa að mótssvæði Traustamanna sé eitt það fegursta sem um getur hér á landi og þegar framkvæmdum er lokið með nauðsynlegum endurbótum á keppnisvöllum og umhverfisfrágangi, þá má halda þar hvaða mót sem er með sóma.

Veður var hagstætt, sól og norðan gjóla og þegar mótinu lauk á níunda tímanum um kvöldið var sólin rétt nýsigin bak Snorrastaðafjalls. 

Góður reitingur af áhorfendum var mættur, þrátt fyrir langþráða þurrkatíð og miklar heyannir á flestum bæjum. 

Drjúgur hópur úr fjölskyldu Þorkels Bjarnasonar var mættur á svæðið.

Drjúgur hópur úr fjölskyldu Þorkels Bjarnasonar var mættur á svæðið.

Í hléi var gestum, starfsmönnum og keppendum boðið upp á ljúffengar súpur, bæði fiskisúpu og kjötsúpu, auk kaffisopa að vild. 

Þetta var ánægjulegur dagur. Takk fyrir mig.

Ketilvallabóndinn jós súpum á diska gesta. Hér tekur við skammtinum Ari Bergsteinsson frá Laugarvatni, sálfræðingur á Selfossi.

Ketilvallabóndinn jós súpum á diska gesta. Hér tekur við skammtinum Ari Bergsteinsson frá Laugarvatni, sálfræðingur á Selfossi.

 

Birgir Leó og Ragnheiður Bjarnadóttir afhentu verðlaun í gríð og erg.

Birgir Leó og Ragnheiður Bjarnadóttir afhentu verðlaun í gríð og erg.

 

 

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *