Kjarasamningar framhaldsskólakennara runnu út í lok janúar sl. og stéttin er því samningslaus. Samninganefnd ríkisins hefur ekkert að bjóða, og hefur greinilega ekki umboð stjórnvalda til að gera það sem menntamálaráðherra og fleiri stjórnmálamenn hafa sagt opinberlega að þurfi að gera: að hækka laun kennara.
Mikil samstaða ríkir meðal kennaranna og nemendur hafa stutt þá einhuga, m.a. með kröfustöðu á Austurvelli, enda varðar það þá og framtíð þeirra, ekki síður en starfandi kennara, að kennaralaun séu mönnum bjóðandi. Nýliðun í kennarastéttinni hefur verið léleg lengi undanfarið og meðalaldur framhaldsskólakennara er nú kominn í 56 ár. Framhaldsskólanemar munu ekki velja kennaranám þegar þeir sjá að byrjunarlaunin sem nýliðum í kennslu bjóðast eftir 5 ára háskólanám og meistarapróf eru 300.000 krónur. Yngstu kennararnir munu líka flýja skólana. Stór hópur framhaldsskólakennara fer á eftirlaun á næsta áratug. Hverjir eiga að taka við af þeim? Ekki er að sjá að stjórnvöld hafi teljandi áhyggjur af því.
Einstaklingsmiðuð þjónusta, utan sem innan kennslustofunnar
Á síðustu árum hefur orðið mikil breyting í framhaldsskólunum. Nánast allir, eða meira en 95% af hverjum árgangi, halda sem betur fer áfram námi eftir grunnskóla. Ánægjulegt er líka að viðhorfsbreyting hefur orðið gagnvart námserfiðleikum af ýmsu tagi. Vandi hvers einstaklings er greindur af fagmönnum og með því lagður grunnur að aðstoð við hæfi. Um leið hefur kennarastarfið orðið margfalt flóknara, gerðar eru auknar kröfur til kennara með nýjum verkefnum, sérlausnum og einstaklingsmiðaðri þjónustu, utan sem innan kennslustofunnar. Í þessu ljósi er það rétt skref að lengja kennaranámið og endurskoða innihald þess, til að efla kennara framtíðarinnar og gera þeim betur kleift að takast á við aukinn fjölbreytileika og flóknari aðstæður. Flestir telja það vonandi eðlilegt að þessu fylgi aukinn kostnaður: að 5 ára nám sé dýrara en 3ja ára nám og að borga þurfi stétt sem þarf masterspróf til starfsréttinda hærri laun en ef aðeins væri krafist bachelorgráðu. Eða hvað?
Stefnt í þverögfuga átt
Blóðugur niðurskurður í framhaldsskólunum, a.m.k. 12 milljarðar undanfarinn tæpan áratug, hefur þvingað skólana til að fara í þveröfuga átt en augljósast mætti telja að stefnt væri: fjölgað hefur almennt í námshópum og fámennari valáfangar verið skornir, eða kennsla í þeim skert, á sama tíma og aðstæður hrópa á minni hópa og aukna fjölbreytni í námsframboði til að koma betur til móts við ólíkar einstaklingsþarfir. Margir skólanna ramba nefnilega á barmi gjaldþrots. Stofnanasamningar, sem gefa áttu færi á „sveigjanleika“ og launaskriði, eru orðin tóm, því ekkert verður af engu. Laun framhaldsskólakennara hafa hækkað minna en hjá öllum öðrum stéttum hér á landi frá 2006 og eru nú 17% lakari en annarra háskólamenntaðra starfsmanna hjá ríkinu. Verri starfskjör, aukið álag og lélegri laun, fyrir lengri (og vonandi betri) menntun, hafa þegar valdið atgervisflótta, eins og fram hefur komið.
Ekki þarf að fara mörgum orðum um áhrif þessarar sveltistefnu. Þjóðfélag sem í framtíðinni verður að reiða sig æ meir á nýsköpun, hátækni- og þekkingariðnað til að halda uppi viðunandi lífskjörum þarf á vel menntuðu fólki, öflugu skólakerfi og úrvals kennurum að halda. Nemendur sem nú sitja í framhaldsskólunum, og gætu annars hugsað sér að verða kennarar, munu leita annað, mennta sig til starfa sem gefa þeim a.m.k. möguleika á að framfleyta fjölskyldu. Hverjir eiga þá að kenna komandi kynslóðum, sem þjóðin á allt undir að standi fyrir nýsköpun í auknum mæli?
Stytting náms mun auka brottfall
Við þessar aðstæður mætti ætla að frá stjórnvöldum kæmu hugmyndir til endurbóta. En svo er ekki. Helstu tillögurnar þaðan koma frá menntamálaráðherra um „að stytta framhaldsskólann“ og frá sveitarstjórnarstiginu „að láta kennara gera meira af því sem þeir eru bestir í, að kenna“. Ráðherrann fullyrðir að styttingin muni bæta skólastarf. Þar er hann á villigötum. Í fyrsta lagi er framhaldsskólinn meira en bara bóknámsbrautir til stúdentsprófs. Vandinn snýr ekki að þeim sem geta tekið stúdentspróf á þremur árum (margir gera það nú þegar) heldur hinum sem gengur erfiðlega að ljúka því á fjórum árum, af ýmsum ástæðum. Stytting náms mun þess vegna auka brottfall, ekki minnka það. Fleiri af þeim sem glíma við námserfiðleika, eða þurfa að vinna með skóla, munu hætta námi. Athyglinni ætti fremur að beina að eflingu verk-, list- og starfsnáms og hvetja þannig fleiri nemendur til að velja slíkt nám í stað stúdentsbrautanna. Þetta kostar peninga, sem stjórnvöld eru ekki reiðubúin að leggja til.
Fremur ætti að minnka kennsluskylduna en auka hana
Varðandi tilvitnuð orð málsmetandi sveitarstjórnarmanna er það að segja að þau lýsa algeru skilningsleysi á eðli kennarastarfsins og aðstæðum í grunnskólunum. Markmiðið er, eins og með styttingaráformum ráðherrans, að spara peninga. En krafa sveitarfélaganna um meiri kennslu felur um leið í sér skerðingu á tíma kennaranna til undirbúnings og úrvinnslu, foreldrasamskipta, teymisvinnu, samráðs og annarra starfa sem óhjákvæmilega fylgja því að kenna grunnskólabekk. Í „skóla án aðgreiningar“ og við breyttar aðstæður vegna aukins hegðunar- og námsvanda veitir kennurum sannarlega ekki af þeim tíma sem þeir nú hafa til að sinna starfi sínu af fagmennsku og metnaði, og fremur ætti að minnka kennsluskylduna en auka hana, ef mönnum er alvara með því að mikilvægt sé að bæta skólastarf og að sinna hverjum nemanda betur á eigin forsendum.
Kennarar hafa engan áhuga á verkföllum og krefjast engra ofurlauna, aðeins sanngjarnrar leiðréttingar út frá eðlilegum samanburði við opinbera starfsmenn með sambærilega menntun. Kjarabarátta þeirra varðar ekki bara starfandi kennara og launaseðil þeirra, heldur ekki síður komandi kynslóðir sem munu þurfa sífellt betri menntun til að sinna framtíðarstörfum sem gefa þjóðinni færi á að standast alþjóðlega samkeppni um framleiðni og lífskjör. Slík úrvalsmenntun verður ekki í boði án góðra kennara. Fáir nemendur, og engir afbragðsnemar, munu velja kennaranám við núverandi aðstæður. Það er mikið áhyggjuefni.
Greinin birtist í héraðsblaðinu Selfoss – Suðurland, 27. febrúar 2014