Heimi forðum hinstu speki Hávi kvað:
Ef rekur menn á rangan stað
reynist best að hjálpast að.
Ofurgræðgi einkavegi út af fór.
Enginn syngur einn í kór.
Með öðrum verður maður stór.
…
Vinarþel er fundið fé
sem forðar oss frá grandi.
Óskum þess að ætíð sé
allt í góðu standi.
Gefðu þjáðum þelið hlýtt,
þerra sárastrauma
og þá lifir upp á nýtt
alla þína drauma.
…
Ef reynist þungur raunakross
að rata veginn sinn,
þá kærleikur, að kenna oss,
kemur sterkur inn.
Á berum orðum, sem bjarta höll,
byggjum okkar hug.
En baktalsvammið! Veljum öll
að vísa því á bug.
…
Heyrist sagt að sækist enn
sér um líkir.
Þar sem ganga góðir menn
gleðin ríkir.
Jafnt á árið jöfnum út
jólasiðinn:
Argan leysa innri hnút
og elska friðinn.
…
Er gæfan horfin, grafin virðing, gleðin köfnuð?
Hvar sem tekst að tvístra söfnuð
tryggjum mannúð, frelsi, jöfnuð.
Ef að bara endurnýtum ástarvöttin,
upp þá lýsum allan hnöttinn
og enginn fer í jólaköttinn.