Úr dagbókinni 2024

 

Meðfylgjandi eru lausavísur ársins 2024, og fáein hefðbundin kvæði. Alls telst mér til að þetta séu ein 330 erindi. Hér er sama komið heildarsafn, alveg óritskoðað, samkvæmt venju hér á heimasíðunni minni, allt frá útkomu bókarinnar Úr dagbókinni árið 2006.

 

01.01.24

 

Nýja árið opna ég
með einni vísu
sem er alveg ömurleg
og ort í krísu.

 

02.01.24

Nýársræðutíðindi. Guðni tilkynnti að hann myndi ekki bjóða sig fram aftur:

 

Margir til metorða kallaðir.

Nú margur víða sjást fór. 

Þó bjóði sig bara fram gallaðir

í bakhönd við höfum þó Ástþór.

 

07.01.24

 

Er lokast göng að liðnu ári

lífið opnar nýjar dyr,

eins og spegil gola gári,

gefi mér í seglin byr.

 

Göngutúr í þjóðgarðinum, að Hrauntúni.

 

Þæfingsfærð, en allt að einu

ekkert núna mér á hrín.

Fylli lungun lofti hreinu,

landið ber fram gullin sín.

 

14.01.24

Birti mynd af „fjallinu mínu“, Laugarvatnsfjalli, út um nýja stofugluggann og Baldur Þorleifsson taldi það tilefni fyrir vísu:

 

Siginaxla, ennisbratt,

efri brúnir skarpar.

Bergmál ómar æskuglatt

sem yfir fjallið varpar.

 

15.01.24

 

Gjarnt er körlum geip og þras,

gengur það að vonum.

Löngum með það lágt, í gras,

þeir lúta fyrir konum.

 

Fréttir úr Danaveldi. Prinsinn kemst að. Þó ekki Hamlet:

 

Til hlés, að lokum, drottningin sig dró

og Danaprins í stólinn kátur settist.

Brátt sextugur, ei fengið nærri nóg,

um nauðsynlegan undirbúning glettist.

 

16.01.24

Færeyingar vöktu athygli fyrir vasklega framgöngu á Evrópumóti karla í handbolta:

 

Nú mun ljóst að er á enda

ævintýrið, og það með glans,

frænda vorra, Færeyinga.

Heima munu horskir lenda,

hylltir vel í þéttum fans,

og úr nokkrum staupum stinga.

 

Veðrið

 

Nú er best í næði lúti,

nú á engan skárri kost.

Nú er bjart en napurt úti,

nú er tíu stiga frost.

 

Tilvistarvísa

 

Á lífi engan fáum frest,

framtíð stöðugt mætir oss,

bagga okkar, í beinni lest,

berum eins og reiðingshross.

 

Ríkisstjórnareyminginn

 

Líkt og nár um landsstjórn arki,

við lendar beri haus.

Þessa heims að minnsta marki,

meðvitundarlaus.

 

22.01.24

Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti þeirri skoðun að mótmæli palestínskra flóttamanna á Austurvelli væri „hörmung“ – á þeim „helga stað“:

 

Hörmung

 

Hver keyrir allt í þúsundmilljónþrot

og þvælist spilltur út í fen?

 

Það er Bjarni Ben.

 

Hver laumar sér í aflandsskúmaskot

með skildinginn í dren?

 

Það er Bjarni Ben.

 

Hver stundar hrokapopúlismapot,

pabba sínum reddar eins og skot

og liggur á ríkis lausmjólkandi spen-

a?

 

Það er hann Bjarni,

það er hann Bjarni Ben.

 

23.01.24

Formaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði á Fjasbók pistil þar sem kvað við nokkuð nýjan tón frá forystu flokksins, þó búrtíkurnar hafi lengi haldið uppi sama gjamminu: að herða beri afstöðu Íslands, og lög, gegn flóttafólki. Hann var sakaður um popúlisma, að dorga í gruggugu vatni, eftir rasískum atkvæðum, vegna himinhrópandi fylgistaps flokksins í skoðanakönnunum:

 

Í ásökun sér ei eitt sannleiksgramm,

þó svíðingar þar um dylgi:

Tilgangur skrifa var, tók hann fram,

að tapa meira fylgi.

 

25.01.24

Eftir úrhellisáhlaup skall aftur á ofankoma og bylur:

 

Til hvers er snjó að taka upp

með tölverðum rigningarhvelli

ef mörsugur kveður með kvalalurk,

kafaldsbyljum og felli?

 

Tilvistarvísa:

 

Ætti ég gimstein og gull,

glóandi kerin full,

þá væri gaman!

Verð nú fölur í framan!

Ég fékk gefins allt saman.

Fyrri hlutinn því bévítans bull!

 

26.01.24

Hin eilífa glíma:

 

Með erfiðleikum úr mér spjó

aumu vísutetri.

Eflaust teldist ágæt þó,

ef hún væri betri.

 

Eigið skott er ei til neins

að elta, með glotti slöku.

Samt væri gott að yrkja eins

og eina flotta stöku.

 

Bóndadagsins blessun

 

Bóndadagsins blessa sið,

bjór þá fæ í krús,

daglangt stjan og strokuið,

stöppu svið og mús.

 

Getið var þess í fjölmiðlum að Sigmundur Már Herbertsson myndi ná þeim áfanga um kvöldið að dæma 800. leikinn í efstu deild karla í körfubolta, aðeins annar einstaklingurinn sem nær því í sögunni:

 

Magnaður meistari er’ann,

mikið af flestum ber’ann,

innsæið djúpt,

dagfarið ljúft,

með lofi frá leikjunum fer’ann.

 

Þjóðin hefur löngum þurft að glíma við óblíð náttúruöflin, sem m.a. lýsir sér í máltækinu „að þreyja þorrann og góuna“:

 

Þörf er á að þreyja meir

þjóðarsálu vorri.

Saman með það möndla þeir

mörsugur og þorri.

 

29.01.24

Í framhaldi af síðustu vísu, frá í gær:

 

Venst ei lýður vetrartíð,

varla líður tíminn.

Ofan skríður fjöllin fríð,

foldu skrýðir glímin.

 

30.01.24

Tilvistarvísa til mannkynsins:

 

Nú mega lófarnir lykjast

um lífsblómið, vernda það.

Ekkert þýðir að þykjast

því allir vitað að

fals á ei felustað.

 

31.01.24

 

Ef að sannleiks-, berð á borð,

-blekið innan sviga

þá er skýrslan skorinorð

skrifuð af merði lyga.

 

 

Ef ráðherra „hendir“ að renna

á rassinn. Og skinn fer að brenna

af drullu í brók,

öll dómgreindin djók,

þá ‘erða’ þinginu’ að kenna.

 

 

Þó snjófergið birtuna beri,

bylurinn fari og veri,

stillist og hvessi,

er staðalmynd þessi:

Íshröngl á gluggagleri.

 

01.02.24

Hilmir Ragnarsson, afstrákur, á afmæli í dag:

 

„Lítill drengur, ljós og fagur“,

lífið faðmar, hvergi svagur.

Fögnum, syngjum lag:

„Hann er 5 ára’ í dag“!

Blessaður sé Hilmis hagur.

 

 

Ég er metinn mesta flón

en mér er alveg sama,

umdeildur er allt um Frón

en alveg er mér sama,

sjálfumglaður þeim sendi tón

sem mér valda ama.

Èg er sannur ‘séra Jón’

með silfurskeiðarframa.

 

 

Fyrr var úti aflandssveinn,

eitthvað þar að vaga.

Í sófanum nú situr einn,

saknar Klausturdaga

og tæpast finnur tilgang neinn,

trúður á þingi laga.

Þverar veg, sem þungur steinn,

en það er önnur saga.

 

06.02.24

 

Vitin fylla veðrabál,

vangi ill að syrta.

Veröld gyllir, vekur sál,

vetrarstillubirta.

 

 

Ef mig villir ys og tál,

ei hið grilli sanna,

ekki spillir mælskumál

margra snillinganna.

 

..

 

Víst er gott að eiga að

einhvern vott af skyni.

Þann minn pott og pönnu bað

að pilla brott óvini.

 

 

Hefur bruggað súran seyð,

sífellt steytt á skeri.

Héðan finni flóttaleið,

fari hann og veri.

 

08.02.24

„Íslenskar konur sóttu fjölskyldu frá Gasa: „Drengirnir voru þreyttir og sögðu lítið“ (visir.is, 6. febrúar 2024):

 

Um „heildarmynd“ við mannskaðana má ei fjasa!

Konum virðist beint við blasa

að börnin komist strax frá Gasa!

 

Okkar konur endalaust nú ekki masa!

Þær hetjur ei um ráð fram rasa,

en ráðherranna jarða frasa.

 

09.02.24

 

Andanum lyfta á æðra stig,

í upphæðum reyna að fara’ á svig

við loforðafrauð

en sem forystusauð

biskupsefnin nú bjóða sig.

 

 

Hins kvalda nauð og kalda gjald

er kúgun alla daga.

Að halda dauðahaldi’ í vald

er heimsins ljóta saga.

 

 

Varla upp úr stólnum stekk

er stýrivaxta- lep -eðjuna.

Í dag, þann 9. febrúar, fékk

fimmta húsið í keðjuna.

 

11.02.24

 

Verðmæt gildi vísan ber

-vonin, mildin, gleðin-.

Þá síður vildi yrkja, „er

æva skyldi kveðin“.

 

13.02.24

„Gáfur eru til lítils gagns ef gæskuna vantar“:

 

Vanmet aldrei áhrif manns,

hann innri kraft fram reiðir.

Vafinn er hvort vilji hans

velji réttar leiðir.

 

 

Skórinn að kaunum

kreppti.

Saltkjöti’ og baunum

sleppti.

Heilsu að launum

hreppti.

 

 

„Uppsagnir á Sóltúni eftir tveggja milljarðaútgreiðslu: „Það er gríðarlega þungbær ákvörðun““ (Heimildin.is, 12. febrúar 2024))

 

Sem rafmagnsstóllinn, stegla og hjól,

já strýking, að segja upp liðinu,

en við fórum með aurinn í skálkaskjól

til að skemmta okkur á sviðinu.

Heima í túni nú sest er sól,

situr skuggi í hliðinu.

 

14.02.24

 

Óljós grunur; ekki hér

er í muna staddur.

Inni funi yljar mér,

úti brunagaddur.

 

 

Enn til valda, mikils magns,

margir seilast fantar.

Til lítils eru gáfur, gagns,

gæsku ef að vantar.

 

 

Margt skal lofa að morgni dags,

um minnis rofar vegi.

Er velt ég ofan er til hags

að vel sofa megi.

 

15.02.24

Í Norðurhjarakoti

 

Fyrr var kalt á Klaka oft,

kotungs valtur hagur.

Svo varð falt, og flaug um loft,

og fagurt allt sem dagur.

„Úti’ um stéttar urðu“ þá

orðin flétta‘ af lygum.

Mörg var frétt af mönnum á

mjóum prettastigum.

 

Á það brugðu enda þeir,

og endurtuggðu frasa:

að ekki hugðu opna meir

eigin „bugðuvasa“.

„Margt eitt kvöld og margan dag“

menn að völdum léku,

allan földu eigin hag,

sér undan gjöldum véku.

 

Vinum sínum heima hjá,

hreifir vínum dýrum,

að vanda krýna vilja þá

í valdalínum skýrum.

Hvarfla vill þá hugurinn

að holum spillimeinum,

er drengjasnillidugurinn

deyr úr grillum einum.

 

17.02.24

 

Eftir daginn stendur stinnur

stórbokkinn, sem jafnan vinnur.

Ei sparað mikið

sprengjurykið.

Bragð er að þá barnið finnur.

 

 

Lífsins, við lærum, skal njóta

og í leiðindum óþarft að róta.

Á það helvíti hart

er að heimfæra margt.

Verst það er bannað að blóta.

 

 

Síonistinn sækir á

sífellt meira landi’ að ná.

Fram með járnin geysist, grá,

‘Gazar’ þjóð, og börnin smá.

Útrýmingarósómann

ALLIR skyldu setja’ í bann.

Ljótt að það, „sem varast vann,

varð að koma yfir hann“.

 

19.02.24

„Innviðir illskunnar“ (https://oculicordis.wordpress.com/2024/02/18/innvidir-illskunnar)

 

Prédikun

 

Öll velferðarkerfin að kyrkja,

og kærleikann neita að styrkja.

Af krafti þess njóta

niður að brjóta

en innviði illskunnar virkja.

 

21.02.24

 

Margt við getum gagnlegt lært

ef gefum okkur tíma

og þjálfum með oss þelið kært.

Það er lífsins glíma.

 

Skarphéðinn Áki Stefánsson, ömmu og afastrákur:

 

Kátur og sæll í sinni,

sáttur í eigin skinni,

á skeiðfráum fáki

Skarphéðinn Áki

flýgur mót framtíðinni.

 

Fögnum þessum eðaldreng, enda er hann 15 ára í dag.

 

25.02.24

Konudagsvísan.

 

Sendi öllum konum bestu kveðjur í tilefni dagsins.

Ein fær þó sérstaka kveðju, konan mín:

 

Góa dýru gullin ber,

glaðvær brosir nú.

Um heim á sparifötum fer,

falleg, eins og þú.

 

08.03.24

Fjasbók minnti á að 11 ár eru í dag frá opnun „Fjölheima“, fræðsluseturs Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands:

 

Sést að æ mitt þyngist þramm,

í þessa lífsins dönsum.

Svona tiplar tíminn fram

og tekur engum sönsum.

 

09.03.24

 

Vetrarmyrkrið máttugt er

og morgunbirtan gjöful.

Að draga’ um heim á herðum sér

hver á víst sinn djöful.

 

 

Hvað ef ekki ættum við

okkar frelsi?

Kannski lokuð landsins hlið,

líf við helsi?

Ekki daglangt fengjum frið

fyrir sprengjum

að koma upp á efsta svið

ungum drengjum

og ýta dætrum skjótt á skrið

í skjóli traustu?

Ekki mikið um ég bið,

allt það hlaustu.

 

12.03.24

Katrín Englandsdrottning birti mynd á Fjasbók sem hún hafði „átt við“ – og fjandinn varða laus:

 

„Sálin má ei fyr utan Kross“

upp á náðga syndina.

Meinlæti Kristur kenni oss;

Katrín átti við myndina!

 

16.03.24

Karlakór Hreppamanna stóð fyrir hagyrðingamóti í Félagsheimili Hrunamanna að Flúðum í kvöld. Mættir voru á svið Árni Geirhjörtur Jónsson, stjórnandi samkomunnar, Pétur Pétursson, Jóhannes Sigfússon, Magnús Halldórsson og undirritaður.

 

Fyrst átti að kynna sig:

 

Ekki hef ég margt til brunns að bera,

bara veit ei hvað hef hér að gera?

Og ekki’ er þetta sanngjarn samanburöur

er sitja nær mér heimsins mestu furður.

 

Ort til stjórnandans:

 

Árna mikils meta skalt

og mæra karl, að vonum.

En gáfulegt er ekki allt

sem út úr kemur honum.

 

Heldur fróður, um ljóð og lag,

lifir hróður manninn.

En gætt’ að bjóð’ ei góðan dag,

Geirhjört móðgar þannin.

 

Hliðar nú, að sveitasið,

sýnið ykkar bestu.

Veit að allir eruð þið

ágætir (að mestu).

 

Ég er ungur, eins og lamb,

allur hress og sperrtur.

Hinir bera í hærur kamb,

og heilinn mikið skertur.

 

Gnægtir á Magnús í malnum,

eitt mesta skáldið í dalnum.

Sú glansmynd er traust,

svona gleraugnalaust

ef setið er aftast í salnum.

 

Úr Sónardjúpum ljóðin les,

lömbin ræktar fögur

og með þeim jafnan Jóhannes

jarmar lygasögur.

 

Þó gerist veill, ei getir betur

en grúfa þig.

Líklega enginn léti Pétur

lækna sig.

 

Ort um sólarlandaferð Jóns á Högnastöðum:

 

Slompaður á sloppnum er,

slaga, hvað skal gera?

Á sólarströnd fyr sjónir ber

svanna, næstum bera.

Heima leiðist mikið mér,

á þeim myrka sinufrera

í Hrunamannahreppi, er

hræðilegt að vera.

 

Ort um tekjur Hjalta á Kjóastöðum af smurolíuauglýsingum og ástæður þess að

auglýsingarnar voru teknar úr sýningu:

 

Skurðarhnífinn hóf á loft

og helvítis gaddvöndinn

því Hjalti þurfti ansi oft

aðeins að smyrja raddböndin.

 

Ort um auglýst söluverð á Kjóastöðum 2:

 

Þetta yrkisefni hér

ætti ég að salta.

Það reynist alltof erfitt mér

að yrkja níð um Hjalta.

 

Og um jarðarverðið virðist mér

varla neitt að tala.

En þelið hlýtt og áfengt er,

á öðrum og hærri skala.

 

Karlakórinn hélt árlegan reiðtúr sinn fyrir nokkrum árum í boði Hjalta og Ásu á Kjóastöðum:

 

Á Kjóastöðum fengum flott

fransvín og lambakrásu,

svo fannst okkur sælt og gott

að sofa þar, hjá Ásu.

 

Ort um nautkálf á Hegggstaðanesi sem hlaut nafnið Bjarni Benediktsson:

 

Í báðar hlustir baulið sker,

er beljar hátt, sá arni.

Á kaf í mykju kominn er

kálfurinn, hann Bjarni.

 

Ort um hugsanlegan mun á reiðmennsku Sunnlendinga og Norðlendinga:

 

Þeir nyrðra fenin álpast í,

öll, og þaðan hneggja.

Held þeir ættu, útaf því,

aldrei á hest að leggja.

 

Á slysin leiðu lengstum spar,

langan ævidaginn.

Við tamningar ég tíðum var

talinn ansi laginn,

-og Magnús af öllum öðrum bar

alltaf mesti gæinn.

 

Ort um nýja Ölfusárbrú, sem er mjög tengd dýralæknum, bæði innan ríkisstjórnar og

Vegagerðarinnar:

 

Hér þarf smá forskýringu, en innanbæjar á Selfossi er Ölfusá stundum kölluð „lækurinn“, og t.d. eruíbúar á Langanesi, en svo heitir nesið sem brúarendinn fjær meginbyggðinni stendur á, sagðir búa „fyrir utan læk“. Nú stefnir í að lækur þessi muni reynast dýr allur, eins og Hafliði forðum, og þegar fréttist að nánast allir hafi dregið tilboð sín í nýju brúna til baka gengur hún meðal gárunga undir nafninu „brúin hjá dýra læknum“:

 

Erfiðleika er að sjá,

úrlausn nokkuð snúin.

Dýra læknum, úr dáðum hjá

dregur orðið brúin.

 

Ort um þau umskipti að Magnús Halldórsson tók við af Árna sem umsjónarmaður Vísnahornsins í Bændablaðinu:

 

Þeir félagar eru eitthvað að brasa

við yrkingar, stöðugt í krísum.

Á endanum seilast í annarra vasa

eftir tækum vísum.

 

Í Bændablaðinu skína,

báðir. En ef fer að rýna,

í efa þó glittir

og gott ef ei hittir

andskotinn ömmu sína.

 

Við samanburðinn engan odd

af oflætinu brýt:

Ekki merki mikinn brodd

né mun á kúk og skít.

 

Ort um „jarðkynhneigð:

 

Ef þú játast jarðhneigðinni,

en jafnaðargeðið í skrúfunni.

Stattu keik/ur með köllun þinni

og komdu þér út úr þúfunni.

 

Ísland! fegursta fljóð

og frábæri elskhugi góður,

kveð ég mitt ljúfasta ljóð,

ligg þig svo, sveittur og móður.

 

Allt er í fari þér flott,

funheitar varir, úr augum

lýsir sem leiftur, við tott,

logandi frygðin í taugum.

 

En förum ekki nánar út í það …

 

Ort um það hvað er best og verst við að vera Íslendingur:

 

Þegar vor að vitum berst

við mér gleðin syngur

Á Fjasbók stundum virðist verst

að vera Íslendingur.

 

Að úthúða fólki með annan lit,

annarra snuðra um hagi

og þjóðarauðlinda þurrka upp nyt;

Það er ekki‘ í lagi.

 

Lýsi alvöru Íslending, sönnum:

sem upp reis, úr kúgun og bönnum.

Hann fær er um flest,

en fer alltaf best

að vera „maður með mönnum“.

 

Ort um þann orðasveim að menn gefi hestaviðskipti lítt upp til skatts:

 

Einu sinni átti‘ ég hest,

sem umstang vildi fylgja.

Settu í mitt bókhald brest

þau Blakkur, Hringur, Sylgja.

Um skattsvik, þó mér þótti verst,

þegar þú fórst að dylgja.

 

Ort um flutning Gylfa að Laugarvatni og hugsanlegan möguleika að hann taki við stöðu 

Helga Helgasonar, sem nýverið var látinn taka pokann sinn vegna opinbers kynþáttaníðs:

 

Reynir oft á þolrif þegar

þarf að kenna‘ í erg og gríð.

En alltaf fer um utan vegar

ef ekur götu kynþáttaníð.

 

Fjármálalæsi er gol-franska,

fyrir mér, sem gleymist skjótt.

og í menntaskóla melludanska

mín er varla eftirsótt.

 

Ort um kórstjórn Atla Guðlaugssonar:

 

Atla stendur stjórn með glans,

stykur veifar sprota

sem að kærust konan hans

kenndi‘ h‘onum að nota.

 

Guðni Ágústsson fór mikinn að velta sjálfstæðismanninum Gunnari Þorgeirssyni úr stóli 

formanns Bændasamtakanna en koma frænda sínum, Trausta Hjálmarsyni í embættið í 

staðinn:

 

Af framsóknarmönnum, fyrr og meir,

er fyrirgreiðslan hönnuð.

Við fálkaveiði þekktust þeir,

þó að hún sé bönnuð.

 

Ort um framboð til embættis forseta í komandi kosningum:

 

Bessastaðaleiðin löng

liggur um hraun og klungur.

Nálaraugun ansi þröng

ef á hangir pungur.

 

Stormurinn skekur reiða og rá,

róðurinn verður þungur.

Ríður um þverbak, aftan frá

eitthvað um pot og stungur.

 

Þó ófriður víða geysi‘ um grund

og glæpamenn standi í röðum

þá verður „Friði 5000“

fagnað á Bessastöðum.

 

Í framboð alltaf fjölbreytni styð

til forseta kjósa mun glaður:

Hér er björgunarsveitin, slökkvilið,

og samsæriskenningamaður.

 

Ríkislögreglustjóri hefur falið embætti sínu, að gæta öryggis kjörnum fulltrúum á Alþingi.

 

Stjórn í gæslu sem er sett

sýnist háð þeim leiða vana

að þvo hvern dýran drullublett

og dæmdum manni fram svo trana.

Ef hún gerði eitthvað rétt,

ætli þyrfti‘ að passa hana?

 

Ort um sviptingar í skoðanakönnunum:

 

Gallup-könnun, góðir menn,

gleður, en fyrst þá hlæið

ef sjálfstæðisflokkurinn sígur enn

og sést ei af framsókn hræið.

 

Ort um blóðmerarhald.

 

 

Eftir greiðri ýtuslóð

í auraþúfu standsins

stóðmeranna blessað blóð

blæddi úr sveitum landsins.

 

17.03.24

„Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðan ég æli“ (dv.is, 15. mars, 2024):

 

Með hjáróma hringlandavæli

og holu tilgerðar’smæli’

skal forsmá þá drepnu

en dansa við skepnu.

„Afsakið meðan ég æli“.

 

20.03.24

 

Veturinn koldimmur, kaldur

en kennum brátt sumarsins galdur.

Þá bíður oss dagur

bjartur og fagur.

Og forsetinn, Felix og Baldur.

 

26.03.24

 

Málpípur vel eru menntar

og í meginstrauminum lentar

þegar á okkur dynur:

„Ágæti vinur,

hafa skal það sem hentar“.

 

28.03.24

 

Vantað eitt í vetur, því

verið heldur stúrinn.

Fer að skána, fór loks í

fyrsta útreiðartúrinn.

 

29.03.24

 

Hið fagurbláa sindrar svið

er siglir gula duggan.

Svo er dýrðlegt útsýnið

út um stofugluggann.

 

11 ára gömul mynd af Karkakór Hreppamanna rifjaði upp aðra tíma:

 

5 úr tugum fækkað hefur

en fjölgað gráu hárunum.

Innan tíminn skartið skefur

úr skeljunum, með árunum.

 

Á föstudaginn langa er hefð að bjóða afkomendunum í mat:

 

Að veislunni loks fer að líða.

Minna ljúfustu farinn að bíða.

Búið að skera,

baka og skvera.

En núna er stund milli stríða.

 

31.03.24

 

Langar þulur Kári kveður,

kraft ei sparar þegar syngur.

En eflaust teldist verra veður

væri snjór – og skafrenningur.

 

01.04.24

Ekki aprílgabb:

 

Innviðir ólguðu’ á fullu

og undur í vatninu skullu.

Sjálfsagt um páska

að sýna’ af sér gáska.

Er þennan daginn með drullu.

 

04.04.24

 

Bratt á himni hækkar sól,

hresstist við það geðið.

Í mótvindi þó mjög svo kól

sem mörgum eykur streðið.

 

 

Nú er úti ansi kalt,

ógnarmikill garrinn.

Rímar því, og þykir svalt,

það að kjósa Gnarrinn.

 

05.04.24

Ort út frá auglýsingu um tónleika Karlakórs Hreppamanna, með mynd af kórnum:

 

Nú, þegar lóan er komin á kreik,

eiga karlarnir næsta leik

að fara um sveitir,

sexí og heitir,

og tendra í tónlistarkveik.

 

09.04.24

Katrín flýr af hólmi og setur vin sinn, Bjarnaben í forsætisráðuneytið.

 

Stefnusvikasúðin lak

og sökk um kaffileytið.

Annað hriplekt fundu flak

í forsætisráðuneytið.

 

10.04.24

Bjarniben tekur við forsætisráðuneytinu. Með ferilskrá skandala í 20 liðum. Og þá er ekki talin öll hin daglega glópska, fyrir sérhagsmunum gegn almannahagsmunum.

 

Öllu því, upp til hópa,

er ástæða burtu að sópa

og finna í fjöru

með fiðri og tjöru

glópinn, allra glópa.

 

11.04.24

 

Svo að þrífist Íslands urt,

ilms af lífi njótum,

þarf að rífa Bjarna burt,

beita hnífi’ að rótum.

 

14.04.24

Af flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins

 

Við Aflands-Bjarna arfsögn má

engan tíma missa

svo trúarsöfnuð tókst að fá

til að klappa – og flissa.

 

16.04.24

 

Sæla margra sólarljós,

sviptir fargi þungu

eins og bjargar óvænt hrós

undan þvargi tungu.

 

17.04.24

Kóralrifin í hættu, eins og svo margt annað:

 

Lítum víða á lofti flögg

við loftslagsbreytingar.

Sækja eiga undir högg

undrin veraldar.

 

Landsvirkjun flaug starfsliði sínu til Egilsstaða til að halda árshátíð, með tilheyrandi kostnaði, sem margir urðu æfir yfir:

 

Landsvirkjunar stóra strand

stefnir þjóð í voða.

Með árshátíð fór „út á land“,

er þar fátt að skoða.

Allt er bæði leiðinlegt

og ljótt, við þennan hroða.

Að sóa fé, víst það er þekkt

og þykir hér við loða.

Sem betur fer þá brýnir raust,

svo blæs upp mikil froða,

Inga Sæland, og ekki laust

við yl og kinnaroða.

Í púlti þingsins púðrið þekkist,

af popúlisma enginn blekkist.

 

„Bjarkey mun ekki bregðast við athugasemdum eigin ráðuneytis“ um búvörulög:

 

„Ákvarðanir, og allt það flý

sem að þeim gæti leitt

því vinstri grænum best gagn er í

að gera ekki neitt“.

 

Athugasemdum við eigin mið

að hún þyrfti’ að hyggja

en Bjarkey mun ei bregðast við,

bara skroið tyggja.

 

21.04.24

Katrín nýtur stuðnings, jafnt fjárhagslegs sem móralsks, í Valhöll:

 

Eftir daður opinbert,

umhyggju og nostur,

veistu, Katrín, að þú ert

íhalds fyrsti kostur?

 

24.04.24

Kapphlaupið um Bessastaði:

 

Með Bjarna og Bubba í liðinu

og Bessastaði í miðinu

er Katrín á skriðinu,

komin að hliðinu.

Á horninu Hólmsteinn á iðinu.

 

Lög um lagareldi 

 

Ei dýpra sokkið Vinstri grænir geta.

Auðlindir til fárra fiska meta

og enskis virði

Íslands firði.

Í skítahræru æru sína eta.

 

25.04.24

 

Örvar bæði hug og hold

hörpu gleðibragur.

Með sólargeislum faðmar fold

fyrsti sumardagur.

 

Hef í vetur verið rór,

mót vana hross ei sett inn

en sumardaginn fyrsta fór

feginn skeifnasprettinn.

 

 „Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar“ (dv.is)

 

Skýrt nú sjáum við gegnum glerið,

gleðin er ósvikin vinunum hjá.

Aumara getur það varla verið,

viðundrið Katrín er himinblá.

 

Dýrar en keypti seint ég sel,

segi, og það meina.

Allt er gott sem endar vel,

ekki’ er því að leyna.

 

28.04.24

 

Höfuðljósin hefur slökkt,

held það engan blekki

því að augað gests er glöggt,

og gjörðir ljúga ekki.

 

Lengi bíð ég afhendingar, eins og gengur.

Varla get þó vakað lengur.

 

Best mér líkar afhendingin er mig hátta

af því þá er utan gátta.

 

29.04.24

Nú má ekki nefna fyrri orð né gjörðir forsetaframbjóðandans úr forsætisráðuneytinu:

 

Nú skal allt í bómull bælt,

bannað er að nefna

vitnist eitthvert óráð mælt

eða svikin stefna.

 

30.04.24

 

Brátt nú verð ég alveg ær,

engu kem á blað.

Hef föndrað við það frá í gær

að finna kommu stað.

 

03.05.24

 

Í Klukkuskarði kom að kátum tröllunum

brytja’ úr soði’ í bjöllunum

bóndann Jón á Völlunum.

 

04.05.24

 

Þegar gott vill gera sér,

gæðum ræna heildinni,

óðar græðgisfálkinn fer

á flug, með skrímsladeildinni.

 

09.05.24

 

Farinn virðist vetur brott

með veðrasálarkrísu

og þá væri ansi gott

að yrkja þar um vísu.

 

Þegar sólin skærast skín

og skýin opna gluggann,

aftur lifnar lundin mín

og leiðir hjá sér skuggann.

 

11.05.24

 

Vorið heilsar, grænkar grund,

grilli blóm í móa.

Þar nú heyri halda fund

hrossagauk og spóa.

 

12.05.24

MÆÐRDAGSVÍSAN

 

Elsku besta mamma mín,

ég minnist þess í dag

er leiddi heiman höndin þín,

mér heimsins kynnti brag.

Þín mynd í huga skærast skín

-þó skýjað sé í dag-

og ylur raddar ekki dvín

né ómar hlýrra lag.

 

 

Margan hefur mammon blekkt

og mótað leir sinn í,

veruleikann skælt og skekkt,

skáldað viðmið ný,

með fáguð loforð fín.

Í heimi okkar, því er þekkt,

að þrauka skorts í kví

en það er alltaf lúalegt

að líta undan því

og svíkja gildin sín.

 

 

Hamingjan við mér frá himni skín,

þó hulin sé skýjalopa,

sem held ég að muni hopa.

Með tvo til reiðar og sólarsýn,

sindrar á regnsins dropa

og rjúpur í móanum ropa.

 

18.05.24

 

Útreiðar og útivist,

út að troða belgina.

Hvers eins njóti hver af lyst

um hvítasunnuhelgina.

 

19.05.24

 

Að vinda sér í vordagsþvott

er vanalegt hjá skessunni.

Núna blæs upp vind, með vott,

varð þar á í messunni.

 

 

Bessastaði er Katrín að kaupa,

sækir krónur í auðstéttarlaupa.

Fór langt yfir strikin

með loforðasvikin.

Um heiðarleik rembist að raupa.

 

 

Sægreifar digra sjóði

sjúga úr þjóðarlindum,

glottandi færa þeir fljóði

féð, í ólíkum myndum,

kaupa, við Katrínar blóði

og kosningaloforðasyndum,

þrælslega hlýðni í hljóði,

og að horfa’ á þá augum blindum.

Héðan liggur nú langur slóði

með lest af jarmandi kindum

sem fljóta með „aurugu“ flóði

eða fjúka með spillingarvindum.

 

20.05.24

 

Nú, þegar vorsins við væntum,

af vetrinum komið er nóg,

hér syðra er grundirnar grænt um

en gnægt fyrir norðan af snjó.

 

Misjafnt er mannanna lánið,

margur við harðindi býr

en þið, sem í þægindum gránið,

ei þekkið að kostur sé rýr.

 

Valdið er vandmeðfarið,

vex yfir höfuð enn,

tryggir, um tekur af skarið,

trúnað við „sína menn“.

 

Svo yfir allt vetur ei valti

er valddreifing nauðsyn brýn,

með sumri á vegasalti

er sanngjörn lending og fín.

 

22.05.24

 

Vettling upp að eyra næ,

í öðrum liggur taumurinn.

Ekki fengum mildan maí,

meiri fjandans hráslaginn.

 

25.05.24

Kærar þakkir sendi ég öllum þeim ótrúlega fjölda fólks, vina minna, sem gerðu sér það ómak að senda afmæliskveðju á bráðum gamlan mann.

 

Getum við lífsins gæði mælt?

Gæti betur farið?

Fátt er meira sálu sælt

en samstígt í dansi parið.

 

26.05.24

Vorvísa

 

Oft skarkala heimsins í huganum flýjum

að hæglátum minningaglitum.

Þekkt eru leitin, í þelklæðum nýjum,

þar sem við barnsskónum slitum.

Það er góður dagur með glóandi skýjum,

gróandans ilmur í vitum,

og vorið málar með höndunum hlýjum

hagana sterkari litum.

 

05.06.24

Útslit forsetakosninga liggja fyrir:

 

Niðurstaðan næsta skýr.

Í neti afli furðu rýr.

Nú er úti ævintýr.

Enginn sínar gjörðir flýr.

 

 

„Vinstri Græn mælast með um þriggja prósenta fylgi samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup og Jódís segir hreyfinguna þurfa að líta alvarlega í eigin barm og leita í ræturnar.

„Það hefur í ýmsum málum þurft að gera málamiðlanir sem ég held að hafa kostað okkur of mikið.““ (visir.is)

 

Eftir samfellt sjö ára át,

sitjandi’ í eftirbát,

lepjandi skítinn,

stóran sem lítinn

er flokkurinn „over and out“.

 

 

Greið er þér leiðin að lindunum

og ljómandi útsýn af tindunum

ef stefnufast arkar.

En annars, ef slarkar,

dáðlaus munt veltast með vindunum.

 

Það mun vera júní líka fyrir norðan og austan.

 

Ekki er útlitið gott,

ákafahríð og bylur.

Vorið er blásið á brott,

á börunum sumarsins ylur.

 

06.06.24

Ekki björgulegt snemmsumarsveðrið norðanlands:

 

Fínn er svalinn á Fróni,

fer hann með alla vel.

Liggja þar Skjalda og Skjóni

í skafli, frosin í hel.

 

 

Glitrar fagurt gluggaskraut,

glatt er mjög á Hjalla.

Vel um tíma veislu naut

en víst mun degi halla.

 

09.06.24

Vigdís Ragnars og Bryndísar á afmæli í dag:

 

Ei dvelur átta árin við,

af orku hefur gnóttir.

Í veröld eigið velur svið

Vigdís Ragnarsdóttir.

 

 

Að heiman borist hefur frétt

að heldur léttist sporið

því á hvítan, kalinn blett

sé komið blessað vorið.

 

Þetta er kannski fullmikil bjartsýni, þó hitinn hafi, að sögn, farið í tveggjastafatölu sunnanlands í dag?

 

Vor um hjalla, hól og mó,

hamrastalla bratta,

jökulskalla, skaga, tó

skriður, fjallahatta.

 

 

 „Allt er gott sem endar vel“,

einhver sagði forðum.

Viðhorf bjart, og taktískt tel,

að trúa þessum orðum.

 

 

Heitt í veðri, horfin sól,

hylur blámann mistur.

Flúinn er ég inn í skjól,

eilíflega þyrstur.

 

 

Mun enn lengjast lífsins ól?

Er leikinn þörf að skakka?

Ef að kemst ég enn á ról

er ‘ða vert að þakka.

 

 

Hvað liggur þér á hjarta?

Yfir hverju viltu þá kvarta?

Er allt nú í fokki?

Í öfugum sokki?

Best því í náungann narta?

 

 

Ganga þjóðir á gleri,

glóðheitu, brotnu, svo skeri.

Það er morðhundaöld.

Fyrir einskisverð völd.

Fari þeir fantar og veri.

 

04.07.24

Abbalabbar, kallast gönguhópur starfsfólks og fyrrverandi starfsfólks Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hópurinn fer hvert sumar í nokkurra daga göngu og hefur gert víðreist um landið síðustu u.þ.b. 30 ár. Í sumar var ekið norður á Langanes og gengið þar í 4 daga. Gist var í og við skólann á Svalbarði í Þistilfirði. Hér eru nokkrar vísur sem ortar voru út frá ljósmyndum sem undirritaður tók í ferðinni:

 

Abbalabba árleg ferð

er nú senn að baki.

Áru góða, það orða verð,

yfir tel ég vaki.

 

Fólkið vill í góðum gír,

glatt úr klaufum sletta.

Forvöð lokuð. Lausnin skýr:

Líta’ á Hljóðakletta.

 

Eftir ljúfan, léttan dag,

lá nýtt plan fyr sálum:

Frá Hrolllaugsstöðum, um hæð og drag,

haldið var að Skálum.

 

Ekið fyrst um urð og grjót,

enginn vegur lúserum.

Á Lexus Anna furðu fljót

fylgdi nokkrum Krúserum.

 

Næsta dag í næðingi,

norðanúthafssvölum,

losnar bros úr læðingi

við labb á grænum bölum.

 

Frá Sandá vestur að Svalbarðsá,

sýnist fátt mér betra

en njóta þess, ef þreyja má,

þrettán kílómetra.

 

Lokadaginn liðið fór

á léttu, greiðu brokki.

Engan beygði blautur skór,

við blasti tign og þokki.

 

„Ef að skyldi og ef að sé“,

alltumkring birtist hann Fúsi.

Hann er sannkallað forystufé,

við fylgjum hans hvetjandi brúsi.

 

11.07.24

 

Úti brellur er að sjá!

Upp úr vellur götu?

Eða skellur ofan frá

eins og helli’ úr fötu?

Liði körgu lúðrar í,

lyndi örgu skartað,

enginn hörgull er á því,

yfir mörgu kvartað.

Ef að gæti út frá mér

ekki kæti vakið,

við engu bæti, að því ber

að aftur væti lakið.

 

13.07.24

Nokkrar vísur úr hestaferð. Því miður gafst ekki tími til að gera meira, né betur.

 

Nafn Eyjarhóla, það er þekkt,

og Þorlákur á Svani.

Þar ferðin hófst við hæstu mekt,

sem er „hermannlegur“ vani.

 

Knapi hver var sæll með sitt,

en senn beið fljótið Klifandi.

Það var samt talið klárt og kvitt

við kæmumst frá því lifandi.

 

Var á orðin ekki spar,

þó ýmsu vildi fórna.

Brátt þó Sveinbjörn brast, og var

byrjaður að stjórna.

 

Í flóknum heimi fátt nú skil,

af fremsta megni reyna vil.

En Siggi hér og Siggi þar,

Siggi virðist allsstaðar.

 

Fréttnæmt atvik sér átti stað,

ég ekkert færi’ í stílinn,

er Inga grét og ákaft bað

um að fara’ í bílinn.

 

Eins og lækur iðar hann,

alltaf sprækan þekki.

vinnu rækir, vinum ann

verkin flækir ekki.

 

Gunna og Láki glöddu mjög

með góðan veislukostinn,

dýrðarfordrykk, dansilög

(og Dagný skefur ostinn).

 

Ekkert skorið tæpt við trog,

en táp, og í góðu skikki.

Planið virtist ágætt, og

ekkert víst það klikki.

 

Í byrjun virtist fólkið frískt,

og fært að klífa stálið.

Þó stóð í sumum strategískt,

stóra hjálmamálið.

 

Þó allt sé talið í haðrindum hey,

hópurinn kátur og náinnn er.

En karlarnir vilja, að vonum, ei

vera mikið að snúa sér.

 

18.07.24

Ég átti því láni að fagna að komast í hestaferð með þessum snillingi síðastliðna viku. Annar eins dugnaðarforkur, listamaður til orðs og æðis, hestamaður, fjallamaður, skemmtikraftur og náttúrubarn verður seint fyrir fundinn. Kærar þakkir, Hermann Árnason fyrir leiðsögnina, hlýjuna, eldamennskuna, sögurnar og röggsama ferðastjórn. Ógleymanleg ferð.

 

Eins og lækur iðar hann,

alltaf sprækan þekki.

Vinnu rækir, vinum ann,

verkin flækir ekki.

 

24.07.24

Þegar við Anna María komum síðast, fyrir 25-30 árum, lá þokan niður fyrir sjávarmál og andaði köldu af hafi inn fjörðinn. Því má segja að við séum hér í fyrsta sinn:

 

I Våbenfjord er vældigt smukt,

hvis man noget kan se.

Þar er ekki í koju klúkt

en kannað „hvað er að ske“.

 

26.07.24

Setti út á beygingar og málfar á hestafréttamiðli og var bent á að taka bæri viljann fyrir verkið:

 

Fyrir verk ber að taka vilja

en vansana má þó ei hylja

við móðurmál vort.

Það væri síðasta sort.

Allir það ættu að skilja.

 

02.08.24

 

Þó fræðingar kunni sitt fag,

hafi’ á forspám og vísindum lag,

var viðvörun gul

bæði vönkuð og dul.

Dásamlegt veðrið í dag.

 

Átti ég ánægjustund

við útreiðar, víða um grund.

Með hrossin sást bruna

í hlaðið, á Funa,

óvenju léttur í lund.

Margan höfum manninn reynt

missa spilin vona

og þiggja ás, ef það fór leynt.

Það er bara svona.

 

03.08.24

Heimildin.is:  „Hálendið í hakkavélina“

 

Gott væri’ að eiga gróðavél

sem gleypir náttúruástarþel,

hálendisperlur hakkar í mél

og hugsjónum kyngir fljótt og vel.

 

19.08.24

Fréttir bárust af því að forsetaframbjóðandi sem spanderaði tvöfalt meira en sá sem næst kom, og slagaði í útgjöld allra hinna til samans, hefði sent út ákall um hjálp við að greiða skuldirnar:

 

Fyrirhyggja engin er

að æða’ út ber í kuldunum

né að bruðla um bjargir sér  

og betla fyrir skuldunum.

 

Eldið auka’ í flóunum,

fagna fyrstu snjóunum,

ketti binda’ á rófunum,

gera grín að hróunum

og ganga’ í lið með bófunum.

Planta trjám í móunum,

falla’ á öllum prófunum

og klappa saman lófunum.

Þiggja fyrir það bita

en láta engan vita.

 

Hótelgarðar, fögru fjöllin okkar,

firðir kvíaból og skítahraukar,

heiðadulúð gleypi risarokkar,

ryðjast yfir grimmir fjármagnshaukar.

Nánast blind í náttúruna krukkum,

ei „nýtur vafans“ foss né dýr og planta.

Gleiðbrosandi tætum svo á trukkum

á tjörubornum, upphækkuðum vegum

þar sem fyrrum fjallaljómann drukkum

og friði sálin nærðist, annarlegum.

Undarlegt hve stefnulaus við stukkum

á stundargróða fárra spekúlanta.

 

20.08.24

Þingmaður kvartaði í fjölmiðlum um drykkjuskap á Alþingi:

 

Við „framhleypni“ Báru fundu menn svar

sem fagnaði þingmannaskarinn:

Fyllerísrausið fljótlega var

fært á Alþingisbarinn.

 

21.08.24

Efnahagsstjórnin

 

Um „stöðugleikann“ vitna verð,

á vöxtum engin lækkun!

En húsaleigan á fullri ferð,

15% hækkun!

 

22.08.24

 

Liðið á Alþingi ölvað,

efnahagsstjórnin í rúst.

Allt er það illt og bölvað,

ákall um fæjó og kúst.

 

23.08.24

 

Augljóst, því að ekkert hlé

er á skít í slóðinni,

að helmingaskiptasvindlið sé

samsæri gegn þjóðinni.

 

24.08.24

Dýralæknirinn í fjármálaráðuneytinu kvað það vera í dna Íslendinga að þrá óðaverðbólgu:

 

Þrátt fyrir fræðinga frækna,

í furður og kjarneðli sækna,

í frumunum innst

alls ekki finnst

dna dýralækna.

 

Samfélagsmiðlar voru stútfullir af myndum af duglegu fólki sem hafði tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu:

 

Vil efla lífs míns sóma’ og sess

og sífellt reyni allt til þess.

En kannski úti öll sé von

fyrst ekki hljóp ég maraþon?

 

28.08.24

Veðurfræðingar

 

Í veðurfréttum við það hnaut

að vindur sýni hrekki

og helgin verði heldur blaut.

Held þeir ljúgi ekki.

 

29.08.24

Skoðanakannanir sýndu að Miðflokkurinn var kominn upp fyrir Sjálfstæðisflokkinn í fylgi, rétt rúm 15%:

 

Þyrnum stráð er Bjarna braut,

við bláþráð sýnist lafa,

í Valhöll hræring, þráan, þraut,

þar ei neitt að hafa,

að sama potti Simmi laut,

í súrt vill gjarnan kafa,

og neðst við botninn brenndan graut

er byrjaður að skafa.

 

Sigmundur Davíð útskýrði fyrir fréttamönnum að skýringin á fylgisaukningu Miðflokksins væri sú skynsemisstefna sem hann boðaði:

 

Að stórmenni streymir nú skarinn,

enda stuðningur þess talinn svarinn

(að skortminni gefnu)

við þá skynsemisstefnu

sem kennd er við Klausturbarinn.

 

30.08.24

Nú eru ýmsir Fjasvinir mínir að rifja upp og mæra Skólaljóðin. Ég tek auðvitað undir alla þá mærð.

 

Við minningarnar sæll ég sit,

sindrar ennþá glóðin.

Æsku minnar gullið glit

geyma Skólaljóðin.

 

01.09.24

Öfugmælavísa:

 

Þannig er mér oftast lýst:

„Ótrúlega smellinn“.

Ef mér förlast, ætti víst

einn að taka skellinn.

 

Einhverskona flokksfundur var  hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem formaðurinn kenndi öllum öðrum en sjálfum sér um fylgishrunið í skoðanakönnunum. „Vandamálið er ekki fólkið hér inni“, sagði hann við fundarmenn:

 

Þegar brúnt í buxur missum,

sem bunar niður lærin,

í skóna bara best við pissum,

þá batna sóknarfærin.

 

03.09.24

„Lágkúruleg illska nær utan um embættismannaillsku og skriffinnskuillsku, sem sagt þegar við notum kerfi, reglugerðir, vinnureglur eða lög til að réttlæta hvernig við komum fram við aðrar manneskjur. Þegar við afsökum voðaverk og ofbeldi með því að vísa í regluverk í stað þess að nýta þær innbyggðu mælistikur sem samviskan og siðvitundin eru. Í stuttu máli þegar við leyfum okkur að vera ómerkilegar manneskjur.“ (Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir. 2024. „Okkar lágkúrulega illska“. Vísir, 2. september.)

 

Holur vor samviskusvipur,

siðvitund hrakin á veg.

Illskan er lævís og lipur,

og lágkúruleg.

 

 

04.09.24

Bolli Kristinsson taldi lausn Sjálfstæðisflokksins ekki vera að fá til forystu „nýútskrifaðar stúlkur sem ætla bara að blása á sér hárið og naglalakka sig“:

 

Afrekslaus maður er ósköp smár.

Hann ætti’ að vita’ða,

því Bolli er með blásið hár

og barta litaða.

 

12.09.24

 

Fengum loks einn ljúfan dag,

til langs þó engu breyti.

Með vindi rigning-veðurs-slag-

er víst á næsta leiti.

 

14.09.24

Vísindamenn hafa áhyggjur af bláa blettinum yfir Íslandi. Golfstraumurinn er hverfandi og meðan hitnar annars staðar á hnettinum sitjum við í kuldapolli, svo hér gæti orðið óvært:

 

Vort land er „kaldi kletturinn“,

svo oft kúrum við uppi’ í sófa.

En vaxi  „blái bletturinn“

er breytingin katastrófa.

 

16.09.24

Margt kvelur ef ekki má sækja brennivínið í Hagkaup í Skeifunni í stað þess að sækja það í ÁTVR í Skeifunni.

 

Þá er fokið flest í skjól,

fennir hjartað kvölin,

þegar bundin eru’ í ól

andinn, frelsið, völin.

 

17.08.24

 

Alltaf er rógtungan rög,

í rökkrinu vinnur sín störf,

og alltaf er aðgátar þörf

er ómennskan vitnar í lög.

Enn einn stórrigningardagurinn:

 

Spáð’ í ‘ðí, ég bara spyr,

er sprinkler við himnanna dyr

sem eldhættu nemur?

Ja, ofan nú kemur

á mann sem aldrei fyr!

 

23.09.24

 

Þó alltsaman áveðurs skorðið,

inn úr úrhelli hinu þið forðið,

allt sumarið skítt

-og það sé ekkert nýtt-

þá á sólin síðasta orðið!!!

 

24.09.24

Fjármálaráðherra taldi að þetta væri allt að koma, og átti við þann efnahagslega stöðugleika sem ríkisstjórnin var sett saman til að tryggja, en hefur mistekist með öllu, óðaverðbólga og okurvextir að sliga heimilin:

 

Með vaxta verkjunum skæðum

fylgja verðbólgustíflur í æðum.

En Ingi er yfir að voma

svo allt hlýtur þetta að koma.

 

Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir lýsti því á samfélagsmiðlum hvernig hún hefur stöðugt mátt þola kynþáttaníð í sinn garð af löndum sínum:

 

Það er spurning hvort ólar skal elta

við allt sagt, sem fólki’ á að velta.

En gott eigin mennsku að melta

mönnum sem byrja að gelta.

 

25.09.24

Í tilefni af nýjasta frasa fjármálaráðherrans þóti tilefni til að rifja upp nokkra eldir og ódauðlega:

 

Þó langi engan líflömbin að skera

liggur á, nú eitthvað þarf að gera

og einhversstaðar verður féð að vera!

Alltaf best að segja „af því bara“

-ekki’ er gott því spursmáli að svara

hvort þetta’ er að koma eða fara.

En, í lokin, bara svo sé sagt:

Svona gerist ekki’ á minni vakt.

 

 

28.09.24

Haustvísa:

 

Vefur haust í hýjalín

hauður, naust og tinda.

Kyrri raustu kveður sín

kvæði austanvinda.

 

29.09.24

Heima er best:

 

Á Laugarvatni, laus við glamm,

lífsins vissi’ að nyti,

og núna dregur fjallið fram

fagra haustsins liti.

 

30.09.24

 

Út um stéttar aðeins þéttar

örmum fléttar sólin.

Hennar nettar, lyndisléttar

lífga glettur bólin.

 

 

Sólarglætan vekur von,

sem vel þó gæti brostið;

eftirlætur einkason,

árans næturfrostið.

 

 

Þau sem hugsa helst um börn,

hugga þau og styðja,

af launum hafa litla vörn,

lítilsmetin iðja.

 

01.10.24

Nú stitja ráðherrar, þingmenn, sveitastjórnarmenn og viðskiptaráð og klóra sér í skallanum yfir því hvers vegna það gengur svona illa að ráða íslendinga og kennaramenntaða í leikskólana og kennaramenntaða í grunnskólana og hvers vegna kennarar sækja sífellt meira í önnur störf en kennslu. Og skilja bara alls ekkert í því hver ástæðan gæti verið …

 

Af ráðgátu þeim roðnar kinn

við rembinginn

því löngum skortir skilninginn

og skildinginn.

 

04.10.24

 

Íhaldið er illa villt,

en alltaf fast við trúna:

Tamt er því, og telur skylt,

að tutla ríkiskúna.

 

06.10.24

Magnús Halldórsson er sjötugur í dag. Allt leikur honum í höndum, hvort sem er járn, taumurinn eða penninn – og þetta tvennt síðarefnda, „taumurinn og Penninn“ er öllum ógleymanlegt sem sáu.

 

Ennþá er dágóður dugurinn

og drengslega vakandi hugurinn.

Yrkir og temur.

Óvænt svo kemur

áttundi áratugurinn!

 

07.10.24

Lögreglustjóri Samherja á Norðurlandi eystra hefur árum saman haldið úti tilefnislausri rannsókn á blaðamönnum vegna sk. „byrlunarmáls“, en ákæra á hendur þeim, málið allt, var loks felld niður með skömm:

 

Af súrum berjum bragðið fer,

þeirra betur nýtur kreistra.

Það löggan nokkuð notar sér

á Norðurlandi eystra.

 

09.10.24

MORGUNKYRRÐ

 

Málar sól í morguns-ár

mjúkum strokum hauður.

Vatnið spánnýr spegill blár,

speglast litur rauður.

 

10.10.24

Sífellt meira óþol fyrir fjölbreytileika og ritskoðunartilburðir skekja þjóðfélagið og fréttir bárust af því að markþjálfi einn stundaði það að strika yfir heilu setningarnar í barnabóku, ef textinn félli ekki að rétthugsun samtímans:

 

MARKÞJÁLFUN

 

Það má ekki bulla neitt við börn.

Gegn barnabókum pakka skal í vörn.

Nota rauða pennann

og rithöfundinn: „brenn ‘ann“!

Ekki lesa ófögnuðinn þennan!

 

Þessi bómullaröld er svo skrýtin.

Það er krafan að banna allt!

Að þrífast á misjöfnu nú til dags

þykir markþjálfum ekki svalt.

 

 

VETRARMORGUNN

 

Vekur fjall með hvítan koll,

klettastallur brattur.

Þekur hjalla, þelar poll

þéttur mjallarhattur.

 

 

„Undan ábyrgð eru’ engir að víkjast“

þó andlega séu að mýkjast

og láti’ undan kröfum

að lúta valdhöfum

því gott þykir leiðum að líkjast.

 

11.10.24

Sigmundur telur ósanngjarnt að hann hafi verið forsíðuefni fjölmiðla fremur en Messi, þegar hann var afhjúpaður sem aflangssvikari:

 

Segir nú Sigmundur hress í

sjónvarpsviðtali, dressi’ í,

að alþjóð nú viti,

þó á sig hann skiti,

hann sé merkilegri en Messi.

 

15.10.24

Borgarstjórinn í Reykjavík upplýsti sveitarstjórnarfólk á fjármálaráðstefnu að kennarar væri sífellt veikir, vildu sífellt meira vera á fundum fjarri börnunum og við undirbúning kennslunnar:

 

Það er hann aumingjans Einar

sem ekkert veit hvað hann meinar

og sem þorskur á þingi

þruglar í hringi.

Grátt leika glerhúsið steinar.

 

 

Vísindi byggð á tilraunum

 

Ólga og þröng var á þingi,

þráttað og talað í hringi.

Af fræðingum spáð

að framlág og þjáð

stjórnin, hún stæði’ eða spryngi.

 

Því oft þegar kastast í kekki

og kólnar með innanhússtrekki

skal til vísinda vísa

og vandanum lýsa:

„Annaðhvort gýs eða ekki“.

 

26.10.24

 

Þekur fjöllin ljósum lit,

logar skrápur fagur.

Fljótt um loftin fer með þyt

fyrsti vetrardagur.

 

Tilbrigði við sama stef:

 

Herðir ógnareftirlit,

úrgur kalsabragur.

Flýgur ótt með fjaðraþyt,

fyrsti vetrardagur.

 

27.10.24

Nú verða sagðar veðurfréttir.

Laugarvatn: Logn, heiðskírt, frost 1 stig.

 

Fjöllin! Vatnið! Foldarskart!

Fögrum dráttum letrar

eygló, svona undurbjart,

á öðrum degi vetrar.

 

Tilbrigði við sama stef:

 

Höfuðið blárra en blátt,

blúndur við logagyllt hár,

ennið er hærra en hátt,

hálskraginn hvítastur snjár.

 

28.10.24

 

Veðrið breytist æði oft

-eins og saltið vegi-

Þéttur suddi, þrútið loft

á þriðja vetrardegi.

 

 

Hví þarf að beita verkfallsvopni

svo viðsemjendur hlusti?

Vonumst til þeir eyrun opni

og af sér rykið dusti.

 

 

Þjóðinni fellur til maðkað mjöl

við makræði gróðaafla.

Þau seint munu eina felld við fjöl

en feitina til sín krafla.

 

 

Liðs af kaunum leggur daun

er lýðinn hraunar yfir.

Hans eru’ ei baun í bala laun.

Við bráðar raunir lifir.

 

 

Formenn hafa’ að fjasi sest

og fundi slitið.

Víst að fyrr nú verkfall hefst

en við er litið.

 

30.10.24

Formaður samninganefndar sambans sveitarfélaga taldi möguleika að standa við undirritað samkomulag ef hægt væri að „finna leiðir til að auka verðmæti starfa kennara“:

 

„Á kennara ekki ég yrði,

allrasíst við þá mig spyrði

því um það nú ekkert ég hirði

sem ekki er nokkurs virði“.

 

31.10.24

Allir Klausturdónarnir komnir aftur í framboð hj´Miðflokknum, og Jakob Frímann genginn í liðið:

 

Allir klúrir Klaustursveinar

komnir eru’ af fjöllunum.

Yfir ríkja þeir ‘aflandshreinar’

öllum rugludöllunum.

 

Hjá þeim stendur Stuðmaðurinn:

„Stefnan góð á böllunum“.

Syngur bakrödd, sóma urinn,

sig hann gefur tröllunum.

 

02.11.24

Margir að máta sig við framboð til Alþingis, og hjá hvaða flokki bestu möguleikarnir liggja:

 

Í lofti nokkurn fiðring finn,

um framtíð þarf að makka

og nú er margur maðurinn

að máta nýja jakka.

 

03.11.24

MADDAMAN LEITAR UPPRUNANS

 

Mannúðin gleymd var og grafin,

í gamla barnatrú vafin

og af forneskju blá

í fjóshaugnum lá.

Nú upp úr skítnum er skafin.

 

VATNSVEÐUR

 

Það rignir bara og rignir

og rís mjög lækjum í.

Árbakkar allir útmignir,

en ósköp er bunan hlý.

Af gamla stallinum stignir

steinar, með nokkrum gný,

og svörðurinn ákaft sig signir,

er sáranna kennir á ný.

Samt alltaf að lokum lyngir

þó leitt sé að bíða’ eftir því.

 

AÐ LÁNI

 

Mér finnst ég hafi farið langan veg,

á ferðum víða misjafnt reynt og séð.

Mér veröld samt er oftast yndisleg

þó aðeins sé ég marklaust, lítið peð.

 

Að lokum, þegar þennan heim ég kveð,

og þakkir, fyrir jarðvist, saman dreg,

er ljóst að, bæði leiki við og streð,

í lánsfötum er það sem kallast ég.

 

ÁTTA GRÁÐUR

 

Að vetur kóngur kominn sé

karskir margir dylgja.

En á guðablíðu gefst ei hlé

og gróðrarskúrir fylgja.

Sýnt að undur sé að ske;

sumarhitabylgja.

 

06.11.24

Úrslit forsetakosninga í USA:

 

Ei nýmæli lengur er nokkuð sem skeður,

svo napurt í heiminum varð.

Það er fornaldarmyrkur og foráttuveður

og fasisminn ríður í garð.

 

07.11.24

VEÐURVÍSA

 

Engu hlífa strengjastíf

stormagífuryrði.

Ákaft rífur kjaft, og kíf

kára ýfir firði.

 

 

Er lýðræðið bara eitt léttvægt skaup?

Eða langdregið fyrirbjargshlaup

fyrst stórþjóð að altari illskunnar kraup?

Alls óvíst um hvernig fer!

Má sætta sig við þau súru kaup,

að svartnætti, glórulaust raup

og siðlausan glæpamann, lygalaup,

lýðurinn kjósi sér?

 

 

Við bæjardyr hefð var hjá Brúsa

í býtið að freta og snúsa.

En aðsvif hann fékk

er einn dag hjá gekk

Ástríður eðlunarfúsa.

 

09.11.24

 

Er vinirnir sigldu heim víkina

lék vindur um skítugu flíkina.

Þeirra skúta og bryggja

er skynsemishyggja:

Að „hjóla í helvítis tíkina“.

 

11.11.24

Gunnar, sonur pabba síns, upplýsti þjóðina, óvart, um það hvernig kaupin gerast á eyrinni innan Sjálfstæðisflokksins:

 

Strákum löngum létt um skraf,

þeir liðugt snúa trissu

og þá er leynd oft þvegin af

því sem allir vissu.

 

13.11.24

 

Sjaldan um að bíða bið,

samt biðin stöðugt lengist.

Ég í næði jaxla bryð,

jörð og himni tengist.

 

 

21.11.24

DRAUMAR OG VERULEIKI

 

Margt þarf að hafa í huga

er að heiman er farið af stað.

Mun æskunnar drauma duga

að draga á óskrifað blað?

Eða fljúga um, eins og fluga,

í fléttum, ljósinu að?

Ef andstreymi er þig að buga

og áhyggjur ríða í hlað

þú ættir að hugsa um það.

 

 

VETRARRÍKI

 

Kyrrt um dagsins kerti,

það kól í skini sólar

sem ei megnar sóma

að sýna arði jarðar,

veita yl við eldinn,

orna brjótum þorna.

Ristir foldu frostið,

fer með völdin köldu.

 

22.11.24

SKAMMDEGISVÍSA

 

Glóir sól og gælir

geisli mjór við ljóra,

hefur sig úr hafi,

heimi ekki gleymir.

Gangan þrautin þyngri

er þurrakuldi urrar

en eftir mánuð aftur

andar vor í sporið.

 

 

NEYÐARAÐSTOÐ

Bankastjóri Arionbanka hélt því fram í fjölmiðlum að „bankinn tæki meginhöggið“ vegna stýrivaxta:

 

Í stóran vanda stefnir hér

stýrivaxtaböggið

en borgurunum borgið er

því „bankinn tekur höggið“.

 

23.11.24

NÁTTÚRUDÝRÐ

 

Dýrð er út að líta,

yfir kyrrð, og firrðin

fangar, sinnið syngur

og sindrar hugarflugið.

Glóa himinn, hamrar,

heiðar, sund og grundir.

Furðulega fagurt

finnst mér ‘skerið’ vera.

 

FROSTNÆTUR

 

Sveipar myrkum serki

svalur ýlir, býlin.

Herðir frostið, festir

fægðum klóm í blóma

jarðar, höndum hörðum

heggur, dýpra leggur.

Drúpa grösin gisin,

glitra fögru kögri.

 

25.11.24

„Hér er allt í góðum gír“

 

Gleðilegt að gengur margt að góðum vonum.

Arður vex hjá Íslands-donum,

arfleifð handa dætrum, sonum.

 

Þessir kunna auðlindirnar einir nýta.

Undan skulu aðrir líta,

ofurmenna vilja hlíta.

 

Því fagna ber að fjölskyldurnar fáu meti

þau feiknin öll af „feitu keti“

og fóðrað alla sína geti.

 

Alltaf þarf víst einhversstaðar aur að geyma.

En það er ekki öruggt heima

undir kodda, því má gleyma.

 

Eyjar traustar eru margar út í löndum.

Auði þangað stefnt að ströndum,

sem stöðugt vex, í þagnarböndum.

 

Er banka vilja bestu vinir, bregst við glaður

Bjarni, okkar besti maður

og bjargar því, í spori hraður.

 

Passar uppá pening handa pabba líka.

Sælt að eiga syni slíka,

samt er óþarft því að flíka.

 

Gerast flestir aumingjarnir öfundsjúkir.

Margur sér á hækjum húkir,

í hugarvíli bjarglaus klúkir.

 

Lýður vesæll liggur gjarnan lágt á fleti.

Hans er versti löstur leti,

lítil von sér bjargað geti.

 

 

27.11.24

FROSTSINDUR

 

Þvættir úði þéttur

þvalan sinubalann.

Frost við jörðu festir

föla grímu úr hrími,

og strý, á sinustráin.

Stirnir fána af mána-

skini, áður skæni

eru skuggalaunráð brugguð.

 

 

Aðeins glingur, orðastreð,

í eyru stingur fumið.

Inn á þing skal æða með

auglýsingaskrumið.

 

 

Að kosningunum kemur brátt.

Hvað skal velja?

Útlit núna öskugrátt,

ýmsir telja.

 

 

DÆGIDAGAÞRÁ

 

Gengur á með angri

ofanhelliskellis.

Dimmar skúraskammir

skeyta’ að engu leyti

um prúðar þarfir þjóðar,

þrá um skjól í sólar-

glætu, „dægidaga“

með dúnalofti oftar.

 

 

Næsta er mín óskagjöf,

að íhalds- þagni tungan

og tekin fljótt að flokksins gröf

fyrsta skóflustungan.

 

Hákon Páll Gunnlaugsson taldi einsýnt að þessi draumur myndi seint rætast. Svaraði honum þannig:

 

Hákon slæman dreymdi draum,

dró hann martröð niður.

Íhald sá við glasaglaum,

gekk þvi allt hér miður.

 

29.11.24

Dagur B. Eggertsson hent gaman að því á Fjasbókarþræði íhaldsmanns að þeir flokksmenn gætu bara strikað yfir nafn sitt á kjörseðlinum, fyrst þeim væri svona meinilla við hann. Íhaldið hafði ekki húmor fyrir þessu, ærðist hreinlega og kærði hann, gott ef ekki fyrir landráð:

 

Þar sem sólin aldrei á það skín

er íhaldið með skítabixin sín.

En svo heimi bjarga megi

þar birtir loks af Degi

er maður einn var grunaður um grín!

 

30.11.24

Kosningadagur

 

Á kjörstað í bítið var brunað

og blýantur tekinn til gagns.

Hvort valið við verður unað

er á vog milli gæða og magns.

 

03.12.24

BROSTNAR VONIR

 

Föl á jörðu felur

frosti hertar, brostnar

værðarvonir svarðar

um varma daga, í haga

blíðan blómatíma,

í blæjalogni sjá gægjast

brum af grænum greinum

og við gróinn balann hjala.

 

04.12.24

Stjórnarmyndunarviðræður hafnar, milli þriggja kvenleiðtoga, Kristrúnar, Þorgerðar og Ingu:

 

Nú þarf að syngja svipað stef,

saman vel að lynda

og í takti taka skref

takist stjórn að mynda.

 

06.12.24

Viðræðum fram haldið:

 

Stjórnarmyndun stendur yfir.

Steyti ekki skerjum á

von um betri landsstjórn lifir.

En lengi manninn reyna má.

 

 

Haft var eftir Gunnari, „syni pabba síns, að Bjarni Ben gæti ekki hyglað Kristjáni í Hvalnum sjálfur, vegna vina- og eignatengsla, og þyrfti því á öðrum að halda til að veita hvalveiðileyfin, „pabba mínum, sko“. En þar misreiknaði strákurinn sig illa:

 

Gunnar virðist alger álfur,

ekki skilur spilligjálfur

Bjarna ben

og blaðrar: „En

hann getur ekki gert það sjálfur“.

 

07.12.24

Eitthvert fyrirbæri sem kallar sig „Virðingu“ og heldur að sé stéttarfélag, hefur gert kjarasamning við Samtök fyrirtækja í veitingaþjónustu (SVEIT), en forsvarsmenn munu vera að mestu þeir sömu beggja vegna borðs. „Miðstjórn Alþýðusambandsins lýsir yfir óbilandi og skilyrðislausri samstöðu með launafólki í veitingageiranum. Miðstjórn lýsir yfir stuðningi við réttindabaráttu þess og við gerð raunverulegra kjarasamninga í stað skipulegrar viðleitni til að níðast á láglaunafólki, ekki síst innflytjendum og ungmennum.“

 

Um vinnutíma og risnurétt

skal rífa niður girðingu

en frelsi til starfa í samning sett:

Já, sýnum fólki Virðingu!

 

08.12.24

Harðstjórn Assads í Sýrlandi var hrundið í dag. Þó hvert skref sé mikilvægt er þó tæplega ástæða til að fagna sigri yfir kúgun og spillingu í heiminum:

 

Hækkar von um heiminn senn?

Nú er harðstjórn einni færri.

En vandamál er varða menn

virðast bara stærri.

 

11.12.24

Samtök fyrirtækja í veitingarekstri, SVEIT, stofnuðu gervistéttarfélag til að geta haft sjálfdæmi um laun og kjör starfsfólks, og komið höggi á verkalýðsfélög og réttindabaráttu launþega:

 

Hvað verður, enginn veit.

Að virðingu margir í leit

og því nýjasta nýtt

af nokkrum það títt

að segi sig af SVEIT.

 

12.12.24

FEGURÐ FRAMTAKS OG FRAMFARA

 

Þá sem kynnast töfrum öræfanna;

ómi þagnar, dularmætti kyrrðar,

heillar viðkvæmt blóm í birtu fanna,

blámi endalausrar sjónhringsfirrðar.

 

Jón og Skúli fyrrum valdið flúðu,

fótaber og einhesta, í skyndi

til fjalla, þeir á tröll og vætti trúðu,

en tókust á við náttúrunnar lyndi.

 

Nú gleiðbrosandi tætum við á trukkum

á tjörubornum, upphækkuðum vegum

þar sem áður grjót og gjótur stukkum

á gamla Sörla, í holdum rennilegum.

 

Hér opnast dýrðin ferðamannafjölda,

sem fyrr var torsótt leið um hraun og klungur

og dulúð myrkra Hveravallakvölda

kasta upp á skjái geislatungur.

 

Og þjónustan fæst keypt í Þjófadölum,

Þjórsárdal og Kerlingar í fjöllum,

þar lagt á malbikuðum mosabölum

við mulinn stíg að gráum baðlónshöllum.

 

Í langri röð við gjaldhlið bíður gerið,

-glymur lúðurrödd úr holri bjöllu-

eftir því að horfa gegnum glerið

á Gítar-Eyvind raula fyrir Höllu.

 

Um ferðamannastrauminn, hagvöxt, hagnað,

hugsa þarf, og framtíð barna vorra,

þó öræfanna yndislag sé þagnað

og orðin gróinn stekkur búðin Snorra.

 

Skal nú Ísfold heygð í Húsafelli?

Til hvers var gegnum aldaþrautir stritað?

Hefði‘ann riðið að, um akurvelli,

ef að Gunnar þetta hefði vitað?

 

13.12.24

Bjarni Ben. telur að landsmenn muni sakna Sjálfstæðisflokksins gífurlega við landsstjórnina: Hins vegar, sem hann getur ekki um, hefur skuldasöfnun sjaldan eða aldrei verið meiri en undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og vaxtagreiðslur ríkissjóðs af skuldum síhækkandi hlutfall af ríkisútgjöldum, svo til auðnar horfði, ef flokkurinn hefði ekki verið kosinn frá völdum og áhrifum, og þó fyrr hefði verið:

 

Árviss frétt, en ekki grín,

er ógnar ríkishalli

og þó Bjarni geymi gullin sín

færa gjöldin þjóð nær falli.

Á íhaldið samt ekkert hrín,

það enga skilur höfnun.

Og ég er alveg miður mín

ef hér minnkar skuldasöfnun!       

 

14.12.24

Veðurvísa

 

Himinflóru blika blóm,

í beði stóru glingur.

Um opinn ljóra æðri hljóm

englakórinn syngur.

 

15.12.24

HUGANS AKURLÖND

 

Nú leggur föl á freðna jörð

og fyllir dælur, gil og skörð.

Hún lýsir upp hvern dimman dag

og dýrðin léttir sálar brag.

 

Hvað okkar bíður enginn veit,

ólán finnst í hverri sveit,

en eitt er víst, að alltaf má

yl og náungkærleik sá.

 

Munum það, ef maður sést

meiddur, hrakinn út úr lest,

að rétta ætíð hjálpar hönd

og hugans plægja akurlönd.

 

16.12.24

Trúrarsöfnuðirnir halda áfram að murka lífið úr fólki sem aðhyllist önnur trúarbrögð. Nú eru það gyðingar sem fara fyrir ófögnuðinum:

 

Kenndi tæpast tillitsvott

trúarþruglið forðum.

Kannski nú sé komið gott

af kristilegum morðum?

 

20.12.24

Ný ríkisstjórn

 

Búið er að berja saman stjórn,

blaðamannafundur er á morgun.

Spurnig þá hver stærsta færði fórn

og fyrir það hver krafa var um borgun?

 

21.12.24

Kristrún Frostadóttir, Inga Sæland og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mynduðu þriggja flokka stjórn sem var kynnt í dag:

 

SÓLHVARFASTJÓRN

 

Víst er rétt að vara sig

á að von um betri tíma

raunsæi ei ríði’ á slig,

að renni’ á tvískipt gríma,

stunda’ ei heldur fyrirfram

fordæmingar harðar.

Án innstæðu orðaglamm

engan neitt um varðar.

Best er því að bíða’ og sjá

og bera sig að vonum.

Kannski þjóðin þrífist hjá

þessum sterku konum?

 

23.12.24

JÓLAKVEÐJA 2024

 

Blasa við hörmungar heiminum í.

Hvenær gefum við illskunni frí?

Hvað er fallegra’ en friður á jörð?

Hví forðast mannkynið sáttagjörð?

Þurfum við þrautum að valda?

 

Um kúgun og ójöfnuð vitum við vel,

um vonleysi, fátæktar lokuðu skel.

Þó þrotlaust um ævi sé stritað við starf,

stöðugt allsnöktum keisurum þarf

blóðug gjöldin að gjalda.

 

„Meðaltalskaupmáttur mikill“, er sagt,

og í moðsuðu’ um jöfnuð útaf því lagt.

En lítið það dugar um mánaðamót

ef matbjörg er þrotin, engin sést bót.

Þá herðir að krumlan hin kalda.

 

Sá aðeins telst maður sem ætíð er hress

á yfirsnúningi, dæmdur til þess

að fljóta viljalaus meginstraumi’ með,

á móti að róa er ekki vel séð,

í móinn ei vinsælt að malda.

 

Að berjast í nauðum við heiminn er hart,

því hamingju kjósum, að útlit sé bjart.

Á mennina kökunni misjafnt er skipt

og mörg þykka sneiðin með rjóma er typpt,

en enginn þarf á því að halda!

 

Þó „allt sé í heiminum hverfult“ og valt,

við hér saman dveljum, þrátt fyrir allt,

svo kynþátta milli byggjum nú brú

og biðjum að kærleikur, von og trú

lifi um aldir alda.

 

Veðurvísa á Þoddlák:

 

Það er áhlauparigning og rok.

Það rökkvar dags fyrir lok.

Allvíða óttast má fok.

Einhver nú fær upp í kok.

 

24.12.24

Félagi minn úr hestaferð, Einar Geir Hreinsson, minnti mig á vísu, sem ég samdi fyrir nokkrum árum og hann heldur upp á. Nú jók ég í einu erindi, svo kalla má e.t.v. kvæði? 

 

Það sem jörðin býður best

 

Þið sem í fjarska fjöllin aðeins sjáið,

földuð bláma, roðagyllt og hvít,

um bílrúðu og engri nánd því náið

við náttúruna; ilm af hrossaskít,

djúpa þögn í mosahrauni hrjúfu,

hrannaflug í vötnum, moldarryk,

og morgunsöng frá listaskáldi ljúfu:

Leitið færis – að stöðva augnablik.

 

Það sem að jörðin býður best- að æja

í birkilundi, fjarri vélagný,

hversdags glaumi‘ og glysi frá sér bægja

en gleði sanna finna hjarta í.

Fátt er sælla sumardægrin ljúfu

en snoppur fáka kvikar hlýða á

rífa safagras af grænni þúfu:

Guðdómlegt er lífið orðið þá.

 

Veðurvísa á aðfangadag

 

Reitir úr sér, yfir fer

úlfgrá skýjahula.

Aftansöngsins æfir kver

sú appelsínugula.

 

28.12.24

Visir.is: „Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins fretar fundi:

 

Eins og hundur dreginn sé af sundi,

sneypulegur, niður hrundi.

 

Virðist nú að vakin sé af blundi

veðurstofa flokksins

og leggur til að fresta fundi.

Formaðurinn vel við undi.

 

En þá stundi Mundi.

 

29.12.24

Magnus Carlsen var rekinn úr Heimsmeistaramótinu í atskák fyrir að vera á gallabuxum:

 

Ýmsir hafa áhyggjur af því

hve um útlit mikið hugsum.

En nú skáka’ og máta meistararnir í

máðum gallabuxum.

 

Veðurvísa

 

Mikið er á fróni frost,

fimbulkuldi víða.

Bara’ ef ætti annan kost;

þá yrði sól og blíða.

 

Litið til baka

 

Nú mun árið enda senn

og þá lít til baka.

Yndislegt var allt ‘í den’;

af ótalmörgu’ að taka.

 

Fróm ósk

 

Í auðmýkt hér ég óska þess að allt nú batni.

Hjá fólki heimsins harmur sjatni

og heim það flytji’ að Laugarvatni.

 

Vangaveltur

 

Veltist margt að vonum ef að vilji fylgir.

Nema öðrum orðum málgir

eða hugsun betur tálgir?

 

Nú á himni skyggir ekki ský

og skáldfákurinn hleypur um með gný.

Enginn ljóð mín nemur, nema ég.

Er nokkurt vit að ganga þennan veg?

 

30.12.14

Kóngur um stund

 

Á vorin er sunnanblærinn bestur,

ber hann glóðheitar fregnir,

til okkar, norður, austur og vestur,

engum samt skipunum gegnir.

Vorið og sumarið sannlega geta

svikið landsmenn um hlýju.

En að sitja á hesti, í hlaðið að feta,

hugann eflir að nýju.

 

Hafirðu glymjandi götur riðið

á gamla vininum þínum,

verið Kóngur um stund, svifið um sviðið

á silkiganginum fínum,

þá hefurðu altént um einstaka sælu

að yrkja, og koma í letrið

og kæran reiðhest að gera við gælu

er gott fyrir sálartetrið.

 

Allt sem lifir er aufúsugestur,

þó á endanum gamlist, og visni.

En fátt er sárara’ en horfinn hestur

úr heimi, óvænt af slysni.

 

31.12.24

Áramótakveðja 2024

 

Við gnægtir alls er vært að vera til.

Var vöggugjöfin happakerti’ og -spil?

Þau sem fengu öruggt skjól og yl

af sér geta staðið hríðarbyl.

 

Í norðri loks á himni hækkar sól,

þar haldin eru gleði’ og friðarjól.

En þó er víða helstríð heims um ból,

herja fantar, með sín vígatól.

 

Þegar slær að þræsingur og él,

þankagangur lokast inni’ í skel,

þá er alltaf gott að gera vel,

gleðja aðra, sýna vinarþel.

 

Ef allir vildu þerra tregatár,

tætt og rifin græða innri sár,

lífsins ganga yrði ‘ferð til fjár’,

og friðar nyti mannkyn hvert eitt ár.