Til Önnu Maríu – 14.08.2024

I

Orð

geta með engu móti

náð

utan um allt

 

II

Engin orð

fá lýst fegurðinni

þegar sólin

skríður upp

á himininn

og speglast

í vatninu heima

 

III

Engin orð

fá lýst fullkomnuninni

í tærri fjallalind

eða bliki

í djúpbláum

augum

 

IV

Engin orð

fá lýst

brumandi

blómknappi

eða brosi

blíðra vara

 

V

Engin orð

fá lýst

fjallasýn

undir heiðum himni

eða hlýjunni

í ástföngnu hjarta

 

VI

Það er gaman

og gott

að vera ungur

og ástfanginn,

leiðast á veg

vitandi

að veröldin

hefur býsnin öll

upp á að bjóða

sem bergja má

endalaust af

með opnum huga,

gjörvri hönd

og hlýju hjarta

 

VII

Þannig ert þú

í pottinn búin

og að þér safnast því

býsnin öll

af heimsins gæðum;

gleði

og góðum stundum

í minningamalinn

 

VIII

Það er gott

og gaman

að vera ástfanginn

og eldast saman,

sitja í innsta hring

og ástvinir

allt um kring

 

IX

„Sól rís,

sól sest“

 

Og þó enginn sé efi

hvort

-aðeins hvenær-

 

fegursta blómið

í beðinu

fölnar og deyr,

 

fagna ber því

 

-hverju sem framtíðin

finna kann upp á-

 

að ferðin hingað

var farsæl

og förunautunum

líklega best