Það er þessi dagur í dag

Það er þessi dagur í dag. Og þetta er fertugasti og fyrsti 19. apríllinn okkar!. Þau eru því orðin fjörutíu árin sem við Anna María höfum stigið sporin saman, oftast í góðum takti, þó auðvitað hafi komið fyrir að ég stigi á tærnar á henni, klunninn sem ég er. Ekki þarf að orðlengja það, en gæfan hefur slegist í för, barnalánið er mikið – og vonandi nokkur góð ár eftir til að njóta samvista við hópinn okkar, sem brátt telur 24 fallega og góða einstaklinga.

Af þessu tilefni fékk ég Labba í Mánum til að syngja fyrir mig kvæðisbút sem ég samdi við þekkt lag sem okkur er kært, og tengill er á hér efst á síðunni:

Ástin mín

Lífs míns á vegi
vakir enn minningin,
frá örlagadegi
er dró stóra vinninginn.
Þá óvænt hitti
þig í fyrsta sinn.
Féll í stafi,
starði á þig hugfanginn.
 
Fór af mér glansinn
er góndi í augu þín.
Bauð samt í dansinn,
þú brosandi komst til mín.
Sveifstu um gólfið,
geislandi og hlý.
Meðan lifi
mun ég aldrei gleyma því.
 
Ég varð ástfanginn
það eina sinn.
Hélt um sólina’ og himininn!
Hvergi undur lífsins samt
ennþá skil – þar duga skammt
skilningarvitin.
 
Dásemdir hreinar,
dillandi hláturinn,
tindrandi steinar,
treginn og gráturinn.
Allt sem þú gerir
innst við hjarta grær.
Sífellt betur
sé ég hve þú ert mér kær.