Margt er miður fallegt í menningarsögunni. Nýlendukúgun, arðrán, þjóðarmorð, þrældómur, kynhneigðarkúgun, lista- og menningarrán. O.s.frv. Grundvöllur velsældar „hins vestræna heims“ er ekki falleg saga.
Nú er mjög til umræðu hvað má og hvað má ekki. Gamlar „barnagælur“ eru bannaðar vegna rasisma í orðfæri og viðhorfum til blökkumanna. Gömul málverk í stofnunum mega ekki lengur hanga þar á veggjum því þær minna á aldalanga kúgun og hlutgervingu kvenna. Ófatlaður maður má ekki leika fatlaðan á sviði Þjóðleikhússins af því það er niðurlægjandi og dæmigert fyrir jaðarsetningu og útskúfun fatlaðra. Ekki má dubba fólk af hinum hvíta kynstofni upp í asískt gervi í óperu sem gerast á í Japan, því það er menningarnám, niðurlægjandi tákn um ofríki og menningarlega nauðgun hins vestræna heims. Deilt er um hvort breyta megi bókmenntaverkum fyrri tíma til að þau falli að smekk nútímans – að „rétthugsun“ hins upplýsta og frjálslynda nútímamanns, þar sem ekkert ER lengur, enginn sameiginlegur grundvöllur að standa á, heldur einungis þær tilfinningar og „upplifanir“ sem hrærast innan þess sólkerfis sem hver og einn einstaklingur er. Kynin eru ekki lengur tvö heldur jafnmörg þeim lífverum sem teljast til tegundarinnar homo sapiens.
Við hjónin fórum á sýningu Íslensku óperunnar, Madama Butterfly e. Puccini. Sýningin komst í fréttirnar þegar hljóðfæraleikari í Synfóníunni kvartaði undan því menningarnámi sem felst í því að hvítir voru farðaðir sem asískir. Þátttakandi í sýningunni „kom fram“ og lýsti óhugnaði sínum yfir því að hafa tekið þátt í þessari aðför að japanskri menningu og lýsti því yfir að hann myndi ekki taka þátt í þessu framar – þ.e. að láta farða sig. Fólk skiptist óðar í tvær fylkingar um þetta málefni.
Sýningin var ljómandi. Söngurinn var framúrskarandi, svona eins og vit mitt gagnast til að dæma um það. Hye-Youn Lee söng aðalhlutverkið og heillaði óperugesti. Stórkostleg söngkona. Sjálfsagt er það heppilegt í ljósi umræðunnar að hún er einmitt japönsk sjálf. Arnheiði Eiríksdóttur, sem syngur líka afbragðsvel, þurfti hins vegar að farða og klæða í japanska þjónustu, og fleiri lentu í þeim menningarfasisma. Egill Árni Pálsson söng hitt aðalhlutverkið og þessi gamli nemandi minn úr Reykholtsskóla gerði það listavel. Og allir söngarvar stóðu sig vel, þannig að tónlistin naut sín og hreyfði við áheyrendum, jafnvel gömlum þverhaus eins og undirrituðum.
Ekki verður því neitað að sagan í óperunni er alveg dæmigerð óperusaga fyrri tíðar. Þetta er hefðbundin karlrembusaga; konan er saklaust og viðkvæmt blóm, í erfiðri félagslegri og efnahagslegri stöðu, sem er „bjargað“ af forríkum karli, sem svíkur hana auðvitað við fyrsta tækifæri, og hún, með öllu ósjálfbjarga þegar karlsins nýtur ekki við, drepur sig í örvæntingu ástarsorgar í lok leiksins. Um þetta eru nánast allar klassískar óperur.
Og sagan endurspeglar líka ofríki hins vestræna, hvíta heims. Bandaríska herveldið veður yfir japanska þjóð. Hvítur herforingi veður yfir japönsku kvenþjóðina. Forríkur, hvítur, miðaldra karl veður yfir fátæka alþýðu.
Það er margt ógeðfellt í þessari sögu, sem „gerist snemma á síðustu öld“ eins og óperustjórinn skrifar í aðfararorðum sýningarskrár. Þar segir Steinunn Ragnardóttir líka að umfjöllunarefnið sé „tímalaust því tilfinningar okkar breytast ekki og mennskan verður alltaf söm við sig“ og að óperan fjalli „um ódauðlega ást og vonina sem veitir tilgang í ömurlegum aðstæðum.“ Vonin sé „eitt sterkasta aflið sem við eigum og svo lengi sem hún lifir getum við umborið næstum allt.“
Það stakk mig ekki að hvítir leikarar og söngvarar hafi verið farðaðir og dubbaðir upp í japönsk klæði. Það er einmitt það sem leikarar gera; þeir setja sig í gervi annarra, „leika“. Þess vegna köllum við svona gjörning „leikrit“. Og ekkert við það að athuga.
Hins vegar gætu alvöru baráttumenn fyrir frelsi, jafnrétti og efnahagslegum jöfnuði hafið upp raust sína með fullum rétti. Því ef sagan sem óperan segir er dæmi um þær tilfinningar og þá mennsku sem við viljum að verði alltaf söm við sig, lýsi þeirri ást sem við viljum að sé ódauðleg og þá von sem við viljum bera í brjósti til að umbera næstum allt – ja, þá er illa komið fyrir mannkyninu. Viljum við að konur séu valdalausar gólfmottur fyrir ríka karla? Viljum við að eina von fólks í „fjarlægum“ heimsálfum sé að forríkur karl úr velsældarheimi bjargi því úr tilgangsleysi og vonleysi eigin lífs og menningar? Viljum við að hugmyndin um hina sönnu, ódauðlegu ást byggist á því að konan sé undirlægja, sem á hvorki framtíð né von án karls? Forríks auðvitað.
Mín tillaga er að Íslenska óperan hætti að birta þýðingar á texta verkanna á sjónvarpsskjám í salnum. Þá gæti fólk notið tónlistarinnar og söngsins, óvitandi um og ótruflað af allri þessari kvenfyrirlitningu, nýlendufasisma, kúgun og menningarnámi sem frásögnin er uppfull af og er matreidd ofan í það á skjáum.
Fyrir utan það hve mikill endemis leirburður textinn er.