Útigangur

Í desember er dimmt á jörð,

dagar seint og illa.

Í haga standa hross við börð,

heldur er þar skýlla.

 

Glettinn lækur, grösug hlíð,

geislans morgunkossinn.

Útigangs í góðri tíð

gömlu njóta hrossin.

 

Láti bylur hátt við hól

og harðni mjög á dalnum

í haga þarf að hafa skjól

og hey í fóðurmalnum.

 

Í morgunroða rósafjöld,

á rúðu hörð er skelin.

Golan stingur stinningsköld,

þó startar dráttarvélin.

 

Í sömu andrá hefur hátt

háls og eyru stóðið,

horfir svo í eina átt,

eltir vélarhljóðið.

 

Að hirða skepnur léttir lund,

lífs er besti skólinn

og heimsins mesta helgistund

hey að gefa um jólin.

 

Helgi jóla í hjarta finn,

heilsa og berst við tárin

er kjassa gamla klárinn minn

með klökuð nasahárin.