Eitt megin hreyfiaflið er gredda

Fjarvera þín er myrkur

Jón Kalman Stefánsson

Benedikt, Reykjavík 2020

 

Þetta er langhundur, það verður að segja það eins og það er, tæpar 500 síður. Það verður líka að segja það eins og það er að þessi skáldsaga hefði þolað þó nokkurn niðurskurð, a.m.k. 20% eða 100 síður til að byrja með.

Jón Kalman hefur um hríð verið minn uppáhaldshöfundur. Hann skrifar alveg gullfallegan texta og hefur vald á djúpri persónusköpun, það verður ekki af honum tekið. En það hefur verið að teygjast ansi mikið úr honum með tímanum og gæðin hafa ekki aukist í réttu hlutfalli við fjölgun blaðsíðna. „Gömlu sögurnar“ eru með öll hin betri element höfundarins, þó mun styttri séu.

Forsíðan er af girðingu, sem er táknrænt því fólk getur verið óttalegir staurar. En girðingarstaurar „halda líka öllu uppi“ og eins og í „Sumarljósi og svo kemur nóttin“ er nokkuð verið að huga að girðingum.

Þetta er fjölskyldu- og ættarsaga, samskipti kynjanna nokkurra kynslóða sömu fjölskyldunnar eru í forgrunni og flakkað milli tímaskeiða, svona 120 ár fram og til baka, án þess tímaflakkið verði nokkurn tímann truflandi.

Meginkostir þessarar sögu er persónusköpunin, næm sálfræðileg innsýn og hæfileiki til að koma líðan fólksins til skila til lesandans. Að þessu sögðu setur söguna niður í lokin, þegar höfundurinn fer að láta persónur útskýra sjálfar sig í sendibréfum sín í milli. Það hefði mátt skera allar 100 síðustu blaðsíðurnar aftan af án þess nokkuð hefði glatast af þekkingu lesandans á tilfinningalífi viðkomandi persóna.

Eitt meginhreyfiaflið í sögunni er gredda. Það er stöðug standpína í gangi, og þegar kemur að standpínu nr 50 (eða þar um bil) finnst manni jafnvel nóg komið. Vandamálið er jafnan það að karlmönnunum blýstendur til annarra kvenna en sinna eigin og konurnar hafa sömuleiðis fyrst og fremst kynferðislegan áhuga á öðrum en eiginmönnum sínum. Segja má að girðingavinnusenan úr Sumarljósi (fyrir þá sem það hafa lesið) sé hér margendurtekin, kynslóð fram af kynslóð.

Þetta er sem sagt saga forboðinna ásta. Togstreitan milli skyldunnar við börn sín og fjölskyldu annars vegar og hamingjunnar hins vegar. Hamingjan lætur ævinlega í minnipokann fyrir skyldunum og í því felst hin mikla lífsgáta og tregi.

Hinn megin kosturinn er textinn. Heilu blaðsíðurnar eru stráðar orðaperlum sem mynda samhengi djúprar málsháttavisku. Titillinn er eitt dæmi um þetta: „Fjarvera þín er myrkur“.

Það er fyrir þetta tvennt sem hægt er að ljúka bókinni, persónusköpunina og snilldartilþrif í meðferð málsins.

Vonandi verður næstu bók betur ritstýrt, eitthvað knappari, án þess þó að allar fallegu línurnar verði bútaðar í spað. Því það má auðvitað ekki.

Skrifað 8. október 2021

Jesú í göngugötunni

Englaryk

Guðrún Eva Mínervudóttir

JPV útgáfa

Reykjavík 2014

 

Ekki er ég fastur lesandi Guðrúnar Evu en gæti hugsað mér að kanna höfundarverk hennar betur.

Þetta er vel skrifað, það vantar ekki, ljúfur og fallegur texti, og sögunni vindur hnökralaust fram. Segir af unglingsstúlku í Hólminum og fjölskyldu hennar. Hvörf verða þegar hún hittir Jesú bróður besta á götu úti í sólarlandaferð.

Flækjan sem leysa þarf úr eru þau áhrif á fjölskyldu, vini og nærsamfélag sem það hefur að hún segir frá atburðinum og breytir hegðun sinni í samræmi við hina trúarlegu upplifun.

Persónur eru dregnar nokkuð skýrum dráttum, þær eru trúverðugt, „venjulegt millistéttarfólk“ og fremur viðkunnanlegt barasta.

Helst er að skorti meiri dýpt í þetta allt saman, fyrir minn smekk. Meiri andstæður og átök. Lesandanum er hvergi ögrað að ráði, honum er nokkurn veginn sama um þetta fólk, en söguefnið gefur vissulega tilefni til að kafa dýpra í sálarangist unglingsstúlku á kynþroskaaldri sem lendir upp á kant við fjölskyldu, vini og samfélagsnormin.

En mjög læsileg bók og ábyggilega mörgum að skapi. Því ekki vilja allir hart undir tönn, heldur kjósa fremur auðmeltari rétti.

Skrifað 09.11.21

Hugarórar bilaðs manns

Eldur í höfði

Karl Ágúst Úlfsson

Benedikt bókaútgáfa

Reykjavík 2021

 

Karl Ágúst er vitaskuld landskunnur og dáður höfundur, já og hæfileikaríkur listamaður á mörgum sviðum, en þetta mun vera fyrsta skáldsagan, þó ótrúlegt megi virðast að ekki finnist annað slíkt verk í bólgnu safni hans.

Eldur í höfði fjallar um geðsjúkan mann, þráhyggju hans og veruleikafirringu, og kallast að því leyti á við verkið „Vertu úlfur“ (sem ég hef reyndar ekki lesið heldur „aðeins“ séð í Borgarleikhúsinu). En þetta átti ekki að vera um Unnsteinsson heldur Úlfsson.

Ég verð að segja að nákvæmar útlistanir á stærðfræðiformúlum, verkfræði- og tónfræðilegum úrlausnarefnum eru með miklum ólíkindum, a.m.k. fyrir leikmann á þeim sviðum, og ímynda ég mér, að því gefnu að ekki sé um helberan skáldskap að ræða, að höfundurinn hafi ekki hrist þau vísindi öll fram úr ermi náttsloppsins við kaffidrykkju einn gráan sunnudagsmorgun.

En þetta er býsna góð skáldsaga. Vel fléttuð og vel skrifuð. Og ekki 1000 blaðsíður af málalengingum, eins og nú eru nokkuð í tísku hjá „betri höfundum“. Hér er textinn markviss og á köflum meitlaður, en kemur á sama tíma vel til skila hugarórum og ímyndunarveiki bilaðs manns. Sögupersónunnar. Sem er ekki sjálfgefið að takist. Vel gert.

Ég bíð spenntur eftir næstu skáldsögu Karls Ágústs Úlfssonar.

Skrifað 2. okt. 21

Kosningaprófin

Það er gaman að þessum kosningaprófum. Væntanlega eru niðurstöðurnar fengnar með því að bera svör þátttakenda saman við stefnuskrár flokkanna. Við það er sá fyrirvari að lítið er að marka stefnuskrárnar; annars vegar er það sem þar stendur gleymt og grafið strax eftir kosningar og hins vegar er þar ýmislegt ósagt sem gert er. Í stefnuskránum er fyrst og fremst það sem flokkshestarnir telja að laði að kjósendur, en hitt sem er nær raunveruleika flokkanna látið ósagt.

Ég játa það að vera ólesinn í stefnuskrám, en ímynda mér að í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sé t.d. ekkert um að flokkurinn hækki skatta ótæpilega á þá sem lægstar hafa tekjurnar, að í dómstólum og hjá lögregluembættum skuli Sjálfstæðismenn einir vera hæfir til starfa eða að formaðurinn skuli nýta sér innherjaupplýsingar til að lauma undan peningafúlgum.

Sömuleiðis efast ég um að Miðflokkurinn minnist í stefnuskrá sinni á að þingmenn flokksins skuli drekka sig fulla í vinnutíma og hrauna yfir konur og öryrkja eða að formaðurinn skuli geyma fé í skattaskjólum.

Einnig kæmi það verulega á óvart að Framsóknarflokkurinn hafi efnisgrein í stefnuskrá sinni um að eingöngu skuli skipa flokkshesta í opinber embætti og nefndir, hvað þá að einn og sami framsóknarmaðurinn skuli skipaður formaður í tugum nefnda og skólanefndir framhaldsskóla skuli eingöngu skipaðar framsóknarmönnum.

Vinstri grænir gætu haft það í sinni stefnuskrá að ekki skuli leggja sérstakan skatt á ofurríka og að alls ekki megi láta þjóðina njóta sanngjarns arðs af auðlindum sínum. Eða ekki.

Svo fáein dæmi séu tekin af fjölmörgum mögulegum.

Svona eru stefnuskrárnar nú með öllu ómarktækar og niðurstöður úr kosningaprófum því í besta falli til skemmtunar.

Sósíalistaflokkurinn 89%

Píratar 89%

Vinstri Græn 83%

Samfylkingin 82%

Flokkur Fólksins 77%

Frjálslyndi Lýðræðisflokkurinn 73%

Viðreisn 69%

Framsóknarflokkurinn 62%

Miðflokkurinn 54%

Sjálfstæðisflokkurinn 47%

Skrifað 13.09.21

Angólasnúningurinn

Í nóvember 2013 flugu „hákarlarnir“ þrír til Íslands, í boði Samherja, þeir Shacky Shangala, formaður lagaendurskoðunarnefndar Namibíu og síðar dómsmálaráðherra, Tamson Hatuikulipi (Fitty), tengdasonur sjávarútvegsráðherrans Esau, og James Hatuikulipi, frændi hans. Vert er að geta þess að Tamson hafði aldrei komið nálægt hvorki útgerð eða sjávarútvegi né alþjóðaviðskiptum og frændinn ekki nálægt útgerð, þó hann væri reyndur í viðskiptum. Af þessum sökum er vel skiljanlegt að Samherja hafi þótt skynsamlegt að borga þeim gríðarlegar upphæðir fyrir „ráðgjöf“. Eða ekki.

En nú voru þeir sem sagt komnir til Íslands. Ekkert var til sparað í kostnaði og risnu vegna ferðarinnar og gert víðreist með þá félaga að skoða athafnasvæði Samherja hér á landi, m.a. Síldarvinnsluna í Neskaupstað, sem skv. Samherja, með samþykki Fiskistofu, er alls ótengdur aðili hér innanlands þó hún sé kynnt sem „uppsjávardeild Samherja í Neskaupstað“ erlendis.

Með hákörlunum í för voru tveir menn, annars vegar sonur sjávarútvegsráðherra Angóla og hins vegar aðalráðgjafi sama ráðherra. Ekki var þetta samt nein „opinber heimsókn“. En hvern þremilinn voru þessir Angólamenn að þvælast til Íslands í lúxusferð í boði Samherja?

Milli Namibíu og Angóla var í gildi tvíhliða samningur um nýtingu fiskveiðiauðlinda hvors annars. Þetta vissi Shacky Shangala mæta vel. Hrossamakrílveiðar eru hins vegar mun torsóttari og dýrari fyrir ströndum Angóla, og aflinn minni en í Namibíu og því felst hagnaðarvonin í því að fyrirtæki skráð í Angóla nýti sér tvíhliða samkomulagið til að veiða í landhelgi Namibíu. Kvótinn sem byggir á þessu samkomulagi ríkjanna er mun stabílli og til lengri tíma en annar kvóti, enda grundvallaður á milliríkjasamningum, sem ekki er slitið sisvona.

Og þarna er komið verðugt verkefni fyrir stöndugt fyrirtæki og lausnamiðað, eins og Samherja. Fimmmenningunum var flogið í höfuðstöðvar Samherja á Akureyri til að „setja upp leikplanið“, sem fólst í því að nálgast kvóta í Namibíu þótt enginn kvóti væri á lausu. Fléttan fólst í því að stofna sérstakt fyrirtæki í Angóla, Namgomar, sem svo fengi úthlutað milliríkjakvótanum í Namibíu. „Það fyrirtæki myndi síðan gera samning við Samherja um að nýta kvótann. Allt að tíu þúsund tonn fengjust með þessum hætti til langs tíma“ (Ekkert að fela, bls. 219).

Stjórnarformaður lagaendurskoðunarnefndar Namibíu og forstöðumaður þróunarsjóðs sjávarútvegsins í Angóla, nýkomnir frá Íslandi, skrifuðu síðan sjávarútvegsráðherrum beggja landa samhljóða bréf þar sem mælt var sterklega með því að semja við hið virta og öfluga alþjóðlega sjávarútvegsfyrirtæki Samherja um nýtingu kvótans.

Til að tryggja samstarfið fóru Samherjamenn ásamt hákörlunum þremur til Angóla og hittu þar ráðamenn. Allur kostnaður og lúxus greiddur af Samherja. Til að gera langa sögu stutta gekk þetta í gegn. „Gentlemen, We are in Business.“ skrifar Shacky Shangala hróðugur í tölvupósti. Hinum megin varar Aðalsteinn Helgason undirmenn sína hjá Samherja sterklega við því að gera nokkuð varðandi Angóla-kvótann nema með samþykki „kallsins“. Hver ætli nú „kallinn“ sé?

Nú var Samherji sem sagt kominn með 10.000 tonna viðbótarkvóta í hrossamakríl við Namibíustrendur, með dyggri aðstoð náinna samstarfsmanna og fjölskyldumeðlima ráðherra í ríkisstjórnum ríkjanna tveggja, Namibíu og Angóla. (Því má skjóta hér inn að allur kvóti sem Samherji komst yfir í Namibíu var jafnhliða tekinn af öðrum kvótahöfum, aðilum sem a.m.k. einhverjir borgðu skatt í Namibíu og sköpuðu atvinnu í landinu. Nokkuð sem Samherji notaði í auglýsingaskyni til að sannfæra heimamenn um að þeir væru verðugir kvótans, allt að 1000 störf og verksmiðjur í landi- allt svikið). Það má líklegt teljast að öll þessi fyrirhöfn, að ráðskast með milliríkjasamninga í fjarlægum löndum í gegnum nákomna aðila ráðamanna sé verð samfélagsverðlauna, riddarakrossa, fyrir óeigingjarnt sjálfboðaliðastarf í þágu alþýðunnar. Eða ekki.

Hinir greiðviknu samstarfsmenn fengu sannarlega sinn skerf, stóran hluta af kvótaleigunni.

Gengið var endanlega frá samningum milli Samherja og „milliliðanna“ um skiptingu hagnaðar af „Angóla snúningnum“ á fundi í höfuðstöðvum Samherja á Höfðatorgi 20. ágúst 2014. Í fundarhléi á þeim fundi skrapp Þorsteinn Már fram og kom til baka með gest, sem stoppaði stutt við, en Þorsteinn kynnti sem „ráðherrann minn“.

Til að koma greiðslum rétta leið dugðu ekki lengur frystigeymslur sem voru ekki til, skúffufyrirtæki í Namibíu eða íþróttatöskur undir þá peninga sem skipta þurftu um hendur. Skúffufélag Samherja á Kýpur, Esja Seafood, skrifaði því undir samninginn við skúffufélagið Namgomar um leigu á Angólakvótanum. Og greiðslur til hinna viljugu samstarfsmanna fóru til skúffufélags þeirra í Dúbaí. Fyrsta greiðslan frá Samherja á Kýpur mun hafa farið til Dúbaí 4 dögum eftir Höfðatorgsfundinn.

Í heildina nema þessar greiðslur Samherja til Dúbaí næstum hálfum milljarði íslenskra króna og til viðbótar eru greiðslur frá öðru skúffufélagi Samherja á Kýpur til annars skúffufélags í Dúbaí upp á ríflega hálfa milljón bandaríkjadollara, þar til í janúar 2019. Þetta snýst ekki um smáauratalningar.

Ekki þarf að taka það fram að hagnaðurinn af þessum veiðum var hvorki skattlagður í Namibíu né Angóla. Til voru vel kunnar „snyrtilegar leiðir til að komast hjá skattgreiðslum“.

Svona gerast kaupin á eyrinni. En Gvendur gamli skútukall er með öllu utanveltu í þeim kaupum.

Skrifað 9.08.21

Ekkert að fela?

Ekkert að fela. Á slóð Samherja í Afríku eftir Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán Drengsson er fróðlegt rit í meira lagi. Þar er flett ofan af slíku skítabixi að lygilegra er en hver lygasaga. Um þetta hefur verið fjallað í Kveik, Stundinni og víðar, en stefnir í að þessi mál verði þögguð núna í aðdraganda kosninga.

Að minnsta kosti er merkilegt að hinir hugumstóru réttlætisriddarar í Vg og óþreytandi baráttufólk gegn kúgun og spillingu, skuli ekki hafa þetta mál efst á sínum umræðulista síðasta mánuðinn fyrir kosningar. En nei, þar ríkir grafarþögn. Aðrir verða því að halda þessum málum á lofti.

Til að réttlæta kvótaúthlutun í hrossamakríl til Samherja, sem hafði ekki kvótaleyfi, þurfti að breyta lögum í Namibíu. Til þess mútaði Samherji sínum mönnum, sk. „hákörlum“ nátengdum sjávarútvegsráðherra Nabimíu, sem meðal annars voru formaður lagaendurskoðunarnefndar landsins og tengdasonur ráðherrans. Tilvonandi lagabreytingar voru unnar í nánu samstarfi við Samherja, og að undirlagi fyrirtækisins auðvitað, því þeirra hagsmunir voru undir. Til að ná hrossamakrílkvóta af öðrum útvegsfyrirtækjum benti Samherji sínum mönnum þar syðra m.a. á íslensk lög um hámarkskvóta „tengdra aðila“, sem hér á landi er 12% af heildarkvóta í landhelginni.

Þetta gekk eftir og með þessum, og ýmsum fleiri „snúningum“, komst Samherji yfir umtalsverðan kvóta í þessari verðmætu tegund. Samherji fékk auk þess kvótann á miklu lægra verði en aðrir, enda vel tengdur inn í æðsta stjórnkerfi Namibíu. Það er svo athyglisvert að Samherji borgaði mun hærra verð í mútur til að komast yfir kvótann heldur en fyrir kvótann sjálfan, og sveik öll loforð um atvinnuuppbyggingu í Namibíu, byggingu verksmiðja í anda þeirra sem rekin voru á Dalvík og hjá uppsjávardeildinni í Neskaupstað, 500 störf í fiskvinnslu ef hann fengi, ef hann bara fengi … kvóta.

Á sama tíma og Samherji borgaði réttum aðilum fyrir að koma hámarkskvóta inn í namibísk lög, svo ráðherrann gæti réttlætt kvótaúthlutun til velgjörðamanna sinna á Akureyri, var 12% markið hér heima þýðingarlítið í augum eigenda fyrirtækisins, en Samherji og Síldarvinnslan í Neskaupstað voru jafnan í 2. og 3. sæti á „kvótalistanum“ á eftir Brimi hf. og samanlagt vel yfir markinu.

Árið 2013 keypti Síldarvinnslan Berg-Hugin í Vestmannaeyjum og kvótann með. Bæjaryfirvöld gerðu athugasemdir því með þessu færu Samherji/Síldarvinnslan vel yfir 12% markið og kaupin því ólögleg. Samherji svaraði fyrir sig og talaði um villandi fullyrðingar og vísvitandi tilraunir til að gera málið tortryggilegt, fyrirtækin væru alls ekki tengd. Engu skipti þótt Þorsteinn Már væri stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og Samherji ætti 45% í Síldarvinnslunni. Né að Samherji kynnti víða erlendis að fyrirtækið væri það stærsta á Íslandi, það ræki botnfiskvinnslu á Dalvík en „uppsjávardeild í Neskaupstað“. „Alls ekki tengdir aðilar“, eins og öllum er væntanlega ljóst …

líka eftirlitsaðilanum með lögunum, Fiskistofu, sem taldi Samherja og Síldarvinnsluna ekki tengda aðila. Samkeppniseftirlitið var á öðru máli og taldi ástæðu til að rannsaka málið. Hvað varð um þá rannsókn? Henni var hætt vegna fjárskorts og seinagangs hjá Samkeppniseftirlitinu, málið dagaði uppi vegna annarra verkefna og skorts á mannafla til að sinna öllum verkefnum (Ekkert að fela, bls. 174-181).

Þannig hlær Samherji með öllum kjaftinum að íslensku eftirlitskerfi, íslenskum almenningi, sem sagður er eiga fiskveiðiauðlindina, og ekki síst ríkisstjórninni og stjórnmálamönnum, sem ýmist vilja ekki eða þora ekki að taka á spillingunni. Enda kynnti Þorsteinn Már, eins og frægt hefur orðið, sjávarútvegsráðherrann sem „sinn mann í ríkisstjórninni“ á klíkufundi með Namibíumönnunum á skrifstofum Samherja í einni boðsferðinni hingað til lands.

Fleira athyglisvert af umfjöllunarefni Ekkert að fela gæti ratað hér á síðuna, t.d. hinn eitraði „Angólasnúningur“.

Skrifað 28.09.21

Hvað er að vera „útlitsgallaður“?

Lengi hafa ýmsar vörur verið auglýstar á afslætti vegna þessa. Merkingin er þá sú að varan sé heil og nothæf, virki eins og til er ætlast, en líti ekki nákvæmlega eins út og framleiðslustaðlar gera ráð fyrir. Þvottavél gæti t.d. hafa rispast í flutningum o.s.frv. Fólk fær þá fullnýtanlegan grip á góðu verði, ef það lætur rispuna eða beygluna ekki trufla sig. Enda hlutverk hans þá ekki að vera stofustáss til fegurðarauka.

Síðan færist þessi hugtakanotkun yfir í lífríkið. „Útlitsgallaðar“ rófur og kartöflur eru á niðursettu verði. Bragðið og næringargildið er auðvitað hið sama. En blessuð rófan er ekki svona fagurlega dropalaga og það truflar hið haþróaða formskyn nútímamannsins.

Ég viðurkenni að mér hnykkti nokkuð við þegar ég las í fjölmiðlum um „útlitsgallaða“ laxa í sjókvíum.

Erum við ekki farin að seilast nokkuð langt í yfirlætinu gagnvart lífríkinu og náttúrunni? Er lífríkið fyrir okkur bara staðlaðir nytjahlutir og öllum frávikum fleygt?

Hvað er næst? Eru þeir sem hafa skaðast í slysum þar með „útlitsgallaðir“? Og fatlaðir? Hvar endar þessi vitleysa?

Ekki er ég nógu fróður til að vita hvort efnanotkun í garðyrkju veldur því að sumar rófur verða „útlitsgallaðar“, eða hvort það er „náttúrulegur fjölbreytileiki“. Mannskepnan fæðist allskonar, sem betur fer, og hví ekki aðrar lífverur líka? Og allir hafa heyrt talað um stökkbreytingar …

En þrátt fyrir náttúrulegan fjölbreytileika lífríkisins (sem ætti að útiloka allar hugmyndir um „útlitsgalla“) þykist ég vita að margháttuð „frávik“ í náttúrunni eru af mannavöldum. Eiturefna- og hormónanotkun í landbúnaði, og verksmiðjubúskapur með dýr, hefur margháttaðar afleiðingar, vansköpun og dauða.

Þetta hefur maðurinn reynt með eftirtektarverðum árangri á sjálfum sér. Afleiðingar kjarnorkusprenginga og -slysa er nærtækasta dæmið. Út úr því komu „útlitsgallaðir einstaklingar“, svo farið sé alla leið með hina normalíseruðu og ógeðfelldu hugsun að náttúran sé hannaður hlutur á valdi mannsins og lúti fegurðarskyni hans, eins og það birtist á hverjum tíma.

Ég eftirlæt það siðfræðingum að meta hvort dauðar flugur á framrúðu og „útlitsgallaðir“ og dauðir laxar í sjókvíum séu sambærileg dæmi um inngrip mannskepnunnar í gang náttúrunnar.

En „útlitsgallað“ lífríki? Nei takk.

Skrifað 12.08.21

Reiðleiðir

Það er ekki sjálfgefið nútildags að okkur hestamönnum séu greiðar leiðir um landið. Þegar ég var barn og unglingur man ég ekki annað en að á ferðalögum væri riðið nokkurn veginn þar sem hentast þótti, án athugasemda landeigenda eða leiðinda. Það þótti bara sjálfsagt að hrossarekstrar kæmust sína leið. Auðvitað voru þá eingöngu malarvegir um sveitir landsins og þeir stundum notaðir, umferðin margfalt minni og hægari og tillitssemi meiri hjá ökumönnum ef skaraðist.

Nú eru ökumenn á hraðskreiðari bílum og vegir með bundnu slitlagi. Bíla- og hestaumferð er löngu hætt að eiga minnstu samleið. Reiðvegir eru allt of margir meðfram blússandi þjóðvegum og fyrir vikið er slysahætta mikil og vaxandi. Það er nefnilega ekki bara slysahætta vegna gangandi, hlaupandi, hjólandi og mótorhjólandi á reiðvegum í kringum þéttbýlisstaði eins og fréttnæmt hefur, sem betur fer, þótt nýverið.

Við sem finnum helst lífsfyllingu á hestbaki uppi á öræfum þurfum að komast þangað. Þá er oftast eina leiðin að ríða úr byggð meðfram háhraða umferðaræðum, þar sem brunar bíll við bíl kílómetrum saman án þess að slá hið minnsta af.

Það er löngu séð að einskis árangurs er að vænta af því að biðla til ökumanna að sýna tillitssemi, hægja á sér, og jafnvel stoppa ef svo ber undir. Of fáir bregðast hið minnsta við því.

Eina leiðin er að leggja ásættanlega reiðvegi fjarri bílaumferð. Það hefur verið gert með sóma t.d. í Ölvesinu og hér í Flóanum þokast í rétta átt, smám saman. Þessi þróun er að öllu leyti undir landeigendum komin, þeirra vilja til að opna lendur sínar og haga og gefa eftir rönd á skurðbakka fyrir vegstæði. Það hafa Ölvesingar og Flóabændur gert innan sveitar, og vafalaust á þetta við víðar um landið, þó mér sé það ekki gjörkunnugt.

En til að komast milli héraða þarf að gera betur. Við Lágsveitamenn þurfum að komast upp að hálendisbrún án þess að ríða tímum og dögum saman meðfram þjóðvegi 1 eða öðrum meginumferðaræðum.

Besta leiðin til úrbóta er að Vegagerðin áætli jafnframt vegabótum og nýframkvæmdum lagningu ásættanlegra reiðvega fjarri bílaumferð. Bændur og heimamenn sjá um sitt innan sveitar, en „héraðsvegi“ að hálendisbrún ætti Vegagerð ríkisins að sjá um, hönnun fjármögnun og framkvæmd. Það er of dýrt og óhagkvæmt að gera þetta eftirá, grafa undirgöng og bjóða upp á skítareddingar í stað góðra lausna sem gátu legið fyrir ef hugsað hefði verið fyrir þeim frá upphafi.

Af því vek ég máls á þessu að ég hefi nú búið hér í Flóanum í þrjá áratugi næstum, og oft þurft að ferðast með líf mitt og hrossa minna í lúkunum héðan og upp á Kjöl, Fjallabak eða vestrí Borgarfjörð. Og af því í dag reið ég upp með Ölfusá að Stóra-Ármóti, dásamlega leið gegnum Laugardælur, en bændur þar hafa tryggt gott aðgengi hestamanna að þessari fallegu leið.

Til að komast þetta þarf þó að ríða tvær hættulegar umferðaræðar, fyrst Bæjarhreppsveg og síðan Hringveginn sjálfan, hættulegri en allar straumhörðustu jökulár landsins.

Skrifað 8.08.21