Af hagsmunaöflum

Í grein Þorsteins Pálssonar, „Landsliðseinvaldur“, í Fréttablaði dagsins segir m.a.:
 
„Í auðlindamálumsnýst ágreiningurinn um það hvort einkaréttur til nýtingar á auðlindum í þjóðareign eigi að vera tímabundinn. Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn vilja að einkarétturinn verði áfram ótímabundinn í sjávarútvegi en tímabundinn varðandi allar aðrar auðlindir.
 
VG og Framsókn fylgja þeirri afstöðu, þvert á stefnu sína, til að rugga ekki stjórnarsamstarfinu og halda opnum möguleika á framhaldi þess.
 
Afsökunarbeiðni Samherja um helgina þjónaði aðallega þeim tilgangi að auðvelda Sjálfstæðisflokknum ap halda samstarfsflokkunum í þeirri klemmu.
 
Kjósi VG að hefja samstarf við einhverja af stjórnarandstöðuflokkunum, að Miðflokknum fráskildum, þarf hreyfingin að taka upp fyrri stefnu um tímabundinn einkarétt …. “
 
Hér er margt merkilegt.

Í fyrsta lagi er auðvitað ágreiningur um að nýting auðlinda eigi að vera „einkaréttur“ – sem erfist milli kynslóða, en ekki bara um tímabindingu. Sá ágreiningur kristallast í yfirgnæfandi stuðningi almennings við auðlindaákvæði „nýju stjórnarskrárinnar“, sem stjórnvöld hunsa með öllu, af augljósum ástæðum: peningastyrkir frá hagsmunaaðilum stjórna stefnunni.
 
Í öðru lagi er merkilegt að flokkur sem segist í ræðu og riti byggja tilveru sína á (viðskipta)frelsi skuli styðja og berjast með kjafti og klóm fyrir einokun á nýtingu aðeins einnar auðlindar, en alls ekki annarra. Skýringin á því er nokkuð augljós: peningastyrkir frá hagsmunaaðilum stjórna flokknum.
 
Í þriðja lagi að VG og Framsókn skuli forsmá eigin stefnu til að viðhalda ógeðfelldu stjórnarsamstarfi og framferði Samherja. Skýringin á því er augljós: Peningastyrkir frá hagsmunaaðilum stjórna flokkunum.
 
Í fjórða lagi er merkilegt og upplýsandi um tengsl „Samherjastjórnarinnar“ við Samherja að tilgangur afsökunarbeiðninnar skuli vera að bæta stöðu Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar – enda sama „skæruliðadeild“ almannatengla að baki báðum aðilum, fjármögnuð af hagsmunaðailum.
 
Í fimmta lagi er upplýsandi að benda á að VG þurfi „að taka upp fyrri stefnu“ ef „landsliðseinvaldurinn“ kysi að velja ekki sama gamla gengið í liðið eftir kosningar. Á því eru engar líkur, því peningastyrkir frá hagsmunaaðilum stjórna flokknum – þó einvaldurinn þykist ekki skilja orðið „hagsmunaaðili“.

Þetta er meira en lítið ógeðfellt, allt saman.