Dróttkvætt

Dróttkvæður háttur er gamall. Elsta þekkta dæmið er vísa eftir Braga hinn gamla, talin frá 9. öld. Dróttkvæði voru vinsæl hirðkvæði, og bragarhátturinn tekur nafn sitt þaðan af; drótt=hirð. Dróttkvæði voru tormeltur kveðskapur löngum. Því olli rímið og ljóðamálið, kenningarnar sem áttu rætur í fornum goðsögum; kunnátta í þeim var nauðsynlegur lykill að skilningi – og dugði oft ekki til. Ekki bætti úr skák að orðaröðin var öll í lamasessi, eðlileg orðaröð varð að víkja fyrir kröfum háttarins um stöðu rímatkvæða – og kenningum.

Dróttkvæður háttur er með átta línu vísum, hver 6 atkvæði eða þrjú ris. Hefðbundinnar stuðlasetningar er krafist og rímið er innrím, svokallaðar hendingar; þ.e. tvö rímatkvæði eru í hverri línu, en ekki endarím eins og í rímnaháttunum. Í dróttkvæðum hætti skiptast á skothendingar í ójöfnu vísuorðunum (1.-3.-5. og 7. línu) og aðalhendingar í þeim jöfnu (2.-4.-6. og 8. línu) Í skothendingum er hálfrím, kallað skothent rím, þar sem samhljóðin í atkvæðinu eru eins en ekki sérhljóðin. Í aðalhendingum er alrím.

Þegar lengra leið frá kristnitöku varð þekking á norrænum goðsögum sífellt veikari og smám saman hætti fólk að botna upp né niður í dróttkvæðunum gömlu. Rímnaskáldin héldu áfram að bögglast með kenningar sem þau sum skildu lítt eða ekki sjálf en ríghéldu í gamlar hefðir. Dróttkvæðin stefndu í eina átt: í þögla gröf og gleymsku.

En á 19. öld gerðist undrið! Fram kom á sjónarsviðið listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, sem hóf að yrkja undir hinum fornu bragarháttum af mikilli snilld, bæði edduháttum og dróttkvæðum hætti. Og það sem réði úrslitum var að Jónas orti dróttkvætt af lipurri snilld, umbylti bragarhættinum og sýndi að hægt var að yrkja ljóst og létt en ekki bara snúið og tormelt, og þetta er í rauninni hinn fegursti bragarháttur! Takk, Jónas!

Hér fylgja með nokkrar dróttkvæðar vísur sem ég hef dregið úr dagbókinni minni:

Afmæliskveðja – Ari 9 ára 28. desember 1998

Orðinn níu ára

Ari, kappinn snari,

strekkist við að stækka,

sterkur er og merkur.

Rennur kapp í kinnar

í körfu og mörgu þörfu,

hæfileika hefur

við hesta er samt bestur.

 

Afmæliskveðja – Bjarni Þorkelsson fimmtugur 31. júlí 2004

Faðmur bóndans breiður,

bjart er sálarskartið.

Ríkt vill andann rækta

svo rótum föstum skjóti

ungir dáðadrengir

og dætur. Undir nætur

við bólin gamlar gælur

gjarnan kveður Bjarni.

 

Hefur góðar gáfur,

galdur þekkir skálda.

Þolir enga þvælu,

þétt síns leitar réttar.

Vítur stundum veitir

svo vindur blæs um tinda.

Stendur öllum stundum

sterkur undir merki.

 

Gæðingshryssur góðar

gefa bestu hesta-

gullin; seig á stallinn

stærsta, foli glæstur.

Snarpir á gangi garpar,

geta fáir betur.

Hesta þó hjarta næstur

Hari framúr skarar.

 

Hög er mynd í huga,

hólinn vermir sólin,

hægur blær um haga

og hlöð á Þóroddsstöðum.

Þar Magga og Bjarni byggja,

að búi vel þau hlúa.

Neistar í augum ástin,

ævina fylgi gæfan.

 

Afmæliskveðja – Þorkell Þorkelsson fimmtugur, 25. jánúar 2007

Þættir lundar þéttir,

þver kann stundum vera.

Reynist vel í raunum

en reigist aldrei, segir

heldur færra en fleira.

Felur kenndir en sendir

blíða strauma. Blóðið

brestur aldrei traustið.

 

Hendur vita ei vanda.

Valda leyndir galdrar

er kallar hest til kosta?

Kenna slyngir fingur,

við tauminn tala af næmi

sem töfrasprota noti.

Æ í manna minni

mynd af þér og Sindra.

 

Aldur manninn mildar,

meyrnar, skilur fleira.

Aga einnig hugann

engum líkir drengir.

Er hjá barnabörnum

bjátar á, hefst grátur,

þá afa sögur sefa,

svo sútir allar lúta.

 

Geð er gæfusmiður

en gangur oft er strangur.

Þá ríður engin ræðu-

runa baggamuninn

en varið í að vera

vinur ef á dynur.

Kjarna þekki þarna

Þorkels, bróður góða.

 

Stafsetningaræfing, vísinda- og rannsóknaræfing íslenskudeildar F.Su., var haldin 24.03.2007 heima hjá skólaskáldinu Björgvini E. Björgvinssyni og konu hans, Helgu Sighvatsdóttur frá Miðhúsum, aðstoðarskólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga og blokkflautuleikara. Flutti þar gestgjöfunum eftirfarandi hirðkvæði:

Meldar skólaskáldið

skens, þó allt í glensi.

Út úr snýr, ei sýtir

siði, málbein liðugt.

Kætin sanna smitar,

sest að grátur, af hlátri.

Mun og mildur vinur

mörgum reynast Björgvin.

 

Hægð við heiminn dugar,

hófið leysir prófin.

Stefnu Helga í stafni

stýrir best, af festu.

Systir ljúfra lista,

leikur skraut á flautu.

Áran nálæg nærir.

Nett, en traustur klettur.

 

Afmæliskveðja – Gunnar Sigurjónsson fimmtugur 27. október 2008

Dvöl í norðan dalnum

drenginn nærði lengi.

Fann í móðurfaðmi

frið og góða siði.

Tíndi í föðurtúni

tryggðablóm og dyggðir.

Gerður vel úr garði

gengur úrvalsdrengur.

 

Guðrún, það er gyðjan

sem Gunnar heitast unnir.

Vaka vinarrökin

og vilji allt að skilja.

Hulda og Hilmir eldinn

hjartans kveikja bjartan.

Hér sjást heilla sporin,

hans í lífsins dansi.

 

Kennir seggur sannur,

síðan rór og blíður,

æsku vörn og visku

ef veröld ótrygg gerist.

Framhjá tugur fimmti

flaug, með sól í augum

göfugmennis, Gunnar

góðan á sér hróður.

 

Árið 2014

Eftir hörmung hafta,

héraðsbresti mesta,

þulu af lygaþvælu,

þéttan reyk af prettum,

veldi tryggt útvaldra

á votri auðlind, brauði,

þreyttir minnimáttar

mola leita’ í holum.

 

Rósir Reykjavíkur

rasísk meðul brasa,

svo kreddufúsir kjósi

kristinn teboðslista.

Keflum íhaldsöflin,

aftur finnum kraftinn.

Skipið þjóðar skríði

skár á nýju ári.

 

12.07.15 – Afmælisdagur dótturdóttur:

Hefur tóna hreina,
hjarta úr gulli skartar.
Gefur ömmu og afa
undur góðar stundir.
Stálpast hefur stelpan,
sterk í hverju verki.
Orðin sextán ára,
asi er þetta, Jasmín!

 

30.11.15 – Af veðri og náttúru:

Mjúk nú fellur mjöllin,
myndar birtusindur.
Himinn sortnar, heimi
hverfa rósaljósin.
Fagnar lýður logni,
létt er fönn og glettin.
Ef upp með roki rýkur
ratar enginn um vengi.

 

09.06.16 – Kári Stefánsson skrifaði magnaða grein í blöðin um einn forsetafrmabjóðandann, og er hér umorðuð:

Frá rumi, mjúkum rómi,
rennur lygamiga
vel í sjónvarpsvélar
en veltir fláðum gelti.
Orðlaus aflandsmörður
ólmur flýr af hólmi.
Skelmir úti að skíta.
Skeit í brækur feitum.

 

Liðið skammarskeiðið,
skríður út úr hýði
og óðar ræðst á aðra.
Ekki þjóð samt blekkir,
aðeins sóttarsauði
er sveima hringinn kringum
og marka skálkaskjólið,
skjaldborg klíku valda.

 

12.06.16 – Sumarstemmning

Gælir við mann gjólan
í geisla sólar veislu.
Brattur slæ ég blettinn
með bros á vör og losa
rekju plast í poka.
Við páfann tefli. Efli
andans vængja vind, og
virkja. Dróttkvætt yrki.

 

Jólakveðja 2016

Stríðs í heimi hrjáðum,

hungursneyðar, leiðum,

er fjöldi enn, sem um aldir,

óttasleginn á flótta.

Eins og Jósef Jesúm

úr jötu tók, um götur

hrakinn, úr landi sem hundur,

svo hlífa mætti lífi.

 

Þennan mæta manninn

myrtu valdsmenn kaldir

sem þelið ekki þoldu

þýða, og hylli lýðsins.

Nú á tímum „nýjum“

neglum á krossa, steglum,

þá sem valdi velgja

vel undir uggum, við stugga.

 

Augum lítum ætíð

Assange þannig og Manning.

Af lífi, og sögulegu,

lærum, vinir kærir.

Aðeins andófslundin

oki lyftir. Tyftir

illan bifur. Hjá öllum

til árs og friðar miði.

 

Hérna blessuð börnin

brosa sem sól um jólin.

Annars staðar þau stuðar

stríð með sprengjuhríðum.

Selja vesturveldi

vopnin. Huga opnum!

Innum oss að þessu:

Eru þau mannverur?

 

26.10.17

Moð er gott til glóðar
en gengið hefur lengi
að ríkir vaði reykinn
og reyni sínu að leyna.
Út þarf særa svörin,
að sinni er mál að linni
valtra pörupilta
prettaaflandsfléttum.

 

22.03.18

Drótt- er hefðar -háttur,
hagleiks -kvætt og bragar-.
Stuðlar, höfuðstafir
standi rétt, og vandi
hálf- og alríms heilum
hendingum að lenda
í þremur risum. Rómað
renni og fram kenning.

 

23.03.18 – Fjasið

Fjasbók löngum les hún,
ljóða „stórust“ þjóðin.
Þar þusa mjög og masa
margir, virðast argir.
Enn sést Pollyanna,
aðrir steypu blaðra.
Alveg verðlaust orðið,
ef enginn þegir lengur?

 

Ævitíminn

Flýt í ös að ósi.
Enginn daginn lengir.
Meir ei hef í háfi
held’r en áin geldur.
Víða bar í veiði
vel, eg margt við dvelja
vil, en tíminn telur
taktviss griðin niður.

 

24.03.18 – Vetrarstilla

Er í morguns árið
undurfögur stundin.
Hrím á jörðu harðri,
himinn tær, og skærir
geislar sólar gæla
grundu við í friði
stafalogns, og lofa
lýðum degi blíðum.

 

26.03.18 – Íslenska vorið

Veri blessað, vorið!
Vindar æsast, yndi
flestra, næturfrostið,
faðmar jörð og hörðu
élin bíta, ýla
sem englasöngur löngum.
Vinafastur, að venju,
vorboði er horið.

 

Afmæliskveðja – Kær samstarfsmaður, Lárus Ágúst Bragason, sextugur 4. september 2019

Ljúfur, gæddur gáfum
góðum, sagnafróður.
Virði allra varðar,
við ungdóminn styður,
glaður, lítillátur.
Lestar um vengi hesta.
Af sómamanni sönnum
er saga Lalla Braga.

 

25.09.19 – Haust

Litadýrðarlota!
Laufið skreytir reitinn
gulu, rauðu. Gælir
gola vær og hrærir
grein en fagurgræna
grasið heldur fasi.
Heiminn lítur himinn,
hélugrár, og tárast.

 

26.09.19 – Haust II

Logn. Svo rok og rigning
rúður þvo. Á súðum
veður, dimmir. Dauður
dæmdur gróður. Í ræmur
flíkur rifna. Fokið
flest í skjólin. Sólin
sífrar, gleymd og grafin.
Gangur lægða strangur.

 

04.12.19 – Vetrartíð

Frostköld mjöllin fellur
falleg á minn skalla,
bráðnar þar án biðar,
bleytan skjótt vill leita
bakið niður, búkinn
baðar, ekki laðar
fram af vörum frómar
fyrirtölur. Bölva.

 

23.12.19 – Jólakveðja 2019

Aumt og hart í heimi,

háð eru víða stríðin.

Varnir bresta börnum;

bani, ótti, flótti

vonir þeirra þverra –

Þjóðum skömm er rjóða

æskublóði, í æði

afla í valdatafli.

 

Á allsnægtaeyju

eru margir argir

af kjörum sínum, kveina,

komið rof í hófið.

Væri flott ef fleiri

fyndu göfuglyndið,

gleðistundir góðar

gera kraftaverkin.

 

Gjafir eru gefnar,

geisla börn í veislum.

Sönn er jólasælan“,

syngja Íslendingar.

En ekki allir hlakka

ósköp til, þó dylji.

Til einhvers auður þjóðar

ef einn er dauðans snauður?

 

Hér á ysta hjara

heims, má ekki gleyma

að verma opnum örmum

óttaslegna á flótta.

Gæðastundir gleðja,

gefum þær af kærleik.

Um land og lög við sendum

ljúfar friðardúfur.

 

27.03.20 – Veiruvísa

Er veira leggur veröld,
á virða þungar byrðar,
verðum þá að þora
að þiggja ráð og tryggja
bjargir. Þannig byrgjum
brunninn. Upp er runnin
öld er gagnast gildin
góðu öllum þjóðum.

 

17.04.20 – Magnús Sigurðsson – Minning

Horfir vítt of veröld
vinur, af fjallatindum.
Lítur stoltur leitin
er lífs á vegi hrífa.
Hlúir, faðmi hlýjum,
heims að djásnum. Við geymum
gleðiminning. Góður
genginn er héðan drengur.

 

6.09.20 – Flóttamannaandúð

Bragð er að þá brögðum

beitir valdið kalda

með stimamjúku stami

og stríði gegn oss þegnum.

Skellur þjált í skoltum,

skrumið geyr við eyru,

hvarf að baki kerfa,

Katrín allsber valsar.

 

3.09.20 – Græðgin

Það er margt í mörgu.

Mammonshveljur velja

að miklu skara meiru;

máttur sé sá þáttur

í fari manns er færi

fylling lífs – sú grilla

skaðar þelið þjóðar,

þörfum friði riðlar.

 

3.11.20 – Maður og hestur

Strengur veðrar vanga,

vítisélin bíta,

kæfa vill mig kófið

hvíta, fyllir vitin.

vel þó gengur, viljug

vindinn klýfur, yndið.

Megnar hreti móti

merin heim mig bera.

 

Í lofti ilmur, aftur

ess og maður hressast,

grey í varpa glóir,

gleymd er vetrareymdin.

Við fótum glymur gata,

grófu skyrpt úr hófum,

ganga vel og viljug

á vorin, létt í spori.

 

Enn við taka annir,

við undirbúning fundar

ferðahesta og firða

því fjalladýrðin kallar.

Riðið hægt úr hlaði,

í hvammi æjum, gammur!

Kapp er kastar toppi,

kveðjum teitir sveitir.

 

Jörðu stikla, jökla

jóar, milli og flóa,

klungur, víðan vanginn

sig vökuleygir teygja

og æðrulausir ása

yfrið bratta klifra.

Snerta hestar hjarta,

heila sálarveilu.

 

Að ferðalokum frækinn

færleik hvíld skal næra.

Gæði sér á góðum

grösum, skjól af hólum,

leiki sér við lækinn,

lýsi eldi af feldi.

Þá haustar, herðir frostið,

að hagaljóma er sómi.

 

Flensa

Kom á Kóvíð tímum,

kæfir mál í hálsi,

höfuðverkjaharki

hendir á mig, brenndan

hitakófi, og hefur

heldur betur eldað

mér úr fúlu fyli

flensupest in versta.