Aftökuríma

Meðfylgjandi smáríma er ort í kjölfar reiðtúrs, sem lauk í gær, um söguslóðir síðustu aftakanna á Íslandi árið 1830, þegar Agnes og Friðrik voru hálshöggvin að Þrístöpum. Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum í / á Þingi stendur fyrir ferðum þessum og segir þátttakendum söguna af þessum blóðuga atburði, tildrögum hans og ýmsar skemmti og fróðleikssögur úr héraði.

 

1. ríma – Ferskeytt

Um mér velti annan hring,

eitthvað lúrinn stytti.

Sagnavísan Vatnsdæling

veit á morgun hitti.

 

Klárar fara á kerru létt,

kátur snýst í hringi.

Akstursstefnan svo er sett

að Sveinsstöðum í Þingi.

 

Hitta skal þar mætan mann,

Magnús jarlinn heitir,

með rjóma landsins ræðst í hann

að ríða þar um sveitir.

 

Karlinn fer um götur greitt,

grundin syngur fögur.

Þess á milli út í eitt

ylja góðar sögur.

 

Kallar sagan okkur á

út úr kennileitum.

Natan, Agnes, Friðrik fá

flæði hug- af skeytum.

 

Þingeyra- með sálmasöng

sekur kvaddi hlaðið.

Steig af klárnum, kraup í þröng

og kyssti öxarblaðið.

 

Frá Þrístöpum um Forir flaug

fjörlegt hrossastóðið.

Við reksturinn þarf trausta taug

er tekur hitna blóðið.

 

Áð um stund að Stóru-Borg,

stefnt hjá Borgarvirki.

Alla í Breiðabólstað sorg

burtu kátur yrki.

 

2. ríma – Braghent

 

Frá Bólstað riðnar blautar mýrar brattra hlíða.

Við Þverárrétt við látum líða

úr limum, ef að strengir svíða.

 

Um Þverármúla, þræddum Breið, í þykkni grófu,

þokuhuliðshendur ófu

Heiðargötur, Kattarrófu.

 

Kuldalegt á knapa norður Katadalinn.

Norður-Íshafs næddi svalinn,

nestis- orðið djúpt í malinn.

 

Yfir ríðum ána þarna ótal sinnum.

Fær hún nóg af nánum kynnum

nasa, er við hestum brynnum.

 

Götur batna, greiðist leið og geðið lyftist,

þó þokan ekki sundur sviptist

að sönnu til hins betra skiptist.

 

Undir Hjöllum Illuga- er áð á stöðum.

Þykir blessun þar á hlöðum

þreyttum knöpum, undur glöðum.

 

Bæinn hérna brenndi Friðrik, banar Natan.

Á höggstokkinn þá greiddist gatan,

gæfusmiðsins tæmdist fatan.

 

3. ríma – Dverghent

 

Knapar hross sín til nú taka,

tylla gjörð.

Leggja´upp, sömu leið til baka,

léttræk hjörð.

 

Mikið óhapp hendir hesta

heim við Tjörn

en hvergi gæfuböndin bresta

í bjargartörn.

 

Eftir þetta brá til betra,

birti til.

Útsýn höfðum hundruð metra,

hér um bil.

 

Katadalur, Kattarrófa

komu’ í ljós.

Fegurð, sem mér lá í lófa,

lofi jós.

 

Af Vatnsnesfjalli blómleg búin

við blöstu, niðri.

Þá við stefndum, með þjóhnapp núinn,

að Þverá syðri.

 

Um kvöld, að loknum kattarþvotti,

kyrrt og hljótt

heilsubjór í heitum potti

hverfur fljótt.

 

4. ríma – Draghent

 

Á fætur allt á fjórða degi

fjörugt liðið sprettur.

Eftirvænting, satt ég segi,

sýna augnaglettur.

 

Að járna hófa, herða ólar,

hesta reka saman

og ríða burt, við sælu sólar,

er svakalega gaman.

 

Magnús léttur sannar sögur

segir, allar góðar.

Inn á milli yrkir bögur,

á okkur hina ljóðar.

 

Vendum nú í Vesturhópið,

á vatnið þar skal stefna.

Í taumi hrossin, töfradópið,

tölt og skeið vil nefna.

 

Í Bjargavík, að baki skriðu,

er beitt og taumar leystir.

en lausir ekki lengi biðu,

lögðu‘ á flótta, reistir.

 

Er þetta vesen var að baki

að Vatnsenda skal riðið.

Þar enginn reykur rauk úr þaki

en Rósa stóð við hliðið.

 

Núna stutt í Vaðhvamm virtist,

og von um gleðistundir

er hófaljónum Hópið birtist

hafið syngur undir.

 

Að Þingeyrum á þeysispretti

þjótum fjöruborðið.

Á flugatöltið Funa setti

já, flug er rétta orðið.

 

Áhrif slíkrar yndsireiðar

ekkert trúði‘ ég bætti!

En gifting hjóna, ástareiðar,

ansi marga grætti.

 

Að Sveinsstöðum er ljúfur leggur,

Lér á drjúgu tölti.

Uppnuminn var orðinn seggur

af öllu þessu brölti.

 

5. ríma – Breiðhent

 

Sólin morgun logar langan,

leikur blær um greinar trjánna.

Sperrtur upp, finn spariangan

spretta upp á milli tánna.

 

Vatnsdal nú er vit að ríða

vart mun svona aftur bjóðast.

Eftir mörgu er að bíða,

allir loks af stað þó skjóðast.

 

Mikil kúnst að ríða rörið

það ræðir Magnús vel og lengi.

Guðný ber nú brúðarslörið,

brosið Jökuls lýsir vengi.

 

Fínt að berja Vatnsdalsveginn,

vöruflutning lengi tefja.

Í Flögu vel er fylling þegin,

fínt er nestið Hvamms, án refja.

 

Við Kornsá ekki gáfust griðin,

geystumst Undirfells í réttir,

Vatnsdalsá á vaði riðin,

vætu stóðið á mann skvettir.

 

Næst er komið heim að Hvammi,

Haukur vel á móti tekur.

Fyrir augum fagur rammi,

foldarskartið andann vekur.

 

Í hlöðu ljúft er lagið tekið,

til lofts er hátt, svo tónar óma,

kaffi þegið, úr rétt svo rekið,

riðið heim í sólarljóma.

 

Í hestaferðum kaldir kyndast

katlar, sálarspennu losa.

Margir vildarvinum bindast,

vekja‘ upp minningar- og brosa.

 

Íslands síðstu aftökunum

ætíð þjóð er skylt að minnast

Magnúsar í mælskubunum,

margir þessum sögum kynnast.