Úr dagbókinni 2014

Árið er 2014. Safnið telur 113 vísur

25.02.14

Bjarni Ben. var í viðtali í Kastljósi í gær beðinn um að svara fyrir einhver kosningaloforð:

Æru varið ekki gat,
aulasvaraglundur.
Eins og þvara eftir sat,
eða barinn hundur.

 

12.04.14

Ort um mynd af Þorbjörgu systur minni haldandi á ömmustelpunni Kolbrúnu Ylvu:

Við kærleiksatlot Ylva býr
sem æ í minni geymir.
Ömmu faðmur er svo hlýr
að undur vel þar dreymir.

 

15.04.14

Sigurður Sigurðarson dýralæknir sendi félögum í Kvæðamannafélaginu Árgala nokkra fyrriparta, til að botna fyrir Einmánaðarfund félagsins. Tilgangurinn var ekki síst að æfa fjölbreytni í vísnagerðinni. Ég fór svona að:

Breiðhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinum trjánna.

Logar sól um land að nýju,

leikur glatt í straumi ánna.

 

Langhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinunum.

Í morgunsárið, eftir níu,

augun þorn’ á steinunum.

 

Draghenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinum.

Andinn verður ör að nýju

öllum gleymir meinum.

 

Skammhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á grein,

hverja sólar gleypir glýju,

gleðin ríkir ein.

 

Úrkast:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brumin.

Frjóin vori fagna nýju

frá sér numin.

 

Dverghenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum.

Dagsins sjá þau dýrð að nýju

en deyja sum.

 

16.04.14

Sigurður dýralæknir sendi Árgalafélögum líka, fyrirfram, efni í Hörpuvísur, fyrriparta undir nokkrum mismunandi rímnaháttum. Þegar ég var að hnoða saman botnunum var „vorhret á glugga“ sem hafði augljós áhrif á innihald þeirra:

Ferskeytt

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól á lofti

en vetur ennþá virðist með

vorið upp’ í hvofti!

 

Stefjahrun

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin för.

Lítið hef þó hana séð,

á hitann virðist spör.

 

Gagaraljóð

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin ganginn sinn.

Ef gengi úti faldprútt féð,

fljótt það myndi setja inn.

 

Nýhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin göngu sína.

Glæstar vonir geng ég með:

Góða besta, farð’ að skína!“

 

Stafhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin blíðu með

en Vetur kóngur fer ei fet,

færir okkur páskahret.

 

Samhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól frá vetrarbeð.

Nú er aumt og nakið tréð,

í náttúrunni lítið peð.

 

Stikluvik

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin göngu,

en þó verður varla séð

að vorið komi henni með.

 

Valstýft

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól.

Út að ganga! Allir með!

Upp á hól“.

 

23.04.14

Ort síðasta vetrardag:

Hittir beint í hjartastað

að heyra’ í regni niðinn

og vera nokkuð viss um að

veturinn er liðinn.

 

Eygló spreðar undir nótt

átta, níu gráðum!

Á mæli sé að hægt og hljótt

hefjist sumar bráðum.

 

28.04.14

Húsfreyjan á Grímsstöðum fangaði athygli mína í þætti Láru Ómarsdóttur, með orðum sínum og sýn:

Herðubreið fær hundrað stig,
hjartað nærir lengi.
„Fjöllin hafa fangað mig“,
fegurst heit þeim strengi.

 

30.04.14

Borðtölvan komin í gang aftur, eftir að hafa verið í viðgerð:

Fram á varir færist bros,
fingur strjúka höku.
Sit ég móti Machintosh
og meitla eina stöku.

 

02.05.14

Íhaldið í Árborg sendi út kosningaáróðursbækling sinn með Sunnlenska fréttablaðinu í gervi upplýsingarits fyrir sveitarfélagið, allt á kostnað skattgreiðenda:

Íhald kemst á æðra stig,

útsvar nýtt af viti,

og skemmtilegt að skeina sig

á skatta greiddu riti.

 

11.05.14

Mæðradagurinn er í dag og ég skrifaði eftirfarandi stöku í dagbókina hennar mömmu minnar:

Illt að rata æviveg,

æsku- kveðja bæinn.

Þína leiðsögn þakka ég

þér, á mæðradaginn.

 

13.05.14

Hera frá Þóroddsstöðum og Bjarni Bjarnason urðu Reykjavíkurmeistarar í 250 metra skeiði um daginn, á tímanum 22,3 sek. Setti mynd af þeim úr sprettinum inn á Fjasbók, og þessa vísu neðan við:

Kjarvalsdóttir hvellvökur

kom úr legi Gunnar.

Þarf ei fingra- né fótskökur,

framættirnar kunnar.

 

18.05.14

Getur allt ef ætlar sér,

áfram veg ‘ann ber hugur.

Tíminn flýgur, orðinn er

Árni Hrannar fer-tugur.

 

25.05.14

Átti góðan afmælisdag í gær. Flest fólkið mitt kom í heimsókn og góðum kveðjum rigndi á Fjasbók:

Ánægður með allt ég var,

afmælis naut heimsóknar.

Á þessum miðli þeygi spar

að þakka allar kveðjurnar.

 

7.06.14

Ort í reiðtúr á efnisfolanum Hrímni:

Uppi heldur sjálfum sér,

syngur undir vegur.

Grái folinn ungi er

ekki dónalegur.

 

Og í næsta reiðtúr var Spurning tekin til kostanna:

Spurning hefur folöld fætt,

Fjöður, Ör og Tý.

Í annað hlutverk er nú mætt,

undir hnakk á ný.

 

8.06.14

Útigönguhrossin komin á járn og í reiðtúr um „Votmúlahringinn“ með þrjú til reiðar varð til þessi vísa:

Hryssa ljós og hestar tveir

að hátíð daginn gera.

Frá vinstri: Ljósbrá, Þokki, Þeyr,

með þeim er gott að vera.

 

10.06.14

Útreiðar og tamningar ganga vel í sumarblíðunni:

Léttur vilji sýnir sig,

Silfri eykur þorið.

Gleður sífellt meira mig,

mýkir alltaf sporið.

 

Ei hæfileika, leikni, fjör

lækinn yfir sóttir!

Gullin perla er hún Ör

enda Þóroddsdóttir.

 

Hátíð litlu líst mér á,

leynist þarna framinn?

Um það má víst ýmsu spá,

enda lítið tamin.

 

11.06.14

Ellefu hross hreyfð í dag, þeim riðið eða þau teymd. Allt að gerast í tamningunum svo tamningamaðurinn og eigandinn er alsæll:

Heldur vel á hrossum gekk

að hreinsa sálarlindir.

Gullna vængi gleðin fékk

svo ég gleymdi að taka myndir!

 

21.06.14

Ása Nanna Mikkelsen, áfangastjóri FSu og samstarfsmaður síðustu tvo áratugi, gekk út af vinnustað sínum í síðasta sinn í gær að lokinnni farsælli starfsævi:

Töluvert skrýtin tilfinning

að töltir útúr húsi.

Vont að missa, þig vefji um kring

veröldin og knúsi.

 

22.06.14

Kolbrún Ylva, systurdótturdóttir mín, varð eins árs þann 3. júní sl. en Þóra Þöll mamma hennar hélt upp á afmælið í dag. Sendi þessa kveðju í korti:

Ævinnar fyrsta stóra stund

fyrir stúlkuna undur fína.

Gott er að eiga gleðifund,

gott er að elska sína.

 

28.06.14

Arngrímur Árnason var fermdur heima hjá sér í Bergen í Noregi í vor, ári seinna en jafnaldrarnir á Íslandi, en hélt veislu fyrir ættingja og vini á Íslandi í dag:

Framtíðin er full af von,

færin opin bíða.

Gæfan Arngrím Árnason

ávallt megi prýða.

 

17.07.14

Þessi þarfnast ekki frekari skýringar:

Mér er gefin síðust sort,

sálu efi nagar,

því lengi hefi engin ort

ylhýr stefin bragar.

 

18.07.14

Það þótti tíðindum sæta, eftir að rignt hafði linnulaust í a.m.k. tvo mánuði, að veðurfréttamaðurinn í sjónvarpinu sagði að „breytinga væri að vænta á föstudaginn og þá færi að rigna“. Upp rann föstudagur:

Úrvalstíðin er í dag

enda föstudagur.

Hitti á naglann veðurspá,

loksins fór að rigna!

 

19.07.14

Enn af veðrinu, sem á hug landsmanna allan:

Lemur túðu lárétt regn,

lægð á súðum veður.

Sumar flúði sorta fregn

sólarskrúðið meður.

 

En ekki þýðir að æðrast eða væla yfir veðrinu hér á landi:

Forðast myrkan forarpytt,

fráleitt yrki trega.

Konjaksstyrki kaffið mitt

svo kólni virkilega.

 

Og svo er að taka upp hugarfar Hannesar í „Stormi“ og fleiri kvæðum:

Ælu rekur upp í kok

eilíft dekur sólar.

Gleði vekur regn og rok,

raunir tekur, skólar.

 

20.07.14

Eftir dásamlega sprettutíð undanfarið lagðist hann í langvarandi þurrk í allan morgun:

Gróðurtíð um grund og skóg.
Grasið víða bælnar.
Af logni og blíðu líst mér nóg,
landið fríða skrælnar.

 

10.09.14

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt og Ármann Þorgrímsson orti um að herrarnir hugsuðu bara um að „elda eigin steikur“. Ég lýsti því sem í boði væri fyrir almenning úr því eldhúsi:

Aumt er þeirra eldhúsmakk,

allt er fæðið svikið,

eðalsteikin“ úldið hakk,

óæt fyrir vikið.

 

Í blöðunum var vitnað í fjárlagafrumvarpið, þar sem útgjöld til háskólanna voru sögð samkvæmt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar:

Háleita markmiðið hækkar

ef háskólanemunum fækkar.

Best að múgurinn gorti

af menntunarskorti,

þá stuðningshópurinn stækkar.

 

12.09.14

Haustið lætur á sér kræla með hefðbundnum hætti:

Kunnugt er nú komið haust,

kuldableytudrulla

og aftur byrjað, endalaust,

alþingi að bulla.

 

Elfa bróðurdóttir mín er alveg yndisleg. Hún benti fólki á að taka upp léttara hjal á Fjasbók og gaman væri líka að tala um það sem vel er heppnað. Ég tek hana á orðinu:

Ég nú verð að játa að

ég er nokkuð góður.

Rökin sem að sanna það

má sjá í dóttur bróður.

 

Núna er eitt barnið í þingliði Sjálfstæðisflokksins að berjast í að koma brennivíni í matvörubúðir:

Þegar bjór og brennivín

í búðum hér mun fást,

kaupstaðarangan óðar dvín

og á mér mun varla sjást.

 

Ekki var blekið þornað á fjármálafrumvarpsdrögunum þegar tilkynnt var um verðlækkun á krúseronum, en eins og menn vita þá er ekki étið mælt í þeim:

Í útrás viljum aftur skeiða,
efla ríkra hag.
Toyota býður Bjarnagreiða
bara strax í dag!

 

13.09.14

Á dv.is mátti í dag lesa eftirfarandi: „Karlmannlegt útlit á borð við sterka kjálka og áberandi kinnbein gætu heillað konur upp úr skónum en slíkir karlar bjóða ekkert endilega upp á besta sæðið.“:

Konur hrausta karlmenn þrá,

um kjálka svera og lungun.

Ef eymingja þær hátta hjá

hætta vex á þungun.

 

16.09.14

Hauststemmning:

Sumartáta sárum trega
siglir bát í naust.
Farfakáta, klæðilega
kjóla mátar haust.

 

Haustin eru hefðbundin. Náttúran skiptir um föt og tjaldar því sem til er og mannlífið allt kemst í fastari skorður – fyrsta kóræfingin er í kvöld:

Sýnir haustið stílbrögð stór,

storð á vetur setur.

Brýnir raust í karlakór

hver sem betur getur.

 

17.09.14

Arion banki greiddi rúmlega hundrað lykilstarfsmönnum bankans um 380 milljónir króna í kaupauka á síðasta ári.“ Þetta kemur fram á visir.is í dag.

Svo lykilstarfsmenn lifi dús

og litið geti sólina

við helmingum okkar hungurlús

og herðum sultarólina.

 

Dagur Sigurðsson er mikið í fjölmiðlum í Þýskalandi þessa dagana enda orðinn landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta.“ (visir.is)

Ég trúi á það er ég geri
án alls hroka.“
Annars víst að burt hann beri
boltapoka.

 

18.09.14

Prestur í Selfosskirkju var kærður fyrir að sýndar voru kynfæramyndir í fermingarfræðslu. Hneykslunarvert hvað dregið er í fermingarfræðslunni inn í kirkjur landsins:

Séra minn! Sjáðu nú hér
syndugan unglingaher
með limi og píkur
við altarisbríkur!
Nánast við nefið á þér!

 

Þegar byrjað er á limrum, þá er stundum eins og skrúfað sé frá krana:

Um hádegi Vigga var vakin
til vinnu, því þurrkur var rakinn
Undir dalanna sól
fór úr sokkum og kjól
að snúa á Nallanum, nakin.

 

Kalla má Sigmundarsið

sannleik að velta á hlið.

Sá ég spóa

suðr í flóa

en það kemur því ekki við.

 

22.09.14

MS hefur verið dæmt til stórfelldra sektargreiðslna vegna viðskiptahátta sinna. Fyrrverandi eigandi fyrirtækisins Mjólku, sem MS kúgaði út af markaði, keypti gjaldþrota og endurgreiddi svo hinar samkeppnishamlandi álögur þegar fyrirtækið var komið í eigu KS, lýsti í Kastljósi samskiptunum og viðskiptasiðferðinu:

Framsóknaríhaldið drottnar til sjávar og sveita.

Samtryggða helmingaskiptingin gerir menn feita.

Frumvörpin LÍÚ og Samsalan semja.

Sjóðirnir þingmenn og ráðherra temja.

Mafía er það og mafía skal það heita.

 

23.09.14

Sagt var frá því á netslóð að Vilhjálmur Bjarnason kvartaði og kveinaði á þingi yfir breytingum á dagskrá ríkisútvarpsins. Er ekkert þarfara að tala um á þingi?

Ræðuslorið á slóðinni

sligar eins og mara.

Villi, þyrmdu þjóðinni:

Þegiðu nú bara!

 

24.09.14

Varastallari útskrifarárgangs ML 1980, Sigurður Tómas Magnússon, bauð til samsætis á heimili sínu. Ýmsir buðust til að koma með veitingar, m.a. Dóri og Tóti sem buðust til að koma með steikt kjötfarsbrauð með kavíar og sultu:

Kjötfarssneið er volg að veði,
í vinning færðu hana,
ef mætir þú í glaum og gleði
með gömlu brandarana.

 

Hraungosið norðan Vatnajökuls er mjög í fréttum, sem von er, enda orðið með allra mestu hraungosum á landi hér. Undirliggjandi er ógnin af gosi undir jöklinum sjálfum:

Myndir ís með ógnarþunga

út í fjöllin sker

en þegar rumskar Bárðarbunga

hún bræðir fljótt af sér.

 

26.09.14

Haustvísur urðu til í dag:

Laufið fellur, sjón að sjá

sumarvelli, götu.

Regnið skellur ofan á

eins og helli’ úr fötu.

 

Yfir hauður hellist myrkur.

Hærra gnauðar vindur.

Litur rauður verður virkur.

Vakir auður tindur.

 

Hin pólitíska umræða lætur ekki að sér hæða þessa dagana, fremur en vant er:

Friðarverðlaun og vöffludeig
vondan að þeim setja geig!
Gæðamjólkur taka teyg
og tylla á MS blómasveig.
Sé Framsókn og flugvallarvini
frægðar sig baða í skini.

 

28.09.14

Það þarf nú engan formála að þessu:

Úti friður, funar sól,

fagurt litaróf.

Í flestum veðrum finn ég skjól

að fara yfir próf.

 

28.09.14

Haldin var herjans bænasamkoma fyrir fullum sal í Hörpu að viðstöddum forseta Íslands á fremsta bekk ásamt biskupi. Beðið var fyrir því nauðsynlegasta; kvótakerfinu, breyttu viðhorfi til fóstureyðinga, ríkisstjórninni og valdsmönnum öllum:

Að valdstjórninni vanga sný,

veitir sá er ræður

en bænir komast ekki í

okkar minnstu bræður.

 

29.09.14

Birti nýja „forsíðumynd“ á Fjasbók, af sjálfum mér ríðandi á Þey, uppvöfðum og glæsilegum. Myndin fékk góðar viðtökur og viðbrögð frá ýmsum og ég reyndi að fanga þau í bundnum máli:

Hesturinn fríður og klipinn í kverk,

kraftmikill, prúður og reistur.

Maðurinn sannkallað meistaraverk,

munnsvipur ljótur og kreistur.

 

Hallmar Sigurðsson sneri út úr þessu og ég svaraði á þessa leið:

Hesturinn fríður og léttur í lund,

langstígur, mjúkur og vakur.

Knapinn á baki er kóngur um stund,

kátur og mígandi slakur.

 

Spurt var hvort ekki væru örugglega báðir Laugvetningar:

Tveir Laugvetningar leika sér,

ljúft er þeirra gaman,

en úr sig fljótt sá skjótti sker,

skallinn súr í framan.

 

30.09.14

Sagt var frá því í fjölmiðlum að Jónína Ben. og Gunnar Krossfari byggju frítt í villu aldraðs milljónera sem kominn er með alzheimer. Hún krefst þess að búa þar áfram og fá tugi milljóna af auðnum því hún hefði verið svo góð við hann og í raun „gengið honum í dóttur stað“:

Gunnar og guð vita engin

góðverk sem toppa það

að Jónína glæsta er gengin

þeim gamla í dóttur stað.

 

02.10.14

Verjandi bankagangstera taldi saksóknara vanhæfan fyrir dómi, því hann hefði „lækað“ einhverja færslu á Fjasbók:

Bankagangster segir svarinn
sannleik, nema hvað!
Á Fjasbók sjálfur saksóknarinn
setur læk á það.

 

04.10.14

Þjóðfélag á heljarþröm?

Heilbrigðiskerfi á heljarþröm,
höktandi beinagrind.
Menntagyðjan er mergsogin,
máttlaus og næstum blind.
Dómsvaldið í dauðateygjum,
dapurleg hryggðarmynd.
Ríkisútvarpið rekið á gaddinn,
eins og riðuveik, horuð kind.
En framkvæmdavaldið fleytir rjómann
í friði, og leysir vind.

 

07.10.14

Birt var mynd af þeim bræðrum Tryggva og Guðna Ágústssonum með forystusauðinn Gorba á milli sín:

Sjáið Brúnastaðabræður,

bregst ei ættarsvipurinn.

Þeirra sönnu súperræður

semur forystugripurinn.

 

Það er nokkuð fagurt út að líta þessa dagana. Rósin skrúðgræn við skrifstofugluggann og birkitrén skarta fagurgul að baki hennar, en hekkið ekki eins litskrúðugt:

Björkin heillar huga minn.

Hekkið -svepp er með ryð-.

Gægist rós um gluggann inn.

Gott er blessað veðrið.

 

08.10.14

Til hamingju herramenn! Skál!

Hitnar senn nautnanna bál!

Eftir engu að bíða!

Dettum nú í’ða’!

(sko, meðferð er allt annað mál).

 

10.10.14

Meira af limrubulli:

Ennþá ég Magnhildi man!

Í mörgu var of eða van

og í megrunarkasti

á trailer, í hasti,

var keyrð út á hvalskurðarplan!

 

12.10.14

Samstúdentar ML ’80 hittust heima hjá varastallara í gærkvöldi. Í dag birtust myndir úr samkvæminu á Netinu. Um myndirnar:

Undra heimsins til það telst

í tímans harða stríði

að fólkið hefur ekkert elst

árin hratt þó líði!

 

Hvað er gott?

Gott er að veita góðu lið,

gott er að tendra neista.

Gott er sínu að gangast við,

gott er vini að treysta.

 

13.10.14

Enn ein limran:

Ekki’ er öll vitleysan eins!

Annað með liðið hans Sveins.

Af leiðindaböggi

það liggur við höggi

flatt, milli sleggju og steins.

 

Einhver tjáði sig um það að myndast ekki nógu vel:

Margur kann að myndast vel,

sem meitluð, grjóthörð tinnan.

Miklu varðar meir, ég tel,

manneskjan að innan.

 

15.10.14

Sjálfstæðismenn eru farnir að tala af auknum þunga enn á ný um einkavæðingu og ofkostnað við allt sem heitir „eftirlit“ í þjóðfélaginu:

Upptrekkti ránfuglinn ræstur,

rómurinn holur og æstur:

Algeran skilnað

við eftirlitsiðnað

því hver er sjálfum sér næstur“.

 

16.10.14

Evrópumeistaramót í hópfimleikum var haldið í Laugardalshöll. Bein lýsing var í sjónvarpinu:

Fimleikadrottningar dansa,

dýfa sér, hoppa og glansa.

Útsending fín,

Einar og Hlín,

en ég sárlega saknaði Hansa.

 

19.10.14

Í heimsókn hjá mömmu fór ég að hugleiða tímann:

Tíminn skrefum tiplar smám,

töf og hvíld hann neitar.

Fólk af honum dregur dám

er drauma sinna leitar.

 

23.10.14

Hestamenn deila hart um staðsetningu landsmóta, og þing LH leysist upp þegar formaður og stjórn segja af sér í kjölfar samþykktar tillögu sem gengur þvert gegn fyrirætlunum stjórnarinnar:

LH er gallalaus gripur,

ganglagin hryssa og pipur.

Á mótum nýr blær!

Hún bítur og slær!

Syndin er lævís og lipur.

 

Lögreglan tekur við hríðskotabyssum frá norska hernum, Alþingi veit ekkert af málinu fyrr en blöðin birta frétt. Deilt er um tilgang og afleiðingar vopnvæðingar löggunnar:

Gaddavír er til að girða.

Orð eru nýt til að yrða.

Markmið og gagn?

Hlutverk og magn?

Með vopnum skal menn myrða.

 

24.10.14

Umræðan í íslensku samfélagi er fljót að sveiflast til. Það sem einn daginn er svo mikilsvert að nánast allir hafa skoðun, tjá hana og er mikið niðri fyrir, er gleymt og grafið á morgun, enda annað hitamál komið til:

Fjármálaráðherra á skrifstofu sinni:

Matarskatti mætti gleyma,

múgur annað hneyksli þarf“.

 

PR-GROUP ríkisstjórnarinnar, eftir stutta umhugsun:

Að byssukaupum tal skal teyma,

þá tekst að draga skatt í hvarf“.

 

25.10.14

Á spíritísku laugardagskvöldi:

Eitthvað er óþekkt á sveimi,

undarlegt handanað streymi?

En ýlfrið nú þekki!

Kemur þar ekki

glaðasti hundur í heimi!

 

30.10.14

Það er nóg að gera hjá spunameisturum, a.m.k. tveir í hverju ráðuneyti og veitir ekki af. Ekki minnkar þó bullið. Í fornum sögum er að finna annað nafn á stéttina:

Hálfan sannleik segir oss,

sérhagsmunavörður.

Spinnur, vendir kvæði í kross,

kallast Lyga-Mörður.

 

05.11.14.

Fyrirsögn á RUV.IS, undir gleiðbrosandi Seðlabankastjóranum: „Allir dauðöfunda okkur“:

Að vopni verður allt enn.

Veröldin lýtur þér senn.

Með titrandi tár

þig tilbiðja, Már,

Íslands öfundarmenn.

 

Svokölluð friðþæingarkenning er grundvöllur hins lútherska trúnaðar:

Brunar með glaumi og gleði
til glötunar fullhlaðinn sleði.
En lífið varð skák
með lundgóðan strák
er faðir hans fórnaði peði.

 

13.11.14

Forsætisráðherrann er loks með hýrri há, en ekki jafn grautfúll og leiðinlegur og hann jafnan er:

Lánabólgan leiðrétt er,
lýð ég forða tapi.
Langar mig í Land-Rover,
léttur er í skapi.“

 

17.11.14

Eftirminnileg viðtöl í Kastljósi kvöldsins við systurnar Snædísi og Áslaugu Hjartardætur um aðstæður þeirra og mikilvægi túlkasjóðs, sem er tómur, og túlkaþjónustu fyrir fatlað fólk:

Virðist hægt allt í heimi að gera,

fyrir heilbrigðan Jón – ef er séra!

Þegar fæst ekki túlkur

þar tjá sig um stúlkur:

Engin hornkerling vil ég vera“.

 

29.11.14

Eftir setu á meiraprófsnámskeiði helgarnar langar:

Við langar setur, lon og don,

lokast um huga vegur.

Þá bjargar Árni Ingólfsson,

einkar skemmtilegur.

 

30.11.14

Spáð er „brjáluðu veðri“. Síðdegis er orðið bálhvasst:

Kári nokkuð argur er,

eins og flokkur villtur.

Hrindir okkur, mæðir mér,

mikill þokkapiltur.

 

1.12.14

Eftir storminn kemur lognið:

Kári frómur kominn er

með kæra rjómablíðu.

Kyrrum rómi kveður mér

kvæðin ómaþýðu.

 

4.12.14

Bjarni Ben. skipaði nýjan innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu, loksins eftir langa mæðu. Ýmsir þóttust kallaðir, m.a. Pétur Blöndal og þingflokksformaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem á sinn djöful að draga:

Bjarni um víðan fór völl
og varaðist þingmennin öll.
Fór um hann ótti
svo Ólöfu sótti
út yfir firnindi og fjöll.

 

Í Árvakursmóum var aftur
Evrópulöngunarkraftur
Ragnheiðar mældur.
Og Pétur er spældur.
En í þingflokknum klappar hver kjaftur.

 

10.12.14

Prófatörnin stendur sem hæst og m.a. yfirferð Njáluprófa:

Sífellt eflir saga Njáls
sálarheilsu manna
og sanna góða grósku máls
gullkorn nemendanna.

 

11.12.14

Sigrún Magnúsdóttir hélt makalausa varnarræðu á Alþingi fyrir afstöðu sinni og Framsóknar til niðurskurðar RÚV, og sagði að sem kaupmaður vissi hún að hafa þyrfti ýmislegt í huga, m.a. hvort varan væri rétt merkt:

Er varan rétt merkt“?

Er vald nógu sterkt?

Er Sigrún forhert?

Er RÚV einskisvert?

 

Orðið býsna vetrarlegt út um gluggann á upphituðu húsinu að litast:

Núna þekki næðinginn.
Núna ríkir veturinn.
Nú er góður norparinn.
Nú er rétt að taka inn.

 

Óli Palli er með þátt á RÚV, Stúdíó A, þar sem ýmsar hljómsveitir og listamenn flyta lög sín og ljóð. Í kvöld var m.a. Leoncie á dagskránni:

Lærabera Leoncie
sá líða frjálst um sviðið
en eggjahljóðin henni í
heilla meir en iðið.

 

Ekk féll þessi vísa í kramið hjá öllum:

Það má reyna bragarbót,
en best er víst að þegja.
Ekki skil ég hætishót
en hérna verð að segja:

 

Leggjabera Leoncie
líður frjáls um sviðið.
Skrokknum víða urgar í,
enda mikið ryðið.

 

13.12.14

Enn er spáð hvelli í kvöld og nótt og allan morgundaginn líka, svei mér þá. En alla vega er nú lognið á undan storminum:

Frost og stillur, fold nú má
í fannamillikjólinn.
Máninn tyllir tánum á
og töfrum gyllir hólinn.

 

18.12.14

Töluvert hefur snjóað og börn njóta sín úti við:

Skrýðir fjöll og skógarhöll,
skjannamjöll á grundum.
Hávær köll og hlátrasköll
heyrast öllum stundum.

 

24.12.14

Vísur fóru á nokkra jólapakka:

Víst er gott að vita það,

vetrar í hörðu éli,

að gott er að halla höfði að

hlýju og mjúku þeli.

 

Til að leysa þunga þraut

Þorgeir skreið undir feldinn.

Lagði þar friðar beina braut

og bardaga- sefaði eldinn.

 

Léttir angur lundin þín

lífs á gangi mínum.

Enn mig langar, ástin mín

upp að vanga þínum.

 

Hækkar sólin heims um ból,

því himnasjóli réði.

Fínan Sóley fer í kjól,

fagnar jólagleði.

 

Djörf í fasi, dömuskott

djásn í asa brímans.

Eigðu Jasmín árið gott,

ögn í glasi tímans.

 

Eina fróma ber fram bón,

blíðum rómi mínum:

Þessi sóma og heiðurshjón

haldi ljóma sínum.

 

31.12.14

Árið 2014

Eftir hörmung hafta,

héraðsbresti mesta,

þulu af lygaþvælu,

þéttan reyk af prettum,

veldi tryggt útvaldra

á votri auðlind, brauði,

þreyttir minnimáttar

mola leita’ í holum.

 

Rósir Reykjavíkur

rasísk meðul brasa,

svo kreddufúsir kjósi

kristinn teboðslista.

Keflum íhaldsöflin,

aftur finnum kraftinn.

Skipið þjóðar skríði

skár á nýju ári.