Úr dagbókinni 2014

Árið er 2014. Safnið telur 113 vísur

25.02.14

Bjarni Ben. var í viðtali í Kastljósi í gær beðinn um að svara fyrir einhver kosningaloforð:

Æru varið ekki gat,
aulasvaraglundur.
Eins og þvara eftir sat,
eða barinn hundur.

 

12.04.14

Ort um mynd af Þorbjörgu systur minni haldandi á ömmustelpunni Kolbrúnu Ylvu:

Við kærleiksatlot Ylva býr
sem æ í minni geymir.
Ömmu faðmur er svo hlýr
að undur vel þar dreymir.

 

15.04.14

Sigurður Sigurðarson dýralæknir sendi félögum í Kvæðamannafélaginu Árgala nokkra fyrriparta, til að botna fyrir Einmánaðarfund félagsins. Tilgangurinn var ekki síst að æfa fjölbreytni í vísnagerðinni. Ég fór svona að:

Breiðhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinum trjánna.

Logar sól um land að nýju,

leikur glatt í straumi ánna.

 

Langhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinunum.

Í morgunsárið, eftir níu,

augun þorn’ á steinunum.

 

Draghenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á greinum.

Andinn verður ör að nýju

öllum gleymir meinum.

 

Skammhenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum á grein,

hverja sólar gleypir glýju,

gleðin ríkir ein.

 

Úrkast:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brumin.

Frjóin vori fagna nýju

frá sér numin.

 

Dverghenda:

Einmánuður andar hlýju,

opnast brum.

Dagsins sjá þau dýrð að nýju

en deyja sum.

 

16.04.14

Sigurður dýralæknir sendi Árgalafélögum líka, fyrirfram, efni í Hörpuvísur, fyrriparta undir nokkrum mismunandi rímnaháttum. Þegar ég var að hnoða saman botnunum var „vorhret á glugga“ sem hafði augljós áhrif á innihald þeirra:

Ferskeytt

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól á lofti

en vetur ennþá virðist með

vorið upp’ í hvofti!

 

Stefjahrun

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin för.

Lítið hef þó hana séð,

á hitann virðist spör.

 

Gagaraljóð

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin ganginn sinn.

Ef gengi úti faldprútt féð,

fljótt það myndi setja inn.

 

Nýhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin göngu sína.

Glæstar vonir geng ég með:

Góða besta, farð’ að skína!“

 

Stafhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin blíðu með

en Vetur kóngur fer ei fet,

færir okkur páskahret.

 

Samhent

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól frá vetrarbeð.

Nú er aumt og nakið tréð,

í náttúrunni lítið peð.

 

Stikluvik

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sólin göngu,

en þó verður varla séð

að vorið komi henni með.

 

Valstýft

Harpa nálgast, hlýnar geð,

þá hækkar sól.

Út að ganga! Allir með!

Upp á hól“.

 

23.04.14

Ort síðasta vetrardag:

Hittir beint í hjartastað

að heyra’ í regni niðinn

og vera nokkuð viss um að

veturinn er liðinn.

 

Eygló spreðar undir nótt

átta, níu gráðum!

Á mæli sé að hægt og hljótt

hefjist sumar bráðum.

 

28.04.14

Húsfreyjan á Grímsstöðum fangaði athygli mína í þætti Láru Ómarsdóttur, með orðum sínum og sýn:

Herðubreið fær hundrað stig,
hjartað nærir lengi.
„Fjöllin hafa fangað mig“,
fegurst heit þeim strengi.

 

30.04.14

Borðtölvan komin í gang aftur, eftir að hafa verið í viðgerð:

Fram á varir færist bros,
fingur strjúka höku.
Sit ég móti Machintosh
og meitla eina stöku.

 

02.05.14

Íhaldið í Árborg sendi út kosningaáróðursbækling sinn með Sunnlenska fréttablaðinu í gervi upplýsingarits fyrir sveitarfélagið, allt á kostnað skattgreiðenda:

Íhald kemst á æðra stig,

útsvar nýtt af viti,

og skemmtilegt að skeina sig

á skatta greiddu riti.

 

11.05.14

Mæðradagurinn er í dag og ég skrifaði eftirfarandi stöku í dagbókina hennar mömmu minnar:

Illt að rata æviveg,

æsku- kveðja bæinn.

Þína leiðsögn þakka ég

þér, á mæðradaginn.

 

13.05.14

Hera frá Þóroddsstöðum og Bjarni Bjarnason urðu Reykjavíkurmeistarar í 250 metra skeiði um daginn, á tímanum 22,3 sek. Setti mynd af þeim úr sprettinum inn á Fjasbók, og þessa vísu neðan við:

Kjarvalsdóttir hvellvökur

kom úr legi Gunnar.

Þarf ei fingra- né fótskökur,

framættirnar kunnar.

 

18.05.14

Getur allt ef ætlar sér,

áfram veg ‘ann ber hugur.

Tíminn flýgur, orðinn er

Árni Hrannar fer-tugur.

 

25.05.14

Átti góðan afmælisdag í gær. Flest fólkið mitt kom í heimsókn og góðum kveðjum rigndi á Fjasbók:

Ánægður með allt ég var,

afmælis naut heimsóknar.

Á þessum miðli þeygi spar

að þakka allar kveðjurnar.

 

7.06.14

Ort í reiðtúr á efnisfolanum Hrímni:

Uppi heldur sjálfum sér,

syngur undir vegur.

Grái folinn ungi er

ekki dónalegur.

 

Og í næsta reiðtúr var Spurning tekin til kostanna:

Spurning hefur folöld fætt,

Fjöður, Ör og Tý.

Í annað hlutverk er nú mætt,

undir hnakk á ný.

 

8.06.14

Útigönguhrossin komin á járn og í reiðtúr um „Votmúlahringinn“ með þrjú til reiðar varð til þessi vísa:

Hryssa ljós og hestar tveir

að hátíð daginn gera.

Frá vinstri: Ljósbrá, Þokki, Þeyr,

með þeim er gott að vera.

 

10.06.14

Útreiðar og tamningar ganga vel í sumarblíðunni:

Léttur vilji sýnir sig,

Silfri eykur þorið.

Gleður sífellt meira mig,

mýkir alltaf sporið.

 

Ei hæfileika, leikni, fjör

lækinn yfir sóttir!

Gullin perla er hún Ör

enda Þóroddsdóttir.

 

Hátíð litlu líst mér á,

leynist þarna framinn?

Um það má víst ýmsu spá,

enda lítið tamin.

 

11.06.14

Ellefu hross hreyfð í dag, þeim riðið eða þau teymd. Allt að gerast í tamningunum svo tamningamaðurinn og eigandinn er alsæll:

Heldur vel á hrossum gekk

að hreinsa sálarlindir.

Gullna vængi gleðin fékk

svo ég gleymdi að taka myndir!

 

21.06.14

Ása Nanna Mikkelsen, áfangastjóri FSu og samstarfsmaður síðustu tvo áratugi, gekk út af vinnustað sínum í síðasta sinn í gær að lokinnni farsælli starfsævi:

Töluvert skrýtin tilfinning

að töltir útúr húsi.

Vont að missa, þig vefji um kring

veröldin og knúsi.

 

22.06.14

Kolbrún Ylva, systurdótturdóttir mín, varð eins árs þann 3. júní sl. en Þóra Þöll mamma hennar hélt upp á afmælið í dag. Sendi þessa kveðju í korti:

Ævinnar fyrsta stóra stund

fyrir stúlkuna undur fína.

Gott er að eiga gleðifund,

gott er að elska sína.

 

28.06.14

Arngrímur Árnason var fermdur heima hjá sér í Bergen í Noregi í vor, ári seinna en jafnaldrarnir á Íslandi, en hélt veislu fyrir ættingja og vini á Íslandi í dag:

Framtíðin er full af von,

færin opin bíða.

Gæfan Arngrím Árnason

ávallt megi prýða.

 

17.07.14

Þessi þarfnast ekki frekari skýringar:

Mér er gefin síðust sort,

sálu efi nagar,

því lengi hefi engin ort

ylhýr stefin bragar.

 

18.07.14

Það þótti tíðindum sæta, eftir að rignt hafði linnulaust í a.m.k. tvo mánuði, að veðurfréttamaðurinn í sjónvarpinu sagði að „breytinga væri að vænta á föstudaginn og þá færi að rigna“. Upp rann föstudagur:

Úrvalstíðin er í dag

enda föstudagur.

Hitti á naglann veðurspá,

loksins fór að rigna!

 

19.07.14

Enn af veðrinu, sem á hug landsmanna allan:

Lemur túðu lárétt regn,

lægð á súðum veður.

Sumar flúði sorta fregn

sólarskrúðið meður.

 

En ekki þýðir að æðrast eða væla yfir veðrinu hér á landi:

Forðast myrkan forarpytt,

fráleitt yrki trega.

Konjaksstyrki kaffið mitt

svo kólni virkilega.

 

Og svo er að taka upp hugarfar Hannesar í „Stormi“ og fleiri kvæðum:

Ælu rekur upp í kok

eilíft dekur sólar.

Gleði vekur regn og rok,

raunir tekur, skólar.

 

20.07.14

Eftir dásamlega sprettutíð undanfarið lagðist hann í langvarandi þurrk í allan morgun:

Gróðurtíð um grund og skóg.
Grasið víða bælnar.
Af logni og blíðu líst mér nóg,
landið fríða skrælnar.

 

10.09.14

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var kynnt og Ármann Þorgrímsson orti um að herrarnir hugsuðu bara um að „elda eigin steikur“. Ég lýsti því sem í boði væri fyrir almenning úr því eldhúsi:

Aumt er þeirra eldhúsmakk,

allt er fæðið svikið,

eðalsteikin“ úldið hakk,

óæt fyrir vikið.

 

Í blöðunum var vitnað í fjárlagafrumvarpið, þar sem útgjöld til háskólanna voru sögð samkvæmt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar:

Háleita markmiðið hækkar

ef háskólanemunum fækkar.

Best að múgurinn gorti

af menntunarskorti,

þá stuðningshópurinn stækkar.

 

12.09.14

Haustið lætur á sér kræla með hefðbundnum hætti:

Kunnugt er nú komið haust,

kuldableytudrulla

og aftur byrjað, endalaust,

alþingi að bulla.

 

Elfa bróðurdóttir mín er alveg yndisleg. Hún benti fólki á að taka upp léttara hjal á Fjasbók og gaman væri líka að tala um það sem vel er heppnað. Ég tek hana á orðinu:

Ég nú verð að játa að

ég er nokkuð góður.

Rökin sem að sanna það

má sjá í dóttur bróður.

 

Núna er eitt barnið í þingliði Sjálfstæðisflokksins að berjast í að koma brennivíni í matvörubúðir:

Þegar bjór og brennivín

í búðum hér mun fást,

kaupstaðarangan óðar dvín

og á mér mun varla sjást.

 

Ekki var blekið þornað á fjármálafrumvarpsdrögunum þegar tilkynnt var um verðlækkun á krúseronum, en eins og menn vita þá er ekki étið mælt í þeim:

Í útrás viljum aftur skeiða,
efla ríkra hag.
Toyota býður Bjarnagreiða
bara strax í dag!

 

13.09.14

Á dv.is mátti í dag lesa eftirfarandi: „Karlmannlegt útlit á borð við sterka kjálka og áberandi kinnbein gætu heillað konur upp úr skónum en slíkir karlar bjóða ekkert endilega upp á besta sæðið.“:

Konur hrausta karlmenn þrá,

um kjálka svera og lungun.

Ef eymingja þær hátta hjá

hætta vex á þungun.

 

16.09.14

Hauststemmning:

Sumartáta sárum trega
siglir bát í naust.
Farfakáta, klæðilega
kjóla mátar haust.

 

Haustin eru hefðbundin. Náttúran skiptir um föt og tjaldar því sem til er og mannlífið allt kemst í fastari skorður – fyrsta kóræfingin er í kvöld:

Sýnir haustið stílbrögð stór,

storð á vetur setur.

Brýnir raust í karlakór

hver sem betur getur.

 

17.09.14

Arion banki greiddi rúmlega hundrað lykilstarfsmönnum bankans um 380 milljónir króna í kaupauka á síðasta ári.“ Þetta kemur fram á visir.is í dag.

Svo lykilstarfsmenn lifi dús

og litið geti sólina

við helmingum okkar hungurlús

og herðum sultarólina.

 

Dagur Sigurðsson er mikið í fjölmiðlum í Þýskalandi þessa dagana enda orðinn landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta.“ (visir.is)

Ég trúi á það er ég geri
án alls hroka.“
Annars víst að burt hann beri
boltapoka.

 

18.09.14

Prestur í Selfosskirkju var kærður fyrir að sýndar voru kynfæramyndir í fermingarfræðslu. Hneykslunarvert hvað dregið er í fermingarfræðslunni inn í kirkjur landsins:

Séra minn! Sjáðu nú hér
syndugan unglingaher
með limi og píkur
við altarisbríkur!
Nánast við nefið á þér!

 

Þegar byrjað er á limrum, þá er stundum eins og skrúfað sé frá krana:

Um hádegi Vigga var vakin
til vinnu, því þurrkur var rakinn
Undir dalanna sól
fór úr sokkum og kjól
að snúa á Nallanum, nakin.

 

Kalla má Sigmundarsið

sannleik að velta á hlið.

Sá ég spóa

suðr í flóa

en það kemur því ekki við.

 

22.09.14

MS hefur verið dæmt til stórfelldra sektargreiðslna vegna viðskiptahátta sinna. Fyrrverandi eigandi fyrirtækisins Mjólku, sem MS kúgaði út af markaði, keypti gjaldþrota og endurgreiddi svo hinar samkeppnishamlandi álögur þegar fyrirtækið var komið í eigu KS, lýsti í Kastljósi samskiptunum og viðskiptasiðferðinu:

Framsóknaríhaldið drottnar til sjávar og sveita.

Samtryggða helmingaskiptingin gerir menn feita.

Frumvörpin LÍÚ og Samsalan semja.

Sjóðirnir þingmenn og ráðherra temja.

Mafía er það og mafía skal það heita.

 

23.09.14

Sagt var frá því á netslóð að Vilhjálmur Bjarnason kvartaði og kveinaði á þingi yfir breytingum á dagskrá ríkisútvarpsins. Er ekkert þarfara að tala um á þingi?

Ræðuslorið á slóðinni

sligar eins og mara.

Villi, þyrmdu þjóðinni:

Þegiðu nú bara!

 

24.09.14

Varastallari útskrifarárgangs ML 1980, Sigurður Tómas Magnússon, bauð til samsætis á heimili sínu. Ýmsir buðust til að koma með veitingar, m.a. Dóri og Tóti sem buðust til að koma með steikt kjötfarsbrauð með kavíar og sultu:

Kjötfarssneið er volg að veði,
í vinning færðu hana,
ef mætir þú í glaum og gleði
með gömlu brandarana.

 

Hraungosið norðan Vatnajökuls er mjög í fréttum, sem von er, enda orðið með allra mestu hraungosum á landi hér. Undirliggjandi er ógnin af gosi undir jöklinum sjálfum:

Myndir ís með ógnarþunga

út í fjöllin sker

en þegar rumskar Bárðarbunga

hún bræðir fljótt af sér.

 

26.09.14

Haustvísur urðu til í dag:

Laufið fellur, sjón að sjá

sumarvelli, götu.

Regnið skellur ofan á

eins og helli’ úr fötu.

 

Yfir hauður hellist myrkur.

Hærra gnauðar vindur.

Litur rauður verður virkur.

Vakir auður tindur.

 

Hin pólitíska umræða lætur ekki að sér hæða þessa dagana, fremur en vant er:

Friðarverðlaun og vöffludeig
vondan að þeim setja geig!
Gæðamjólkur taka teyg
og tylla á MS blómasveig.
Sé Framsókn og flugvallarvini
frægðar sig baða í skini.

 

28.09.14

Það þarf nú engan formála að þessu:

Úti friður, funar sól,

fagurt litaróf.

Í flestum veðrum finn ég skjól

að fara yfir próf.

 

28.09.14

Haldin var herjans bænasamkoma fyrir fullum sal í Hörpu að viðstöddum forseta Íslands á fremsta bekk ásamt biskupi. Beðið var fyrir því nauðsynlegasta; kvótakerfinu, breyttu viðhorfi til fóstureyðinga, ríkisstjórninni og valdsmönnum öllum:

Að valdstjórninni vanga sný,

veitir sá er ræður

en bænir komast ekki í

okkar minnstu bræður.

 

29.09.14

Birti nýja „forsíðumynd“ á Fjasbók, af sjálfum mér ríðandi á Þey, uppvöfðum og glæsilegum. Myndin fékk góðar viðtökur og viðbrögð frá ýmsum og ég reyndi að fanga þau í bundnum máli:

Hesturinn fríður og klipinn í kverk,

kraftmikill, prúður og reistur.

Maðurinn sannkallað meistaraverk,

munnsvipur ljótur og kreistur.

 

Hallmar Sigurðsson sneri út úr þessu og ég svaraði á þessa leið:

Hesturinn fríður og léttur í lund,

langstígur, mjúkur og vakur.

Knapinn á baki er kóngur um stund,

kátur og mígandi slakur.

 

Spurt var hvort ekki væru örugglega báðir Laugvetningar:

Tveir Laugvetningar leika sér,

ljúft er þeirra gaman,

en úr sig fljótt sá skjótti sker,

skallinn súr í framan.

 

30.09.14

Sagt var frá því í fjölmiðlum að Jónína Ben. og Gunnar Krossfari byggju frítt í villu aldraðs milljónera sem kominn er með alzheimer. Hún krefst þess að búa þar áfram og fá tugi milljóna af auðnum því hún hefði verið svo góð við hann og í raun „gengið honum í dóttur stað“:

Gunnar og guð vita engin

góðverk sem toppa það

að Jónína glæsta er gengin

þeim gamla í dóttur stað.

 

02.10.14

Verjandi bankagangstera taldi saksóknara vanhæfan fyrir dómi, því hann hefði „lækað“ einhverja færslu á Fjasbók:

Bankagangster segir svarinn
sannleik, nema hvað!
Á Fjasbók sjálfur saksóknarinn
setur læk á það.

 

04.10.14

Þjóðfélag á heljarþröm?

Heilbrigðiskerfi á heljarþröm,
höktandi beinagrind.
Menntagyðjan er mergsogin,
máttlaus og næstum blind.
Dómsvaldið í dauðateygjum,
dapurleg hryggðarmynd.
Ríkisútvarpið rekið á gaddinn,
eins og riðuveik, horuð kind.
En framkvæmdavaldið fleytir rjómann
í friði, og leysir vind.

 

07.10.14

Birt var mynd af þeim bræðrum Tryggva og Guðna Ágústssonum með forystusauðinn Gorba á milli sín:

Sjáið Brúnastaðabræður,

bregst ei ættarsvipurinn.

Þeirra sönnu súperræður

semur forystugripurinn.

 

Það er nokkuð fagurt út að líta þessa dagana. Rósin skrúðgræn við skrifstofugluggann og birkitrén skarta fagurgul að baki hennar, en hekkið ekki eins litskrúðugt:

Björkin heillar huga minn.

Hekkið -svepp er með ryð-.

Gægist rós um gluggann inn.

Gott er blessað veðrið.

 

08.10.14

Til hamingju herramenn! Skál!

Hitnar senn nautnanna bál!

Eftir engu að bíða!

Dettum nú í’ða’!

(sko, meðferð er allt annað mál).

 

10.10.14

Meira af limrubulli:

Ennþá ég Magnhildi man!

Í mörgu var of eða van

og í megrunarkasti

á trailer, í hasti,

var keyrð út á hvalskurðarplan!

 

12.10.14

Samstúdentar ML ’80 hittust heima hjá varastallara í gærkvöldi. Í dag birtust myndir úr samkvæminu á Netinu. Um myndirnar:

Undra heimsins til það telst

í tímans harða stríði

að fólkið hefur ekkert elst

árin hratt þó líði!

 

Hvað er gott?

Gott er að veita góðu lið,

gott er að tendra neista.

Gott er sínu að gangast við,

gott er vini að treysta.

 

13.10.14

Enn ein limran:

Ekki’ er öll vitleysan eins!

Annað með liðið hans Sveins.

Af leiðindaböggi

það liggur við höggi

flatt, milli sleggju og steins.

 

Einhver tjáði sig um það að myndast ekki nógu vel:

Margur kann að myndast vel,

sem meitluð, grjóthörð tinnan.

Miklu varðar meir, ég tel,

manneskjan að innan.

 

15.10.14

Sjálfstæðismenn eru farnir að tala af auknum þunga enn á ný um einkavæðingu og ofkostnað við allt sem heitir „eftirlit“ í þjóðfélaginu:

Upptrekkti ránfuglinn ræstur,

rómurinn holur og æstur:

Algeran skilnað

við eftirlitsiðnað

því hver er sjálfum sér næstur“.

 

16.10.14

Evrópumeistaramót í hópfimleikum var haldið í Laugardalshöll. Bein lýsing var í sjónvarpinu:

Fimleikadrottningar dansa,

dýfa sér, hoppa og glansa.

Útsending fín,

Einar og Hlín,

en ég sárlega saknaði Hansa.

 

19.10.14

Í heimsókn hjá mömmu fór ég að hugleiða tímann:

Tíminn skrefum tiplar smám,

töf og hvíld hann neitar.

Fólk af honum dregur dám

er drauma sinna leitar.

 

23.10.14

Hestamenn deila hart um staðsetningu landsmóta, og þing LH leysist upp þegar formaður og stjórn segja af sér í kjölfar samþykktar tillögu sem gengur þvert gegn fyrirætlunum stjórnarinnar:

LH er gallalaus gripur,

ganglagin hryssa og pipur.

Á mótum nýr blær!

Hún bítur og slær!

Syndin er lævís og lipur.

 

Lögreglan tekur við hríðskotabyssum frá norska hernum, Alþingi veit ekkert af málinu fyrr en blöðin birta frétt. Deilt er um tilgang og afleiðingar vopnvæðingar löggunnar:

Gaddavír er til að girða.

Orð eru nýt til að yrða.

Markmið og gagn?

Hlutverk og magn?

Með vopnum skal menn myrða.

 

24.10.14

Umræðan í íslensku samfélagi er fljót að sveiflast til. Það sem einn daginn er svo mikilsvert að nánast allir hafa skoðun, tjá hana og er mikið niðri fyrir, er gleymt og grafið á morgun, enda annað hitamál komið til:

Fjármálaráðherra á skrifstofu sinni:

Matarskatti mætti gleyma,

múgur annað hneyksli þarf“.

 

PR-GROUP ríkisstjórnarinnar, eftir stutta umhugsun:

Að byssukaupum tal skal teyma,

þá tekst að draga skatt í hvarf“.

 

25.10.14

Á spíritísku laugardagskvöldi:

Eitthvað er óþekkt á sveimi,

undarlegt handanað streymi?

En ýlfrið nú þekki!

Kemur þar ekki

glaðasti hundur í heimi!

 

30.10.14

Það er nóg að gera hjá spunameisturum, a.m.k. tveir í hverju ráðuneyti og veitir ekki af. Ekki minnkar þó bullið. Í fornum sögum er að finna annað nafn á stéttina:

Hálfan sannleik segir oss,

sérhagsmunavörður.

Spinnur, vendir kvæði í kross,

kallast Lyga-Mörður.

 

05.11.14.

Fyrirsögn á RUV.IS, undir gleiðbrosandi Seðlabankastjóranum: „Allir dauðöfunda okkur“:

Að vopni verður allt enn.

Veröldin lýtur þér senn.

Með titrandi tár

þig tilbiðja, Már,

Íslands öfundarmenn.

 

Svokölluð friðþæingarkenning er grundvöllur hins lútherska trúnaðar:

Brunar með glaumi og gleði
til glötunar fullhlaðinn sleði.
En lífið varð skák
með lundgóðan strák
er faðir hans fórnaði peði.

 

13.11.14

Forsætisráðherrann er loks með hýrri há, en ekki jafn grautfúll og leiðinlegur og hann jafnan er:

Lánabólgan leiðrétt er,
lýð ég forða tapi.
Langar mig í Land-Rover,
léttur er í skapi.“

 

17.11.14

Eftirminnileg viðtöl í Kastljósi kvöldsins við systurnar Snædísi og Áslaugu Hjartardætur um aðstæður þeirra og mikilvægi túlkasjóðs, sem er tómur, og túlkaþjónustu fyrir fatlað fólk:

Virðist hægt allt í heimi að gera,

fyrir heilbrigðan Jón – ef er séra!

Þegar fæst ekki túlkur

þar tjá sig um stúlkur:

Engin hornkerling vil ég vera“.

 

29.11.14

Eftir setu á meiraprófsnámskeiði helgarnar langar:

Við langar setur, lon og don,

lokast um huga vegur.

Þá bjargar Árni Ingólfsson,

einkar skemmtilegur.

 

30.11.14

Spáð er „brjáluðu veðri“. Síðdegis er orðið bálhvasst:

Kári nokkuð argur er,

eins og flokkur villtur.

Hrindir okkur, mæðir mér,

mikill þokkapiltur.

 

1.12.14

Eftir storminn kemur lognið:

Kári frómur kominn er

með kæra rjómablíðu.

Kyrrum rómi kveður mér

kvæðin ómaþýðu.

 

4.12.14

Bjarni Ben. skipaði nýjan innanríkisráðherra í stað Hönnu Birnu, loksins eftir langa mæðu. Ýmsir þóttust kallaðir, m.a. Pétur Blöndal og þingflokksformaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem á sinn djöful að draga:

Bjarni um víðan fór völl
og varaðist þingmennin öll.
Fór um hann ótti
svo Ólöfu sótti
út yfir firnindi og fjöll.

 

Í Árvakursmóum var aftur
Evrópulöngunarkraftur
Ragnheiðar mældur.
Og Pétur er spældur.
En í þingflokknum klappar hver kjaftur.

 

10.12.14

Prófatörnin stendur sem hæst og m.a. yfirferð Njáluprófa:

Sífellt eflir saga Njáls
sálarheilsu manna
og sanna góða grósku máls
gullkorn nemendanna.

 

11.12.14

Sigrún Magnúsdóttir hélt makalausa varnarræðu á Alþingi fyrir afstöðu sinni og Framsóknar til niðurskurðar RÚV, og sagði að sem kaupmaður vissi hún að hafa þyrfti ýmislegt í huga, m.a. hvort varan væri rétt merkt:

Er varan rétt merkt“?

Er vald nógu sterkt?

Er Sigrún forhert?

Er RÚV einskisvert?

 

Orðið býsna vetrarlegt út um gluggann á upphituðu húsinu að litast:

Núna þekki næðinginn.
Núna ríkir veturinn.
Nú er góður norparinn.
Nú er rétt að taka inn.

 

Óli Palli er með þátt á RÚV, Stúdíó A, þar sem ýmsar hljómsveitir og listamenn flyta lög sín og ljóð. Í kvöld var m.a. Leoncie á dagskránni:

Lærabera Leoncie
sá líða frjálst um sviðið
en eggjahljóðin henni í
heilla meir en iðið.

 

Ekk féll þessi vísa í kramið hjá öllum:

Það má reyna bragarbót,
en best er víst að þegja.
Ekki skil ég hætishót
en hérna verð að segja:

 

Leggjabera Leoncie
líður frjáls um sviðið.
Skrokknum víða urgar í,
enda mikið ryðið.

 

13.12.14

Enn er spáð hvelli í kvöld og nótt og allan morgundaginn líka, svei mér þá. En alla vega er nú lognið á undan storminum:

Frost og stillur, fold nú má
í fannamillikjólinn.
Máninn tyllir tánum á
og töfrum gyllir hólinn.

 

18.12.14

Töluvert hefur snjóað og börn njóta sín úti við:

Skrýðir fjöll og skógarhöll,
skjannamjöll á grundum.
Hávær köll og hlátrasköll
heyrast öllum stundum.

 

24.12.14

Vísur fóru á nokkra jólapakka:

Víst er gott að vita það,

vetrar í hörðu éli,

að gott er að halla höfði að

hlýju og mjúku þeli.

 

Til að leysa þunga þraut

Þorgeir skreið undir feldinn.

Lagði þar friðar beina braut

og bardaga- sefaði eldinn.

 

Léttir angur lundin þín

lífs á gangi mínum.

Enn mig langar, ástin mín

upp að vanga þínum.

 

Hækkar sólin heims um ból,

því himnasjóli réði.

Fínan Sóley fer í kjól,

fagnar jólagleði.

 

Djörf í fasi, dömuskott

djásn í asa brímans.

Eigðu Jasmín árið gott,

ögn í glasi tímans.

 

Eina fróma ber fram bón,

blíðum rómi mínum:

Þessi sóma og heiðurshjón

haldi ljóma sínum.

 

31.12.14

Árið 2014

Eftir hörmung hafta,

héraðsbresti mesta,

þulu af lygaþvælu,

þéttan reyk af prettum,

veldi tryggt útvaldra

á votri auðlind, brauði,

þreyttir minnimáttar

mola leita’ í holum.

 

Rósir Reykjavíkur

rasísk meðul brasa,

svo kreddufúsir kjósi

kristinn teboðslista.

Keflum íhaldsöflin,

aftur finnum kraftinn.

Skipið þjóðar skríði

skár á nýju ári.

 

Úr dagbókinni 2013

Árið 2013. Safnið telur 114 vísur

23.01.13

Við bekkjarbræðurnir úr B-bekknum í KHÍ vorum að undirbúa 30 ára útskriftarafmæli í vor. Vangaveltur um matseðil voru þar á meðal, hvort ætti að velja fyrir allan hópinn og þá hvernig:

Svona mætti orða könnunina:

Hvað viltu dýrðlegt á disk?

Dugar ei lengur neitt gisk,

sút eða hik.

Settu þitt prik

við annaðhvort önd eða fisk.

 

31.01.13

Við undirbúning fyrrnefndrar hátíðar var sæst á að 27. apríl væri heppilegur dagur til veisluhalda. Síðar áttuðu menn sig á því að það mun vera kjördagur til Alþingis. Ólafur Arngrímsson taldi það engin tormerki, hann hefði hvort eð er ekki kosið í nokkrum undanförnum kosningum, og engin ástæða til þess að hann færi að bæta við meira af því sem fyrir er:

Ábyrgð neina Óli ber

á undanförnum þingum.

Þar nuddar upp úr níði sér

nóg af vitleysingum.

 

02.03.13

FSu vann Reyni í Iðu:

Heimaliðið komst á kreik,

kátur frá því greini.

Tæpur svo, í seigluleik,

sigur vannst á Reyni.

 

06.03.13

Brast á með stórhríð, á miðju vori!:

Núna vetur vöndinn hóf,

vind í metra tugum.

Nærri getur! Neyð og þóf,

nema betur dugum.

 

17.03.13

Tvær fermingar í dag. Jasmín Ragnarsdóttir fermdist í Garðakirkju:

Gæfan við þér brosir blítt,
sem blik frá stjörnum skærum.
Lífið hefur að þér ýtt
ótal tækifærum.

 

Þorsteinn Stefánsson fermdist í Fríkirkjunni:

Þá lífið opnar litla gátt,
lagið nýttu feginn.
Alltaf skaltu hugsa hátt
og horfa fram á veginn.

 

31.03.13

Páskaveðurvísa:

Sólin himni siglir á
seglum þöndum.
Næturfrerinn fýldur þá
fer með löndum.

 

16.05.13

Sjúkraprófið búið. Einkunnum skilað. Hvað skyldi þá taka við?

Vorið seiðir þýðar þrár,

þerrur breiðir hlýjar.

Sporið greiðir kátur klár

kannar leiðir nýjar.

 

01.06.13

Frétt á dv.is frá Japan um fyrirtæki sem neyddist til að hætta að selja hundamat unninn úr íslensku hvalkjöti:

Verndum hvalaveiðina.

Verðum hér að stund’ ‘ana!

Seljum marga sneiðina

sem fer beint í hundana.

 

04.06.13

Kom áðan í heimsókn til Óla Th. og Gyðu. „Enginn fær að fara fyrr en hann er búinn að skrifa í gestabókina. Hingað til hefur enginn neitað“, sagði Óli. Ég skrifaði:

Bæði hjónin fim og flott,
frjótt er andans hvelið.
Kaffið er hér æði gott
eins og vinarþelið.

 

05.06.13

Eftir nokkurra daga rigningu og rok birti loks til:

Nakta loks er sól að sjá,
sólin klæðum fletti.
Gylfi ætlar út að slá,
út að slá á bletti.

 

08.06.13

Það er dásamlegt veðrið þessa dagana, loksins komið sumar. Mild vætutíð og sprettan góð. Dásamlegir útreiðardagar:

Mjög er veðrið milt og gott,
mikið sprettur gróður.
Lagði því á ho-ho. „Hott,
hott“, ég sagði rjóður.

 

16.06.13

Sendi eftirfarandi kveðju á Netsíðuna „Takk Óli“ þegar síðasti landsleikur Ólafs Stefánssonar stóð yfir í beinni útsendingu í sjónvarpinu:

Óli Stefáns, engum líkur,
öll þín snilld og töfrabrögð.
Aldrei fæðist annar slíkur,
þín ævintýri lengi sögð.

 

25.06.13

Sigmundur Davíð var í heimsókn hjá danska forsætisráðherranum, og hafði það helst til frásagnar af fundinum að sú danska kynni ágæta dönsku!

Sigmundur Davíð, þeirri dönsku
drýldinn í íslenskan bröns ku
boðið nú hafa.
En bindin samt lafa
við þjóðrembukúrinn úr frönsku
m.

 

07.07.13

Marga er farið að lengja eftir sólskini, þetta sumarið:

Nú er úti veður vott,

vindar stöðugt blása

svala gráa sumardaga.

Þetta’ er orðið ansi gott

engin gefin pása.

Gylfa frú sig grætur hása.

 

08.07.13

Mánudagur:

Út er sofinn, orku með

sem eykur blundur fagur.

Ekkert meira gleður geð

en góður mánudagur.

 

09.07.13

Þriðjudagur:

Sýni bæði djörfung, dug,

svo dívan nýta megi.

Fátt eitt meira herðir hug

en hvíld á þriðjudegi.

 

Forsetinn skrifaði undir lög um lækkun sérstaks veiðigjalds, þrátt fyrir að honum bærust 35 þúsund undirskriftir kosningabærra manna um að gera það ekki. Samdi vísnagátu í tilefni dagsins:

Vakur mjög í vindi snýst.

Veldur styr að morgni.

Brjóstið mjög út belgir víst.

Beittur Jóns í horni.

 

10.07.13

Miðvikudagur:

Ég kúri, en seilist til kökunnar

í kyrrð, milli svefnisins og vökunnar.

Hve mildur og fagur

er miðvikudagur

um sláttinn, ef nýttur til slökunar.

 

11.07.13

Fimmtudagur:

Fluggreind tík og friðsamleg,

til fyrirmyndar oft,

svo fimmtudegi fagna ég

með fætur upp í loft.

 

12.07.13

Föstudagur:

Við grundun boðorðs guð minn sat,

sem gott er fram að draga:

Eigðu náðugt eftir mat

alla föstudaga“.

 

13.07.13

Laugardagur:

Ávallt skaltu leita lags

að losna flest við störfin.

Besta lofgjörð laugardags

er lítil vinnuþörfin.

 

14.07.13

Sunnudagur:

Víst má í því fróun fá

og finna eflast haginn

að liggja sínu liði á

langan sunnudaginn.

 

06.08.13

Óli Björns tilkynnti að hann væri mættur á kontórinn eftir góða verslunarmannahelgi:

Óli Björns á kontór kom

kátur eftir helgina.

Samband náið hafði hann

haft við rauðvínsbelgina,

sungið og í Úthlíð glatt

alla drykkjusvelgina!

 

13.08.13

Ferðasumrinu lokið. Fimm vikuferðir á hestum um íslenska náttúru. Gerist ekki betra:

Þá er ferðum um fjöll og dali,

fjörur, hraun og kjarrið græna

lokið að sinni.

Sá ég heiðbláa himnasali,

fann hávaðarok og dembu væna

á eigin skinni.

Af útiveru enginn verður minni.

Ofar mönnum trónir tign,

í tröllsham eða blíð og lygn,

náttúran – og sérhver sál

sem að nemur hennar mál

til smæðar sinnar, hrærð, í auðmýkt finni.

 

14.08.13

Anna María á afmæli í dag:

Enn hve ljóma augun þín,

allan lýsa bæinn

og brosið, það heilar heimsins pín.

Til hamingju með daginn.

 

29.08.13

Nú eru göngur hafnar fyrir norðan, reyndar af sérstökum ástæðum. Vonandi fer allt vel þar um slóðir. Eftir hálfan mánuð eða svo hefst eðlilegur gangnatími. Ég átti þess kost að smala með Grímsnesingum í fyrra, sem afleysingamaður fyrir Þóroddsstaðabændur í Austurleit. Það var ógleymanlegt, enda hvergi að finna jafn glæstan afrétt og afréttur Laugdæla og Grímsnesinga óneitanlega er. Að lokinni þeirri fjallferð samdi ég eftirfarandi vísur, sem ég birti hér af því tilefni að styttist óðum í brottför Austurleitarmanna að nýju. Ég mun hugsa til þeirra:

Austurleitarvísur
Fjallferð Austurleitar á Grímsnessafrétti

Austurleitin enn skal halda inn til fjalla,
um birkihlíðar, bratta stalla,
bunulæki, gil og hjalla.

Hófasláttinn herða má við háar brúnir
Hrossadals, í friðinn flúnir
fjallmenn, samt við öllu búnir.

Kætir geð að komast inn úr Klukkuskarði.
Um hvað rætt þó engan varði,
og eitthvað lækki pelans kvarði.

Leiðin síðan liggur norður Langadalinn.
Faðma allan fjallasalinn.
Fegurst þessi afrétt talin.

Undir kvöldið lenda Kerlingar við kofa.
Jafnan farið seint að sofa
og sungið eins og raddbönd lofa.

Kamarinn í Kerlingu er kúnst að nýta:
Þú berar úti bossann hvíta
og bakkar inn, til þess að skíta.

Aftur sama aðferð þegar út er farið;
á hækjum sér, með höfuð marið
og helgidæmið allt óvarið.

Héðan fjallmenn hálfan ríða hring um Breiðinn.
Kargaþýfð og löng er leiðin.
Já, lystug verður blóðmörssneiðin.

Skeiðið renna, skála undir Skriðuhnjúki.
Flæðir þaðan mosinn mjúki,
móðir jörð sem þakin dúki.

Höfuð ber og herðar yfir, Hlöðufellið.
Það augum kastar, ansi brellið,
yfir hraun og jökulsvellið.

Á feti ríður flokkurinn á Fífilvelli.
Tign er yfir Tjaldafelli
sem tekur undir smalans gelli.

Ei lokka Skersli. Lengra sér til Lambahlíða.
Þangað ekki þarf að ríða
þó að „sjáist“ kindur víða.

Skyggnst er um af Sköflungi og Skjaldbreið líka.
Spariklæðum fjöllin flíka.
Fegurð sem á enga líka.

En skelfing líkjast skítahraukum Skefilfjöllin!
Eins og hafi hægt sér tröllin
á harðaspretti suður völlinn.

Teygist líka töluvert úr Tindaskaga
enda tröllin oft að plaga
iðrakveisur, forðum daga.

Hrafnabjargahálsinn þykir hörmung sveitar
sem blá af kulda bráðum neitar
að bíða komu Vesturleitar.

Öræfanna úti brátt er ævintýri.
Kveður fjallaheimur hýri
er heilsar smölum Kringlumýri.

Að lokum þarf að lóna suður Lyngdalsheiði.
Jafnan ber þar vel í veiði,
vænir dilkar á því skeiði.

Rökkurvökur, rómur hás og rassinn sári!
Þokkalegur, þessi fjári,
en þeginn vel á hverju ári.

Þó að smalar þvældir gerist, þverri kraftur,
í skinni brennur brátt hver kjaftur
og bíður þess að fara aftur.

31.08.13

Pétur Stefánsson játaði auðmjúklega og með eftirsjá í frábærri vísu að hafa sett x við B í síðustu kosningum, en jafnframt að það gerði hann ekki aftur:

Að hann setti x við B
af auðmýkt núna játar.
Á því verður ævihlé,
aðra stafi mátar.

 

31.08.13

Jónas Haukur kom heim til Íslands frá Bergen í síðustu viku og heimsótti okkur mömmu hans. Við gerðum eins vel við hann í mat og drykk og mögulegt var: grilluðum hrossalundir, sem Jónas dásamaði m.a. í færslu á Facebook. Ég setti inn þessa athugasemd:

Ef góða veislu gjöra skal,
galdur einn ég þekki:
Herra, Guð, í himnasal,
hrossið klikkar ekki.

 

1.09.13.

Rok og rigning. Enn ein lægðin gengur yfir:

Úti heyrist hávært væl,

hugarró misbjóða.

Enn ein lægð, og engum dæl,

alger grenjuskjóða.

 

5.09.13

Bekkjarbræður úr ML birtu á Facebook af sér mynd úr ferð í Veiðivötn. Systur tjáðu sig um myndina, um glæsileik þeirra og minnst var á að líkast væri að þeir hefðu verið geymdir í formalíni frá skólaárunum. Fram kom þá að formalín hefði ekki farið „mildum höndum“ mannsreður í safni á Húsavík. Var þá formalínið dregið til baka en í staðinn minnst á vínanda:

Reður manns kvað rýrna mest

rakur í formalíni

og glæsipiltar gamlast best

glaðir af brennivíni.

 

Lít ég vaskar veiðiklær.

Vinir! þið stöðugt batnið.

Samviskan er silfurtær,

þið sötrið, og berjið, vatnið!

 

5.09.13

Eyrún Guðmundsdóttir lýsti rafmagnsleysi við götuna vegna aðgerða fjölmenns flokks frá Orkuveitunni sem græfi holur. Sennilega væru mennirnir að reyna að laga slæmt karma vegna aðgerða við lagningu ljósleiðara fyrr í sumar:

Teknar í garðinum grafirnar,

grafa á Orkuveituna,

því „dyrakarmað“ komið var

í klessu, útí bleytuna.

 

14.09.13

Ort í kjölfar eilífrar umræðu, m.a. þingmanna, um óþurft listamanna og listsköpunar:

Djöfull er djöfullinn góður!
Hann dansar í kringum oss, óður!
Og menningarlífi,
sem guð oss frá hlífi,
laumar í frummannsins fóður.

 

21.09.13

Eftir langt rigningarsumar stytti loks upp með norðanátt. Þá er hætt við hélu á bílrúðum á morgnana, en líka vona á fallegum kyrrðardögurm:

Sumar bauð það súran kost
að seint úr hug mun líða.
Náði hingað næturfrost.
Nú er sól og blíða.

 

22.09.13

Tveir dagar í röð, og maður fyllist bjartsýni:

Það er ei við leiða laust
af langri sumars vætu
en fáum við kannski himneskt haust
með hita og sólarglætu?

 

30.09.13

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson vakti athygli á því að „svá er“ rímar við „Wow air“:

Nútíminn rafknúið ráf er
en í rauntíma Framsókn í kláf er
á leið yfir álinn
með áherslumálin.
Við sjónbaug hvarf vélin frá Wow-air.

 

15.10.13

Þegar heim var komið úr ferð KKH til Rómar og farið að skoða myndirnar urðu til meðfylgjandi vísur:

1. vísa:

Vá! hvað úrvalið er flott
og efnið, finndu, líka gott!“
„Nú, ætlar þú að kaupa klút?
Komdu, góða, héðan út.“

 

2. vísa:

Augun gleðja undur tvö,
annað sjónum falið.
Í veröld allri eru sjö.
-Átta, ef rétt er talið!

 

3. vísa:

Baddi huga hefur bægt

heim, sér til að orna:

Kunnu þeir nokkuð í rófurrækt

Rómverjar til forna?

 

4. vísa:

Mikilfengleik má til sanns

marka í Rómarsetri

að fangar ógnarfjölda manns

forstofan hjá Pétri.

 

5. vísa:

Ef fleygir í brunninn mynt, þá má
marka að snúir aftur.
Í mannhafinu, mátti sjá,
er mikill segulkraftur.

 

6. vísa:

Guð láti gott á vita

er gleypum við næsta bita.

Böl þess’ að kyngja.

Og bannað að syngja!

Þröngt mega sáttir sitja.

 

7. vísa:

Tók á annan aldartug

að opna dýrðarskelina:

Fornar minjar fanga hug

og fóðra myndavélina.

 

8. vísa:

Eitthvað virðist Siggi sjá

við sundurgrafna jörð.

Eiríkur grimmi gengur hjá.

Grétar stendur vörð.

 

9. vísa:

Myntu fleygði frú um öxl

því finna Róm vill aftur.

Gylfi stóð og gnísti jöxl-

um. Gamall fylliraftur.

 

10. vísa:

Mjög er athyglinni beitt,
engu þar við blandandi.
En Böðvari er býsna heitt
og blundar Jenný standandi.

 

11. vísa:

Í Vatikanið ætla inn
að undralistagliti.
Frómur rekur flokkinn sinn
fyrrum hrepps oddviti.

 

12. vísa:

Mörg til forna gyðjan gekk
glæst um Colosseum
og þær vilja upp á dekk
enn, í þessum véum!

 

13. vísa:

Vatikansins mikli múr,
merki‘ um vald og auð.
Fjölda þræla undinn úr,
upp á vatn og brauð.

 

14. vísa:

Í rjómablíðu í Rómarborg

reyndist margt að kanna.

Þess til gengu þrátt um torg

Þorvaldur og Anna.

 

15. vísa:

Eitthvað markvert segir Sjöfn.

Það er sól, en engin gjóla.

Í svalheitunum sýnast jöfn

Sigurður og Fjóla.

 

16. vísa:

Hér er listagatan greið

úr glingri ýmsu’ að moða.

Halla gengur heim á leið,

hinar þurfa’ að skoða.

 

17. vísa:

Ekki virðist undirleit,

út nú glennir fingur.

Agnes sér að Anna veit

alveg hvað hún syngur.

 

18. vísa:

Fjögur eyru fíla Sjöfn

af fróðleik rykið dusta.

Sumir, nefnum engin nöfn,

nenna ekki’ að hlusta.

 

19. vísa:

Gamlar minjar grafnar upp

á gullin klínd var svertan

Eins og fljóð með fílahupp

Francós rjómatertan.

 

20. vísa:

Gleðjast þegnar Fagra-Fróns,

frískir dag og nætur,

nema Siggi Sigurjóns,

soldið man, og grætur.

 

21. vísa:

Bílstjórar lævísir lómar

svo léttgeggjað kaosið ómar.

Hér færa þarf fórn!

Fín umferðarstjórn

hjá Edit, í öngstrætum Rómar!

 

22. vísa:

Flekklaus hér múgurinn fetar,

jafnt Frakkar sem Rússar og Bretar.

Í annála set

að Elísabet

um páfagarð gekk með hann Grétar.

 

23. vísa:

Lært af löngu skaki

í lífsins ferðahraki

að nóttu jafnt sem degi:

Nema sér bróður eigi

ber er hver að baki.

 

24. vísa:

Lítið ítölskuna þekki.

Eitthvað samt verð að fá.

Hvað það verður veit ég ekki.

Við skulum bara sjá“.

 

25. vísa:

O, la vita bella!

írskan fundum bar“.

Áslaug, Jenný, Ella

eignast minningar.

 

26. vísa:

Þó falleg, gömul æskuást

ekkert sýnist dofna,

margfalt þarna matur brást

og Miklós er að sofna.

 

27. vísa:

Fer um salinn fögnuður,

frá er loksins röðin:

Silfrið rekur Ásthildur

oní salatblöðin.

 

28. vísa:

Ég skal bara játa enn,

þó jafnan séu beittir:

Af rápi verða miklir menn

miður sín, og þreyttir.

 

29. vísa:

Um loftið einhver angan fer

og undan best að líta.

Verst ef, eins og virðist mér,

Valdi þarf að skíta?

 

30. vísa:

Erða þessi, eða þessi gata?“

Nei, þetta var nú bara grín.“

Það er mikil þraut að rata

þegar vantar fjallasýn.

 

31. vísa:

Um vanga meyjar ljósið lék,

lygnum augum góndi,

því rétt sér bak við runna vék

röskur kúabóndi.

 

32. vísa:

Mörlandanna sælust sjón

að sjá, er himnaduggan.

Þó er ljóst að þessi hjón

þakka fyrir skuggann.

 

33. vísa:

Eftir stappið stöðva skal,

stundarhvíld er brýn.

Konni, eins og kriminal,

kneifar bjór og vín.

 

34. vísa:

Við slöknum öll ef fáum frí,

finnum hefjast bringu.

Dreyminn Palli er dottinn í

Dressmannauglýsingu.

 

35. vísa:

Andans ró og yndi finn,

ein er stundum gott að sitja.

Ættum við kannski, Óli minn,

eitthvert hingað suður flytja“?

 

36. vísa:

Í sólarglennu situr hér

sitt af hvoru tagi:

Norræn frú, en aftar er

ekta suðrænn gæi.

 

37. vísa:

Það er gott að þenja sig,

þokkinn berst um loftin,

líkt og eitthvert æðra stig

andi gegnum hvoftinn.

 

38. vísa:

Prófum ekki eftir beið,

útúr hafði lekið,

í flýti Hjalti fram úr skreið

og fór í apótekið.

 

39. vísa:

Ykkur dugar ekkert pex,

endar það með veini.

Kábojhattur, harkan sex,

hólkinn mundar Steini.

 

40. vísa:

Aðeins komst á liðið los,

líktist mannastöppu,

þá sáust tvær með sælubros

í sól, við Spánartröppu.

 

41. vísa:

Grímur speki grundar vær.

Gramur stillir Rúnar hljóðið.

Brjóstsykurinn Brynjar fær.

Bettý nemur orðaflóðið.

 

24.11.13

Fránum augum löngum lít

lífsins þýfi karga:

Út að hreinsa hundaskít,

heimi þarf að bjarga.

 

27.11.13

Sigmundur Davíð, forsætisráðherra, varaði þingfulltrúa á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins við því að stjórnarandstaðan myndi snúa út úr öllu þegar skuldaniðurfellingartillögur hans yrðu kynntar, og myndi ekki hika við að ljúga:

Bera andstæðingar sig,

útúrsnúning feta,

ætla’ að ljúga upp á mig

öllu sem þeir geta.

 

30.11.13

Þá er loforðasúpan fram reidd:

Löngum þeirra’ er lofa mest

lækkar strýtan.

Framsóknar er fyrir rest

fallin spýtan.

 

Framsókn er með lík í lest,

loforð svikin.

Formaður í fýlupest

fer nú mikinn.

 

23.12.13

Jólakveðjan þetta árið á gangleri.is:

Heimi forðum hinstu speki Hávi kvað:

Ef rekur menn á rangan stað

reynist best að hjálpast að.

 

Ofurgræðgi einkavegi út af fór.

Enginn syngur einn í kór.

Með öðrum verður maður stór.

Vinarþel er fundið fé

sem forðar oss frá grandi.

Óskum þess að ætíð sé

allt í góðu standi.

 

Gefðu þjáðum þelið hlýtt,

þerra sárastrauma

og þá lifir upp á nýtt

alla þína drauma.

Ef reynist þungur raunakross

að rata veginn sinn,

þá kærleikur, að kenna oss,

kemur sterkur inn.

 

Á berum orðum, sem bjarta höll

byggjum okkar hug.

en baktalsvammið, veljum öll

að vísa því á bug.

Heyrist sagt að sækist enn

sér um líkir.

Þar sem ganga góðir menn

gleðin ríkir.

 

Jafnt á árið jöfnum út

jólasiðinn:

Argan leysa innri hnút

og elska friðinn.

Er gæfan horfin, grafin virðing, gleðin köfnuð?

Hvar sem tekst að tvístra söfnuð

tryggjum mannúð, frelsi, jöfnuð.

 

Ef að bara endurnýtum ástarvöttin,

upp þá lýsum allan hnöttinn

og enginn fer í jólaköttinn.

 

24.12.13

Í jólapakka til konunnar:

Ef kemur á mig eitthvert los

og undan fargi styn,

rétta mig aftur englabros

og augna þinna skin.

 

28.12.13

Ari, yngsta barnið okkar hjóna, er 24 ára í dag:

Unnum heimsins happafeng

er herti vetur strangur:

Eignuðumst ljúfan, lítinn dreng

svo lengdist sólargangur.

 

Úr dagbókinni 2012

Árið er 2012. Safnið telur 103 vísur

23.01.12

Árni Páll Árnason gerði illa undirbúna tilraun til uppreisnar gegn Jóhönnu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar eftir að hann var látinn taka pokann sinn í ráðherra- og ráðuneytafléttu:

Vegur fremdar víst er háll,

valt er fyrra gengi.

Uppreisn gerði Árni Páll.

Ekki stóð hún lengi.

 

25.01.12

Alþingistíðindi

Sigmundur Ernir var í útlöndum og varamaður mættur suður til Reykjavíkur til að leysa hann af á meðan, í atkvæðagreiðslu um frávísunartillögu á afturköllunartillögu Bjarna V. Benediktssonar:

Sætt er heimsins ljúfa líf

og lag að Ernir þetta kanni.

Á meðan Ásta stendur stíf

og stuggar burtu varamanni.

 

Fleiri voru í útlöndum. Össur flýtti sér heim til að greiða atkvæði, einhverjir (illar tungur?) segja að það hafi ekki eingöngu verið til að gæta Geirs, bróður síns:

Út í heimi styttir starf,

því stefnu vill hann eyða.

Yfir gamlan, Össur þarf,

eigin skít að breiða.

 

Uppnám í grasrót VG vegna umpólunar Ögmundar, manns réttlætisins. Því er haldið fram að hann vilji íhaldið, já raunar allt, frekar en Steingrím:

Hí á Steingrím! Hefnt sín gat,

hugann litar sorti.

Orku fyrir endurmat

Ögmund hvergi skorti.

 

Mjög er innra eðlið hreint.

Yndið himnafeðra

ekki lengur getur greint

Grím frá þeim í neðra.

 

Einhverjir samþykktu ákæru á Geir Haarde á sínum tíma, sátu m.a. í Atlanefndinni sem lagði hana til, en virðist nú hafa snúist hugur:

Áður höfðu ákært Geir,

og einhver von á þingi,

en núna settu niður þeir

Nonni, lambið, Ingi.

 

Nefndarformaðurinn sjálfur, fyrrum meintur „pólitískur galdrabrennuforingi“ er einn þeirra sem snúist hefur á sveif með fyrrum óvinum sínum og óvægnum gagnrýnendum á Morgunblaðinu:

Villiköttur vill í hark,

vissu fyrri selur.

Um það höfum órækt mark

er Atli þrisvar gelur.

 

Nú er svo komið að kjósendum er ómögulegt að átta sig á því hver er hvað á Alþingi og fyrir hvað þingmenn standa, ef þeir standa þá fyrir nokkuð?

Þingmenn frábær fyrirmynd,

frægðin vex á þingi!

Um sali, eins og sóttarkind,

snúast þeir í hringi.

 

26.01.12

Vigdís Hauksdóttir hefur oft „glatt“ landsmenn með gjammi sínu. Nýjast var yfirlýsing um að „daun“ legði af Samfylkingunni:

Vigdís í þykkum sveimi sést,

súrnar gamla brýnið.

Er finnur eigin fýlupest

hún fitjar upp á trýnið.

 

Viðbrögð Framsóknar- og Sjálfstæðismanna við ráðningu Jóhanns Haukssonar í starf upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu hafa verið með þeim hætti að halda mætti að þeir sjálfir væru einkabörn guðs almáttugs. Mætur maður sagði að halda mætti að þeir væru „saklaus, krullhærð löm að vori“.

Íhald og framsókn; lömbin ljúf

sem leika frjáls um börðin.

Er saklaus dilla dindilstúf

detta aldinspörðin.

 

31.01.12

Bessastaðabóndinn kvað vera á leið á Suðurpólinn, í boði helstu héraðshöfðingja westan hafs. Ekki sjá allir þá utanlandsför sömu augum:

Á Bessastöðum björt er sól,
þar á Brúnastaðaundrið skjól
því Ólaf vill á veldisstól.
Jóka draum um annan ól,
í orðum draum sinn þannig fól:
„One way ticket to the pole“!

 

08.02.12

Loks er varpað ljósi á
langa Vafningsfléttu.
Af sögu þeirri sjálfsagt fá
sumir hryllingsgrettu.

 

Sýna málsins sakargögn
að sagan, rétt ég vona,
er í stuttri endursögn
einhvernveginn svona:

 

Bræður tvennir bralla margt,
banka hyggjast kaupa.
Vilja gjarnan græða skart,
með gull í vösum raupa.

 

Saman eiga þessir Þátt,
þaðan mikinn vilja’ arð.
Morgan Stanleys góna’ á gátt
og grenja’ út tugamilljarð.

 

Kaupa’ í Glitni sjö prósent,
svífa’ á gróðavegi!
Óðar samt er lánið lent
á lokagreiðsludegi.

 

Uppgjör því til fjandans fer,
með félagssjóði blanka.
Til lausnar þrautalending er
lán frá keyptum banka!

 

Reglum samkvæmt meira má
Milestone ekki lána.
Forða Þáttur engan á,
útlit bjart að grána.

 

Til bjargar sjóða svikavef,
seint þó finnist vitni.
Annars tekin yrðu bréf
sem áttu þeir í Glitni!

 

Sveins- og Wernerssynirnir
sjá nú vonir dofna.
Leysa vandann, vinirnir,
Vafning nýjan stofna!

 

Skyldi lán til Vafnings veitt
en velt svo beint til Þáttar
svo milljarðana gætu greitt
og gleiðir lagst til náttar.

 

En Vafning þarf að veita fé
svo veð sé fyrir láni!
Lífsvon Sjóvar lét í té
lyfjakeðjubjáni.

 

Nú aðeins vantar undirskrift!
Er þá nokkur heima?
Ef enginn getur armi lyft
má öllu þessu gleyma!

 

Þó ekki verði öllu náð
sem enn mun talið hreinna.
Þeir hafa undir rifi ráð
og redda þessu seinna.

 

Til Milestone bara færa féð
úr fúnum Glitnis aski.
Þáttarskuldin þvegin með
þokkapiltabraski.

 

Lagaregluverkið var
með vilja þarna brotið
er lítilsigldir lúserar,
léku djarft og rotið?

 

Hið nýja félag fullgilt var
fjórum dögum síðar.
Með traustum Sjóvárbréfum bar
bankaskuldir fríðar.

 

Nú er loksins Vafnings veð
vottað, eftir baslið,
lánið hægt að möndla með
og millifæra draslið.

 

Hefst nú siðlaust sjónarspil,
samningurinn skráður,
(með falsi grófu færður til)
fjórum dögum áður!

 

Aðeins verður vandamál
ef vitnast þessi flétta:
Yrði drísildjöflum hál
dagsetningin rétta!

 

Fram þá stígur Bjarni Ben.
til bjargar, ættarsprotinn.
Pennann glaður grípur – en
gjörningurinn rotinn.

 

Skjalið virðist skíraglit,
skrautritað með „heading“!
Eðli þess með öðrum lit,
algjör skítaredding.

 

Bjarni nú sinn tíma tók
að tæma bankahólfin.
Veit að senn mun bankinn „broke“,
brostin hallargólfin.

 

Vafningsskuld að vonum greidd
með vænu láni’ í Glitni!!
Summan gegnum Svartháf reidd.
Sýnist púkinn fitni!

 

Greitt til baka bara smá
brot af lánsins virði:
Borgar þjóðin þaðan frá
þeirra skuldabyrði.

 

Útrás landið vefur vor
víkingsfrægðarljóma.
Í bankainnrás eðlisþor
æðstan veitir sóma.

 

Saga þessi aðeins er
almennt, lítið dæmi
um sigra þegar saman fer
snilld og íslenskt næmi.

 

09.02.12

Lilja kynnti Samstöðu, nýja flokkinn sinn, og Sigga storm sem sína hægri hönd!

VG, með Steingrím í stafni,

stóð bara ekki’ undir nafni.

Þó samherja lasti

í samviskukasti,

það er lofsvert – svo Lilja ei kafni.

 

Þeir ofríkis ráðamenn bogni!

– það rýkur víst sjaldan í logni –

Stormurinn hrífur

og samstaðan blífur

þó samviskan teygist og togni.

 

14.03.12

Magnús Halldórsson sendi í tölvupósti myndir sem voru teknar af honum á Stuðli sínum með þessum orðum: „Þessar myndir tók Halldór minn í byrjun mars af okkur Stuðli, krapasull og leiðinda færi á veginum, sem fátítt er á þessum slóðum“. Sendi honum þessa vísu til baka:

Í krapasulli karlinn gamli

keyrir ljóðastaf.

Flugtak nálgast, helst að hamli

að hettan fýkur af.

 

27.03.12

Hreinn bróðir sendi á Netinu mynd af bráðefnilegum fola sem á í tamningu, Sprota, undan Þóroddi og Spátu Gadldursdóttur og Spár. Hreinn fékk þessa vísu til baka:

Prúður gengur folinn frjáls,

fögrum litnum skartar.

Með vind í faxi vefur háls,

vonir kveikir bjartar.

 

Hreinn svaraði auðvitað með vísu þar sem hann kvaðst sæll með sendinguna. Ég sendi honum aðra:

Verður ertu víst að fá
í vísu lítinn mola.
Syngja hlýtur sá sem á
svona góðan fola.

 

05.04.12

Ávallt skal forðast stríð og styr,

stefnan sé friður.

Að ganga hægt um gleðinnar dyr

er góður siður.

 

26.04.12

Seiður heitir aðalreiðhesturinn minn undanfarin ár, ferðavíkingur mikill. Belgísk stúlka í ferðahópi sumarið 2011 tók mynd af mér á Seiði uppi á Hellisheiði, þar sem klárinn svolgrar í sig vatnið úr tærum fjallalæk, í glaðasólskini. Myndin varð tilefni til eftirfarandi:

Efst á Hellisheiði,
við heillandi sólarglit,
sit ég glaður á Seiði
með svolítinn kinnalit!

 

Trausti vinurinn teygar,
taktfast við lækjarhjal,
dýrustu veraldarveigar
-vatnið í fjallasal.

 

Fagurt er jafnan á fjöllum,
finn þar hinn tæra hljóm.
Anda, með vitunum öllum,
að mér þeim helgidóm.

 

Mér best á öræfum uni,
andinn mig þangað ber.
Finnst þar eins og að funi
frelsið innan í mér.

 

05.05.12

Framsóknardraugar ýmsir hófust upp, þegar Þórólfur Matthíasson beindi opinberlega nokkrum spurningum til Bændasamtakanna, eftir að hafa loks fengið í hendur ársreikning þeirra, og jusu svívirðingum yfir hagfræðinginn á samskiptasíðum fyrir þann dónaskap að voga sér að spyrja þetta háæruverðuga apparat spurninga:

Ekki spyrja um það má,

einn skal kyrja sönginn,

sannleik yrja – senn mun þá

sálar byrja þröngin.

 

08.05.12

Mikið er nú fagurt út að líta þessa dagana. Alla vega hérna sunnanlands. Og stúdentar úttöluðu sig í gær, í sjónvarpi allra landsmanna, um prófabölið við þessar aðstæður. Þetta er víst eilífðarmál?

Sólin skín af himni heiðum,
hengir lín á gylltan baug.
Faðminn sýnir foldarbreiðum,
fangar mína innstu taug.

 

Það er samt ólíklegt að blessaðir stúdentarnir endist lengi úti við. Er þetta ekki kallað „gluggaveður“?

Værðarfullur vindur ber
um vorið bull og skvaldur.
Gamla rullan, ennþá er
alveg drullukaldur.

 

11.05.12

Það fer ekkert á milli mála að Anna María er ákaflega ánægð með eiginmann sinn. Þegar ég kom inn áðan ljómaði hún öll af hrifningu og greinilegan ánægjublæ mátti greina í rödd hennar þegar hún sagði, án þess hún vissi að heyrðist til hennar:

Vinnuhestur, vindur sér

í verkalistann sáttur.

Blessun mesta bóndinn er,

búinn fyrsti sláttur.“

 

13.05.12

Mæðradagurinn er í dag. Fæstir eiga öðrum en mæðrum sínum meira að þakka og óbreyttir jafnt sem andans jöfrar hafa hyllt þær í verkum og orðum, sumir ódauðlega. Ég legg þetta í púkkið:

Aldrei gleymist ástarþel,
æsku- dreymir glæður.
Innri geyma eldinn vel
allar heimsins mæður.

 

17.05.12

Himinn blár, en horfinn snjár,

hagans grár er feldur.

Nóttin ári nú er sár,

Norðan-Kári veldur.

 

14.06.12

Kom heim úr hestaferð, alveg sótsvartur í framan af ryki. Var nokkuð lúinn eftir langan dag í hnakknum og þá tók Anna María, þessi elska á móti mér með sínum hætti:

Konan beið með bros á vör og bjór í glasi.

Alltaf ljúf og létt í fasi

þó liggi ég í hrossabrasi.

 

16.06.12

Fjórði í hestaferð: Hella-Skúfslækur.

Feykilega fóru vel
fögur listahrossin.
Viljug tölta mó og mel,
með þeim dillar bossinn.

 

20.06.12

Fékk þessa hugdettu, svona fyrir svefninn, enda búinn að ríða út í dag og lesa tvær skáldsögur, aðra í gær og hina í dag:

Glóðir tendrar góðhestur,

gleði sendir strauma.

Bálar kenndir bóklestur,

birtir lendur drauma.

 

22.06.12

Miami Heat vann í nótt NBA titilinn. Það var langþráður titill fyrir suma:

Loksins vann þá dollu, James,

dýrðar má því njóta.

Allra sterkust hetja heims

til handa jafnt sem fóta.

 

Það er víst bara eitt sem hægt er að ganga að vísu:

Sé ég undan sunnan þey
sigla gullinn flota.
Að lokum þessi fögru fley
fáum öll að nota.

 

Sólin braust fram þegar við komum í Skagafjörðinn“ var myndtexti úr kosningaferð Þóru Arnórsdóttur. Mér sýndist myndin bera annað með sér:

Dökkur skýjabakkinn ber

brosin ofurliði.

Horfin sól af himni er,

hvíla mun í friði.

 

Sigmundur Davíð heimtaði undirritað samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu um þinglok, vegna þess að ekkert traust væri milli aðila. Svo lét hann sig hverfa tímunum saman, skv. fjölmiðlum, „eins og krakki“, til að tefja tímann enn meira:

Er á þingi ekkert traust,

allt til stáls lét sverfa,

eins og krakki“ endalaust

aftur lét sig hverfa.

 

06.07.12

Gönguferð Abbalabba frá Skálpanesi, um Jarlhettur, Einifell, Hlöðuvelli, á Skjaldbreið, Kerlingu, Klukkuskarð, Skillandsdal að Laugarvatni. Ort á toppi Skjaldbreiðs:

Geng á háan Skjaldbreið, skoða

skíragullin fjallaranns.

Sköpun elds- og ísa goða

ætíð greipt í huga manns.

 

Á göngu frá Kerlingu að Klukkuskarði varð til þessi vísnagáta. Um að gera að ráða hana. Lausnin er stakt orð, íslenskt nafn:

Þessi einhver styðst við staf.

Stríðinn Óðinn svörin gaf.

Skjaldborg nafni í sælu svaf.

Sést á Neti vísnaskraf.

 

Og efst í Klukkuskarði:

Síst á Abbalöbbu lát,

lokabrattann marði.

Upp sig glennti ofsakát

efst í Klukkuskarði.

 

21.07.12

Skrifað á servíettu í brúðkaupi Dóra og Eddu:

Ástin blómstrar ykkur hjá,

ævin hjartnæm saga:

Ísabella og Thelma tjá

traustið alla daga.

 

30.07.12

Við Ari komum heim af Kili í gær, eftir vel heppnaða hestaleiguferð:

Fannst mér kært að koma heim

og kyssa aftur frúna.

Í huga fagran fjallageim

ferðast get ég núna.

 

11.08.12

Í Sunnlenska fréttablaðinu, var notað enn og aftur (í nýlegu blaði) ónefnið „Laugardalsvellir“, þegar augljóslega, af samhenginu að ráða, er átt við Laugarvatnsvelli. Ég varð að kvarta yfir því. Því grátlegra er þetta að viðkomandi blaðamaður gekk í skóla á Laugarvatni. Það er sjálfsagt líka orðið vonlaust að kveða niður falsið um „veginn yfir Lyngdalsheiði“?

Tindar yfir gólfi grass,

glæst í kvæði efni.

Laugar- heita vellir -vatns

virðum það örnefni.

 

Ferðalangar fá á ný

í fréttum blandað seyði

svo þeir villur ani í

upp á Lyngdalsheiði.

 

14.08.12

Anna María, þessi elska, á afmæli í dag:

Augun brosa, augun þrá,

augun gráta líka.

Augun hreinu, augun blá,

augun himnaríkja.

 

15.08.12

Eftir miklar rigningar undanfarið er að mestu stytt upp. En grasið í garðinum hefur heldur betur tekið kipp og tími kominn á að draga í gang sláttuvélina! En…

Döggin sindrar sverði á,

sólar lokuð gáttin.

Langt í burtu bjart að sjá,

bíð því enn með sláttinn.

 

18.08.12

Við Ari tókum okkur til og ferjuðum fjögur hross að Þóroddsstöðum á föstudaginn til að ríða á Vallamótið – með ýmsum úr stórfjölskyldunni. Það var magnaður túr. Þegar við vorum að tygja okkur af stað heimleiðis á laugardeginum leit út fyrir að einhverjir ætluðu að fara að brýna raustina:

Velja snjallir Vallamót,
varla kallast svikið.
Belja karlar, bjallar snót
bralla allir mikið.

 

Reiðtúrinn heim heiði sveik svo ekki, fremur en vant er, hrossin í feiknastuði:

Af mélum freiðir, augu ör,
andann seiðir þorið.
Dunar heiðin, funar fjör,
fákar greiða sporið.

 

19.08.12

Nú er farið að skyggja á kvöldin! Sumarið má þó ekki sleppa öllum tökum strax:


Sumri hallar, húmar að,
haustið kallar núna.
Í mæðu falla má ei það
og missa alla trúna.

 

19.08.12

Lítið heilræði:

Ef ranga starir lífs á leið,

litlu þar vilt sinna

er best að fara röska reið

og rétta svarið finna.

 

19.08.12

HKL sagði eitt sinn eitthvað á þá leið að því ákafar sem sagnfræðingar reyndu að höndla sannleikann, því lengra hyrfu þeir inn í heim skáldskaparins. Þess vegna er sjálfsagt ástæðulaust að taka mikið mark á doktor Guðna Th. Jóhannessyni, sem lét hafa það eftir sér í kvöldfréttum að forsetinn og forsætisráðherra ættu að geta rætt saman á vinsamlegum nótum um hefðir og skyldur handhafa forsetavalds þegar forsetinn yfirgefur landið. En á kærleiksheimili sagnfræðinnar gæti þetta verið einhvernveginn svona:

Núna forset-inn fyr oss
axlar kross: ástandið.
Jóka hossi, svo kærleikskoss
er kveður „bosh-ið“ landið.

 

22.08.12

Grúskið bætir geðslagið,

gleði stakan veitir,

og hrossin ferðir ven ég við

víða hér um sveitir.

 

22.08.12

Systurnar, og stórfrænkur mínar, Anna Lína og Obba Vill. „lækuðu“ vísuna hér að ofan á Facebook:

Systur „læka“ frændans fitl

við ferskeytluna

sem þó er aðeins þarflaust kitl

sem þarf að una.

 

22.08.12

Vangaveltur í fjölmiðlum um breytingar á ríkisstjórn. RÚV segir: „Katrín í stað Oddnýjar – Líklegast þykir að Katrín Júlíusdóttir taki sæti Oddnýjar G. Harðardóttur…“

Jóku reynist blóðug ben,

broddur stingur svoddan.

Kötu skiptir inná, en

Odda leggst á koddann.

 

22.08.12

Guðmundur Rúnar Árnason var ráðinn verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun. DV hafði heimildir fyrir því að Össur hafi verið með puttana í málinu en framkvæmdastjóri stofnunarinnar þvertekur fyrir pólitískan þrýsting:

Hlutlaust farið málið með,

matið faglegt hljómar þanninn:

Össur, jafnan röskur, réð

rétta Samfylkingarmanninn!

 

23.08.12

Ég las á visir.is að „Lilja Mósesdóttir, stofnandi Samstöðu – flokks lýðræðis og velferðar, ætlar ekki að gefa kost á sér í embætti formanns flokksins á landsfundi flokksins í byrjun október. Hún segist ætla að axla þannig ábyrgð á fylgistapi flokksins undanfarna mánuði… Fram að næstu alþingiskosningum ætlar hún að einbeita sér að störfum sínum á þingi [þar] sem hún segist hafa leitast við að nýta fagþekkingu sína… :

Hagfræðingur, hörð í skapi,

helsta vonin innan þings.

Með fagþekkingu í fylgistapi

og forðast hylli almennings.

 

23.08.12

Fyrirsögn á dv.is: „Dreymir um að gera það undir borði í teboði hjá ömmu“:

Boðum neitað, með þökkum, þvert

þar til fyrir skömmu.

En trekkja núna töluvert

teboðin hjá ömmu.

 

25.08.12

Himin ætir harmageð,

úr hófi grætur núna.

Gráma mæti glaður, með

gúmmí- fætur -búna.

 

25.08.12

Mogginn slær upp af bloggi Bjarna Harðarsonar að í ræðu Katrínar Jakobsdóttur á flokksráðsfundi Vg, sem haldinn var að Hólum í Hjaltadal, hafi verið „subbulegar alhæfingar“:

Ennþá veinað, allt í kross,

innanmeinin skaða.

Meitlar steininn Moggahoss,

munið Einar Daða.

 

26.08.12

Að kveldi sunnudags:

Framá settist, mig fetti, þvó,

át frókost (hmm…lýsið skorti!).

Blaði fletti, blettinn sló,

bók las, vísu orti.

 

27.08.12

Í kjölfar undanfarandi vísu, sem ég birti á Fjasbók, gerði Gummi Kalli þá athugasemd að hann „hefði viljað fá sléttubönd“. Ég lét það eftir honum og orti þressi refhverfu sléttubönd:

Þjónar, stritar, sjaldan sér

sjálfum hampar maður.

Bónar, skúrar, ekki er

argur, leiður, staður.

Staður, leiður, argur er,

ekki skúrar, bónar.

Maður hampar sjálfum sér,

sjaldan stritar, þjónar.

 

Eiginkonan hélt í 10 daga ferð til Noregs í morgun, að heimsækja syni og barnabörn. Hún var óþarflega kát þegar hún kvaddi:

Upp er kominn efi stór,

allur dofinn kraftur.

Svo kát til Noregs konan fór,

-kemur hún til mín aftur?

 

Og svo meiri refhverf sléttubönd, fyrir svefninn:

Fórnar sopa, þeigi þver

þrekið, veldur sjálfur.

Stjórnar drykkju, fráleitt fer

fullur eða hálfur.

 

Hálfur eða fullur fer,

fráleitt drykkju stjórnar.

Sjálfur veldur, þrekið þver,

þeigi sopa fórnar.

 

Svandís bekkjarsystir mín úr ML birti mynd af sér á Netinu þar sem hún er skælbrosandi á útreiðum á góðum hesti:

Svandís er með sælubros,

sálin þaninn strengur.

Frá vegi nokkurt virðist los,

varla snertir lengur.

 

1.09.12

Heimssýn er í auglýsingaherferð gegn ESB samningaferlinu og voru samtökin sökuð um að fara þar með ósannindi. Atli Gíslason taldi lýðræðishallann í ESB svo mikinn að Ísland yrði eins og fluga í fílahjörð:

Heimssýn stöðugt stendur vörð,

í stríði allt má gera.

Eins og flugu í fílahjörð

finnst hún sterkust vera.

 

Bjarna frænda og Freyju fæddist í dag drengur:

Freyja og Bjarni fagran tel

flétti ættarstrenginn.

Heilsist ætíð honum vel:

til hamingju með drenginn.

 

Ögmundur var dæmdur fyrir að brjóta jafnréttislög, sjálfur yfirmaður laga og réttar. Hann skammaðist sín ekkert og vísaði í samvisku sína. Þá var rifjað upp hvað hann sagði átta árum áður, þegar Björn Bjarnason braut sömu lög við ráðningu Ólafs Barkar: „Ráðherrar fari á skólabekk til að læra jafnréttislög“, sagði Ögmundur þá:

En það var fyrir átta árum

og aðeins minna’ af gráum hárum.

Samviskuna mikils metur

og miklu hærra lögum setur.

Þarf að fara’ að þusa’ um hrekkinn?

-þetta grín með skólabekkinn?

 

04.11.12

Mikið hefur gengið á undanfarna daga. Stormur og ofsaveður í hviðunum, en á sunnudagsmorguninn rennur upp bjartur, rór og fagur:

Hósta fékk ‘ann Kári kast,
kvaldist upp og niður.
Hinn sjúki núna sefur fast;
sólskin, ró og friður.

 

15.11.12

Svar til Péturs:

Ekki Pétur þegja þarf,

þjóðin metur kvæðin.

Ofar setur stefjastarf,

standa betur gæðin.

 

16.11.12.

Í tilefni af degi íslenskrar tungu:

Lifðu glaður, laus við blaður,

leggðu þvaður af.

Orðastaður! Ydda, maður,

Íslands fjaðurstaf.

 

Í kvöld var haldið Karlakvöld Karlakórs Hreppamanna. Meðal atriða þar var uppboð. „Vinningarnir voru kynntir svona:

1. Pappakassi (falin í koníaksflaska):

Halló! Lítið augum á!

Ekki má nú trassa

að bjóða mikið, og flottan fá

feng úr pappakassa!

 

2. Málverk:

Lítið hingað! Listaverk,

litum undurfögrum málað.

Hátt skal bjóða! Myndin merk.

Á morgun heima verður skálað!

 

3. Hryssa, tamin og vekringur:

Ágætlega tamda tel,

töluvert í hana spunnið.

Gæða hryssa, vökur vel,

verðlaun hefur líka unnið!

 

4. Folatollur, við Hauki frá Haukholtum, á þriðja vetri:

Happatoll nú herrum býð.

Haukur nefnist fákur.

Móðir Elding, fim og fríð,

faðirinn er Krákur.

 

5. Gjafabréf í kassa (spænir frá Límtré, 5 pokar).

Hækkið boðin, hestamenn,

hógværð dugar ekki.

Víkingsdirfskan ólgar enn

ef ég bændur þekki!

 

2.12.12

Spenntur ég stekk upp úr stólnum!

Það er stórsýning úti á hólnum!

Á sviðið er díva,

hún Hundslappa-Drífa,

komin í mjallhvíta kjólnum.

 

20.12.12

Pétur Blöndal kom í Sunnlenska bókakaffið að lesa upp úr Limrubók sinni. Kvöldið áður hafði Kilju-Egill Helgason heimsótt hann heim til sín á Seltjarnarnes. Kvaddi Pétur í bókakaffinu með limru:

Pétur hann les og hann les,

limrurnar víst eru spes.

Hér stendur ‘ann hátt.

Stefnir þó lágt,

já, suður á Seltjarnarnes.

 

23.12.12

Jólakveðjan í ár:

Er skuggarnir skríða’ uppá hól

í skammdegi, norður við pól,

á ljósið má benda,

og með logunum senda

gæfu og gleðileg jól.

 

Enn sækja að freistingafól

með falsið og innantómt gól.

En lausnin er kær:

Líttu þér nær

um gæfu og gleðileg jól.

 

Hve Siggi er sætur í kjól

og Solla með hangandi „tól“.

Ef straumi mót syndið

veitir umburðarlyndið

gæfu og gleðileg jól.

 

Í fjölskyldufaðmi er skjól.

Hann er friðar- og kærleikans ból.

Þar ávallt þú veist

að geturðu treyst

á gæfu og gleðileg jól.

 

Úr dagbókinni 2011

Árið er 2011. Safnið telur 68 vísur.

03.01.11

Nýtt ár runnið upp.

Nýja árið ósnortið

arga leiðu þrasi.

Það að arka, eigum við,

til enda, glöð í fasi?

 

06.01.11

Ólafur Stefánsson sagði í viðtali að hann hafi „neyðst til að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum“ vegna þess að sá flokkur tryggði eignarrétt manna, sama hvernig þeirra væri aflað:

Ef teknar úr táfýlusokknum

tærnar frjálsar eiga von.

Sig úr Sjálfstæðisflokknum

sagði Ólafur Stefánsson.

 

26.01.11

Var að koma neðan af Eyrarbakka, nánar til tekið af Litlahrauni. Er ég sat þar innan veggja yfir nemendum datt mér í hug að innfæddum Eyrbekkingum væri svona innanbrjósts:

Ærist bráðum, aldrei hljótt,

engin náð og friður.

Dynur hávær, dag og nótt,

djöfuls sjávarniður.

 

30.01.11

Í tilefni af fimmtugsafmæli Alla á Hrafnkelsstöðum

(Lag: „Kristján í Stekkholti“)

Aðalsteinn Þorgeirsson, bráðgerður bóndi í Hreppum!

Bragðmestu skandölum, hroka og monti, við sleppum.

Nóg fyrir það

níð til að setja á blað.

Núna að karlinum kreppum.

 

Sakleysi barnsins að sjálfsögðu gekk hann af dauðu,

sýndi um fermingu takta í kápunni rauðu.

Fann sína fjöl

í fjörlegri Hvanneyrardvöl.

Ekki þar skilaði auðu.

 

Sláturtíð marga á Selfossi ýmislegt brallað.

Svæsnastur jafnan í hrekkjum. Á engan mun hallað.

Upp úr því gerð

útrásarvíkingaferð.

Vargöld í Noregi kallað.

 

Stækkandi bústofn og mottó: í verkin oss vindum.

Varðveitt er framkvæmdasagan í tuttugu bindum.

Alli vel býr,

unir við Möggu og kýr.

Sig gefur síður að kindum.

 

Formaður búnaðarfélags, og leiðir nú kórinn.

Framsóknarmaður, með S.Inga á alþingi fór inn.

Laufskálarétt!

Reiðver á Fagra-Blakk sett.

Sjonni og brennsinn og bjórinn.

 

Spurt hefur verið: er Aðalsteinn af þessum heimi?

Andlegu fræðin og dulmögnin víða á sveimi.

Talfærin sljó,

teljum því augljóst að nóg

eftir af spekinni eimi.

 

Bóndi er dugandi, fjölskyldan fyrsta í sæti.

frúin hans yndi, það skýrir ‘ann hvarmana væti.

Fjögur á börn,

fylgir í sókn þeim, sem vörn.

Lífið og lukkan hans gæti.

 

Til eru menn

Til eru menn, sem moka vilja flór

og margir sem þrá, að stjórna heilum kór.

Eins eru þeir, sem alltaf drekka gin

þeir una sér, mun lengur en við hin,

 

en hafa ei á morgunmatnum lyst

því maginn heimtar afréttara fyrst:

Ó, Magga, ég skal minna drekka næst,

í mjaltir vakna, ef við getum sæst.

 

Víst eru þeir, sem þola drykkjutörn

og þreknir menn, sem aldrei voru börn.

 

31.01.11

Nýtti Sleipnishöllina til tamninga:

Ríð ég kátur! Ríð ég undir þaki,

rennur hryssan tölt og brokk og skeið.

Glóa lampar, gaman er á baki,

gullinn sandur, þett‘ er engin neyð!

Næsta hringinn nota skal ég til

að ná í mjúkt og fallegt hófaspil.

 

Ólafur Stefánsson svaraði þessu og hafði í að hann riði alltaf undir þaki og dytti aldrei af baki. Ég sendi honum þessa til baka:

Úti jafnt sem undir þaki
í æðum sama fjörið kenni:
Fullnægjuna finn á baki
er folanum í skeið ég renni.

 

11.02.11

Hæstiréttur dæmdi ólögmæta ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur að synja hluta skipulags Flóahrepps staðfestingar:

Svandís gleypti súran kepp,

-sú held nú að blóti!

Fór hún burt úr Flóahrepp

með fulla vasa‘ af grjóti.

 

Landsvirkjun nú leyfist það,

lagnir vatns að styrkja.

svo Flóahreppur fari‘ af stað

fossinn sinn að virkja.

 

16.02.11

Af meintri þinghelgi:

Skýtur orðið skökku við

skandalvæðing mála.

Á þingi virðist vönd að sið

varla nokkur sála.

 

Heyrist bara skark og skak,

skelmar rætur naga,

og þeir skíta upp á bak

alla virka daga.

 

Og til upprifjunar af kattasmölun og „órólegum deildum.“

Stjórnar Jóka barð‘ í brest,

beygðist krókur snemma.

En flestir bóka: Fyrir rest

fressin djókið skemma.

 

23.02.11

Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lögum um Ísseif III. staðfestingar og sendi samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu:

Íslensk þjóð nú una má

við Ólafslög, og -rétt.

Benda vil ég aðeins á:

You aint seen nothing yet“.

 

26.02.11

Kvartað á Leir yfir deyfð meðal hagyrðinga:

Gott er að kunna að gæta sín.
Gott er að „iðka leti“.
Holur er tónn þegar tunnan mín
er tóm, eins og lands forseti.

 

19.03.11

Vetur konungur ríkir í öllu veldi sínu:

Aftur brast á iðukóf,

úti þess vil njóta

en þegar mikið hleðst í hóf

höllin er til bóta.

 

06.04.11

Kristján Runólfsson lýsti efasemdum um það hvar hann lenti eftir að „göngu lyki“. Svaraði því svona:

Drottni hygg þú leggir lið,

er lýkur göngu, brestur negg,

með rími að jamla og jagast við

Jesú bónda, undir vegg.

 

08.04.11

Siigmundur Davíð setti flokksþing Framsóknar í Háskólabíói, frammi fyrir þónokkrum félögum:

Langar formann Framsóknar

fleiri sálum turna

og sýnir, fyrir fréttirnar,

flesta kjósendurna.

 

14.04.11

Margir gera lítið úr Jóhönnu gömlu, hún ráði lítt við ýmsan vanda. Hún sýnist þó ein um að halda sæmilegum friði og samstöðu í eigin ranni?

Hjá Jóku ríkir ró og kyrrð,
reynir lítt á valdið.
Sú eina sem að sinni hirð
saman getur haldið.

 

21.04.11

Jón Ingvar spurði um afnot af Rímbankanum:

Reyndar finnst mér Rímbankinn
rishá andans bygging.
Teljast örugg útlánin
og innistæðutrygging.

 

08.05.11

Í morgun glettinn grósku-blær

gekk sín fyrstu spor.

Sumar er því nokkru nær.

Nú er komið vor.

 

09.05.11

Eftir rok og regn í nótt,

röðull vermir svörðinn.

Út þá springa sprotar skjótt

og spariklæðast börðin.

 

12.05.11

Þórunn Sigurðardóttir, formaður Hörpu, gat hvorki hugsað sér að tónleikar Sinfóníunnar, með Askenasí og Víkingi, væru „opnunarhátíð“ hússins, né að þeim væri sjónvarpað beint. Ýmsum þótti það skjóta skökku við og veltu því fyrir sér hvað lægi að baki:

Tóta er dáldið tvöþúsund,

trölls er enn með glýjuna.

Frægðar enga finnur stund

fyrir Sinfóníuna.

 

20.05.11

Atli Rafn, bróðursonur minn, og Laufey Lilja, kærastan hans, útskrifuðust í dag með stúdentsprófi frá Framhaldsskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Potaði þessari vísu í kort með gjöfinni:

Fjörlegt er æskunnar ferðalag

og fjölbreytt litarófið.

Til lukku bæði með lífið í dag

og líka stúdentsprófið.

 

22.05.11

Á afmælisdegi pabba kom fjölskyldan saman heima í Dverghólum 3. Flutti mömmu þessa vísu í tilefni dagsins:

Úr móðurbrjósti rósir runnar,

því reitinn vermir hjartalag.

Og vel í faðmi fjölskyldunnar

við finnum nálægð hans í dag.

 

23.05.11

Ekki eru þeir öfundsverðir Skaftfellingar og nærsveitungar, af öskufallinu úr Grímsvatnagosinu. En svona var ástandið á Selfossi á sunnudagskvöld 22. og fram á mánudag 23.05:

Varla út úr augum sér,

óró hrossin stikla.

Þegar aðeins út ég fer

ösku gleypi mikla.

 

24.05.11

Ennþá hef víst elst um dag,

engin segl þó rifað.

Ef að bætt get annars hag,

til einhvers hef þá lifað.

 

Fékk ókjör af afmæliskveðjum á Fjasbók, og víðar. Sendi vinum þakkir:

Vinarþelið veitir yl,

vaki lífsins glóðar.

Af alúð þakka eg nú vil

allar kveðjur góðar.

 

05.06.11

Sigrún Haraldsdóttir, frá Litla-Dal, á afmæli í dag:

Fimmta júní fagna skal,

fær nú kveðjur mínar

lítil stúlka, frá Litla-Dal,

með ljóðaperlur sínar.

 

10.06.11

Fréttir bárust af skelfilegum dýrbítum sem gengu lausir og drápu tugi lamba og kinda í Þórðarkoti við Eyrarbakka:

Nú er úti norðanvindur,

næturfrost á heiðasvan.

Ætti ég bornar úti kindur

ekki fengi mér Doberman.

 

12.06.11

Kristján skáld Runólfsson setti þessa staðhæfingu út í loftið: „Koníakið kætir geð.“ Mér þótti ástæða til að prjóna við hana, eins og ég ímyndaði mér samhengið sem staðhæfingunni hæfði og Kristján hefði haft í huga:

Koníakið kætir geð.

kyssi nakinn stútinn.

Vaki lengi vinum með,

vakna sljór og þrútinn.

 

15.06.11

Hugleiðing í köldum heimi.

Hlýju kjósa halur, drós

er heiminn frjósa tekur.

Fyr sálu hrós það sólarljós

af svefni rósu vekur.

 

15.06.11

Björgvin E. Björgvinsson, samkennari og vinur er gleðigjafi á kennarastofunni. Hann varð fimmtugur í vor. Sendi honum þessa vísu með afmælisgjöf:

Þá náms- af -körgum lúð er lið,

léttir mörgum streðið

að greinir Björgvin ástandið

og aftur fjörgar geðið.

 

16.06.11

Prófessor Eiríkur Rögnvaldsson fann engin málfræðileg rök gegn orðalaginu „að fara erlendis“. Dæmi um það væri að finna allt frá 18. og 19. öld. Hann grínaðist svo með reiðareksstefnu sína. Hvað er nú orðið okkar málvöndunarstarf í 200 ár? Setti þetta sama af tilefninu:

Hún veifað’ í hurðinni, hress

er hélt ég nú erlendis – Bless!

Það var sagt mér í gær

að vandinn sé ær.

Sér nú til Selfossar – Jess!

 

18.06.11

Meistaraprófsritgerðin krerfst heimildalesturs.

Lystisemdir lífsins flý,

leita andans mestu fremdar.

Flestöll svörin finn ég í

fundargerðum skólanefndar.

 

19.06.11

Vísan mín er listileg,

-lista þar sýni orða-.

Löngum fína lyst hef ég.

Lista með þvingu skorða.

 

24.06.11

Var kominn upp í rúm, að glugga í Þórðarbók, þegar mér varð litið út, á norð-vesturhiminninn:

Kveður land, á skýin skín,

skreytir branda-gliti.

Röðull vandar verkin sín,

væra blandar liti.

 

Öllu er snúið á haus í umræðunni þessi misserin:

Í sinni höllu sálarlaus

situr tröllum gefinn.

Sannleik öllum snýr á haus,

sem af fjöllum stefin.

 

Saman styrkir stöndum vér.

Stoltur yrki, þegar

stöðvað myrkrastóðið er,

stemmur virkilegar.

 

28.06.11

Er ekki, a.m.k. ekki enn, kominn á landsmót hestamanna, í fyrsta sinn síðan 1970. Hugsa norður í Skagafjörð:

Geði flestra gera bót,

græða mestu undir,

íslensk hestamannamót;

mínar bestu stundir.

 

Bragarbót:

Geði flestra gera bót

gleði- mestir -funda:

Eðal hestamannamót

meðal bestu stunda.

 

29.06.11

Elsa Ingjaldsdóttir sagðist hafa fengið rauðstjörnótt merfolald sem hefði fengið gamaldags íslenska nafnið Stjarna:

Árin líða, Elsa sér

innsta lífsins kjarna.

Í draumi ljúfum dillar þér

dáða-hryssan Stjarna.

 

30.06.11

Enn ég sest við söguskrif

og sólin hlær á glugga!

Úti skinið Adamsrif,

ofurlítil dugga.

 

05.07.11

Hann á afmæli í dag!

Vísur mun á Fjasbók fá

ef fingri styð á „on“.

Komdu nú að kveðast á

Kristján Runólfsson.

 

06.07.11

Kristján kvaðst ekki mega vera að, sæi til í kvöld! Sendi honum þetta:

Ekki mun þér annað tjá

en Óðins drykkinn þamba.

Enginn geðheill maður má

melta þennan fjanda!

 

08.07.11

Núna fer ég senn að sálgast,

sögugrúsk að verða kvöl!

Sem betur fer, þá fer að nálgast

ferðalagið yfir Kjöl.

 

13.07.11

Mér fæddist rauðstjörnótt, fallegt merfolald, sem ég skírði Glóð. Kannski verður einhverjum einhverntíma svo að orði, eftir yndisreið um hina fögru Skógarkots- og Hrauntúnsstíga í þjóðgarðinum á Þingvöllum:

Þjóðar slóða hróðri hlóð,

hófaljóðin skildi:

Óðar rjóða, góða Glóð

ganginn bjóða vildi.

 

23.07.11

Var að koma heim af Kili. Undir Áfangafelli var stemmningin einhvernveginn svona:

Dillandi góðhross og dásemdartíð,

dýrðlegur söngur í móa og hlíð.

Í Áfanga kem

og algleymið nem.

Skínandi glaður í pokann ég skríð.

 

Benóný Jónsson spurði í framhaldi af þessari vísu hvort ég hefði ekki verið á réttum Kili.

Sigli ég lífsins ólgusjó, er

enn á réttum kili.

Þekki samt bæði þoku og sker.

Það er nóg í bili.

 

26.07.11

Það hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með Norðmönnum undanfarna daga.

Ötuð blóði, eftir stóð

upprétt þjóð í harmi.

Vinum bjóðum vonarglóð,

vefjum bróðurarmi.

 

Hann setti á hífandi rok og rigningu í dag:

Daglangt rigning ‘bara blaut’

buldi ótt á gleri

svo að þess ei nokkur naut

að norpa á þessu skeri.

 

24.12.11

Skrifað á jólapakka eiginkonunnar:

Njóttu jóla í næðinu,

náð í hugarskotum.

Kápan úr því klæðinu

kemur þér að notum.

 

30.12.11

Við áramót

1. Hringhent

Líður senn að lokum árs.

lífs þá enn hefst gangur.

Yfir fennir tildrög társ

tíminn kennir strangur.

 

Mannakyn sér gefi grið,

gæfu skynji ríka.

Gleðjist vinir! Fróðafrið

finni hinir líka.

 

Ég í flestu stóð í stað,

strembin mesta törnin.

Sinnið nesta, sýni að

sókn er besta vörnin.

 

2. Ferskeytt

Innsta kjarna eigin lífs

ákaft flestir leita.

Bitur eggin, bakki hnífs,

biðlund eða streita?

 

Hvað mig vantar, hvað ég þarf,

um hvað mér ekki neita?

Það sem elti, þigg í arf

og það mun öðrum veita.

 

Ósk um nýárs brotið blað,

birtu eftir stritið.

Kveðjum hrun, en þekkjum það

þegar við er litið.

 

3. Braghent

Hamingjan í hagvextinum hímir ekki.

Nægjusemi, það ég þekki

þykka brýtur græðgishlekki.

 

Aukum jöfnuð, elskum friðinn, alla seðjum.

Nú á glæstar vonir veðjum.

verndum, huggum, styrkjum, gleðjum.

 

Kveðjum árið! Ef keyrði það á kanti hálum

mót nýju geng með gamanmálum!

Glösum lyftum! Syngjum! Skálum!

 

Úr dagbókinni 2010

Árið er 2010. Safnið telur 72 vísur.

10.02.10

Guðmundur Karl Guðjónsson, verkfræðingur á Selfossi, var að pæla í limrunni og einkennum hennar. Hann sendi mér eina frumorta, sem ég umorðaði svona:

Háttinn um limrur vil læra,

ljóðin í stílinn svo færa.

Lengi allt bregst,

en loks þetta tekst,

af því mig stöðugt mun stæra!

 

Og sendi honum svo aðra limru:

Limran er ljómandi háttur,

léttur og taktfastur sláttur.

Það er þó best

þegar að sést

tungunnar tvíræði máttur.

 

22.02.10

Gunnar Birgisson féll af stalli sínum í Kópavogi og var sagður íhuga sérframboð. Mér var einnig kastað í prófkjöri Samfylkingarinnar í Árborg:

Fjórmenningar happi hrósa,
hafði ég ekki við þeim roð.
Þó enginn vilji mig auman kjósa,
ég íhuga núna sérframboð!

23.02.10

Pétur Stefánsson grínaðist með að stytta af honum yrði reist við hlið Tómasar í Reykjavík, eftir dauða sinn:

Styttan verði stærst og mest
við styðjum þetta flest.
Ágætt færi eflaust gefst
áður Pétur drepst.

01.03.10

Sigmundur Benediktsson lét eftirfarandi ummmæli fylgja vísu nokkurri: „Þetta er ekki klámvísa nema það sé í hugsuninni.“ Svaraði svona:

Hugsun orðin heldur dauf.
Heimur stöðugt versnar.
Vísna ekki neitt ég nýt
nema séu lesnar.

01.03.10

Endatafl:

Tefldu við sólarlag saman,
Siggi og nýjasta daman.
Í endataflsæði
æptu þau bæði,
af æsingi eldrauð í framan.

12.03.10

Vernharður vísurnar stagaði
í vinnu, ef þannig til hagaði.
En hugsunin fraus
er höndin varð laus!
Viðutan sjálfan sig sagaði.

18.04.10

Séra Hjálmar Jónsson varð sjötugur um þessar mundir:

Andans jöfur, aldrei mjálmar,
ekkert tálmar.
Sigurhringinn sannur skálmar
séra Hjálmar

29.04.10

Baldur Garðarsson spurði um orðið Gegnir, en það var valið sem heiti á nýtt bókasafnakerfi Landskerfis bókasafna árið 2002. Svo hvatti Baldur til þess að ort væri:

Íslands hrjáðu þjóð, og þegni,
þjóni hver sem framast megni.
Allt um sína fortíð fregni:
flettir bara upp í Gegni.

03.05.10

Seðlabankastjórinn átti yfir höfði sér tillögu frá formanni bankastjórnar um launahækkun upp á 400 þúsund!! Samkvæmt Mogga. Már var í Kastljósinu:

Þreyttur, svangur og sár
í Seðlabankanum, Már
sér starir í gaupnir
og strákarnir hlaupnir!
Til Íslands var ferð ei til fjár.

19.05.10

Horfi út um gluggann, á nýsleginn blettinn. Tíkin var að koma inn.

Nú er úti veður vott,
vex allt hratt í þessu.
Við augum blasir flötin flott
með fúla skítaklessu.

12.06.10

Gosið í Eyjafjallajökli. Töskutuddanna bíður ærinn starfi:

Undir Fjöllum er ósköp af ösku
sem utanlands selst víst á flösku.
Í lág er nú gosið
en langt þó í brosið.
Glotta þó tuddarnir tösku.

Síðan hvenær?

Nú er uppi öldin trist,
andleg heilsa broguð,
sérhver dyggð af sannri list
snúin, reitt og toguð.

18.06.10

Pétur Stefánsson montaði sig af kveðskap og syni sínum, sterkasta manni Íslands:

Undan Pétri úrvals slekt,
enginn er skammtur svikinn.
Þetta’ er ekkert undarlegt
eins og hann ríður mikinn.

19.06.10

Sæðisbanki Péturs yrði sannkallað „gagnaver“, sem skapa myndi fjölda starfa. Verst ef hella þarf niður umframbirgðum!

Afurðamagnið margfalt, svo
man ekkert þessu líku.
Málnytu Péturs mætti sko,
mjólka í hverja píku.

21.06.10

Ort úti í garði. Rósin farin að blómstra ríkulega:

Gróðri vaggar blærinn blítt.

Burtu sólin hopar.

Ilmar blómstur, furðu frítt.

Falla nokkrir dropar.

 

23.06.10

Veðurblíða hin mesta í dag:

Kaffibolli, bók í hönd.

Bakar sólin kroppinn.

Frúin sem á sólarströnd.

(„Svona, leystu toppinn!!“).

 

Horfi og við hana rór

í huga mínum gæli.

Mesta heimsins blessun; bjór

bíður inní kæli.

 

24.06.10

Þula er hundtíkin okkar

Daglangt mátar sól á sig

síða skýjakjóla.

Tókst mér því að þvinga mig

með Þulu út að hjóla.

 

25.06.10.

Ólafur Áki Ragnarsson rekinn úr Sjálfstæðisflokknum degi fyrir landsfund:

Svo Flokkinn ei beygli né bráki
eða boðorðum klíkunnar skáki,
Jónmundur sagði
í símann að bragði:
„Burt með þig, Ólafur Áki!!!“

06.07.10

Eftir tvö kjörtímabil í bæjarstjórn fyrir Samfylkinguna:

Áform hef nú mörg og merk,

mikið band á rokknum.

Sem mitt fyrsta sumarverk

ég sagði mig úr flokknum.

 

Burt úr flokki, af því er

ekki hlýðinn sauður.

Ennþá glaður inní mér

eldur logar rauður.

 

09.07.10

Gísli Gíslason á afmæli í dag. Sendi honum þessa vísu:

Góðan daginn, Gísli minn,
gleði dragðu’ á langinn.
Vertu ör og ástfanginn
út um grænan vanginn.

20.07.10

Enn á Kili.

Í Fremstaveri:

Aleinn, finnur enga ró,
urðargustur napur.
Þylur yfir mel og mó
mjóróma og dapur.

…og morguninn eftir…

Þetta nær víst engri átt,
enn að vana geri
að sofna kátur, hrjóta hátt
hér í Fremstaveri.

Að áliðinni næstu dagleið:

Eygði kofann uppi‘ á mel,
eigi lofið sparði.
Ætla‘ ég sofi ekki vel
undir rofabarði.

Á leið norðuraf:

Sunnanvindur, sólin skín.
Sitrar lind í heiðinni.
Fjallatindafannalín.
Fögur mynd á reiðinni.

28.07.10

Á ferð um Þjófadali og Kjalhraun. Reit í gestabókina í Árbúðum:

Ríð um dali, hrjóstur, hraun,
hrossavalið lofa.
Veita skal mér ljúfust laun:
liggja’ í smalakofa.

Reit í gestabókina í Fremstaveri:

Hvítá niðar, héðan frá
heyrist iðuslagur.
Veitir friðinn -fellið Blá-,
fagur liðinn dagur.

Reit í gestabók Skálans í Myrkholti:

Hérna geðið fer á flug,
funar hjartað, sálin.
Lifnar myndin ljós í hug:
Loftur, Vilborg, Skálinn

02.08.10

Enn á fjöllum og gestabækurnar fá að kenna á því:

Ríður héðan, öldruð, ung,
ekki nokkur sála,
sem er beisk og brúnaþung
burt úr Helgaskála.

05.08.10

Var að ljúka síðustu hestaferðinni í sumar. Sjö daga ferðalag austan úr Landsveit með hálendisbrúninni, um Þingvelli og vestur fyrir Hengil.

Á hestaferðum ljósið lít,
um landið víða sveima.
Betur ekki neins ég nýt
en nú er ég lentur heima.

09.08.10

Hitti Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum uppi á Auðkúluheiði. Báðir ríðandi með hóp af fólki:

Á ferð um húnvetnska heiði
-hrossið á tölti og skeiði-
ég Sveinsstaða Manga
mildan á vanga

hitti. Þar vel bar í veiði.

 

12.08.10

Pétur Stefánsson kvaðst hættur á Leir, í bili, vegna kulnaðrar vísnaglóðar:

Pétur þjóðar vorrar veg
vísar ljóðagerðar.
Setur hljóðan. Aðeins eg
óska góðrar ferðar.

14.08.10

Afmæli Önnu Maríu.

Elsku hjartans Anna mín,

undir bros þín græða.

Yndislegu augun þín

ástarbálið glæða.

 

15.08.10

Rigndi einhver ósköp þennan daginn. Einhverjir kvörtuðu yfir rigningunni:

Ég fór út og járnaði hest,

sem játa er enginn vandi.

Með tvo til reiðar, og frjálsari‘ en flest

flaug svo og brjóstið þandi.

 

04.09.10

Afmæli Sveins Kristinssonar frá Dröngum:

Við þér slóði blasir beinn.

Blessun á þig ljóðar.

Ykkar vaxi sælan, Sveinn.

Sendi kveðjur góðar.

 

12.09.10

Árleg réttasúpa í Skarði, hjá Björgvin G. og Maríu. Að venju voru botnaðir fyrripartar:

Réttasúpan svíkur ei,

sæla bragðlaukanna.

Logakryddað lúðugrey

liggur milli tanna.

 

Blandið lævi loftið er,

liggur flest við höggi.

Víkja undan ábyrgð sér

allir, nema Bjöggi.

 

15.09.10

Í tilefni af útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sk. „Atlanefndar“:

Þykjast eiga þingmenn bágt,

þora vart að stokka.

Risið á þeim ansi lágt,

elta línur flokka.

 

Íhald reynist enn jafn spillt,

óðal sérhagsmuna.

Hefur lýðinn lengi villt,

leiddi dansinn Hruna.

 

Framsóknar er framtíð séð,

föst í spillingunni.

Stendur ennþá óskipt með

einkavæðingunni.

 

Samfylkingar sök er stór,

söng hún bakraddirnar

í frjálshyggjunnar falska kór

og flýr um hliðardyrnar.

 

Vinstri grænir velja oft

vegarslóða þrönga

og velta útaf. Upp í loft

öðrum líka þröngva.

 

Hreyfingin er heldur klén.

Hvað er þar á seyði?

Búsáhaldabylting, en

bölvað þras og leiði.

 

Blíðu Þráinn Bertelsson,

býður, engum háður.

Órólegum veitir von

um valdatíð og gráður.

 

02.10.10

Kyrrð er í heiðinnar heimi

undir heillandi norðljósageimi.

Þar lækurinn rennur

og lyngið –það brennur!

Við tætturnar svipir á sveimi.

 

Gerast nú góðviðrin klén,

gusturinn rífur í trén

gisin og hokin

-gullin öll fokin-

samt öspin fær alltaf í hnén!

 

06.10.10

Geta þessir listamenn ekki bara fengið sér vinnu eins og við hin“? spurði ein mannvitsbrekkan á þingi, greinilega óvitandi um allt herjans atvinnuleysið!!!

Á listamannalaununum,

þeir labba milli húsa

og reyna’ að gleyma raununum

með rakspíra á brúsa.

 

Svo var um daginn efast um hæstvirt og háttvirt alþingi.

Þraut að hæstvirt þingið vort

þannig setji niður.

Altént veit ég ekki hvort

einhver skapast friður.

 

20.10.10

Davíð Hjálmar Haraldsson sendi þennan fyrripart á leirliða:

Lena hefur laskað mjöðm,
litlutá og sköflung

Ég botnaði:


því að Davíðs fékk hún föðm
og fóta millum öflung.

31.10.10

Ort var um hann í neðra og Hallmundur Kristinsson bað um guð almáttugan í staðinn:

Góði, þú veist að guðsorð er bannað,
gleymt, og útrýmt úr málinu.
Skáldin því verða að yrkja um annað
áður en lenda á bálinu.

01.11.10

Grínið í vísunni hér að ofan fór alveg þvert ofaní ýmsa guðleysingja á Leir. Héldu að ég (og fleiri) væri að fárast við banni við trúboði í reykvískum skólum og sendu eldheitan pistil um glæpi kirkjunnar:

Ekki mun nú ofsögum sagt
um eldheita sannfæringu!
Grínið er jafnvel á logana lagt
og leirinn fær bannfæringu!

Húmorinn er höfuðprýði,
þó húmor stundum undan svíði.
Húmor enn mun lengi lifa.
Á leirinn húmor á að skrifa.

04.11.10

Bændasamtökin neita að lána sérfræðinga sína til að gæta hagsmuna bænda í samningaviðræðum við ESB. Ætihvönn er blóðaukandi og því góð fyrir karlmenn:

Af bændum þessi saga sönn:

Við samning hjálpa ekki!

Úti að tína ætihvönn

allir sem ég þekki.

 

Móðgaði með vísulausu skeyti um að bændur vildu ekki sóa mannauði sínum í samningaviðræður:

Í öðru skeyti vísan var.
Verst hve mikið bulla.
Enda skil víst ekki par,
orðum bara sulla.


Á sama degi móðgaði ég mann
og mælti fyrir hófi.
En um mig núna segja má með sann
að sé ég versti bófi.

Komin út bók um framhjáhald og næturklúbbagöltur Gústafs Svíakonungs:

Víst ertu Gústaf kóngur klár,

kóngur nætur og holdsins þrár,

kóngur sokkinn í klám og hór,

kóngur reistur og tignarstór.

 

06.11.10

Í fréttum sagt frá Þjóðfundi sem haldinn var í Laugardalshöll:

Á þjóðfundinum þúsund manns,

þar er góður andi“.

Bjargast þjóðin þá með glans

úr þessu auma standi?

 

29.11.10

Lygin

Ljótri hlakkar lygi í,

læðist blakkan reykinn.

Og hún flakkar, uns á ný

einhver skakkar leikinn.

 

Nóvemberdagur

Úti gjólan æfir væng.

Eftir sólu biðin:

er í skjólið undir sæng

uppí bóli skriðin.

 

Rigningarmorgunn

Á mig bætir nú á ný

nokkru vætumagni

er á fætur skreiðast ský

og skvett‘ úr næturgagni.

 

30.11.10

Vetrardagur

Kenni falleg klakabönd,

kyngir salla niður.

Upp til fjalla, út við strönd

andann kallar friður.

 

Spegilmyndir

Tekur vindur blíðan blund,

brosir lindin þegar

spegilmyndir sýna sund,

svona yndislegar.

 

01.12.10

Sólarupprásin

Skýjalopann þæfir þétt.

Þerrar dropa nætur.

Morgungopann mátar nett.

Myrkrið hopa lætur.

 

Sólsetur

Dagur hnígur, dreyma fer.

Dreyra mígur lögnin.

Nóttin flýgur, orðlaus er.

Engu lýgur þögnin.

 

Að kvöldi fullveldisdags

Kvöldið þaggar kólgu frétt.

Kyrrðin flaggið vangar.

Rósin vaggar lendum létt.

Lúra daggar angar.

 

Anna María

Veit ei neina roðna rós

rökkursteina milli.

Leit ég eina dýrðardrós:

Drottins greini snilli.

 

02.12.10

Heimur versnandi fer

Lyklaborðið berja kann,

Bætast orð á skjáinn.

Blóðrautt forðum blekið rann.

Best að skorða náinn.

 

Vitnað var í Biblíuna á Leirlistanum, þá speki að heimskir byggi hús á sandi. Fía á Sandi var ekki alveg sammála þessu. Sendi henni þessi varúðarorð:

Byggt á Sandi býlið er,

birtist vandi, Fía!

Hætt við grandi, haska þér

heimaland að flýja.

 

Ei á Bjargi búa vill,

betri margfalt Sandur!

Trúarsargi eyðir ill,

af slær þvarg og flandur.

 

Pétur Stefánsson birtist aftur á Leir og var við sama heygarðshornið. Þessari vísu var ætlað að falla í þann flokk:

Áttu saman stutta stund

(stundargaman kitlaði)

Mann að framan á marga lund

myndar dama fitlaði.

 

Tími var kominn á heimsósóma:

Veröld hrakar, virðist ærð,

valdaskakið kitlar.

Fólkið þjakað, foldin særð

fyrir sakir litlar.

 

Ort til að bera í bætifláka fyrir hringhendur:

Geði yljar óðarmál,

engan skyldi mæða!

Yrkja vil svo eflist sál,

ekki til að hræða!

 

06.12.10

Ólafur Stefánsson taldi sig verða varan við samtal tröllkvennanna í Búrfelli og Bláfelli:

Ólafur í ástartrans,
ákefð sína stilli.
Tvöföld liggur Tunga hans
tröllalæra milli.

Ort var um Hörpu, miður skarpa og heilalausa. Sneri því upp á nýbyggingu:

Fögur við höfnina Harpa,
heimili menningargarpa
með skuldirnar hreinar.
En skapandi greinar
munu okinu af henni varpa!

07.12.10

Eitthvað heyrðist mér að Neinn-Bjarni og Maddama Sigmundur væru að belgja sig í sjónvarpinu í gærkveld. Fyrst var alveg ómögulegur niðurskurðurinn sem boðaður var í fjárlagafrumvarpinu en nú skildist mér að ætti að draga eitthvað af því til baka, og auðvitað var það allt ómögulegt líka. Það er kannski ekki að undra að stjórnarandstaðan kemur svona herfilega út í skoðanakönnunum, með 16% stuðning? Margfalt verr en stjórnin, meira að segja! En ef ég náði inntakinu í málflutningi þeirra félaga þá var það einhvernveginn svona:

Stjórnin dreifð um víðan völl
og veður í ljónsins gin.
Mér sýnist hafi svörin öll
16%-in.

Umræða var um hvernig góðar vísur væru og einhver orðaði það á þann veg að þær væru kliðmjúkar eins og lækur sem liðast niður kjarri vaxna hlíð. Lagði þetta í púkkið:

Frjóar og meðfærilegar,

fallegustu vísurnar,

einfaldar og eðlilegar

eins og „ljósku skvísurnar“.

 

Fía á Sandi benti á að þarna kæmu fram fordómar gegn litarhætti. Svaraði svona:

Ímynd finnur stöðugt stað
af stöðluðu ljóskunni.
Spyrja mun víst ekki að
andskotans þrjóskunni.

Meira var ort um það hvernig góð vísa ætti að vera. Lagði þetta til málanna:

Ekki þvinga óðinn má,

allur syngja verður.

Kýlum stinga ætti á,

ætíð hringhent gerður.

 

12.12.10

Ort eftir jólahlaðborð í gærkvöldi. Þar „fílaði maður sig“ svoldið eins og Logi forðum:

Jólahlaðborð, játa nú
étið hafi’ of mikið.
Mat og dúk og borð og bú
og bragðið hvergi svikið.

Gamall draumur:

Brosið naumast sýnir sig,
samt í laumi kætist.
Góðir straumar gleðja mig,
gamall draumur rætist.

Heimsþorpið:

Flýgur fiskisagan,

fangar þorpið allt.

Skælir hag og hugann

heimsins lánið valt.

 

13.12.10

Sólin

Senn mun gömul sól á ný

sína hefja göngu.

Hún var eldrauð, ung og hlý

endur fyrir löngu.

 

Myrkrastóðin

Vefur gróðinn mildast menn,

myrkrastóðin slægu.

Hefur þjóðin ekki enn

úthellt blóði nægu?

 

Heimskan

Á hornum stærir heimskan sig,

hæst þar mærir skrumið.

Mistök færa margt á slig,

margan ærir fumið.

 

16.12.10

Dreymir um fríið.

Til útlanda dreymir, um ólgandi dröfn

þó aldrei í sjó hafi migið.

En ef vegurinn liggur um Landeyjahöfn

þá langar mig ekkert í fríið.

 

Skrapp að Laugarvatni til að horfa á FSU etja kappi við Laugdæli í 1. deild karla í körfu. Leikurinn var ekki upp á jafn marga fiska og vonir höfðu staðið til:

Ekki var það ferð til fjár

er fór að Laugarvatni.

Svitna þyrftu í sautján ár

svo að leikur batni.

 

20.12.10.

Sunnlenska.is sagði frá því að Grábotni frá Vogum í Mývatnssveit hefði slegið öll met með því að gefa 280 sæðisskammta á einum morgni:

Heiminn sigrar sauðfé vort,

til sóma Íslendingum

og loftþrýstings engan skort

sér enn hjá Mývetningum.

 

24.12.10

Jólakveðja

Stjörnu sé ég skína skæra

og skeiða álf úr hól.

Vetrarskýin foldu færa

í fagran mjallarkjól.

Marglit ljósin hjörtun hræra,

er hækka tekur sól.

Öllum sendi kveðju kæra

er koma heilög jól.

 

31.12.10

Maður ársins 2010

Elja Steingríms okkur nær

uppúr skuldaleðju

á nýju ári, og hann fær

áramótakveðju.