Dagsins önn

Í dagsins önn er ýmislegt að bralla,
iðjar hver að sínu skylduverki.
Um veikleikana sjaldan sjáum merki,
á snúning „vélin“ stöðugt látin malla.

 

Á glansmyndina fólks má ekki falla,
fyrirmyndarþegn, og landsins erki-
týpa er hinn staðfasti og sterki,
stofuprýði, laus við útlitsgalla.

 

Þannig mynd við teiknum, tæra, stillta,
tímalausa vídd í skýrum ramma
og litavalið feiknvel fer við normin.

 

Stundum verða glímur bræðrabylta
og blómin lifa eina stund og skamma.
Er lognið fyrir eða eftir storminn?