Jólakveðja 2016

Stríðs í heimi hrjáðum,
hungursneyðar, leiðum,
er fjöldi enn, sem um aldir,
óttasleginn á flótta.
Eins og Jósef Jesúm
úr jötu tók, um götur
hrakinn, úr landi sem hundur,
svo hlífa mætti lífi.

Þennan mæta manninn
myrtu valdsmenn kaldir
sem þelið ekki þoldu
þýða, og hylli lýðsins.
Nú á tímum „nýjum“
neglum á krossa, steglum,
þá sem valdi velgja
vel undir uggum, við stugga.

Augum lítum ætíð
Assange þannig og Manning.
Af lífi, og sögulegu,
lærum, vinir kærir.
Aðeins andófslundin
oki lyftir. Tyftir
illan bifur. Hjá öllum
til árs og friðar miði.

Hérna blessuð börnin
brosa sem sól um jólin.
Annars staðar þau stuðar
stríð með sprengjuhríðum.
Selja vesturveldi
vopnin. Huga opnum!
Innum oss að þessu:
Eru þau mannverur?