Eitt lítið hornsíli

Velferðarkerfið er á heljarþröm. Það eru ekki nýjar fréttir. Á sk. „góðæristímum“ fyrir hrun, fyrsta áratuginn á 21. öldinni, var þetta stoðkerfi samfélagsins svelt markvisst í pólitískum tilgangi, skv. hugmyndafræði frjálshyggju og einkavinavæðingar Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn spilaði með af fullum þunga.

Heilbrigðiskerfið fékk ekki nauðsynlegar fjárveitingar til að viðhalda sjálfu sér, endurnýja tæki og byggja yfir sig. Skorið var niður um a.m.k. tug milljarða í framhaldsskólakerfinu og skólarnir settir í þá stöðu að geta ekki rekið sig á fjárveitingunum. Þetta var ekki eitthvert athugunarleysi eða misskilin forgangsröðun þar sem peningarnir voru nýttir í aðra samfélagsþjónustu eins og t.d. vegakerfið og samgöngumál, nú eða almannatryggingar svo hægt væri að gera gangskör að því að hlúa að öryrkjum og fötluðum eða búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

Nei, þvert á móti voru framlög til þessara málaflokka skorin niður líka en gerðar skattkerfisbreytingar til að tryggja hinum efnuðu enn betri stöðu, útgerðinni sleppt lausri á sjávarauðlindina og eftirlit veiklað eða afnumið til að búa í haginn fyrir græðgisbrjálæðið sem heltók „margan góðan drenginn“ með þekktum og skelfilegum afleiðingum.

Þær afleiðingarnar eru arfleifð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. Þjóðargjaldþrot.

Hrunflokkarnir fengu útreið í kosningum vorið 2009 og fyrsta vinstristjórnin á Íslandi fékk það í fangið að reisa samfélagið við á ný, grafa það upp úr dýpstu gröf efnahagshruns sem um getur á byggðu bóli. Það tókst, í stórum dráttum, á einu kjörtímabili. Á aðeins fjórum árum.

En viti menn. Viðreisnarflokkarnir fengu fyrir þetta afrek aðra eins útreið, eða verri, í næstu kosningum og hrunflokkarnir höfðu fengið fjórum árum fyrr. Kjósendur mátu jafnt annars vegar það afrek hrunflokkanna að koma landinu lóðbeint í versta þjóðargjaldþrot mannkynssögunnar og hins vegar viðreisnarafrek vinstriflokkanna. Segið þið svo að kjósendur láti að sér hæða!

Nú þegar kjörtímabil hrunflokkanna er hálfnað hefur þeim tekist að gera svo mörg risavaxin axarsköft að tær og fingur duga ekki til að telja allt saman – og það við kjöraðstæður. Hrunflokkarnir hófu kjörtímabilið með pálmann í höndunum, við þær aðstæður að boltinn var sjálfkrafa á uppleið eftir að hafa skollið í gólfið, og enn langt í hæsta punkt.

Ástæðan fyrir þessu ólánlega stjórnarfari er fyrst og síðast sá grunnur sem það er reist á. Grunnurinn er tóm froða og upploginn fagurgali og á slíkum grunni fær ekkert staðist, heldur fellur flatt um sjálft sig.

Skýrasta dæmið er svokölluð skuldaleiðrétting. Í því máli má líkja Sigmundi Davíð og Framsóknarflokknum við mann sem lofar sveltandi stjórfjölskyldu sinni að fara og veiða í matinn handa öllum ef hann fær lánaða veiðistöngina. Hann fer, er lengi í burtu en kemur loksins heim aftur í æpandi hungrið – með eitt lítið hornsíli – sem engan veginn dugar einu sinni til að seðja sárasta hungur neins. Uppi verður fótur og fit en „veiðimaðurinn“ rífur bara kjaft og segist víst hafa veitt í matinn og staðið við loforð sitt. Hinir sveltandi vita betur.

Nýjasta axarskaftið er framkoman gagnvart hjúkrunarfræðingum og félögum í BHM.

Heilbrigðiskerfið er á heljarþröm. Rót vandans liggur ekki í axarsköftum núverandi ríkisstjórnar, ekki heldur í efnahagshruninu eða viðreisnarárum vinstristjórnarinnar. Rót vandans liggur aftur í sk. góðæri fyrir hrun og úthugsaða, pólitíska skemmdarverkastarfsemi hrunflokkanna skv. þeirri hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins að koma sem mestu af opinberri þjónustu í hendurnar á sínu fólki.

Vandi heilbrigðiskerfisins er svo langvinnur, víðtækur og alvarlegur að þær auknu fjárveitingar sem Landspítalinn hefur fengið undanfarið eru eins og dropi í hafið. Kerfi með heilsuspillandi húsnæði, lokaðar deildir, aflóga lækninga- og rannsóknatæki og starfsfólk gengið upp að hnjám af álagi verður ekki bætt með neinum smáskammtalækningum.

Og það er alveg sama hvað stjórnarliðar hneykslast mikið á launakröfum hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna eða hversu lengi þeir hanga eins og hundar á roði á því prinsippi að opinberir starfsmenn eigi ekki meira skilið en samið var um á almennum markaði, því óánægjan með launkjörin og starfsaðstæður er svo megn og gamalgróin að viðunandi heilbrigðisþjónusta verður ekki byggð upp aftur hér á landi nema bæta bæði laun og vinnuumhverfi þessara stétta verulega.

Hér dugar sem sagt ekki að bjóða aftur hornsíli – og mannréttindabrot er ekki skynsamlegasta leiðin til að ná sáttum við langþreytta og niðurlægða stétt. Hún mun ekki leggjast undir vöndinn heldur láta sig hverfa. Sama hvað stjórnarliðar jarma.

Að öllu þessu virtu er knýjandi sú spurning hvort Framsóknarflokkurinn ætlar sér enn að verða virkur þátttakandi með Sjálfstæðisflokknum í því að brjóta niður stoðkerfi samfélagsins til þess að koma því endanlega í hendur einkamarkaðarins?