Ekki er allt illt og bölvað – bara sumt

Af því ég kvartaði hér á síðunni um daginn yfir læknisheimsókn finnst mér ég skyldugur  að segja frá framhaldinu. Ekki af því neinum komi læknisheimsóknir mínar við, né að vanheilsa mín eða heilbrigði eigi erindi við nokkurn mann, heldur vegna þess að pistillinn var dálítill áfellisdómur yfir þjónustunni, og um leið heilbrigðiskerfinu.

Þess vegna vil ég segja frá því að ég pantaði nýjan tíma, til að ljúka því sem út af stóð síðast, og ákvað að prufa um leið annan lækni. Ég hringdi náttúrlega milli 8 og 9 á föstu-degi, í vetrarfríinu, og fékk tíma strax í vikunni á eftir. Og skemmst er frá því að segja að ég fékk afbragðsþjónustu. Þurfti varla að biðja um neitt sjálfur, því læknirinn virtist vera með það á hreinu hvað væri sjálfsagt og eðlilegt að athuga hjá karli þessum. Sendi beiðni til bæklunarsérfræðings um myndatöku á hnénu, aðra um blóðprufu og så videre.

Svo hringdi ég í röntgen og fékk hentugan tíma þannig að ég gæti afgreitt bæði hálsliða-myndatökuna og blóðprufuna í sömu ferðinni. Og þar fékk ég líka afbragðs þjónustu, mun betri en ég hafði búið mig undir. Frá því ég meldaði mig í afgreiðslunni og þangað til ég var kominn aftur út í bíl, leið innan við hálftími. Mér fannst það barasta vel gert. Engum virtist detta það í hug í þessari heimsókn að „tíminn væri útrunninn“ áður en lokið var við að gera það sem um var beðið. 

Lærdómurinn af þessu er auðvitað sá að starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar er undantekn-ingarlítið framúrskarandi. Ekki er við það að sakast vegna biðraða, tímaskorts, álags eða óhóflegs biðtíma eftir þjónustu. 

Við hverja er þá að sakast?

Það er við þá að sakast sem skipta þjóðarauðnum. Það er við þá að sakast sem hefur á 70 árum tekist að byggja upp þjóðfélag sem sólundar arðinum af óhemju verðmætum auðlindum svo forkastanlega, að ekki er hægt að veita öllum þessum fáu hræðum sem hér hafast við sómasamlega grunnþjónustu. Bara sumum.

Verðmæti auðlindanna innan okkar lögsögu er meira en yfirdrifið til að tryggja hverri einni og einustu af þessum 300 þúsund hræðum sem hér hafa kastað akkerum ásættanlega lífsafkomu og velferð. Til þess þyrfti ekki einu sinni að skipta nokkurnveginn jafnt, eins og margir óttast meira en pestina. Þrátt fyrir hófleg en sæmileg lífskjör fyrir alla, gætu þeir sem burðast með þörf til maka krókinn, samt gert það.

Núverandi þjóðfélagsgerð er mannanna verk sem auðvelt er að breyta. Auðurinn er nægur og fólkið er fátt. Landið er að vísu stórt miðað við fólksfjölda og innviðir hlutfallslega dýrir í samanburði við milljónaþjóðir. En það er engin afsökun. Hér á landi er vandinn fyrst og fremst alger skortur á stjórnvisku. 

Það er illt og bölvað.