Fjölskyldutengsl í óreiðu

Ég var að enda við að lesa Karitas án titils. Loksins. Kona mín hefur höfundinn, Kristínu Maríu Baldursdóttur, í uppáhaldi, les allt eftir hana og hvetur mig eindregið til þess sama. Ég hef auðvitað lesið ýmislegt eftir þessa frænku mína, en ekki allt, þó þessar bækur séu flestar til á heimilinu. En svona er nú það. Ekki hægt að lesa allt í einu og stundum þarf að nýta tíma sem gefst frá daglegum önnum til að yrkja.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að geta þess að móðurafi Kristínar, Gestur, kallaður Hrefnu-Gestur á Ísafirði, og móðuramma mín, Elínbjörg, voru systkin, bæði í yngri hlutanum úr 14 barna hópi Sigríðar Jónsdóttur frá Kaldbak í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu og Sigurðar Stefánssonar frá Reykjarvík í sömu sveit. Langafi og langamma okkar Kristínar Maríu bjuggu á Brúará í Bjarnarfirði frá 1906, en þess má geta að Sigurður var 15 árum eldri en eiginkonan, fæddur 1857, en hún 1872 og lifði bónda sinn í 22 ár áður en hún safnaðist til feðra sinna á Blönduósi árið 1956, 5 árum fyrr en ég sá ljós heimsins í fyrsta sinn.

Systkinin frá Brúará voru þessi: Róselía Guðrún, fóstra móður minnar (1890), Halldór Jón (1891), Guðríður (1894), Sigríður (1896), Elías Guðmundur (1898), Benedikt (1899), Stefán Björn (1902), drengur (1903), Gestur (1904), Ingi Einar (1905), Guðbjörn (1907), Elínbjörg (1908), Kristbjörg Róselía (1911) og Sigurbjörn (1912).

Amma eignaðist tvö börn, Ragnheiði Ester Guðmundsdóttur, mömmu mína, 1927 og Inga Karl Jóhannesson 1928, þekktan þýðanda og þul hjá sjónvarpinu á árum áður. Ingi Karl er látinn. Gaman er að segja frá því að Jóhannes, faðir móðurbróður míns, Jónsson er fæddur á Svanshóli í Bjarnarfirði 1906, þannig að saga fjölskyldunnar fléttast sterkum böndum inn í Njálu, bók allra bóka, en eins og allir vita bjó þar Svanur, móðurbróðir Hallgerðar langbrókar, Þorleiks, föður Bolla sem frægur er úr Laxdælu, og Bárðar. Ólafur pá, faðir Kjartans, var hinsvegar í engu skyldur fólkinu frá Svanshóli, enda ambáttarson af Írlandi, þaðan sem smjörið kemur nú í kálfana.

Hrefnu-Gestur, afi Kristínar frænku minnar og rithöfundar par exellance, var afkastameiri en amma í barneignum. Hann eignaðist 10 börn og er Hulda Elsa, móðir Kristínar, þriðja í röðinni, fædd 1930. 

Einhvern veginn hafa mál æxlast með þeim hætti að ég þekki allt of fátt af þessu frændfólki mínu, afkomendum systkina ömmu minnar af Ströndunum. Maður getur kynnt sér ættlegginn, nöfn á pappír, og sumt af myndum, í ritinu Pálsætt á Ströndum. Það er forvitnilegt í meira lagi.

En þessi pistill átti ekki að vera ættfræði, heldur bókrýni. Í stuttu máli er ég stórhrifinn af bók frænku minnar, Karitas án titils. Þetta er mögnuð ættar- og örlagasaga, sérstaklega eru mannlýsingarnar stórbrotnar. Sagan er líka vel stíluð, textinn rennur ljúflega fram og allar u.þ.b. 450 síðurnar eru áhugaverðar. 

En þetta veit náttúrulega allt viðræðuhæft fólk – sem dregur það ekki í heilan áratug að lesa helstu fagurbókmenntir.