„Vil ég nú, að þú hugsir nokkra ráðagerð og leggist djúpt.“

Nú er hafin í fjölmiðlum skipulögð gagnsókn Framsóknarflokksins vegna hroðalegrar útreið-ar í skoðanakönnunum nýlega. Grunnstefið í gagnsókninni er margfræg skuldaleiðrétting sem enn einu sinni mun vera á næstu grösum. 

Tónninn sem spunameistarar flokksins hafa slegið, og hljómar nú í blað- og Netheimum, er þessi: Spunameistarar á vegum fyrri stjórnvalda slá því ryki í augu almennings að skulda-leiðrétting Framsóknarflokksins sé „köld pizza í boði skattgreiðenda“. 

Gallinn við spuna framsóknarmanna nú er hins vegar sá að það eru ekki bara nokkrir launaðir lygalaupar sem tjá sig og sjá í gegn um blekkingarleikinn, heldur allur almenningur. Nánast allir kjósendur Framsóknarflokksins hafa glatað trúnni, nema helst þeir sem gegna trúnaðarstörfum eða eru flokksbundnir. 

Trúnaðarbrestur hefur orðið vegna þess að fólki var lofað miklum peningum frá útlendum hrægömmum til að lækka húsnæðisskuldir sínar en það fær eitthvað allt annað. Það fær a) heimild til að borga sjálft niður eigin skuldir með viðbótarlífeyrissparnaði sínum, b) tugi en ekki hundruð milljarða, c) skattfé úr ríkissjóði – en sér á sama tíma á bak tugmilljarða auðlindaarði til sægreifa. Þessu hefur fólk nú áttað sig á, jafnt tortryggnir sem vongóðir og trúgjarnir. Það hefur ekki þurft neina spunameistara til að útlista þennan veruleika. Hann blasir við. 

Segja má að kosningaspuninn hitti nú skapara sinn, forsætisráðherrann og hans fólk, í andlitið eins og blaut tuska. 

„Spunameistari“ er nýyrði í málinu, skrauthvörf fyrir gamalt samheiti sem ekki þykir nógu fínt nú á „öld mannauðsstjórans“, en á djúpar rætur í málinu, alla leið aftur í Brennu-Njáls sögu. Þar segir (kaflar 65 og 67): „Þorgeir [Starkaðarson] bað þá feðga [Valgarð gráa og Mörð son hans] liðveizlu og aðgöngu, en þeir fóru lengi undan og mæltu til fé mikið.“ Skömmu seinna fór Þorgeir að finna Mörð og undi illa við stöðu mála, hafði enda keypt liðsinni hans dýru verði, segir: „Vil ég nú, að þú hugsir nokkra ráðagerð og leggist djúpt“, og lofar góðum bónus ef vel tekst til. „„Sýnist það jafnan,“ segir Mörður, „að ég er fégjarn, enda mun svo enn[…]““, og leggur á ráðin sem duga.

Hvað hefur breyst frá söguöld? Helst það, að séð verður, að í stað eins þá þiggur nú fjöldinn allur góð laun fyrir ráðgjafarstörf hjá stjórnvöldum. En markmiðin virðast lítið breytast:

Hálfan sannleik segir oss,

sérhagsmunavörður.

Spinnur, vendir kvæði í kross,

kallast Lyga-Mörður.

 

Ekki er allt illt og bölvað – bara sumt

Af því ég kvartaði hér á síðunni um daginn yfir læknisheimsókn finnst mér ég skyldugur  að segja frá framhaldinu. Ekki af því neinum komi læknisheimsóknir mínar við, né að vanheilsa mín eða heilbrigði eigi erindi við nokkurn mann, heldur vegna þess að pistillinn var dálítill áfellisdómur yfir þjónustunni, og um leið heilbrigðiskerfinu.

Þess vegna vil ég segja frá því að ég pantaði nýjan tíma, til að ljúka því sem út af stóð síðast, og ákvað að prufa um leið annan lækni. Ég hringdi náttúrlega milli 8 og 9 á föstu-degi, í vetrarfríinu, og fékk tíma strax í vikunni á eftir. Og skemmst er frá því að segja að ég fékk afbragðsþjónustu. Þurfti varla að biðja um neitt sjálfur, því læknirinn virtist vera með það á hreinu hvað væri sjálfsagt og eðlilegt að athuga hjá karli þessum. Sendi beiðni til bæklunarsérfræðings um myndatöku á hnénu, aðra um blóðprufu og så videre.

Svo hringdi ég í röntgen og fékk hentugan tíma þannig að ég gæti afgreitt bæði hálsliða-myndatökuna og blóðprufuna í sömu ferðinni. Og þar fékk ég líka afbragðs þjónustu, mun betri en ég hafði búið mig undir. Frá því ég meldaði mig í afgreiðslunni og þangað til ég var kominn aftur út í bíl, leið innan við hálftími. Mér fannst það barasta vel gert. Engum virtist detta það í hug í þessari heimsókn að „tíminn væri útrunninn“ áður en lokið var við að gera það sem um var beðið. 

Lærdómurinn af þessu er auðvitað sá að starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar er undantekn-ingarlítið framúrskarandi. Ekki er við það að sakast vegna biðraða, tímaskorts, álags eða óhóflegs biðtíma eftir þjónustu. 

Við hverja er þá að sakast?

Það er við þá að sakast sem skipta þjóðarauðnum. Það er við þá að sakast sem hefur á 70 árum tekist að byggja upp þjóðfélag sem sólundar arðinum af óhemju verðmætum auðlindum svo forkastanlega, að ekki er hægt að veita öllum þessum fáu hræðum sem hér hafast við sómasamlega grunnþjónustu. Bara sumum.

Verðmæti auðlindanna innan okkar lögsögu er meira en yfirdrifið til að tryggja hverri einni og einustu af þessum 300 þúsund hræðum sem hér hafa kastað akkerum ásættanlega lífsafkomu og velferð. Til þess þyrfti ekki einu sinni að skipta nokkurnveginn jafnt, eins og margir óttast meira en pestina. Þrátt fyrir hófleg en sæmileg lífskjör fyrir alla, gætu þeir sem burðast með þörf til maka krókinn, samt gert það.

Núverandi þjóðfélagsgerð er mannanna verk sem auðvelt er að breyta. Auðurinn er nægur og fólkið er fátt. Landið er að vísu stórt miðað við fólksfjölda og innviðir hlutfallslega dýrir í samanburði við milljónaþjóðir. En það er engin afsökun. Hér á landi er vandinn fyrst og fremst alger skortur á stjórnvisku. 

Það er illt og bölvað.

 

Heilbrigðiskerfi á heljarþröm: Tíminn er búinn

Ég var hjá lækni áðan, á heilsugæslunni á Selfossi, held ég. Allavega á einhverju sem heitir Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Ég var reyndar búinn að lenda í basli með tímapöntunina, en eins og fólk veit er það ekki heiglum hent að fá tíma hjá lækni – og alls ekki heimilislækninum þess. Þegar ég hringdi var mér tjáð að ekki væri hægt að pantan tíma nema milli kl. 8 og 9 á föstudögum. Væntanlega vegna þess að þeim sem þurfa að komast undir læknishendur er hollast að flækjustigið sé sem allra, allra mest.

Þetta var á þriðjudegi, minnir mig: „Það er allt fullt í þessari viku“, sagði kvenmannsrödd í símann. „Það er allt í lagi þó ég komist ekki að fyrr en í næstu viku“, sagði ég, „þetta er ekki spurning um líf eða dauða“. „Við tökum ekki við tímapöntunum fyrir næstu viku fyrr en á föstudaginn. Hringdu milli 8 og 9“, sagði konan. Ég, sem er vanur að taka mark á því sem fólk segir og hvorki nenni né kæri m ig um að standa í málalengingum, kvaddi.

Og þar sem ég er að kenna milli 8 og 9 á föstudögum, og hef það ekki fyrir sið að hlaupa úr kennslu til að tala í símann, liðu næstu tveir, þrír föstudagar milli 8 og 9 án þess ég væri nokkru nær því að komast til læknis. Þá bauð kona mín mér að hringja fyrir mig og reyna að fá tíma. Hún er sættir sig ekki við lélega þjónustu, er sjálf landsfræg af störfum sínum við afgreiðslu í apótekum, gleraugnaverslunum, íþróttavörubúðum og víðar fyrir afburða þjónustu. „Þú átt tíma á miðvikudaginn kl. 13.40“, sagði hún þegar hún kom heim úr vinnunni einn daginn. 

Og ég var mættur tímanlega. Borgaði minn 1200 kall með bros á vör og settist í biðstofunni. Svo var kallað á mig. Nokkurn veginn á réttum tíma. Læknirinn tjáði mér að læknanemi á 6. ári væri inni hjá sér að fylgjast með, spurði hvort það væri í lagi mín vegna. Ég hélt nú það, heilsaði nemanum, ungri stúlku sem sýnilega var komin nokkra mánuði á leið. Ég spurði hana hvort hún þekkti nokkuð tengdadóttur mína, hana Bryndísi? „Ert þú pabbi hans Ragnars“, spurði hún strax og brosti sínu blíðasta. „Við Bryndís erum saman í bekk“. 

Svo settist ég á móti lækninum við skrifborðið og hóf upptalningu á því sem hrjáði mig. Ég hafði dottið af baki í sumar, sagði ég, og viðbeinið skagar síðan upp úr vinstri öxlinni, „en fyrir nokkrum vikum fór ég að finna til í þessu, ekki endilega við átak, heldur við ákveðna hreyfingu. Getur verið að beinendinn sé farinn að skemma eitthvað vöðvann eða vefinn þarna í kring?“ spurði ég. Það taldi læknirinn útilokað, og þar með virtist málið dautt. „Ég er líka enn að drepast í hálsinum eftir byltuna“, sagði ég, „á erfitt með að snúa hausnum, t.d. þegar ég er að keyra og þarf að athuga hvort nokkuð er að koma bíll“. Doktorinn lét mig snúa hausnum til að sýna hvar og hvernig ég fyndi til. Svo settist hann við tölvuna og fór að skrifa beiðnir, annars vegar um myndatöku á hálsliðunum og hinsvegar um sjúkraþjálfun. „Sjúkraþjálfarinn getur hugsanlega eitthvað gert varðandi öxlina,“ sagði hann uppörvandi.

Nú ætlaði ég að impra á næsta krankleika – hægra hnéð tvöfalt af bólgu eftir gömul íþróttameiðsli svo ég kemst ekki upp eða niður stiga nema skáskjóta mér, hvað þá að geta farið í göngutúra, eins og sagt er að hollt sé að gera. „Væri kannski hægt að mynda hnéð í leiðinni, eða þarf kannski frekar að tappa af því?“ 

En ekki aldeilis: „Nú er tíminn búinn. Næsti sjúklingur kemur klukkan tvö“, sagði hann og benti máli sínu til stuðnings á klukku ofan við dyrnar. Og það breytti engu þó ég maldaði í móinn og spyrði hvort ég þyrfti virkilega að panta annan tíma og borga annað komugjald til þess að fá þjónustu við hnénu og því öðru sem ég hafði ætlað að láta tékka á, „hvers lags þjónusta er þetta eiginlega?“ og farið að síga aðeins í mig. „Já, þú býrð á Selfossi, svo það er ekki langt að keyra“, sagði hann kotroskinn, og bætti við: „Svo hringir þú bara og pantar tíma í röntgen þegar þér hentar. Já, og þú þarft að borga í afgreiðslunni þegar þú ferð út – fyrir beiðnina“. 

Svo þykist fólk vera hissa á því að karlmenn séu almennt tregir að leita sér lækningar áður en það er of seint.

Ég er samt alveg viss um að læknaneminn lærði sína mikilvægu lexíu: Svona á ekki að gera.

Fjölskyldutengsl í óreiðu

Ég var að enda við að lesa Karitas án titils. Loksins. Kona mín hefur höfundinn, Kristínu Maríu Baldursdóttur, í uppáhaldi, les allt eftir hana og hvetur mig eindregið til þess sama. Ég hef auðvitað lesið ýmislegt eftir þessa frænku mína, en ekki allt, þó þessar bækur séu flestar til á heimilinu. En svona er nú það. Ekki hægt að lesa allt í einu og stundum þarf að nýta tíma sem gefst frá daglegum önnum til að yrkja.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að geta þess að móðurafi Kristínar, Gestur, kallaður Hrefnu-Gestur á Ísafirði, og móðuramma mín, Elínbjörg, voru systkin, bæði í yngri hlutanum úr 14 barna hópi Sigríðar Jónsdóttur frá Kaldbak í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu og Sigurðar Stefánssonar frá Reykjarvík í sömu sveit. Langafi og langamma okkar Kristínar Maríu bjuggu á Brúará í Bjarnarfirði frá 1906, en þess má geta að Sigurður var 15 árum eldri en eiginkonan, fæddur 1857, en hún 1872 og lifði bónda sinn í 22 ár áður en hún safnaðist til feðra sinna á Blönduósi árið 1956, 5 árum fyrr en ég sá ljós heimsins í fyrsta sinn.

Systkinin frá Brúará voru þessi: Róselía Guðrún, fóstra móður minnar (1890), Halldór Jón (1891), Guðríður (1894), Sigríður (1896), Elías Guðmundur (1898), Benedikt (1899), Stefán Björn (1902), drengur (1903), Gestur (1904), Ingi Einar (1905), Guðbjörn (1907), Elínbjörg (1908), Kristbjörg Róselía (1911) og Sigurbjörn (1912).

Amma eignaðist tvö börn, Ragnheiði Ester Guðmundsdóttur, mömmu mína, 1927 og Inga Karl Jóhannesson 1928, þekktan þýðanda og þul hjá sjónvarpinu á árum áður. Ingi Karl er látinn. Gaman er að segja frá því að Jóhannes, faðir móðurbróður míns, Jónsson er fæddur á Svanshóli í Bjarnarfirði 1906, þannig að saga fjölskyldunnar fléttast sterkum böndum inn í Njálu, bók allra bóka, en eins og allir vita bjó þar Svanur, móðurbróðir Hallgerðar langbrókar, Þorleiks, föður Bolla sem frægur er úr Laxdælu, og Bárðar. Ólafur pá, faðir Kjartans, var hinsvegar í engu skyldur fólkinu frá Svanshóli, enda ambáttarson af Írlandi, þaðan sem smjörið kemur nú í kálfana.

Hrefnu-Gestur, afi Kristínar frænku minnar og rithöfundar par exellance, var afkastameiri en amma í barneignum. Hann eignaðist 10 börn og er Hulda Elsa, móðir Kristínar, þriðja í röðinni, fædd 1930. 

Einhvern veginn hafa mál æxlast með þeim hætti að ég þekki allt of fátt af þessu frændfólki mínu, afkomendum systkina ömmu minnar af Ströndunum. Maður getur kynnt sér ættlegginn, nöfn á pappír, og sumt af myndum, í ritinu Pálsætt á Ströndum. Það er forvitnilegt í meira lagi.

En þessi pistill átti ekki að vera ættfræði, heldur bókrýni. Í stuttu máli er ég stórhrifinn af bók frænku minnar, Karitas án titils. Þetta er mögnuð ættar- og örlagasaga, sérstaklega eru mannlýsingarnar stórbrotnar. Sagan er líka vel stíluð, textinn rennur ljúflega fram og allar u.þ.b. 450 síðurnar eru áhugaverðar. 

En þetta veit náttúrulega allt viðræðuhæft fólk – sem dregur það ekki í heilan áratug að lesa helstu fagurbókmenntir.

 

Fiskarnir hafa fengið vængi

Tilvitnun

Loksins komst ég í það sem staðið hefur til allt árið: Að lesa nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Fiskarnir hafa enga fætur. Í sem stystu máli þá fann ég minn Kalman aftur.

Jón Kalman er fyrir minn smekk. Einn af örfáum nútíma skáldsagnahöfundum íslenskum sem náð hafa að heilla mig með skrifum sínum. En ég var samt farinn að efast. Þegar ég var farinn að fletta áfram til að kanna hvort snjóbylnum ætlaði virkilega aldrei að linna?

Í fótalausu fiskunum er Jón upp á sitt allra besta. Textinn er afbragð, ljóðrænn og þykkur eins og feitt smjör sem drýpur af hverri síðu. Það er auðvelt að fara yfir strikið í notkun líkinga. Hér eru líkingar nánast í hverri málsgrein en þær hitta í mark – frumlegar og skemmtilegar. Og djúpar. Það er eins og hver þeirra beri æðri boð, heimspekilegar spurningar um lífið, samfélagið, veröldina.

Sagan er marglaga. Hún er ástarsaga, þroskasaga, ættarsaga. Höfundurinn kafar inn á við, inn í innsta kjarna mannsins. Hún fjallar um tilgang manneskjunnar í heiminum:

„ … ástin, segir hann, það er sú vetrarbraut sem skærast skín og aldrei eyðist! En sárast hlýtur að vera að hafa aldrei elskað nógsamlega, ég er ekki viss um að það sé hægt að fyrirgefa það.“

 

Hún er samfélagsádeila, enginn öskrandi áróður heldur heimspekilega yfirveguð og beittari fyrir vikið:

„Vesalings Jón Sigurðsson sem þarf að horfa dag og nótt á Alþingi Íslendinga, við förum illa með sjálfstæðishetju okkar, hann er líka þungbúinn á svip og hefur lagt hendurnar á jakkaboðunginn, eins og hann sé reiðubúinn að seilast í innri vasann eftir eggi til að kasta í Alþingsihúsið; reiðubúinn að grípa egg upp úr vasa ef forseti landsins ætti leið hjá. Hvað er hægt að gera við þessa þjóð sem á örskömmum tíma varð að fyrirmynd, að hetjum Evrópu, en reyndist síðan, eins og oft áður, meistari í spretthlaupi, ónýt í langhlaupi?“

 

Hún er heimsádeila, ádeila sem á rætur sínar innan í manneskjunni: tilgangurinn lifir innra með manninum, maðurinn lifir í samfélagi og samfélagið er meðal samfélaga.

„ …það er fátt jafn dýrmætt í þessari veröld, jafn mikilsvert, og brosið. Samt voru þeir Brésnev og Jimmy Carter ekki með það á viðræðulista sínum veturinn 1980, […], og þó stóðu allir í þeirri vissu að þeir myndu ræða mikilvægustu málefni jarðarbúa.“

 

Svona eiga skáldsögur að vera. Þær eiga að hreyfa við manni og fá manni sífelld ný viðfangsefni að glíma við. Fiskarnir hafa enga fætur er hreint afbragð.

 

Að lesa og hugsa í senn

Ekki hef ég lesið mikið eftir Guðrúnu frá Lundi. En nýútgefna bókina Afdalabarn þrælaðist ég í gegnum. Það er ekki góður skáldskapur; fyrirsjáanlegur söguþráður, einfeldningsleg persónusköpun, langdreginn og ófrumlegur stíll. Að hampa sögunni sem einhverri ritsnilld, eins og gert hefur verið, er of langt gengið. Aukapersónurnar, sem lofaðar hafa verið, eru í besta falli slappar eftirlíkingar á frægum persónum úr Pilti og stúlku (t.d. Gróu á Leiti).

Með þessu er þó ekki sagt að sagan sé verri en margar sögur frá 19. öld, á bernskudögum skáldsögunnar. Afdalabarn er einmitt þetta: frumbernsk saga. Og maður fær þá tilfinningu að hún sé skrifuð um miðja 19. öld; að rætur höfundarins liggi þangað aftur fremur en á 20. öld. En eiga lesendur að hunsa það að Afdalabarn kom út hundrað árum seinna en Piltur og stúlka, þegar þeir leggja mat á bókmenntalegt gildi sögunnar?

Sagan er einföld, auðlesin og aðgengileg. Boðskapurinn liggur fyrir allra fótum á yfirborðinu og enginn þarf að tefja sig á leit að dýpri tilgangi. Að þessu leyti má segja að sagan henti byrjendum. Þ.e.a.s. ef gert er ráð fyrir því byrjendum sé það ofviða að bæði lesa og hugsa í senn.