Fordæmi til varnaðar og fyrirmyndar í senn

Mér þótti athygli vert að skoski sjálfstæðissinnaformaðurinn sagði í viðtalinu við Boga í sjónvarpinu í fyrradag að mikilvægra fyrirmynda að uppbyggingu nýs og betra skosks samfélags væri að leita til norrænu ríkjanna, m.a. aðferðar Íslands við að setja sér nýja stjórnarskrá. Og þá átti hann ekki við starf núverandi SigurðarLíndalsnefndar.

Það virðist hins vegar hafa farið framhjá honum, á einhvern óskiljanlegan hátt, að komin er aftur til valda á Íslandi ríkisstjórn sem ætlar að forsmá vilja 2/3 hluta kjósenda um nýja stjórnarskrá á grunni þeirrar vinnu og aðferðafræði sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ýtti úr vör: alvöru lýðræði með þjóðfundi, kosningu stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöður þess.

Í margháttuðum ólánleika þeirrar ríkisstjórnar, klaufaskapar og vandræðagangs, glóði stjórnarskrármálið skært, eins og gull af eiri. Að þáverandi stjórnarandstöðu skyldi takast að kæfa það með málþófi er bæði til ævarandi skammar fyrir hana og eilífur vitnisburður um lánleysi „vinstristjórnarinnar“, þrátt fyrir fagran ásetning í málinu.

En kannski ætti að upplýsa Skotann um að Íslendingar hafi enn ekki sett sér þá stjórnarskrá sem lagt var upp með að semja fljótlega eftir lýðveldisstofnun 1944, eða í 70 ár.

Skotar gætu þá haft fordæmi Íslendinga í stjórnarskrármálum bæði til varnaðar og fyrirmyndar í senn, þ.e.a.s. kjósi þeir á morgun að stofna sjálfstætt ríki.

H(r)aust stemmning

Sumartáta sárum trega

siglir bát í naust.

Farfakáta, klæðilega

kjóla mátar haust.

 

Haustin eru hefðbundin. Náttúran skiptir um föt og tjaldar því sem til er og mannlífið allt kemst í fastari skorður – fyrsta kóræfingin er í kvöld:

 

Sýnir haustið stílbrögð stór,

storð á vetur setur.

Brýnir raust í karlakór

hver sem betur getur.

 

Á dv.is mátti lesa þann 13. september að karlmannlegt útlit á borð við sterka kjálka, áberandi kinnbein, stælta upphandleggi og brjóstkassa, heilluðu gjarnan konur en slíkir karlar byðu ekki upp á besta sæðið:

 

Konur hrausta karlmenn þrá,

um kjálka svera og lungun.
Ef eymingja þær hátta hjá
hætta vex á þungun.

 

 

 

Af Bjarnagreiða og fleiru

Haustið lætur á sér kræla þetta árið með hefðbundnum hætti:

 

Kunnugt er nú komið haust,

kuldableytudrulla

og aftur byrjað, endalaust,

alþingi að bulla.

 

Elfa bróðurdóttir mín er alveg yndisleg. Hún benti fólki á að taka upp léttara hjal á Facebook og gaman væri líka að tala um það sem vel er heppnað. Ég tek hana á orðinu:

 

Ég nú verð að játa að

ég er nokkuð góður.

Rökin sem að sanna það

má sjá í dóttur bróður.

 

Núna er eitt barnið í þingliði Sjálfstæðisflokksins að berjast við að koma brennivíni í matvörubúðir:

 

Þegar bjór og brennivín

í búðum hér mun fást,

kaupstaðarangan óðar dvín,

á mér mun varla sjást.

 

Ekki var blekið þornað á fjármálafrumvarpsdrögum Bjarna og félaga þegar tilkynnt var um verðlækkun á krúseronum, en eins og menn vita er ekki étið mælt í þeim:

 

Í útrás vilja aftur skeiða,

efla ríkra hag.

Toyota býður Bjarnagreiða

bara strax í dag!

 

Fækkun háskólanema

Fækkun háskólanema er eitt helsta ræktunarmarkmið þjóðernissinna í ríkisstjórn Íslands, eins og fram kemur í fjölmiðlum. Markviss niðurskurður er augljós í öllu ræktunarstarfi – þar næst enginn árangur nema með miskunnarlausu úrvali. Skera þá lélegu og miðlungsgóðu en halda upp á bestu einstaklingana. Úrvalið byggir svo á ræktunarmarkmiðunum hverju sinni. Í hrossarækt, svo dæmi sé tekið, skiptir máli hvort markmiðið er að rækta vinnuhesta eða reiðhesta, vekringa eða brokkara, blesótta hesta eða skjótta, þegar valið er úr stofninum.

Hjá núverandi stjórnarflokkum á Íslandi er háleita markmiðið að halda við og helst að fjölga í kjósendahópnum. Leiðin að markmiðinu er að hleypa einungis sem fæstum og aðeins hinum gáfuðustu í háskólanám (það verður ekkert við þá ráðið hvort eð er). Stytting framhaldsskólanáms til stúdentsprófs er eitt skrefið á þeirri leið að fækka háskólanemum. Hálfvitarnir hafa ekkert þangað að gera! Þetta á auðvitað almennt við um menntakerfið. Því fleiri með takmarkaða menntun, því meiri líkur á stórum kjósendahópi stjórnarflokkanna eins og vísindarannsóknir hafa sýnt. Þannig er fækkun háskólanema leið að auknum gæðum fyrir þessa framsýnu flokka. Þetta má orða svona:

Háleita markmiðið hækkar
ef háskólanemunum fækkar.
Best að múgurinn gorti
af menntunarskorti,
þá stuðningshópurinn stækkar!

Svikið fæði

Þegar fyrstu tillögur að fjárlögum voru kynntar var haft á orði að ábyrgðarmennirnir hugsuðu aðeins um að „elda sínar steikur“. Það sem er í boði fyrir almenning úr eldhúsi stjórnarherranna væri best lýst svona:

Aumt er þeirra eldhúsmakk,
allt er fæðið svikið:
„Eðalsteikin“ úldið hakk,
óæt fyrir vikið.