Dagbók frá Krít

Dagur 11: 2. kafli – Síðasta sólbaðið (0:43)

Dagur 11: 1. kafli – Ég ætla ekkert að taka þátt í því… (1:22)

Dagur 10: 3. kafli – Anna María vissi ekkert af því… (1:20)

Dagur 10: 2. kafli – Skyldu einhverjir verða þar? (0:58)

Dagur 10: 1. kafli – Það verður eitthvað á eftir… (0:45)

Ferðarlok:

Dagur 9: 10. kafli – Tzitziki (1:21)

Dagur 9: 9. kafli – …hvernig umhorfs var meðan á hersetu Þjóðverja stóð… (3:30)

Dagur 9: 8. kafli – …og medium handa frúnni? (1:23)

Dagur 9: 7. kafli – …segja ekki orð allan tímann… (3:51)

Dagur 9: 6. kafli – Eins og korktappi (2:21)

Dagur 9: 5. kafli – Púðlukvikindi í bandi (0:25)

Dagur 9: 4. kafli – …þar hafi ekki verið tjaldað árum saman… (0:54)

Dagur 9: 3. kafli – …ekki sami fýlusvipurinn á honum… (2:01)

Dagur 9: 2. kafli – Í manndrápskleif í manndrápsveðri (1:26)

Dagur 9: 1. kafli – …meiningin að nýta daginn vel… (2:24)

Dagur 9 

Dagur 8: 5. kafli – Hangir slappur niður (1:29)

Dagur 8: 4. kafli – Erlend hundsgá (3:41)

Dagur 8: 3. kafli – …og kaupa kannski eitthvað drasl…(1:57)

Dagur 8: 2. kafli – 12 krónu afsláttur (1:39)

Dagur 8: 1. kafli – Allt í allra besta lagi (2:56)

Dagur 8:

Dagur 7: 7. kafli – Að ganga til viðar (3:43)

Dagur 7: 6. kafli – Engin ástæða til að hafa fordóma eftir þau kynni (4:04) 

Dagur 7: 5. kafli – Inngrónir heimalningar (4:50)

Dagur 7: 4. kafli – Gráskeggjaður og sköllóttur, eins og ég (4:55) 

Dagur 7: 3. kafli – Smá tilbreyting fyrir vesalings fólkið (2:29)

Dagur 7: 2. kafli – Danirnir ekkert svo ligeglad (4:06)

Dagur 7: 1. kafli – Frekar erfið nótt (1:46)

Dagur sjö. Nú sígur á seinni hlutann:

Dagur 6: 12. kafli – Hvað er betra en þrautaganga sem sigrast er á? (0:34)

Dagur 6: 11. kafli – Með höfuðin lotin niður í klofið (2:24)

Dagur 6: 10. kafli – Einn og einn rauður blettur (1:32)

Dagur 6: 9. kafli – Ekkert hægt að plata okkur með það (0:36)

Dagur 6: 8. kafli – Hundar og kettir (0:58)

Dagur 6: 7. kafli – Algengur þjóðflokkur (2:36)

Dagur 6: 6. kafli – Kannski kemst ég lifandi heim (0:37)

Dagur 6: 5. kafli – Hörmungargretta í uppgerðarbros (2:12)

Dagur 6: 4. kafli – Furðuleg ákvörðun (3:30)

Dagur 6: 3. kafli – Það mun vera nokkuð skemmtilegur bær (3:25)

Dagur 6: 2. kafli – Dagarnir hanga (0:24)

Dagur 6: 1. kafli – Tveir bekkir á óæðri stað (4:54)

Dagur sex:

Dagur 5: 2. kafli – Parkerað í afhýsum (2:35)

Dagur 5: 1. kafli – Það er allt heitt hérna, meira að segja kaffið (1:53)

Dagur 4: 2. kafli – Saga niður trén (4:00)

Dagur 4: 1. kafli – Eitthvað ógeðslega vont (2:53)

Nú taka við rólegri dagar:

Dagur 3: 21. kafli – Aðeins of mikið af öllu (1:35)

Dagur 3: 20. kafli – Íslenska sauðkindin (3:08)

Dagur 3: 19. kafli – Ekki fyrir hjartveika (0:37)

Dagur 3: 18. kafli – Liðamótavagn (1:20)

Dagur 3: 17. kafli – Amor sjálfur (0:52)

Dagur 3: 16. kafli – Þrefaldur Messi (0:35)

Dagur 3: 15. kafli – Svimandi upphæðir (1:36)

Dagur 3: 14. kafli – Þetta á að vera svona (3:14)

Dagur 3: 13. kafli – Þar sem klárinn er kvaldastur (1:16)

Dagur 3: 12. kafli – Hún er heldur ekkert blávatn (2:13)

Þriðji og síðasti skammtur

Dagur 3: 11. kafli – Bílstjóraergi (2:03)

Dagur 3: 10. kafli – G.Tyrfingsson (2:58)

Dagur 3: 9. kafli – Sýnikennsla í því að beygja í rétta átt (1:49)

Dagur 3: 8. kafli – Mætti ég biðja um eitthvað íslenskt? (2:15)

Dagur 3: 7. kafli – Best ég geri það bara núna (0:54)

Dagur 3: 6. kafli – Kelað og kysst (0:54)

Dagur 3 – annar skammtur

Dagur 3: 5. kafli – Skyldi Þorgeir eiga leið hjá? (0:58)

Dagur 3: 4. kafli – Innra byrði augnlokanna (0:59)

Dagur 3: 3. kafli – Af matvælaöryggi (5:00)

Dagur 3: 2. kafli – Úrunnar leifar grillveislu síðustu helgar (5:27)

Dagur 3: 1. kafli – Bæði eitt og tvö (0:53)

Dagur þrjú var nokkkuð viðburðaríkur og kemur í nokkrum skömmtum.

Dagur 2: 4. kafli – Fjallajarðir Biskupstungna (1:10)

Dagur 2: 3. kafli – Brekka nr. 2 (1:08)

Dagur 2: 2. kafli – Þetta er allt annað (1:30)

Dagur 2: 1. kafli – Kampavínið (1:44)

Dagur 1: 2. kafli – Vonbrigðin (5:43)  

Dagur 1: 1. kafli – Ferðalagið (3:35) 

Ég mundi loksins eftir því að taka með mér upptökutækið góða, þegar við fórum til Krítar um daginn. Það er þægilegt á ferðalögum að geta talað hugsanir sínar inn á tækið jafnóðum, í stað þess að berjast við að skrifa við misgóðar aðstæður, oftast vondar, eða að skrifa eftirá, á kvöldin, það sem borið hafði við og farið í gegnum hugann þann daginn. Slík skrif eru líka annars eðlis, þau eru ritskoðað úrval, bóklegs eðlis, jafnvel hreinn skáldskapur – ekki verri fyrir það, aðeins allt annars eðlis en þegar maður lætur móðan mása og hugsanir sínar flæða jafnóðum inn á tækið. Það reyndi ég að gera núna og ætla að birta hér smám saman að gamni mínu einhverjar af upptökunum. Þetta er auðvitað mest bölvað kjaftæði, sundurlausar vangaveltur, en kannski hafa einhverjir gaman af slíku? Hinir finna fljótt til leiðindanna og sleppa því að hlusta.

Ferðast um landið – í huganum

Í sumar hef ég óvenjulítið ferðast um landið, í hefðbundnum skilningi, hvort sem er vanabundnar ferðir um óbyggðir og öræfi á hestum eða á bíl milli landshluta eftir hinu nútildags kunnugra vegakerfi. Þó átti ég þess kost að ríða með syni mínum og frændfólki um nálægar slóðir hér sunnanlands: frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi, um Laugarvatn, Laugarvatnsvelli, Kringlumýri, Gjábakka, Skógarkots- og Hrauntúnsstíga í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, Svartagil, Mosfellsheiði, Jórukleif, Grafning, Kaldárhöfða, Búrfellsdal, Klausturhóla, Björk – og aftur heim að Þóroddsstöðum. Óvíða gefast jafn góðar reiðgötur í jafn fögru umhverfi – og í afburðafélagsskap tekur fátt slíku ferðalagi fram.

En því minna sem orðið hefur úr ferðalögum í almennum skilningi þess orðs, því meira hef ég ferðast landshorna á milli heima í stofu, uppi í rúmi – eða jafnvel í sólbaði suður í Miðjarðarhafi.

Þetta hefur mér auðnast fyrir tilstilli Árbóka Ferðafélags Íslands, sem flestir munu víst nýta sem uppflettirit, en ekki mögnuð fræðirit, spennandi og gefandi bókmenntaverk, allt í senn. En þannig les ég Árbækurnar. Drekk þær í mig eins og flest fólk kriminala og afþreyingarbækur af ýmsu tagi.

Ég byrjaði þegar árbókin 2014 kom inn um lúguna: Skagafjörður austan Vatna, fyrra bindi, frá jökli að Furðuströndum, eftir Pál Sigurðsson. Þetta var tímabær framhaldslestur, því um Skagafjörð vestan Vatna fjallaði bókin 2012. Seinna bindis Austanvatnabókarinnar bíð ég nú þegar með óþreyju. Þessar tvær lesnu Skagafjarðarbækur fjalla um svæði sem ég er allkunnugur af fjölmörgum hestaferðum um Kjöl og niður í Skagafjörð – fjöll, vötn, klungur og dali sem ég hef margoft haft fyrir augunum í allskyns veðri. Því er auðvelt að ferðast um þetta land ljóslifandi í huganum við lesturinn – og veitir mikla fullnægju.

Þegar Skagafjörður var afgreiddur í bili fór ég upp í hillu og sótti Norðausturland Hjörleifs Guttormssonar frá fyrra sumri, sem mér hafði þá ekki gefist kostur að ljúka við vegna anna í hinum áþreifanlegri ferðalögum. Umfjöllunarefni bókarinnar er land sem mér er ókunnugt að mestu leyti, nema í gegn um bílrúðu, og rís skiljanlega ekki jafn lifandi upp af blaðsíðunum. Fjölmargar myndir og kort bæta þó miklu við textann, sem er með hóflegum og fræðilegum blæ höfundarins. 

Nú varð ekki hjá því komist að skella sér í bók Árna Björnssonar frá 2011, Í Dali vestur, sem ég hafði aðeins byrjað að glugga í útgáfuárið, en ekki haft tíma til að sökkva mér í. Það gildir um Dalina eins og Norðausturland að þar um hef ég aldrei riðið og á raunar enn eftir að aka um stóran hluta svæðisins, Fellsströnd og Saurbæinn, aðeins brunað í gegn eftir þjóðveginum, gegnum Búðardal og vestur á Firði. Árni skrifar skemmtilegan stíl og eftir lesturinn hlakka ég til að ráða bót á þessu sem fyrst. 

Húnaþing eystra, frá jöklum til ystu stranda hafði ég alltaf geymt mér, vildi alls ekki hlaupa í þessa bók á hundavaði. Tvær meginástæður eru fyrir því. Annars vegar hef ég riðið þarna um margoft, um Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðar, Blöndudal og Vatnsdal. Hins vegar er móðir mín alin upp í sýslunni, á Þröm í Blöndudal og í Litladal í Sléttárdal. Og nú fór að verða gaman. Bæði var að um hluta landsins hef ég „þvingað slyngan hófahund“ og myndirnar hrönnuðust sjálfkrafa upp við lesturinn og að Jón Torfason, fyrrum kennari minn í Árnagarði, lýsir heimasveitum sínum með persónulegum hætti og af tilfinningu og hikar ekki við að stíga fram og lýsa skoðunum sínum á ýmsu er varðar mannleg inngrip í náttúruna, t.d. af vali vegarstæða, svo eitthvað sé nefnt. Ómögulegt er annað en að hrífast með – sjálfsagt ekki síst af því að ég er innilega sammála skoðunum Jóns í þessu efni.

Nú voru hátt í 1000 blaðsíður af landslags-, landshátta-, menningar-, byggðaþróunar- og búskaparháttalýsingum komnar í hinn andlega sarp – og þykir sjálfsagt flestum nóg um. Handan við hornið var ferðalag suður til Krítar. Kona mín var alltaf að spyrja mig hvaða bók ég ætlaði að taka með til að lesa undir sólhlífinni, og þegar engin svör bárust, hvort ég ætlaði EKKI AÐ TAKA NEINA BÓK með?

Á endanum, daginn fyrir brottför sótti ég Fjallajarðir og Framafrétt Biskupstungna eftir Gísla Sigurðsson frá Úthlíð, og stakk henni niður í tösku. Það reyndist mikið happ, því bókin er gull. Jón Torfason er persónulegur en Gísli tekur honum fram hvað það varðar. Hann er svo nákunnugur öllu svæðinu sem um er fjallað að hann þekkir hverja hundaþúfu, hefur troðið það fótum frá barnæsku, ýmist fótgangandi eða á hesti, í smalamennskum og öðrum bústörfum eða í skemmti- og náttúruupplifunarferðum – auk þess að hafa málað fjölmargar myndir af náttúruperlum svæðisins. Náttúra, menning og saga heimahaganna eru höfundinum svo hjartfólgin að kærleikurinn beinlínis vermir upp bókstafina – og hjarta lesandans. Hann setur hófsamlega ofaní við menn, t.d  fyrir að planta öspum eða sígrænum trjám í náttúrulegt birkikjarrið, rækta skóg í reglustrikureitum og hafa ekki rænu á að varðveita konungsveginn sem bæri. Og svo lofsamar hann af innileik það sem vel hefur verið gert, t.d. við uppgræðslu á þessu viðkvæma svæði. Þó ég hafi farið um mestallt þetta svæði oft og mörgum sinnum eru þar líka staðir mér ó- eða lítt kunnir, t.d. í kringum Hagavatn og hluti Haukadalsheiðar, Fljótsbotnar og stærsti hluti Úthlíðarhrauns, sem gaman var að kynnst svo rækilega í gegnum frásögn Gísla heitins.

Í hitamollunni á Krít, þar sem mistrið byrgði oft verulega sýn til fjalla, fann maður foksandinn úr lýsingum Gísla milli tannanna.

 

 

 

Heitir dagar

Kona mín varð sextug 14. ágúst sl. og samdægurs var tíu ára brúðkaupsafmælið okkar. Þó liðnir séu rúmir þrír áratugir frá því við „byrjuðum saman“, eins og það er kallað, erVLUU L100, M100  / Samsung L100, M100 hún samt alltaf þessi fallega kona á þrítugsaldri sem ég kynntist fyrir margt löngu og heillaðist af. 

Við héldum upp á tímamótin með því að bregða okkur til Krítar í 10 daga og til að gera nú eitthvað til hátíðarbrigða samdi ég handa henni þetta litla ljóð:

Heitir dagar

Glóðheitir dagar

á Krít.

 

Hrifnæm kona

kemur til mín

með heillandi bros

og hreint.

 

Vakinn en orðlaus

á hana lít,

 

þessi fallegu,

tindrandi augu

sem engu

fá leynt;

 

það eru glóðheitir dagar

á Krít.

 

Þorkelsvöllur

Í gær, 31.07.14, var formlega vígður nýr keppnisvöllur Hestamannafélagsins Trausta við Stóragil í landi Laugarvatns. Jafnframt var haldin gæðingakeppni félagsins og sérstakt „vígslumót“ í tölti og 100 metra skeiði. Formaður Trausta, Guðmundur Birkir Þorkelsson, lýsti byggingu mannvirkisins og þakkaði þeim fjölmörgu sem aðstoðuðu félagið dyggilega.

Bjarni bróðir hans fékk það hlutverk að afhjúpa skilti með nafni vallarins, sem stjórn

Skiltið afhjúpað

Skiltið afhjúpað

félagsins hafði samþykkt einróma á fundi skömmu áður. Svo skemmtilega „vildi til“ að vallarvígsluna bar upp á sextugsafmælisdag Bjarna á Þóroddsstöðum. Vígslubiskupinn í Skálholti blessaði síðan völlinn og bað almættið um velfarnað til handa notendum, mönnum og hestum, í leik og keppni. 

Völlur þessi heitir Þorkelsvöllur, til heiðurs minningu Þorkels Bjarnasonar fv. hrossaræktarráðunautar á Laugarvatni, hestamanns og eins aðalhvatamanns að stofnun félagsins – og fyrsta formanns þess.

Hönnuðurinn var mættur

Hönnuðurinn var mættur

Völlinn hannaði Oddur Hermannsson, arkitekt á Selfossi, inn í ólýsanlega náttúrufegurð. 

Hann stendur í birkirjóðri, Laugarvatns- og Snorrastaðafjall gnæfa yfir með sínar kjarri vöxnu hlíðar og hrikalegt Stóragilið sem sker fjöll þessi sundur og greinir að lönd Laugarvatns og Snorrastaða. Margir nemendur á Laugarvatni að fornu og nýju minnast gönguferða upp í Stóragil, ýmist að Trúlofunarhríslu þar sem ástfangin pör skáru upphafsstafi sína í börkinn, eða áhættusams klifurs í hellinn í gilinu, þar sem ýmsir hafa lent í erfiðleikum, jafnvel þurft að þola kalda og langa bið eftir björgun, sumir lemstur.

„Í þeim fagra fjallasal...“

„Í þeim fagra fjallasal…

Undir fjallahlíðunum hálfhring í kring, þar sem Gullkistu ber hæst, blasa við blómleg býli Laugardalsins og gegnt þeim speglar þorpið sig í sjálfu vatninu.

Gullkista gnæfir yfir

Gullkista gnæfir yfir.

 Þó miklu hafi verið áorkað er enn starf óunnið við lokafrágang nánasta umhverfis, s.s. aðstöðu fyrir keppnishross og fólk með fyrirferðarmikla bíla og aftanívagna. Einnig þarf að huga að frágangi slitlags á vellinum, sem á vígslumótinu reyndist of laust í sér og litla spyrnu að hafa til afkasta á gangi fyrir þá afburðagæðinga sem glöddu augu áhorfenda.

Innan félags var keppt í hefðbundnum greinum gæðingakeppni fullorðinna, þ.e. A- og B-flokki gæðinga. Ekki var fjöldi þátttakenda til að draga mótið um of á langinn og til að stytta áhorendum enn frekar biðina var riðið eitt úrslitaprógramm með öllum þátttakendum inni á í einu.  

Keppendur í B-flokki

Keppendur í B-flokki

Í B-flokkinn voru fjórir skráðir til leiks en þrír mættu. Sigurvegari varð Ópera frá Hurðarbaki, eigandi og knapi Halldór Þorbjörnsson í Miðengi en ræktandi Reynir Þór Jónsson. Ópera er dóttir Kráks frá Blesastöðum 1A og Ólínu frá Hábæ.

Í A-flokk gæðinga mættu allir skráðir, fjórir keppendur, og stóð efst Tinna frá Þóroddsstöðum, dóttir Glampa frá

A-flokkur gæðinga

A-flokkur gæðinga. Bjarni næst, þá Sólon Morthens, Halldór Þorbjörnsson og loks Arnór Snæbjörnsson frá Austurey.

Vatnsleysu og Klukku frá Þóroddsstöðum. Ræktandi Tinnu og eigandi er Bjarni Þorkelsson en knapinn Bjarni Bjarnason.

Í opið töltmót bárust fleiri skráningar og keppt í tveimur fjögurra keppenda riðlum, skv. hefðbundnu úrslitaprógrammi, og 5 efstu að lokinni þeirri forkeppni kepptu svo til úrslita. Hér voru mættar, auk heimamanna, stórkanónur hesta og knapa á landsvísu.  

Sigurbjörn og Jarl í flottum takti og jafnvægi

Sigurbjörn og Jarl í flottum takti og jafnvægi

Öruggir sigurvegarar í töltkeppninni urðu Sigurbjörn Bárðarson og Jarl frá Mið-Fossum, margreynt og glæsilegt keppnispar, með fáséna einkunn upp á 9,0. Er ekki ofsögum sagt að Diddi og Jarl hafi hrifið mótsgesti -klárinn með frábæru jafnvægi og takti í öllum hlutum keppninnar og knapinn með faglegri fyrirmyndarreiðmennsku.

Aðrir landsfrægir kappar, Sólon Morthens og Frægur frá Flekkudal, lentu í öðru sæti og Bjarni Bjarnason á hinum efnilega gæðingi móður sinnar, Hnokka frá Þóroddsstöðum, vann sig upp í þriðja sætið í úrslitunum á kostnað fyrrnefndra Halldórs og Óperu. Camilla Petra Sigurðardóttir varð svo fimmta á hryssu úr eigin ræktun.

Fimm efstu í tölti

Fimm efstu í tölti, sigurvegarinn lengst til hægri.

Þá var bara skeiðið eftir. Átta knapar mættu til leiks með 9 hross. Jói Vald. og Jónína Kristins. komu ekki aðeins með tímatökubúnaðinn, heldur einnig fulla kerru af vekringum sem dætur þeirra sáu að mestu um að taka til kostanna.

Sigurvegarar í skeiði. Hera hneigir sig fyrir áhorfendum

Sigurvegarar í skeiði. Hera hneigir sig fyrir áhorfendum.

Stelpurnar leyfðu þó pabba sínum náðarsamlegast að renna einum hesti. Þóroddsstaðabændur létu tækifærið heldur ekki sér úr greipum ganga og mættu með þrjár alræmdar skeiðmerar, þær Blikku, Dís og drottninguna sjálfa, Heru frá Þóroddsstöðum.  

Það kom fáum á óvart að Hera vann þetta örugglega við lipurt taumhald knapa síns, Bjarna Bjarnasonar, á hreint lygilega góðum tíma á lausum velli, sem fyrr var lýst, 7,87 sekúndum. Hera hefur, eins og áhugamönnum er kunnugt, átt frábært keppnistímabil í sumar, setti Íslands- og heimsmet í 250 metra skeiði á Landsmóti hestamanna fyrr í sumar og bætti svo Íslandsmetið enn frekar í sömu grein á nýliðnu Íslandsmóti í hestaíþróttum, auk þess að verja Íslandsmeistaratitil sinn í 100 m. skeiði.

Skeiðdrottningin Hera frá Þóroddsstöðum og skeiðkóngurinn Bjarni Bjarnason

Skeiðdrottningin Hera frá Þóroddsstöðum og skeiðkóngurinn Bjarni Bjarnason.

Það má til sanns vegar færa að mótssvæði Traustamanna sé eitt það fegursta sem um getur hér á landi og þegar framkvæmdum er lokið með nauðsynlegum endurbótum á keppnisvöllum og umhverfisfrágangi, þá má halda þar hvaða mót sem er með sóma.

Veður var hagstætt, sól og norðan gjóla og þegar mótinu lauk á níunda tímanum um kvöldið var sólin rétt nýsigin bak Snorrastaðafjalls. 

Góður reitingur af áhorfendum var mættur, þrátt fyrir langþráða þurrkatíð og miklar heyannir á flestum bæjum. 

Drjúgur hópur úr fjölskyldu Þorkels Bjarnasonar var mættur á svæðið.

Drjúgur hópur úr fjölskyldu Þorkels Bjarnasonar var mættur á svæðið.

Í hléi var gestum, starfsmönnum og keppendum boðið upp á ljúffengar súpur, bæði fiskisúpu og kjötsúpu, auk kaffisopa að vild. 

Þetta var ánægjulegur dagur. Takk fyrir mig.

Ketilvallabóndinn jós súpum á diska gesta. Hér tekur við skammtinum Ari Bergsteinsson frá Laugarvatni, sálfræðingur á Selfossi.

Ketilvallabóndinn jós súpum á diska gesta. Hér tekur við skammtinum Ari Bergsteinsson frá Laugarvatni, sálfræðingur á Selfossi.

 

Birgir Leó og Ragnheiður Bjarnadóttir afhentu verðlaun í gríð og erg.

Birgir Leó og Ragnheiður Bjarnadóttir afhentu verðlaun í gríð og erg.