Af skýjaglópi

Ástandinu og þróuninni hér á landi undanfarinn tæpan áratug má líka við það að maður sem hefur tekið allt of stóran skammt af ofskynjunarlyfjum er sendur af heimilislækninum á sjúkrahús. Þar tekur á móti honum læknateymi sem segir hann fullfrískan, ofurhraustan raunar, sendir hann heim og krefst þess í framhaldinu að heimilislæknirinn verði sendur í endurmenntun.

Skömmu seinna er viðkomandi lagður inn í hasti, nær dauða en lífi. Gamla læknateymið er rekið en nýju teymi falið að reyna að koma sjúklingnum aftur til lífs, og heilsu ef guð lofar. Eftir margar bráðaaðgerðir, m.a. með aðstoð sérfræðinga erlendis frá, á helstu líffærum – s.s. hjarta, lungum, lifur, meltingarvegi, blóðrás og heila – kemst sjúklingurinn úr mestu lífshættu og lífsmörkin, þó lág séu, orðin allstöðug.

Eftir margra missera legu á gjörgæsludeild fer Eyjólfur loks að hressast, er færður á almenna deild og fær að fara á fætur stund og stund á degi hverjum. Sjúklingurinn styrkist dag frá degi, þótt hægt gangi, og sýnt þykir að hann muni ná sér að fullu. Loks er hann útskrifaður af sjúkrahúsi og fær að fara heim til sín, byrjar smám saman þátttöku í daglegu lífi og lengir viðveru í vinnunni vikulega þar til fullum vinnudegi er náð. Afköstin eru aftur á móti ekki enn orðin þau sömu og fyrr, enda áfallið alvarlegt, í raun algert hrun á sál og líkama.

Nú, þegar þokkalegri heilsu er náð, batinn stöðugt hraðari þrátt fyrir nokkuð úthaldsleysi, mæði, stoðkerfisverki og höfuðverkjaköst og fullvíst er að bjartari tímar séu framundan, tekur endurhæfingarteymi við af læknateymi spítalans. Erfitt er að fá tíma á hæfingarstöðinni, nema fyrir útvalda og helst þá sem styrkt hafa meðlimi teymisins fjárhagslega skv. samkomulagi á leynifundum.

En þessi forgangsröðun kemur ekki í veg fyrir hægan bata. Okkar maður er kominn á réttan kjöl og honum skánar af sjálfum sér, burtséð frá / þrátt fyrir „meðferðarúrræði“ nýja teymisins, sem vel að merkja er flesta daga upptekið við að tryggja hagsmuni „sannkristinna“ og að leka trúnaðarupplýsingum um þá sem ekki teljast til „sannra Íslendinga“.

 Fyrir þessu dæmalausa teymi fer maður, með óljósar prófgráður, sem heldur því fram í fjölmiðlum að enginn sjúklingur hafi náð jafn hröðum bata á jafn stuttum tíma og eftir endurhæfingu hjá sér.

Hvílíkur skýjaglópur.