Hörpuvísur

Sigurður dýralæknir sendi Árgalafélögum líka, fyrirfram, efni í Hörpuvísur, fyrriparta undir nokkrum mismunandi rímnaháttum. Þegar ég var að hnoða saman botnunum var „vorhret á glugga“ sem hafði augljós áhrif á innihald þeirra:

Ferskeytt
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól á lofti
en vetur ennþá virðist með
vorið upp’ í hvofti!
 
Stefjahrun
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin för.
Lítið hef þó hana séð,
á hitann virðist spör.
 
Gagaraljóð
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin ganginn sinn.
Ef gengi úti faldprútt féð,
fljótt það myndi setja inn.
 
Nýhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin göngu sína.
Glæstar vonir geng ég með:
„Góða besta, farð’ að skína!“
 
Stafhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin blíðu með
en Vetur kóngur fer ei fet,
færir okkur páskahret.
 
Samhent
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól frá vetrarbeð.
Nú er aumt og nakið tréð,
í náttúrunni lítið peð.
 
Stikluvik
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sólin göngu,
en þó verður varla séð
að vorið komi henni með.
 
Valstýft
Harpa nálgast, hlýnar geð,
þá hækkar sól.
„Út að ganga! Allir með!
Upp á hól“.

 

 

Einmánaðarvísur

Sigurður Sigurðarson dýralæknir sendi félögum í Kvæðamannafélaginu Árgala nokkra fyrriparta, til að botna fyrir Einmánaðarfund félagsins. Tilgangurinn var ekki síst að æfa fjölbreytni í vísnagerðinni. Ég fór svona að:

Breiðhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum trjánna.
Logar sól um land að nýju,
leikur glatt í straumi ánna.
 
Langhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinunum.
Í morgunsárið, eftir níu,
augun þorn’ á steinunum.
 
Draghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á greinum.
Andinn verður ör að nýju
öllum gleymir meinum.
 
Skammhenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum á grein,
hverja sólar gleypir glýju,
gleðin ríkir ein.
 
Úrkast:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brumin.
Frjóin vori fagna nýju
frá sér numin.
 
Dverghenda:
Einmánuður andar hlýju,
opnast brum.
Dagsins sjá þau dýrð að nýju
en deyja sum.