TÖLFRÆÐI FRAMFARA OG BÆTINGA – EÐA STÖÐNUNAR OG AFTURFARAR?

Í töflunni sem fylgir hér neðst er skrá yfir ‚mínútur spilaðar‘ og ‚framlag‘ „heimaaldra“ (homegrown), íslenskra leikmanna sem spila meira en 3 mínútur að meðaltali í Bónusdeild karla, eftir 13 umferðir, á yfirstandandandi leiktímabili, 24-25. Einnig eru sýndar sömu tölur fyrir næstliðið leiktímabil, 23-24 (eða það tímabil sem þeir spiluðu síðast, ef þeir spiluðu ekki í fyrra). Öftustu dálkarnir í töflunni sýna samanburð á mínútum og framlagi á yfirstandandi tímabili og „besta“ tímabili leikmannsins á ferlinum (eða síðasta virka). „Afturför“ eða samdráttur er sýndur með rauðum mínustölum en bæting / framför með bláum tölum.

Halda áfram að lesa

Áramótakveðja 2024

 

Við gnægtir alls er vært að vera til.

Var vöggugjöfin happakerti’ og -spil?

Þau sem fengu öruggt skjól og yl

af sér geta staðið hríðarbyl.

 

Í norðri loks á himni hækkar sól,

þar haldin eru gleði’ og friðarjól.

En þó er víða helstríð heims um ból,

herja fantar, með sín vígatól.

 

Þegar slær að þræsingur og él,

þankagangur lokast inni’ í skel,

þá er alltaf gott að gera vel,

gleðja aðra, sýna vinarþel.

 

Ef allir vildu þerra tregatár,

tætt og rifin græða innri sár,

lífsins ganga yrði ‘ferð til fjár’

og friðar nyti mannkyn hvert eitt ár.

 

 

Jólakveðja 2024

Blasa við hörmungar heiminum í.

Hvenær gefum við illskunni frí?

Hvað er fallegra’ en friður á jörð?

Hví forðast mannkynið sáttagjörð?

Þurfum við þrautum að valda?

 

Um kúgun og ójöfnuð vitum við vel,

um vonleysi, fátæktar lokuðu skel.

Þó þrotlaust um ævi sé stritað við starf,

stöðugt allsnöktum keisurum þarf

blóðug gjöldin að gjalda.

 

„Meðaltalskaupmáttur mikill“, er sagt,

og í moðsuðu’ um jöfnuð útaf því lagt

en lítið það dugar um mánaðamót

ef matbjörg er þrotin, engin sést bót,

og herðir að krumlan hin kalda.

 

Sá aðeins telst maður sem ætíð er hress

á yfirsnúningi, dæmdur til þess

að fljóta viljalaus meginstraumi’ með,

á móti að róa er ekki vel séð,

í móinn ei vinsælt að malda.

 

Að berjast í nauðum við heiminn er hart,

því hamingju kjósum, að útlit sé bjart.

Á mennina kökunni misjafnt er skipt

og mörg þykka sneiðin með rjóma er typpt,

en enginn þarf á því að halda!

 

Þó „allt sé í heiminum hverfult“ og valt

við hér saman dveljum, þrátt fyrir allt,

svo kynþátta milli byggjum nú brú

og biðjum að kærleikur, von og trú

lifi um aldir alda.

Af lötum, oflaunuðum kennurum, sem alltaf eru veikir á fundum, í undirbúningi og í fríi

Á ég að nenna að skrifa þennan pistil enn einu sinni? hugsaði ég í morgunsárið þegar ég drakk kaffið mitt, svældi í mig brauðrudda með osti og hlustaði á morgunútvarpið. Þar var búið að draga að hljóðnemanum á Rás 2 formann samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjaradeilu við Kennarasambandið. Í stað þess að sitja við samningaborðið og reyna að þoka málum í samkomulagsátt var formaðurinn sendur að hella olíu á eldinn með enn einni aðförinni sem dunið hefur á kennarastéttinni undanfarna daga og vikur, og opinbera um leið vanþekkingu yfirboðara sinna á kennarastarfinu, með rangfærslum og ósannindum. Halda áfram að lesa

Um gagnslausa kennara og velferð ungs fólks

Ég þóttist vita af langri reynslu að ekki liði á löngu frá verkfallsboðun KÍ þar til einhver ofvitinn kæmi fram í fjölmiðlum með speki sína um kennara. Það má segja að gáfumannatalið hafi komið úr viðeigandi stað, beint upp úr strjúpanum á borgarstjóranum, næstæðstu fígúru Framsóknarflokksins og yfirmanns fjölmennustu sveitar kennara, við dynjandi lófaklapp og húrrahróp sveitarstjórnarfólks og starfsfólks sveitarfélaganna í landinu. Halda áfram að lesa

Skerðing lífeyrisréttinda: Eru undirskriftirnar pappírsins virði?

Einhverjar verstu hrakfarir kennarasambandsins í kjaramálum, alla vega á kennaratíð undirritaðs en sennilega fyrr og síðar, eru annars vegar samþykkt sk. vinnumats í framhaldsskólum 2014 og afsal ákv. lífeyrisréttinda með undirritun samnings þar um 2016. Það var þann 19. september 2016 sem forystumenn samtaka opinberra starfsmanna, BSRB, KÍ og  BHM, annars vegar, og vinnuveitendur þeirra hins vegar,  ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga, skrifuðu undir  samkomulag „um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna“.

Undir skjalið rituðu f.h. ríkissjóðs Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, f.h. SÍS Halldór Halldórsson formaður og Karl Björnsson frkv.stj., f.h. opinberra starfsmanna Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, og Þórður Hjaltested, formaður KÍ.

Tilgangurinn með samkomulaginu var að „koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn“, þ.e. að samræma lífeyrisréttindi á annars vegar almennum og hins vegar opinberum vinnumarkaði, en lengi höfðu lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna verið þyrnir í augum annarra, t.d. samtaka atvinnurekenda, forystusveitar ASÍ og ýmissa starfsstétta á almennum vinnumarkaði. Halda áfram að lesa

Illa undirbúið, stórskaðlegt gönuhlaup

Elsa Eiríksdóttir, Guðrún Ragnarsdóttir, María Jónasdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir starfa á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og hafa „á undanförnum árum rannsakað áhrif styttingar námstíma til stúdentspróf á inntak og uppbyggingu bóknámsbrauta til stúdentsprófs, samspili styttingarinnar við aðrar stefnubreytingar og mögulegar afleiðingar þessara breytinga þegar kemur að undirbúningi nemenda fyrir nám á háskólastigi.“

Rannsóknir þeirra leiða í ljós að Halda áfram að lesa

Saga af þjóðarmorði – Illræmdustu hryðjuverkasamtökin

Meðfylgjandi eru nokkrar tilvitnanir í „Dagbók frá Gaza 7.10-30.12.2023“ eftir Atef Abu Saif, sem Angustúra gaf út í þýðingu Bjarna Jónssonar. Það væri auðvitað hægt að bera niður nánast hvar sem er, já endursegja allan textann, en þess þarf ekki. Allt of fáir munu lesa bókina, sem allir ættu auðvitað að gera, en hugsanlega munu einhverjir lesa stutta útdrætti?  

Bókin lýsir því hvernig ísraelski herinn fer eins og logi um akur á Gaza, frá norðri til suðurs, og jafnar bókstaflega allt við jörðu, myrðir óbreytta borgara tugþúsundum saman í flugskeyta-, dróna- og skriðdrekaárásum, stundar jafnframt pyntingar og tilviljanakenndar geðþóttaaftökur og niðurlægjandi, hægverkandi aftökur með því að koma í veg fyrir neyðaraðstoð, matar og lyfjasendingar, hrekja blaðamenn og hjálparsamtök á brott með yfirlögðum morðum á starfsfólki þeirra, að ekki sé talað um sálræna aftöku palestínsku þjóðarinnar með því að sprengja og jafna við jörðu byggingar og menningararf, já allt sem minnir þessa þjökuðu þjóð á sjálfsvitund sína, sögu og menningu.

Markmið Ísraela er ekki að uppræta Hamas-samtökin heldur gjörvalla palestínsku þjóðina, og leggja endanlega undir sig allt hennar land. Áratugum saman hefur staðið yfir landrán með tilstyrk hernaðarmáttar. Þetta er ekki fyrsta innrásin og sk. landtökubyggðir Ísraela hafa stækkað og stækkað ár frá ári á kostnað Palestínumanna, en nú á að láta sverfa til stáls. Lýsingarnar á nöktum Palestínumönnum í beinum röðum, sem eru svo skotnir tilviljunarkennt eins og hundar, eru óþægilega líkar lýsingum úr útrýmingarbúðum Nazista í síðari heimsstyrjöldinni. Og heimurinn horfir þegjandi á.

Ekkert annað er hægt um þetta að segja en að ísraelsk stjórnvöld séu einhver grimmustu og óforskömmuðustu hryðjuverkasamtök síðari tíma. Netanjahú þarf reyndar ekki að hírast á óhreinni mussu, órakaður og subbulegur, í neðanjarðarbyrgjum heldur getur ferðast frjáls um heiminn, þveginn og rakaður í huggulegum jakkafötum með bindi, gert sig heimakominn í Hvítahúsinu vestur í Washington og á fundum Sameinuðu þjóðanna, á sama tíma og hann þurrkar heila þjóð út af landakortinu með vopnum og/eða óskoruðum stuðningi frá yfirvöldum í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar, t.d. Íslandi og fleiri vestrænum ríkjum.

Ef rætt er um stríðin á Gaza og í Úkraínu er ólíku saman að jafna. Í báðum tilvikum er þó við morðóða og valdasjúka glæpamenn að eiga. En Úkraínumenn njóta alltryggilegs stuðnings „alþjóðasamfélagsins“ og hafa fyrir vikið kost á að verja sig. Palestínumenn eru hins vegar einir og yfirgefnir á lekum árabáti, sem hið sama „alþjóðasamfélag“ leggur til efnið í sprengjuregn gegn.   

Nú er 1. október, 9 mánuðir liðnir frá síðustu færslunni í „Dagbók frá Gaza“. Í hádegisfréttum var það helst að hryðjuverkaforinginn í Ísrael skipar fólki í öðru nærliggjandi landi að yfirgefa heimili sín, flýja þorpin. Enginn fyrir botni Miðjarðarhafs er óhultur fyrir þessum óða glæpamanni. Eins og Magnús Þorkell Bernharðsson rakti í kvöldfréttum áðan er árásarstríð Ísraela gegn almennum borgurum í Palestínu og Líbanon, undir því yfirskini að uppræta heilu samtökin eða leiðtoga þeirra, dæmt til að mistakast, aðeins til að hella olíu á eld. Innrás Ísraels í Líbanon á 9. áratug síðustu aldar hafði t.d., þegar upp var staðið, einungis þær afleiðingar að Hesbolla-samtökin voru stofnuð, til varna gegn slíkum yfirgangi. Innrás á Gaza, Líbanon og önnur nágrannalönd Ísraels mun einungis kynda undir hatri, hefndaraðgerðum, langvarandi stríði og morðum á tugþúsundum almennra, saklausra borgara.

Dagbók frá Gaza

„Í upphafi átakanna sagði ísraelski varnarmálaráðherrann að markmið Ísraela væri að senda Gazasvæðið aftur um hálfa öld. Það var því ljóst frá upphafi að Ísraelsmenn ætluðu sér að eyðileggja allt og myrða eins marga Palestínumenn og hægt væri“ (Dagur 64. Laugardagur 9. desember, bls. 260).

„Dróninn hélt fyrir okkur vöku í nótt sem leið og sveif suðandi yfir tjöldunum. Það er eins og líkamsklukkan taki mið af drónanum: Við sofum ef hann er ekki á flugi, annars liggjum við andvaka og hlustum á hann; bíðum þess að hann ljúki erindi sínu – sem er að fylgjast með okkur og drepa þau okkar sem stjórnandi hans vill myrða. Ég er ekki einn um að hugsa til þessara ungu morðingja sem sitja við skjáinn einhvers staðar handan við landamærin að Gaza og finnst gaman í vinnunni, eru bara eins og þeir séu heima í tölvunni. […]

Fleiri ísraelsk flugskeyti hæfðu Rafha í nótt. […] Ýmsir eru hissa á því að gerðar hafi verið frekari árásir á Rafha en ég segi að það þurfi ekki að koma á óvart, Ísraelsher sé ekki treystandi fyrir horn. Ég var alltaf viss um að herinn myndi fara eins að í Rafha og hann gerði í Gazaborg og Khan Younis.

Í gær sá ég myndir frá kirkjugarðinum í Jabalia. Ísraelskir skriðdrekar höfðu spólað yfir grafirnar og tætt moldina kerfisbundið ofan af líkum fólks sem hafði ýmist verið jarðað þar fyrir skemmstu eða legið í gröf sinni í hartnær 70 ár. Íbúar Gaza eru ekki einu sinni hólpnir í eilífðinni. Eyðileggingin er algjör og óhætt að segja að það sé enginn kirkjugarður lengur í Jabalia, bara opið líkhús og rotnun. Menn greinir á um ástæðurnar fyrir þessum aðgerðum Ísraelsmanna – […] Í mínum huga snýst þetta einfaldlega um niðurlægingu. Þeir vita að það að birta þessar myndir jafngildir því að strá salti í sár Palestínumanna. Þeir eru að hræða okkur“ (Dagur 69. Fimmtudagur 14. desember, bls. 275-277).

„Í dag var enn einn blaðamaðurinn myrtur af Ísraelsher. Abu Dakka, tökumaður Al Jazeera, féll í drónaárás á Farhat-skóla í Khan Younis. Hann lá helsærður í heila fimm klukkutíma og blæddi út áður en hjálp barst. […] Það sem af er átökunum hafa Ísraelsmenn drepið fleiri en fimmtíu blaða- og fjölmiðlamenn. […] Við erum óheppin með þennan óvin – óvin sem þekkir engin takmörk, virðir ekki alþjóðalög. Samtökin blaðamenn án landamæra, birtu nýlega skýrslu þar sem því var haldið fram að blaðamenn hafi ekki verið sérstök skotmörk í þessu stríði. En ef því er á sama tíma haldið fram að Ísraelar búi yfir tækni sem geri þeim kleift að segja nákvæmlega til um felustað al-Qassam-sveitanna, þá hljóta þeir einnig að koma auga á blaðamann í skærbláu vesti, merktu „Press“. […]

Átta lík fundust í Shadia Abu Ghazala-skólanum í Falouja. Vitni segja að ísraelskir hermenn hafi tekið mennina af lífi. Líkfundir eins og þessi eru nú daglegur viðburður. Þetta er hryllilegt. Ótal fjöldaaftökur fara fram í skjóli nætur“ (Dagur 71. Laugardagur 16. desember, bls. 282-283).

„Til allrar óhamingju voru hóparnir sem aldrei hefðu átt að yfirgefa Gazaborg og norðurhlutann fyrstir til að flýja þaðan. Ég er að tala um fjölmiðlafólk og alþjóðleg hjálparsamtök. Þegar blaðamennirnir fluttu sig suður yfir Wadi varð borgin eftirlitslaus og þar með leikvöllur þeirra ungu, ísraelsku hermanna sem eru hvað staðráðnastir í að sýna á sér allar sínar verstu hliðar. […] Ég skil ósköp vel að blaðamenn vilji búa við ákveðið öryggi á meðan þeir vinna vinnuna sína, en það er annað mál þegar menn sækja í öryggið í stað þess að vinna vinnuna sína.

Hjálparsamtökin voru reyndar fyrri til að yfirgefa norðurhlutann. Ég man eftir að hafa séð Rauða krossinn yfirgefa skrifstofur sínar í Gazaborg í annarri viku átakanna. Við horfðum á bílalest samtakanna aka út eftir al-Shuhada-stræti. Þeir fluttu ekki bara burt alþjóðlega starfsmenn sína heldur einnig heimamenn og fjölskyldur þeirra. […] Samtök á vegum SÞ fóru eins að. Þau létu sig hverfa úr borginni og íbúarnir voru skildir eftir varnarlausir. Þrátt fyrir það meginhlutverk sitt að tryggja öryggi almennra borgara á stríðstímum sáu Rauði krossinn og Sameinuðu þjóðirnar á eftir fólki í gráðugt gin stríðsins. Er einhver saklaus þegar svona er komið? Af hverju halda samtökin áfram störfum sínum annars staðar þar sem stríð eru háð, af hverju flytja blaðamenn áfram fréttir? Af hverju hlaupast allir á brott frá Gaza?“ (Dagur 72. Sunnudagur 17. desember, bls. 284-285).

„Í gær voru 100 manns drepin í árásum víða um Jabalia og fjöldinn allur særður. Gerðar voru árásir á Shibab-fjölskylduna, heilt fjölbýlishús lagt í rúst með þeim afleiðingum að tugir manna létu lífið. Morðin í Jabalia -kampinum verða bara ógeðfelldari og herinn ofbeldisfyllri með hverjum deginum sem líður, almennir borgarar eru í hundraðatali teknir í gíslingu og látnir lúta skipunum Ísraelsmanna. Leyniskyttur skjóta fólk á færi; einhverjir ungir krakkar sem eru allt í einu komnir í stríð og skemmta sér í skjóli allra hergagnanna sem Bandaríkjamenn hafa fjármagnað. Karlmenn eru niðurlægðir í bækistöðvum hersins; þeim er gert að ganga um í hópum, allsnaktir, eða standa í sömu sporum klukkutímum saman. Ísraelar stjórna allri tilveru þeirra; neita þeim um lyf og mat, banna þeim að fara út úr húsi, ráðast handahófskennt á menn og taka þá af lífi, fyrirvaralaust. Allt virðist þetta sjálfsagt mál og maður veltir ósjálfrátt fyrir sér hvers konar samfélag hafi alið af sér svona fólk?“ (Dagur 73. Mánudagur 18. desember, bls. 219-220).

„Stöðugt fleiri myndir berast af hryllingnum fyrir norðan. Í dag fékk ég senda mynd af asnakerru: Asninn liggur dauður á jörðinni, fólkið á kerrunni hefur líka verið skotið til bana. Blóð og líkamshlutar í hágæða upplausn.

Áhugi heimspresunnar fer minnkandi dag frá degi. Morð á hundruðum manna á Gaza er daglegt brauð. Ekkert nýtt að frétta þar. Ísraelsher ræður lögum og lofum á norðurhluta svæðisins og enginn sem fylgist með því þegar hann myrðir fólk og leggur heimili í rúst“ (Dagur 74. Þriðjudagur 19. desember, bls. 292).